*

miðvikudagur, 24. apríl 2019
Óðinn
15. nóvember 2016 12:29

Völdin eru vandamálið, ekki valdhafinn

„Þeir sem gráta nú kjör Donalds Trump ættu að hafa það í huga að ef stjórnarskrá Bandaríkjanna hefði fengið að halda merkingu sinni væri staðan allt önnur. “

„Niðurstöður forsetakosninga í Bandaríkjunum eru afar slæm tíðindi. Þegar ég fékk fréttirnar gat ég ekki haldið aftur af tárunum. Fólkið kaus mann sem farið hefur með hatursáróður í kosningabaráttunni um annað fólk og hótað því öllu illu. Hatur á innflytjendum, kvenhatur, kynþáttahatur og hatur á hinsegin fólki var rauður þráður í málflutningi hans. Hann spilaði á ótta fólks og náði árangri. Og hann er núna einn valdamesti maður heimsins.“

***

Svona lýsti Oddný Harðardóttir, þingmaður og fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, viðbrögðum sínum við stórfréttum vikunnar, en auðmaðurinn Donald Trump hefur nú verið kjörinn forseti Bandaríkjanna. Oddný er ekki ein um að hafa grátið úrslitin og þótt Óðinn hafi ekki fellt tár þegar þau voru ljós, er hann langt frá því að vera ánægður með væntanlegan forseta valdamesta ríkis heims.

***

Þeir sem hæst harma úrslitin og hugsanlegar afleiðingar kjörsins ættu hins vegar að leggjast í alvarlega sjálfsskoðun, því vandinn er ekki aðeins fólginn í því hvaða maður hefur nú verið kjörinn forseti, heldur í þeim völdum sem safnast hafa á hendur forseta Bandaríkjanna – hver sem hann er hverju sinni. Þetta á að sjálfsögðu aðallega við þá Bandaríkjamenn sem óttast það að himnarnir hrynji í janúar þegar Trump sver embættiseiðinn, en margur Íslendingurinn mætti einnig taka þetta til sín.

***

Gene Healy, höfundur bókarinnar „The Cult of the Presidency: America’s Dangerous Devotion to Executive Power“ skrifaði á dögunum afar áhugaverða grein þar sem hann rekur þær breytingar sem orðið hafa á forsetaembættinu, einkum á þessari öld.

***

Embætti „valdamesta manns heims“ varð enn valdameira á valdatíma George W. Bush og Baracks Obama. Báðir nýttu sér til fulls sérstaka heimild til beitingar á hervaldi og breyttu henni í raun í takmarkalausa heimild til ofbeldisverka um heim allan og endalauss stríðsreksturs án aðkomu þingsins. Bush setti af stað – og Obama viðhélt – algerlega fordómalausri upplýsingasöfnun um og njósnaherferð gegn bandarískum og erlendum ríkisborgurum. Þá hefur Obama sniðgengið þingið oft og ítrekað þegar honum hefur ekki þótt það nógu leiðitamt og stjórnað landinu með forsetatilskipunum og reglugerðarsetningum í stað lagasetningar. Hefur hann með þessum hætti varið milljörðum dala í verkefni sem ekki hafa hlotið blessun þingsins, þvert á það sem ætla mætti að stjórnarskrá landsins heimili.

***

Ameríska pressan vaknaði af værum blundi í aðdraganda kosninganna þegar menn gerðu sér grein fyrir því að maður, sem ekki er hallur undir sömu heimssýn og stjórnendur fjölmiðlanna, gæti fengið þessi völd öll í sínar hendur. „Hvernig munu þingmenn bregðast við ef nýr forseti, sem ekki fær fjárheimild frá þinginu til að reisa vegg við landamæri Mexíkó, einfaldlega tekur sjö milljarða af öðru fé og byggir vegginn þrátt fyrir þetta?“ spurði blaðamaður New York Times, Carl Hulse, á dögunum. Í röð leiðara blaðsins Washington Post var svipaður tónn sleginn. „Trump forseti gæti, einhliða, breytt þessu landi í grundvallaratriðum,“ sagði í einum leiðaranna. Hinar stoðir ríkisvaldsins gætu lítið að gert, enda væru valdheimildir forsetaembættisins gríðarlega miklar og víðtækar.

***

Þegar Barack Obama braut ævaforna hefð og skipaði, án þess að ráðfæra sig við öldungadeild þingsins, nýja yfirmenn neytendastofu og vinnumálastofnunar bandaríska alríkisins kallaði leiðarahöfundur Washington Post æfingar Obama „réttlætanlegt valdarán“ (e. justifiable powergrab). Það er ánægjulegt að sjá að leiðarateymi blaðsins hefur nú áhyggjur af því að alríkið, og forsetaembættið sérstaklega, hafi allt of mikið vald yfir þegnum Bandaríkjanna, en þarna er örlítið seint í rassinn gripið.

***

Segja leiðarahöfundarnir að Trump gæti háð stríð, „tekið olíuna“, myrt útlendinga sem honum er í nöp við, njósnað um erlenda ríkisborgara án samráðs við þingið, sagt upp NAFTA-fríverslunarsamningnum, háð viðskiptastríð og „eyðilagt hagkerfi heimsins“. Lausn Washington Post var einföld – ekki kjósa Trump.

***

Þetta er gríðarlega einföld og barnaleg nálgun. Vandinn er ekki sá að Trump hefur nú fengið valdataumana í Washington. Vandinn eru valdataumarnir sjálfir.

***

Arthur Schlesinger Jr., sem var afar mikilvægur hugmyndasmiður í ríkisstjórn JFK skrifaði bókina „The Imperial Presidency“ þegar Richard Nixon var kominn í Hvíta Húsið, skrifaði eftirfarandi í dagbók sína: „Það er nú ljóst að þetta dálæti á sterku forsetaembætti var byggt á því að þar til nú hafa allir sterkir forsetar Bandaríkjanna fylgt stefnu sem maður er sjálfur sammála.“ Schlesinger hafði áður lýst yfir stuðningi við þá fullyrðingu Harry S. Truman forseta að hann hefði í raun ótakmarkaða heimild til að heyja stríð, en skipti snarlega um skoðun þegar pólitískur andstæðingur vildi sambærileg völd.

***

Íhaldsmenn vestra eru langt frá því að vera saklausir í þessum efnum. Þeir voru mjög áfram um að auka valdheimildir forsetaembættisins þegar útlit var fyrir að þeir gætu notið meirihluta í kosningum um nokkra hríð. Þessi valdasöfnun varð enn meiri og hraðari á seinna kjörtímabili George W. Bush, sem gerði það að verkum að Demókratinn Barack Obama fékk í hendurnar miklu valdameira embætti en Bush hafði sjálfur tekið við átta árum fyrr. Þeir komust að því árið 2008, sem demókratar eru að komast að nú, að jafnvel þótt stjórnmálastefna fyrri forseta sé ekki tekin upp af arftakanum, þá verða völdið það klárlega.

***

Höfundar stjórnarskrár Bandaríkjanna sáu þetta fyrir. Eitt af meginverkefnum þeirra var að haga málum þannig að ekki myndi koma mjög að sök þótt einhvers konar Napóleon yrði kjörinn forseti. Hinar stoðir ríkisvaldsins gætu haldið aftur af honum þar til nýr forseti yrði kjörinn.

***

Vinstrimenn í Bandaríkjunum verða að axla bróðurpart ábyrgðarinnar á því hvernig komið er fyrir landinu. Það voru þeir sem kynntu til sögunnar kenninguna um hina „lifandi stjórnarskrá“. Stjórnarskráin, að mati manna eins og Olivers Wendell Holmes Jr., Louis D. Brandeis og Woodrows Wilson hefur ekki endilega sömu þýðingu nú og hún gerði þegar hún var skrifuð og samþykkt. Hún á miklu fremur að taka breytingum í takt við tímana og er ónauðsynlegt að gera formlegar breytingar á henni til að svo geti orðið. Dómarar eiga, samkvæmt þessari kenningu, að geta túlkað og endurtúlkað ákvæði stjórnarskrárinnar nánast eftir eigin dyntum og fordómum.

***

Þetta var sérstaklega vinsæl kenning á valdatíma Franklins Delano Roosevelt, þegar hæstiréttur Bandaríkjanna gerði slíkar grundvallarbreytingar á stjórnarskránni að hún er vart þekkjanleg lengur. Íslendingar þekkja bandarísku stjórnarskrána afar lítið, virðast helst vita það að þar er einstaklingum tryggður réttur til tjáningar og skotvopnaeignar. Hún takmarkaði hins vegar mjög lengi vald alríkisstjórnarinnar, en dómstóll FDR reif þessi mörk í sundur. Með mjög undarlegum túlkunum á hinum ýmsu ákvæðum stjórnarskrárinnar voru alríkisstjórninni færð gríðarleg völd og síðustu áratugi hafa þessi völd að stórum hluta verið færð til forsetans.

***

Þeir sem gráta nú kjör Donalds Trump ættu að hafa það í huga að ef stjórnarskrá Bandaríkjanna hefði fengið að halda merkingu sinni væri staðan allt önnur. Heimsbyggðin gæti þá notið þess að fylgjast með veruleikasjónvarpstrúðnum Trump í fjögur ár án þess að hafa áhyggjur af afleiðingunum. Þetta er einnig vert að hafa í huga nú þegar annar hver íslenskur stjórnmálaflokkur vill umbylta okkar eigin stjórnarskrá.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim