Mér sem fjölmiðlamanni berast margar fréttatilkynningar. Þær eru mismikið „PR“ og misgóðar og því er það mitt hlutverk að vinsa út bullið frá einhverju sem gæti skipt máli. Um daginn barst blaðinu fréttatilkynning sem varðaði íbúafund sem haldinn var í Trékyllisvík. Þar sagði: „Ánægja er meðal mikils meirihluta íbúa Árneshrepps á Ströndum með fyrirhugaða 55 MW vatnaflsvirkjun sem VesturVerk hyggst reisa í Hvalá í Ófeigsfirði á næstu árum.“ Þar var meðal annars bent á að Hvalárvirkjun muni hafa „margvísleg jákvæð áhrif á Árneshrepp“. Í þessum pistli ætla ég ekki að taka beina afstöðu með eða á móti virkjunaráformum – slíkt raus væri efni í lengri pistil – en ég vil heldur fjalla um umfjöllunina um þau.

Einn stærsti vefmiðill landsins birti umrædda fréttatilkynningu og upp gaus mikil reiði. Vefmið- illinn varð síðan að uppfæra fréttina og fullyrðingar fréttatilkynningarinnar voru í meginatriðum hraktar. Á þessum tíma ákvað ég að birta ekki fréttatilkynninguna á vef Viðskiptablaðsins þar sem að ég vissi ekki nógu mikið um málið og var á þeim tímapunkti ekki í aðstöðu til að afla mér nægra heimilda til að sannreyna þær staðhæfingar sem birtust í fréttatilkynningunni. Hvernig átti ég að vita hvað fundargestum fannst, hvernig þeim leið? Hægt væri að líta á söguna sem víti til varnaðar. Að nauðsynlegt sé að reyna að gera eins vel og hægt er að hugsa á eins gagnrýninn hátt og mögulegt er og að hrekja það sem ekki er farið rétt með. Pistlahöfundur sá meðal gagnrýnisradda athugasemdir sem ýjuðu að því að sá sem skrifaði fréttina gengi erinda peningamanna. Slíkar athugasemdir eru að mati undirritaðs fjarri lagi og þar er illu heilli vegið að atvinnuheiðri blaðamanns.

Um virkjunarmál á Íslandi sýnist sitt hverjum. Því ber blaðamönnum að fjalla um þau á vandaðan hátt. Það er erfitt að segja það með fullri vissu hvaða áhrif þessi tiltekna virkjun eða áform um hana hafi á Árneshrepp, en að sjálfsögðu ætti að fjalla um eins margar hliðar málsins og hægt er að velta upp. Þó verður að varast það að leyfa letinni að vinna og birta hluti hugsunarlaust, og á það einnig við um mig.