*

fimmtudagur, 25. apríl 2019
Leiðari
29. september 2016 13:26

Yfirvegun eða róttækni

Stjórnarskrá Íslands er ekki fullkomin frekar en önnur mannanna verk, en hún hefur þó þjónað landi og þjóð.

Kosningarnar í haust munu snúast um marga mismunandi hluti. Afstöðu fólks til aðildarviðræðna við ESB, til kvótakerfisins og búvörusamninga auk hefðbundinna átakapunkta milli hægri og vinstri. En það mál, sem ef til vill skiptir mestu máli, hefur ekki vakið þá athygli sem það á skilið, þótt vissulega hafi það komið til umræðu.

Stjórnarskrá Íslands er ekki fullkomin frekar en önnur mannanna verk, en hún hefur þó þjónað landi og þjóð nokkuð vel frá upphafi. Þegar ástæða hefur þótt til hefur henni verið breytt, en það hefur þó alltaf verið að vel ígrunduðu máli og í góðri samvinnu allra flokka á Alþingi.

Þetta er mikilvægt, því stjórnarskráin er – eða á að vera – yfir pólitíska leiki hafin. Hún er grundvöllur alls stjórnmálastarfs og mannréttinda á Íslandi og í kringum hana hefur orðið til fjöldi dómafordæma og venjuréttur. Vitað er fyrir hvað stjórnarskráin stendur í nær öllum málum og því þarf ekki að velkjast í neinum vafa þar um.

Það er eðlilegt að fólk geri kröfu um að gerðar séu breytingar á stjórnarskránni og slíkar kröfur ber að skoða af alvöru. Það á hins vegar ekki að koma til greina að gerbreyta stjórnarskrá lýðveldisins í einu vetfangi, eins og unnendur stjórnlagaráðsins vilja gera.

Í umræðuþætti í Ríkissjónvarpinu í síðustu viku sögðu fulltrúar Pírata, Húmanista og Flokks fólksins að stjórnarskránni ætti að breyta í takt við tillögur stjórnlagaráðs. Fulltrúar Dögunar og Samfylkingar tóku í sama streng og formaður Vinstri-grænna sagðist vilja halda endurskoðun stjórnarskrárinnar áfram. Formaður Bjartrar framtíðar var á sömu nótum.

Í raun voru aðeins tveir menn sem töluðu fyrir varfærnislegum breytingum á stjórnarskránni í áföngum, þeir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar. Bjarni sagði ekki þörf á nýrri stjórnarskrá frá grunni og að breytingar á henni ætti að gera af yfirvegun og varfærni. Benedikt tók undir þetta og sagði rétt að gera breytingar á stjórnarskránni í áföngum.

Hvað sem mönnum kann að finnast um áherslumál þessara tveggja flokka þá skiptir það máli að þeir hafa báðir mun ábyrgari afstöðu til stjórnarskrárinnar en keppinautar þeirra í alþingiskosningunum. Stjórnarskráin er ekki bara eitthvert plagg, heldur grundvöllur samfélagsins og ber stjórnmálamönnum að koma fram við hana sem slíka. Hver sem úrslit kosninganna verða þá er óskandi að þjóðin beri gæfu til að kjósa yfir sig þingmenn sem skilja þetta.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim