*

miðvikudagur, 19. janúar 2022

nóvember, 2004

 

sameining við önnur vefsvæði þótti ábótavant


 

Jólavefurinn, jol.is, rauk upp í vikunni sem leið um tæp 50% í notendafjölda, mest allra stóru vefjanna. Þetta kemur í nettalningu Modernus sem sér um samræmda vefmælingu. Sjö af tíu efstu á listanum bæta við sig í síðustu viku. "Það er óvenjulegt og segir okkur að nýliðin vika hafi verið fín netvika," segir í frétt hjá Modernus.


 

Árið 2004 verður metár í tölvusölu í Danmörku en þar er reiknað með að 800 þúsund tölvur seljist á árinu, samkvæmt útreikningum IDC. "Þetta merkir að áttundi hver Dani fái nýja PC tölvu á árinu. Tölurnar byggja á sölutölum fyrstu þriggja ársfjórðunganna og horfum á þeim fjórða. Metár var í tölvusölu í Danmörku árið 2000 en þá seldust 700 þúsund tölvur. Nú bendir allt til þess að metið hafi verið slegið," segir í frétt á heimasíðu Tæknivals.


 
Hitt og þetta
30. nóvember 2004

Leiknir í sókn

Knattspyrnufélagið Leiknir mun um áramótin hefja framkvæmdir á tveimur nýjum fótboltavöllum á vallarsvæði sínu í Breiðholti. Fyrir er Leiknir einungis með einn keppnisvöll og einn gervigrasvöll og óhætt að segja að löngu sé tímabært að aðstaða félagsins verði betrumbætt enda félagsmenn orðnir yfir 300 talsins. "Stefnt er á að svæðið verði tilbúið næsta vor," segir Arnar Einarsson, formaður Leiknis.


 

Síminn ákvað fyrir skömmu að senda út enska boltann yfir FARICE-1 sæstrenginn. Síminn nálgast dagskrána í London, þaðan sem hún er flutt um ljósleiðarasamband til Edinborgar, þar sem hún er tengd inn á FARICE-1 til Reykjavíkur. Áður fóru útsendingar á boltanum í gegnum gervitungl. "Útsendingin á FARICE-1 tryggir viðskiptavinum stöðugra samband þar sem útsendingin er óháð sveiflum í veðurfari. Útsendingar um FARICE-1 eru þar að auki hagkvæmari kostur. Leikjunum er tryggð ákveðin bandbreidd meðan á útsendingu þeirra stendur yfir," segir Eva Magnúsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans.


 

Anghel Lordanescu, landsliðsþjálfari Rúmena hefur sagt upp störfum og það í þriðja sinn. Lordanescu sem er 54 ára gamall hefur hins vegar alltaf hætt við og hafið störf að nýju nokkrum dögum síðar. Kornið sem fyllti mælinn hjá Lordanescu að þessu sinni var 1-1 jafntefli við Armena á útivelli í undankeppni HM seinasta miðvikudag. Armenar höfðu ekki fengið stig í keppninni fyrir þann leik.


 

söluaukning PC tölva dregst saman


 

Öryggisgallar í Internet Explorer vafranum frá Microsoft hafa leitt til þess að norræn stjórnvöld hafa varað við notkun hans. Danska fyrirtækið Cert, sem sérhæfir sig í tölvuöryggismálum, tekur í sama streng og telur að tölvunotendur eigi að skipta um vafra. Í Svíþjóð og Finnlandi eru fyrirmælin frá stjórnvöldum skýr: Hættið að nota Microsoft hugbúnað til að lesa vefsíður, vafrann Internet Explorer. Sækið og notið í staðinn ókeypis vafra eins og Netscape, Firefox eða Opera.


 

Það nýjasta nýtt í töluleikjabransanum, ef leik skyldi kalla, er að nú er hægt að skjóta villt lifandi dýr með fjarstýringu í gegnum netið. Þetta er allt hægt að gera í gegnum vefsíðu Life-Shot -- "Real Time, ON-Line, Hunting and Shooting Experience." Skothríðin fer fram í nágrenni Rocksprings í Texas í Bandaríkjunum. Þetta kemur fram í frétt í Viðskiptablaðinu í dag.


 

Microsoft tilkynnti í gær um nýstárlega aðgerð sem felst í því að félagið ætlar að láta tölvunotendur með illa fengið Windows XP stýrikerfi fá endurgjaldslaust löglegt stýrikerfi í staðinn. Þeir sem telja hugsanlegt að stýrikerfið þeirra sé "sjóræningjaútgáfa" geta nú skipt yfir í ósvikið stýrikerfi án þess að kosta nokru til. Fram kemur í ComputerWeekly að ástæðan fyrir þessum aðgerðum sé mikið magn af hágæða ólögmætum útgáfum af Windows XP á markaðnum og öryggismál tengd ólöglegum útgáfum hugbúnaðar.


 

Vestmannaeyjabær hefur skrifað undir samninga við Maritech um kaup á nýju upplýsingakerfi í Microsoft Navision. Um er að ræða heildarupplýsingakerfi fyrir bæjarfélagið ásamt innleiðingu, þjónustu og ráðgjöf því tengdu. Gert er ráð fyrir því að uppsetning hefjist nú þegar og verði fyrsti hluti kerfisins tilbúinn nú um næstu áramót.


 

Af öllum raftækjum var verðlækkun á plasmasjónvörpum og stafrænum myndavélum í september sú mesta sem um getur á fimm mánaða tímabili í Bandaríkjunum. Samkvæmt könnun, sem unnin var fyrir Reuters, sýnir að verðlækkun á plasmasjónvörpum nam 9.2% og leiddi til þess að slík veggsjónvörp voru í fyrsta sinn í sögunni seld á innan við 2.500 dali. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Tæknivals.


 

Tjón af völdum sex stærstu tölvuveira sögunnar er metið á 1400 milljarða íslenskra króna. Sérfræðingar í veiruvörnum óttast að nýjar öflugri veirur en áður hafa sést kunni að vera yfirvofandi. Fjölgun veira á þessu ári hefur verið gífurleg en á fyrstu sex mánuðum ársins voru 4500 nýjar veirur uppgötvaðar. Fjöldinn hræðir hins vegar sérfræðingana ekki svo mjög heldur einbeittur brotavilji tölvuþrjótanna sem áður sendu veirur frá sér til þess að öðlast frægð og heiður en sækjast nú fyrst og fremst eftir peningum.


 

Geir H. Haarde fjármálaráðherra sendi fyrstu rafrænu pöntunina úr nýjum Oracle-fjárhags- og mannauðskerfum ríkisins. Pöntunin var send frá Landspítala-háskólasjúkrahúsi til Lyfjadreifingar ehf. gegnum Rafrænt markaðstorg, sem rekið er samkvæmt samningi við fjármálaráðuneytið.


 

Firefox vafranum frá Mozilla hefur tekist það engum öðrum vafra hefur tekist um langt árabil - að ná um það bil 5% markaðshlutdeild. Samkvæmt glænýjum tölum frá yfir hundrað löndum eru Internet Explorer vafrar komnir undir 90%. Nákvæmar tölur eru 4,58% fyrir Firefox og 88.90% fyrir þrjár útgáfur IE vafrans. Samkvæmt könnun á vefsvæði Tæknivals í síðustu viku virðist Firefox enn vinsælli meðal íslenskra Netnotenda, með rúmlega 20% markaðshlutdeild, en vel á annað hundrað þátttakendur tóku þátt í könnun þeirra í síðstu viku.


 

Smartkort og Tæknival hafa gert með sér samstarfssamning um sölu og þjónustu á hug- og vélbúnaði til að auka öruggi í greiðslumiðlun. Fyrirtækin tvö munu vinna í nánu samstarfi við Ingenico SA, einn stærsta framleiðanda heims á sviði vélbúnaðar til greiðslumiðlunar.


 

Vefur Íslandsbanka, www.isb.is, er fyrstur íslenskra vefja til að vera vottaður fyrir aðgengi fatlaðra af Sjá viðmótsprófunum og Öryrkjabandalagi Íslands. Við hönnun vefsins var m.a. leitast við að koma til móts við þarfir blindra og sjónskertra, sem nota sérstaka vefskoðara við tölvunotkun.


 

Internetfyrirtækið Google tilkynti í dag, í annað sinn í vikunni, að hinn mikli vöxtur tekna félagsins sem verið hefur undanfarið muni fara að hægja á sér. Tekjur félagsins jukust um 7,5% á milli fyrsta og annars ársfjórðungs og síðan um 15,1% á milli annars og þriðja ársfjórðungs. Google var fyrst skráð á almennan markað á þessu ári og hefur gengi bréfanna hækkað um 100% frá skráningu.


 

Kvikmyndaverin í Hollywood hafa að hætti plötuútgefenda höfðað kærumál gegn einstaklingum fyrir niðurhal á kvikmyndum. Fyrstu slíku málin voru dómtekin í Denver, New York, San Francisco og St. Louis í gær. Um er að ræða mál gegn fólki sem gefið er að sök að hafa hlaðið niður nýlegum kvikmyndum eins og "Spider-Man 2" og "Troy".


 

Uppgjör Hewlett-Packard á þriðja ársfjórðungi var umfram væntingar markaðsaðila. Hagnaður félagsins jókst um 27% milli ára og nam alls 1,1 ma. dollara. Hagnaður félagsins á hlut án óreglulegra liða nam 41 cent á hlut, samanborið við spár markaðsaðila um 37 cent og áæltun félagsins um hagnað á hlut á bilinu 35-39 cent á hlut. Tekjur félagsins námu 21,4 mö. dollara og jukust um 7,7%, einkum vegna aukinnar sölu á netþjónum.


 

Linux samfélagið hefur sett upp vefsetur þar sem að reynt verður að gera linux stýrikerfið aðgengilegt fyrir alla. Má segja að um sé að ræða Linux 101 vef, þar sem að bætt verður í sjálfboðavinnu við útskýringum á íslensku um alla mögulega hluti sem tengjast linux. Hafa aðstandendur öruggt.net gefið undirlénið linux.oruggt.net undir þetta og reynt verður að hafa hjálpsemisgildin þau sömu og þeir aðilar hafa, þó svo að linux boðskapurinn verði breiddur út á íslensku.


 

Í framtíðinni gæti fólk smitast af tölvuveirum. Þetta er álit Kevins Warwick, prófessors við háskólann í Reading á Englandi. Hann telur sennilegt að í framtíðinni hafi flest allir í sér einhvers konar tölvubúnað og fólk verði þar með móttækilegt fyrir tölvuveirum og árásum tölvuþrjóta. Álit prófessorsins kom fram á Digital Identity Forum ráðstefnunni sem haldin var í London. Warwich telur að tölvuveirur og líffræðilegar veirur renni saman í eitt þegar fram líða stundir og öryggisvandinn verði miklu stærri en nú er.


 

Knattspyrnusnillingurinn og markahrókurinn Thierry Henry, leikmaður Arsenal og franska landsliðsins, hefur gert auglýsingasamning við PepsiCo International, framleiðanda Pepsi og Pepsi Max.


 

Árshagnaður enska knattspyrnuliðsins Bolton fyrir skatta var 2,6 milljónir punda eða sem nemur um 330 milljónum íslenskra króna frá júní 2003 til júní 2004. Þetta þykir mjög góður árangur sérstaklega í ljósi þess að 5,7 milljóna punda tap varð af rekstri félagsins á sama tímabili árið á undan. Liðinu hefur gengið vel að undanförnu undir stjórn Sam Allardyce og er hann talin helsta ástæða fyrir betri afkomu félagsins.


 
Hitt og þetta
16. nóvember 2004

Nettó styrkir HSÍ

Nettó afhenti Handknattleikssambandi íslands 945.850.- krónur styrk þann 12. nóvember. Peningarnir söfnuðust í sérstakri áskorun fyrir landslið yfir eina helgi í verslunum Nettó.Nettó vonar að styrkurinn komi sér vel fyrir ?strákana okkar" í komandi baráttu. Nú hefur nýr landsliðsþjálfari verið ráðinn en Viggó Sigurðsson er landskunnur. Hann hefur þegar tilkynnt landsliðshóp sinn fyrir World Cup í Svíþjóð sem fer fram dagana 16.-21. nóvember næstkomandi.


 

Sölutölur frá Noregi gefa líkast til góða vísbendingu um uppsveifluna í tölvusölu á árinu. Þar er nú reiknað með að tölvusala verði 20% meiri en í fyrra. Salan á fartölvum hefur aukist um 40%, segir í ITAvisen í morgun. Tölurnar sem Netmiðillinn vísar til koma frá greiningafyrirtækinu DMR en þar kemur fram að sölumetið frá 1999 sé í hættu og líklegt sé að 700 þúsund tölvur seljist í ár.


 
Hitt og þetta
16. nóvember 2004

Elland Road seldur

Elland Road, heimavöllur Leeds United, hefur verið seldur og leigður aftur til 25 ára. Salan er liður í að rétta við fjárhag félagsins. Í samningnum er klásúla um að Leeds geti keypt völlinn aftur hvenær sem er á þessum 25 árum samkvæmt fyrirfram ákveðnu verði, sem mun vera sanngjarnt að því er heimildarmenn telja.


 
Hitt og þetta
16. nóvember 2004

Gylfi til Leeds

Gylfi Einarsson sem gerði það gott með Lilleström í sumar og skoraði ótalmörg mörk, hefur ákveðið að ganga til liðs við Leeds eftir að hafa fengið tilboð frá Leeds og Cardiff.


 

Bæjaryfirvöld á Álftanesi eru með hugmyndir á borðunum um stækkun íþróttamiðstöðvarinnar á Álftanesi. Í stækkuninni er m.a. gert ráð fyrir því íþróttasalurinn stækki upp í löglega stærð, en hann er nú aðeins helmingurinn af því, og að sundlaugin verði stækkuð í 25 metra laug. Þá eru einnig áform uppi um að endurbæta eldhúsaðstöðuna á efri hæðinni til að skapa þar góða mataraðstöðu fyrir nemendur í Álftanesskóla.


 

KKÍ hefur samið við Austurbakka um að A-landlið Íslands í körfuknattleik leiki í NIKE skóm. Samkvæmt samningnum mun Austurbakki sjá A-liðum karla og kvenna fyrir skóm sem leikmenn munu nota í öllum landsleikjum liðanna til loka ársins 2005.


 

Sparkvöllur á lóð Grunnskólans í Borgarnesi var vígður formlega s.l. fimmtudag. Fjölmenni mætti á þessa vígslustund þar sem gervigrasvöllurinn var formlega tekinn í notkun.


 

Á næsta ári eru liðin 90 ár síðan fyrst var keppt í Reykjavíkurmóti í knattspyrnu, en fyrst var keppt í meistaraflokki karla árið 1915. Knattspyrnuráð Reykjavíkur (KRR) var stofnað árið 1919 sem Knattspyrnunefnd Reykjavíkur. Nafninu var fljótlega breytt í Knattspyrnuráð Íslands og síðan í Knattspyrnuráð Reykjavíkur árið 1922. Fyrsti formaður ráðsins var Egill Jacobsen, kaupmaður og knattspyrnudómari.


 

Tölvuframleiðandinn Dell skilaði uppgjöri fyrir þriðja ársfjórðung 2004 í síðustu viku og var hagnaður félagsins 846 milljón dollarar eða 33 sent á hlut samanborið við 677 milljón dollara hagnað árið áður eða 26 sent á hlut. Er þetta vöxtur upp á 25% en tekjur jukust um 18% á sama tíma. Þessi aukni vöxtur er rakinn til ódýrari íhluta og aukinnar sölu á vörum Dell á alþjóðlegum mörkuðum.


 

Íþróttavöruframleiðandanum Nike hefur verið gert að greiða rúmlega 2 milljónir króna í skaðabætur vegna heimsóknar körfuboltahetjunnar Michael Jordan á skemmtun í Taivan. Jordan kom fram á sérstöku skemmtikvöldi á vegum Nike í Taivan og höfðu viðskiptavinir Nike keypt talsvert af íþróttafatnaði merktum Jordan til þess að fá miða á skemmtunina. En Jordan dvaldi ekki lengi við á skemmtuninni heldur lét hann sig hverfa eftir 90 sekúndur og náði því rétt að kasta kveðju á mannþröngina áður en hann yfirgaf samkvæmið. Þykir þetta brjóta gegn eðlilegum viðskiptaháttum og er Nike, sem stóð að skemmtuninni, dæmt til að greiða viðskiptavinum skaðabætur þar sem viðskiptavinir voru ekki upplýstir um hversu stutt Jordan myndi stoppa við.


 

Nýjustu fréttir, og ef til vill þær síðustu, herma að stjórnendur enska knattspyrnuliðsins Manchester United hafi algerlega slitið viðræðum við bandaríska auðjöfurinn Malcolm Glazer sem hefur á undanförnum vikum reynt að ná til sín félaginu en hann á nú 28,11% í Manchester United. Ef hlutur hans fer yfir 30% ber honum skylda til að gera yfirtökutilboð í félagið en svo virðist sem ekkert verið af því, flestum aðdéndum, í Bretlandi að minnsta kosti, til mikillar ánægju. Glazer hafði í huga að ná félaginu á sitt vald en stjórnendur félagsins hafa nú ákveðið að svo muni ekki gerast. David Gill, forstjóri Manchester United, segir ákvörðunun stjórnenda um að selja ekki hluti sína í félaginu, ekki vegna þrýstings aðdáenda. "Þessi ákvörðun var tekin vegna þess að okkur fannst þetta ekki vera rétta skrefið fyrir félagið en hagsmunir félagsins verða alltaf að vera númer eitt," segir Gill.


 

Argentínumaðurinn Hector Cuper hefur náð samkomulagi við Mallorca á Spáni um að taka við liðinu af Benito Floro sem var rekinn frá félaginu fyrir viku síðan. Cuper hafnaði nokkrum öðrum tilboðum til að ganga til liðs við Mallorca. Hann mun einnig sjá um yfirstjórn íþróttamála hjá félaginu. Hann stjórnaði liðinu á árunum 1997-1999 er hann leiddi félagið í úrslit UEFA Cup og Copa del Rey og liðið endaði í þriðja sæti deildarinnar. Hann tók svo í kjölfarið við Valencia af Claudio Ranieri og fór svo til Ítalíu þar sem hann tók við Inter Milan án þess að hafa náð góðum árangri.


 

"Karate er hægt að iðka sem sjálfsvörn, keppnisíþrótt eða hreinlega líkamsrækt, allt eftir því hvaða markmið iðkandinn setur sér," segir Jón Ingi Þorvaldsson, formaður karatefélagsins Þórshamars, en félagið var stofnað 27. maí árið 1979 og hefur starfað óslitið síðan. Jón Ingi segir að hjá Þórshamri æfi fólk úr öllum aldurshópum, frá sex ára og fram yfir sextugt. "Dæmi eru um að þrír ættliðir úr sömu fjölskyldu æfi saman. Hverjum og einum er í sjálfsvald sett hversu hart hann leggur að sér. Gráðupróf eru haldin þrisvar á ári en ekki er skylda að gangast undir próf svo oft. Þeir sem vilja fara hægar í sakirnar geta tekið sér þann tíma sem þeim hentar fyrir hvert próf," segir Jón Ingi og bætir við að ástundun karate auki snerpu, þol og liðleika. "Mikil áhersla er lögð á góðar teygjuæfingar og það er útbreiddur misskilningur að stirðleiki setji væntanlegum karateiðkendum stólinn fyrir dyrnar. Auk þess að vera upplögð líkamsrækt getur karate verið mjög alhliða áhugamál," segir Jón Ingi.


 

Stangaveiðifélag Reykjavíkur (SVFR) hefur birt söluskrá sína fyrir næsta veiðisumar. Þar kveður nokkuð við nýjan tón, en innan félagsins telja menn ekki lengur eðlilegt að veiðileyfi hækki sjálfkrafa milli ára. Það hefur nánast verið regla að veiðileyfi hafi hækkað milli tímabila undanfarin ár en stjórn SVFR taldi nú að vert að staldra við, ekki síst í ljósi þess að komið væri að vissum sársaukamörkum - verð veiðileyfa væri orðið það hátt að veiðimenn væru jafnvel farnir að snúa sér að golfi eða hestamennsku í stað þess að stunda laxveiðar. Bjarni Ómar Ragnarsson, formaður SVFR, segir að það hafi verið orðið tímabært að sporna við hækkun veiðileyfa. "Það hafa verið hækkanir á veiðileyfum á hverju einasta ári í mörg ár og við ákváðum að reyna að stoppa þessa þróun ef það væri hægt - þetta var pólitísk ákvörðun hjá stjórn SVFR."


 

Enski söngvarinn Elton John ætlar að koma sínu knattspyrnufélagi Watford til aðstoðar næsta sumar en hann hefur verið aðdáandi númer eitt í fjölda mörg ár. Elton John heldur þá tónleika á leikvangi félagsins, Vicarage Road, og talið er fullvíst að hann verði þéttsetinn, en hann rúmar 22 þúsund manns. Ársmiðahafar hjá félaginu og hluthafar ganga fyrir áður en salan hefst á almennum markaði snemma á næsta ári. Ágóðinn af tónleikunum, sem talið er að verði í kringum ein milljón punda, eða um 130 milljónir króna, rennur óskiptur til Watford.


 

Ryan Giggs var nýlega boðinn eins árs framlenging á samningi sínum við Manchester United en hann hafnaði honum. Giggs segist vilja meira öryggi og þar með lengri samning. Hann hefur verið hjá Manchester í ein 14 ár og vill gjarnan enda feril sinn þar.  Giggs hefur verið gagnrýndur fyrir leik sinn með United að undanförnu og eru menn farnir að velta því fyrir sér hvort dagar hans á Old Trafford séu senn á enda.


 

dkdk


 

umsvif óvandaðra "phiskimanna" aukast


 

Netviðskipti aukast sífellt þótt einstaka greinar eigi erfitt uppdráttar. Miklar væntingar eru bundnar við jólaverslunina og danskir kaupsýslumenn á Netinu reikna með 50% söluaukningu hið minnsta. Í frétt Politiken segir að það séu ekki lengur bókaverslanir, plötubúðir og ferðaskrifstofur sem sitji einar að Netviðskiptum. Í sífellt fleiri greinum viðskiptalífsins noti kaupendur músina til innkaupa og haft er eftir Morten Kamper hjá Samtökum Netkaupmanna (Foreningen for Dansk Internet Handel, FIDH) að bæði gæði og öryggi Netviðskipta hafi aukist.


 

Hugbúnaður sem sautján ára strákur hóf að vinna við árið 2002 skelfir Microsoft. Um er að ræða vafrann Firefox, sem boðinn er ókeypis á Netinu, og hefur þegar höggvið skörð í áhangendur Internet Explorer. Forbes tímaritið sagði Firefox skara fram úr IE á öllum sviðum og Wall Street Journal hvatti lesendur sína til að fleygja Microsoft vafranum. Firefox hefur fengið gífurlegt umtal, mikið lof og um fátt er meira rætt þessa dagana á spjallrásum um upplýsingatækni.


 

Samkvæmt mati breska ráðgjafafyrirtækisins Screen Digest veltir markaður með farsímaleiki um milljarði punda á þessu ári, 130 milljörðum íslenskra króna, en fram til ársins 2010 gerir fyrirtækið ráð fyrir að þessi markaður sexfaldist og verði 6.4 milljarðar eða 640 milljarðar í íslenskum krónum talið. Stærstur hluti tekna frá farsímaleikjum kemur í dag af niðurhali, einkum í Japan og Suður-Kóreu. Framleiðendur tölvuleikja gefa út leiki í vaxandi mæli fyrir farsíma, t.d. hefur Electronic Art, sett á markað farsímaútgáfur af leikjum eins og "FIFA Football" og "The Sims".


 

Kerfisleiga Skýrr býður nú fyrirtækjum að leigja öll nauðsynlegt Microsoft-leyfi gegn föstu mánaðargjaldi, sem einfaldar til muna allt utanumhald um leyfismál hjá fyrirtækjum. Skýrr hefur í þessu skyni gert samstarfssamning við Microsoft sem nefnist Service Providers Licence Agreement (SPLA) og er sérhæfður fyrir þarfir ASP-kerfisleiga (Application Service Provider), eins og Skýrr.


 

um tæknilausn til dreifingar á stafrænu gagnvirku sjónvarpi yfir ADSL kerfið


 

Danir hafa slegið Svíum við í óopinberri heimsmeistarakeppni í upplýsingatækni en greiningarfyrirtækið IDC birti í dag sína árlegu upplýsingatæknivog, Information Society Index (ISI), sem byggir á fjölda atriða um nýtingu upplýsingatækninnar. Svíar hafa leitt þennan eftirsótta lista síðastliðin fjögur ár en verða að sætta sig við 2. sætið á eftir Dönum að þessu sinni. Bandaríkjamenn eru í þriðja sæti, síðan Sviss, Kanada og Holland, en bæði Norðmenn (9) og Finnar (7) missa flugið.


 

Vafrarnir Mozilla og Firefox halda áfram að kroppa af Microsoft Explorer sem nú er kominn niður í 92.9% markaðshlutdeild. Yfirburðir IE eru augljósir en vafrinn hafði 95.5% hlut á markaðnum í júní þannig að vafrarnir frá Mozilla Foundation eru smátt og smátt að bæta stöðu sína. Þeir höfðu samtals 6% hlutdeild í júní, voru komnir í 5.2% í september og bættu stöðu sína í síðasta mánuði um 0.8%. Opera vafrinn og Safari vafri Apple eru samtals með rétt rúmlega 1%.


 

Umhverfis- og framkvæmdasvið Vestmannaeyjabæjar hefur gert rammasamkomulag við Eyjatölvur um kaup á tölvubúnaði fyrir grunnskólana í Vestmannaeyjum, Hamarsskóla og Barnaskólann. Búnaðurinn er allur frá Tæknivali, sem er samstarfsaðili Eyjatölva um tölvubúnað og þjónustu.


 

Kínversk stjórnvöld halda áfram að kippa Netkaffihúsum úr sambandi. Staðfest var um helgina að 1600 Netkaffihúsum hafi verið lokað frá því í mars þegar siðbótasóknin hófst gegn ofbeldisfullu efni og klámfengnu sem stjórnvöld telja skaðlegt siðferði landsmanna. Auk umræddra 1600 kaffihúsa hefur 18 þúsundum öðrum kaffihúsum verið lokað tímabundið meðan "hreinsun" hefur farið fram.


 

Agnar Már Jónsson hefur verið ráðinn forstjóri Opinna kerfa ehf. og mun hann hefja störf 16. nóvember. Agnar Már kemur þar í stað Gylfa Árnasonar sem í október tók við starfi forstjóra Opin Kerfi Group hf.


 

Tæknival og bandaríska fyrirtækið EMC, stærsta fyrirtæki heims á sviði gagnageymslulausna, hafa undirritað samstarfssamning um sölu og þjónustu á EMC búnaði á Íslandi. Tæknival er eina íslenska fyrirtækið sem uppfyllir þær kröfur sem EMC gerir um þjónustu og hefur eitt íslenskra fyrirtækja beinan aðgang að EMC, en alls eru samstarfsfyrirtæki EMC sextíu talsins um heim allan. Samstarfssamningurinn var staðfestur á fjölsóttri ráðstefnu síðastliðinn föstudag í Reykjavík sem haldin var í tilefni lokavottunarferlis samningsins.Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.