*

sunnudagur, 21. apríl 2019
Leiðari
21. september 2018 13:08

WOW og fjölmiðlar

Barlómurinn um að fjölmiðlar gangi erinda einhverra ósýnilegra afla og séu vísvitandi að skemma er þreytandi.

Haraldur Guðjónsson

Ein af grunnstoðum almennrar velsældar er heilbrigt og gott atvinnulíf. Þess vegna fagnar Viðskiptablaðið því að nú sé búið að tryggja fjármögnun eins stærsta fyrirtækis landsins – WOW air. Nú er rétt rúmur mánuður síðan fyrstu fréttir af skuldabréfaútboði WOW birtust. Á þeim tíma hafa fjölmiðlar sagt fjölda frétta af stöðu mála hjá fyrirtækinu. Gengið hefur á ýmsu í þeim fréttaflutningi en almennt séð verður ekki annað sagt en að fjölmiðlar hafi staðið sína plikt. Sitt sýnist samt hverjum.

„Ég get ekki orða bundist lengur að sjá hvernig sumir fjölmiðlar keppast um að tortryggja WOW air og það sem við höfum byggt upp undanfarin ár. Ég hreinlega trúi ekki að nokkur blaðamaður eða fjölmiðill sé svo skammsýnn að vilja vísvitandi skemma fyrir áframhaldandi uppbyggingu félagsins,“ skrifaði Skúli Mogensen, eigandi WOW, á Facebook síðu sína um síðustu helgi.

Var hann þar að bregðast við frétt Morgunblaðsins um að WOW skuldaði Isavia um tvo milljarða króna. Það sem vakti athygli margra var að þrátt fyrir þessa beittu gagnrýni sína tók Skúli ekki af allan vafa um að WOW væri í skuld við Isavia heldur sagði að Wow hefði „aldrei skuldað þeim yfir tvo milljarða króna“.  Af augljósum samkeppnisástæðum er mjög brýnt að fá úr því skorið hvort WOW, eða eitthvert annað fyrirtæki, njóti sérstakrar fyrirgreiðslu hjá opinberu fyrirtæki eins og til dæmis Isavia. Það verður að segjast hreint út að barlómurinn um að fjölmiðlar gangi erinda einhverra ósýnilegra afla og séu vísvitandi að skemma er þreytandi.

Fyrir tæpum tíu árum var íslenskt viðskipta- og efnahagslíf í djúpum öldudal.  Þá var umræðan akkúrat á hinn veginn. Þótti mörgum sem fjölmiðlar hefðu brugðist upplýsingaskyldu sinni – ekki sinnt starfi sínu nægilega vel. Verið sofandi á verðinum og ekki greint til hlítar frá stöðu mála í aðdraganda kreppunnar. Fréttaflutningur íslenskra fjölmiðla af stöðu WOW síðustu vikur hefur verið réttmætur. Fjárfestakynning vegna skuldabréfaútboðsins varpaði ljósi á mjög erfiða fjárhagsstöðu fyrirtækisins, sem er mjög stórt á íslenskan mælikvarða. Svo stórt að stjórnvöld eru að láta meta hvort það sé eitt af þeim fyrirtækjum, sem teljist kerfislega mikilvæg fyrir íslenskt efnahagslíf.

Það var beinlínis skylda íslenskra fjölmiðla að greina eins vel og mögulegt var frá stöðu WOW air. Ein af þeim leiðum sem notaðar eru til að reyna að hafa áhrif á fréttaflutning er að svara ekki spurningum, skilaboðum eða símtölum. Það er mikilvægt að viðmælendur hafi í huga að um leið og þeir fara þessa leið eru þeir að fyrirgera rétti sínum til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Þeir eru ekki að tryggja að um málið verði ekki fjallað.

Á endanum er það mat ritstjórnar viðkomandi miðils hvort fjallað er um mál og ef hún telur sig hafa nægar heimildir til að birta frétt þá gerir hún það. Sú ákvörðun er ekki léttvæg því trúverðugleiki er verðmætasta eign fjölmiðla og honum fórna þeir ekki fyrir stundarlestur. Almennt séð geta opinberar persónur, hvort sem það eru stjórnendur fyrirtækja eða aðrir, ekki aðeins baðað sig í sviðsljósinu þegar vel gengur. Þeir þurfa líka að svara þegar gefur á bátinn. Svo því sé haldið til haga þá leitast Viðskiptablaðið við að segja satt og rétt frá í sínum fréttaflutningi og síðast en ekki síst að segja fréttir af sanngirni – sanngirni gagnvart efni fréttarinnar, viðmælendum en þó fyrst og síðast almenningi.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim