*

mánudagur, 20. maí 2019
Óðinn
24. september 2018 12:34

Vinstri græn, gufubaðið og sérfræðilæknar

Svandís Svavarsdóttir hefur ekki tjáð sig í kjölfar dómsins enda einarður stuðningsmaður þessarar einokunar og lélegu þjónustu.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Allir óbreyttir þingmenn Vinstri grænna hafa lagt fram lagafrumvarp um að veita ráðherra heimild til að semja ekki við veitendur heilbrigðisþjónustu sem er rekin í hagnaðarskyni. Flutningsmenn telja ekki að nota eigi takmarkaða fjármuni ríkisins til að greiða arð út úr fyrirtækjum sem veita heilbrigðisþjónustu.

***

Þetta lagafrumvarp og rökstuðningurinn sem þar er að finna sýnir og sannar að óbreyttir þingmenn Vinstri grænna skilja ekki hvernig rekstur fyrirtækja gengur fyrir sig. Það ætti svo sem ekki að koma á óvart.

***

Arðurinn er vextir af fjárfestingunni

Sjálfstætt starfandi læknar og læknastöðvar þurfa að fjárfesta í tækjum og búnaði til þess að geta sinnt sínum störfum. Þessi tæki geta verið allt frá ódýrum hlustunarpípum til rándýrra röntgentækja. Til þess að geta fjárfest í þessum tækjum þarf að leggja fram eigið fé. Vextirnir af þessu fé nefnist arður. Ef banna á arðinn þá hverfur hvati læknanna til þess að fjárfesta og forsendur rekstrarins hverfa.

***

Arðurinn er ekki bara vextir fyrir fjárfestinguna heldur einnig verðlaunin fyrir áhættuna, útsjónarsemi, sparsemi, hagkvæmni og fjölmargt fleira sem þekkist afar sjaldan í opinberum rekstri því þar vantar hvatann.

***

Það er nefnilega ekki víst að eftirspurnin sé nægjanleg eftir þjónustu læknastofunnar, rekstur hennar sé dýrari en gert var ráð fyrir, svo eitthvað sé nefnt, og þá verður taprekstur. Það tap þarf rekstraraðilinn að bera en ekki skattgreiðendur líkt og þegar ríkið gerir í buxurnar.

***

Stærsta gufubað í heimi

Vaðlaheiðargöng, stærsta gufubað landsins, er ágætt dæmi um þegar ríkið klúðrar framkvæmd algjörlega. Þegar lög um ríkisábyrgð á lánum til gangnagerðarinnar voru samþykkt áttu þau að kosta 8,7 milljarða króna. Í dag er áætlað að kostnaðurinn nemi 17 milljörðum króna. Í umræðum um þessa blessuðu framkvæmd var ítrekað bent á hversu veikum grunni kostnaðaráætlun byggði á, litlar rannsóknir höfðu farið fram á berglögum og hættu á vatnselg. Því er framkvæmdakostnaður talinn verða 8,3 milljörðum króna hærri, næstum tvöfalt hærri en upphaflega var ráðgert, og opnun ganganna tveimur árum á eftir áætlun.

***

Allur þingflokkur Vinstri grænna samþykkti þessa vanhugsuðu ríkisframkvæmd, sem sett var í búning einkaframkvæmdar. Þeirra á meðal Ólafur Þór Gunnarsson sem fer fyrir þessu nýja frumvarpi um heilbrigðisþjónustu. Þá höfðu Ólafur og félagar í Vinstri grænum ekki áhyggjur af takmörkuðu fé ríkisins. Þá var mikilvægara að reyna að plokka upp nokkur atkvæði í Norðausturkjördæmi enda fyrirsjáanlegt að Vinstri græn fengju afhroð. Sem reyndist niðurstaðan og fylgið helmingaðist, þingmönnum fækkaði úr 14 í 7.

***

„Röð af klaufaskap og mistökum“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðargreiningar, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að ferlið frá því að  skóflustunga að byggingunni sem hýsir jáeindaskannann við Landspítala var tekin í janúar árið 2016 og þar til hann var tekinn í notkun í síðustu viku vera röð af klaufaskap og mistökum. Kári lét þessi ummæli falla í kjölfar þess að Pétur H. Hannesson, yfirlæknir á röntgendeild Landspítala, sagði að það hefði ef til vill verið óskhyggja að klára verkið á rúmu ári, en því átti að ljúka veturinn 2016. Kári fullyrðir að ef Íslensk erfðagreining hefði byggt jáeindaskanna í Vatnsmýri hefði það tekið eitt ár, en ekki tæp þrjú.

***

Ef ríkið getur ekki reist byggingu yfir einn jáendaskanna, hvernig ætli framkvæmdir gangi á nýjum spítala? Óðinn spáir því að sú framkvæmd muni ganga jafnvel verr en gerð Vaðlaheiðarganga. H H H

***

Kristján Þór og Svandís gegn sérfræðilæknum

Einu deila Vinstri græn og Óðinn sem fram kemur í frumvarpinu, en það eru áhyggjur af því að læknarnir gætu orðið pilsfaldskapítalistar en ekki kapítalistar. Á þriðjudag féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem felld var úr gildi ákvörðun Sjúkratrygginga um að meina sérfræðilækni að taka til starfa á Íslandi og fá greitt samkvæmt rammasamningi sérfræðilækna og stofnunarinnar.

***

Þessi ákvörðun var tekin í tíð Kristjáns Þórs Júlíussonar sem heilbrigðisráðherra. Þetta var gert til að sporna við frekari útgjöldum ríkisins vegna þjónustu sérfræðilækna. Ákvörðunin var eins vitlaus eins og hægt er að hugsa sér. Hún kemur í veg fyrir samkeppni lækna og minnkar þjónustu við sjúklinga. Dæmi eru um mikinn skort á þjónustu sumra tegunda sérfræðilækna sem hefur verið hafnað til að fá inni í rammasamningnum. Sami Kristján Þór var einn af tveimur þingmönnum síns flokks sem studdu ríkisábyrgð á Vaðlaheiðargöng. Fyrir lesendur er rétt að minna á að Kristján er þingmaður Sjálfstæðisflokksins, en ekki sovéska kommúnistaflokksins.

***

Svandís Svavarsdóttir, núverandi heilbrigðisráðherra, hefur ekki tjáð sig í kjölfar dómsins enda einarður stuðningsmaður þessarar einokunar og lélegu þjónustu. Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga, hefur  gagnrýnt harðlega að mega ekki samþykkja umsóknina og sagði eftirfarandi í samtali við Ríkisútvarpið í maí: „Það er niðurstaða okkar að það að synja mönnum um aðild að samningnum með þeim hætti sem gert er, standist ekki samninginn. Hann kveður alveg skýrt á um það að það eigi að meta þörf fyrir lækna inn í samninginn, í þessu tilviki hefur ekki verið látið á það reyna en það er álit Sjúkratrygginga Íslands að það sé þörf fyrir taugalækna þannig að það fer ekkert á milli mála að það er okkar álit að þetta standist ekki samninginn.“

***

Óðinn hvetur þá sem skilja frjálsan markað og rekstur fyrirtækja innan stjórnarliðsins að koma því til leiðar, að opinber stofnun ákveði ekki hvort þörf sé fyrir lækna eða ekki, heldur láti neytendurna um það og útskýra fyrir heilbrigðisráðherra að ríkisvæðing sérfræðingalækninga muni skapa biðlista, aukinn kostnað og verri þjónustu fyrir sjúklinga.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim