Einkaneysla mun vaxa að raunvirði um tæp 5% á næsta ári og 4% árið 2017 ef nýjasta spá Hagstofunnar gengur eftir. Þessi veigamesti þáttur þjóðarútgjalda hefur ekki vaxið meira á tveimur samliggjandi árum síðan árin 2006-2007. Í því ljósi virðist hóflegt að spá tæplega 4% árlegum nafnvexti vörusölu Haga hf. á næstu tveimur árum. Sérstaklega þar sem verðbólguspá Hagstofunnar hljóðar upp á rúmlega 3% verðbólgu hvort ár.

Fyrirtækjaupplýsingar KODIAK Excel auðvelda samanburð sögulegrar vörusölu Haga við einkaneyslu, og eldri spár Hagstofunnar fyrir einkaneyslu. Á árunum 2004 til 2014 er úrtaksfylgni milli einkaneyslu og vörusölu Haga (febrúar til febrúar) einungis 0,1 ef miðað er við raunvöxt og enn lægri ef miðað er við nafnvöxt eða 0,03. Ef salan er borin saman við þróun neyslu matar og drykkjar – sem er um 15% af einkaneyslu - nálgast fylgnin 0,4 miðað við raunvöxt og 0,6 miðað við nafnvöxt. Nálgast má mynd af þróuninni í viðauka á hi.is/~boo4 .

Þar sem spár um matar- og drykkjarneyslu eru ekki opinberar er notast við einkaneysluspár Hagstofunnar og Fjármálaráðuneytisins. Að baki þeim ellefu gildum sem lýsa raunvexti vörusölu Haga árin 2004 til 2014 standa 147 spágildi.

Hafa spár áhrif?

Á myndinni sést hversu góður vísir spárnar eru fyrir vörusölu Haga. Eftir því sem punktarnir verða stærri því nýrri eru spárnar. Til dæmis hljóðaði spá Fjármálaráðuneytisins fyrir 2009 upp á 2,25% haustið 2004, fór niður í -1,8% haustið 2007 en svo -14,6% vorið 2010. Á árinu 2009 var raunvöxtur vörusölu Haga tæpt 1%, og einkaneysla dróst saman um 9% - þar af matur og drykkur um 3%. Heilt yfir gefa tölugildi frávika til kynna að einkaneysluspárnar fjarlægast raunvöxt vörusölu Haga eftir því sem þær verða nýrri, eða að miðgildi um rúmt prósentustig frá fyrstu til síðustu spár.

Fremst var velt vöngum yfir réttlætingu tæplega 4% fasts nafnvaxtar vörusölu Haga á næstu tveimur árum. Samanburðurinn sýnir að 3,4% föst spá hefði lágmarkað miðgildi frávika frá raunvexti sölunnar á tímabilinu. Nálgast má mynd af spánum og vörusölunni yfir tíma í viðauka á hi.is/~boo4 .

Fyrir utan augljósan tilgang spáa um einkaneyslu er mögulegt að aukalega valdi þær væntingum neytenda um betra eða verra ástand í framtíðinni. Spár um mikla einkaneyslu gætu þannig ýtt undir ráðstöfun. Í því ljósi virðast mjög svo neikvæðar spár frá miðju ári 2008 fyrir þálíðandi ár og 2009 hafa haft lítil áhrif á vörusölu Haga árið 2008 sem óx um tæp 3% að raunvirði.