*

laugardagur, 16. október 2021

desember, 2004

 

Netverslunin Amazon hefur greint frá því að metsala hafi verið í jólaverslun og salan hafi í tíu ára sögu félagsins aldrei verið meiri. Fram kemur í frétt hjá BBC að pantanir hafi verið 32 á sekúndu þegar viðskiptin voru hvað mest. Mikil jólaverslun hjá Amazon kætir fjárfesta í Wall Street segir á fréttavefnum en tíðindin leiddu til 9% hækkunar á gengi bréfa í þessari stærstu Netverslun heims.


 

Samkvæmt greiningu öryggisfyrirtækisins Sophos koma 42% alls ruslpósts frá einu og sama landinu, Bandaríkjunum, en Bandaríkjamenn hafa algera sérstöðu á listanum yfir þær tíu þjóðir sem senda mest af slíkum óumbeðnum auglýsingapósti. Suður-Kóreubúar eru í öðru sæti með 13%, því næst Kínverjar með 8%, Kanadabúar 6% og Brasilíumenn 3%. Í neðri hluta listans eru Japanir, Frakkar, Spánverjar, Bretar og Þjóðverjar.


 

Microsoft verður að gera róttækar breytingar á viðskiptaháttum sínum í Evrópu í kjölfar dómsúrskurðar en félagið tapaði í gær máli gegn Evrópusambandinu. Samkvæmt dómnum verður bandaríski hugbúnaðarrisinn að veita keppinautum upplýsingar um ákveðna þætti viðskiptanna sem hingað til hafa verið leyndir. Jafnframt verður Microsoft að gefa út Windows stýrikerfið án forrita sem sniðin eru að tónlist og kvikmyndum, þ.e. Media Player.


 

Læknabréf fara framvegis rafrænt milli Landspítala - háskólasjúkrahúss og Heilsugæslunnar í Reykjavík, samkvæmt samningi þessara stofnana, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytsins og Theriak ehf sem undirritaður var í dag. Landspítali - háskólasjúkrahús og Heilsugæslan í Reykjavík hafa undanfarið undirbúið rafræn samskipti milli starfsstöðva sinna í samvinnu við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og Theriak ehf.


 

Ráðgjafafyrirtækið Gartner varar við notkun fyrstu kynslóðar nýrra leitarvéla sem leita að efni á hörðum diskum tölva eins og frá Google, Microsoft og fleirum. Á dögunum kom í ljós alvarlegur galli í Google Desktop Search og þótt brugðist hafi verið skjótt við og gallinn lagfærður endurtóku ráðgjafar Gartner viðvaranir til forráðamanna fyrirtækja að fara gætilega í notkun nýju leitarvélanna.


 

Sala á svokölluðum flatskjám hefur ekki farið eins vel af stað hér á landi og á hinum Norðurlöndunum en í Svíþjóð tala verslunarmenn um flatskjái sem jólagjöfina í ár. Kristinn Theodórsson, hjá Sony Center, segir í viðtali við Viðskiptablaðið sem kom út í dag að Íslendinga séu ári á eftir í söluþróun í flatskjám miðað við hin Norðurlöndin en hvers vegna svo er, veit hann ekki. "Áhugi á vörum þessum er þó að aukast mikið og eru margir að spá og spekúlera. Við höfum verið að selja betur af minni stærðunum en þeim stærri og á ég von á að næsta ár verði mun betra," segir Kristinn.


 

Nýtt met verður slegið í farsímasölu í Danmörku á árinu. Síðasta ár var líka metár. Menn virðast ekki geta fengið nóg af farsímum, segir í frétt Politiken. Árið 2003 voru seldir 1,6 milljónir farsíma í Dnamörku og því marki var þegar náð í nóvember. Og svo á eftir að bæta við allri jólaversluninni svo það er löngu ljóst að metið er slegið en reiknað er með hálfri milljón nýrra farsíma undir jólatrjám þetta árið.


 

Tvö stórfyrirtæki í upplýsingatækni, bæði heimskunn og leiðandi á sínu svði, hafa runnið saman í eitt. Það er öryggisvarnafyrirtækið Symantec sem hefur fest kaup á Veritas hugbúnaðarfyrirtækinu en það hefur sérhæft sig í hugbúnaði fyrir afritun, gagnageymslur og netþjóna. Kaupverðið er um 13.5 milljarðar Bandaríkjadala. Symantec hefur verið leiðandi fyrirtæki á sviði öryggismála og Norton veiru- og ruslpóstsvarnir eru víðkunnar um heim allan.


 

Stuðningsmenn Manchester United eru svo sannarlega tilbúnir að berjast á móti öðrum stærsta hluthafa í félaginu, bandaríska auðkýfingnum Malcolm Glazer, sem hefur á undanförnum mánuðum reynt hvað hann getur að ná yfirráðum í félaginu. Hvað aðdáendur varðar er hann síður en svo velkominn í félagið og eru menn ekkert að fara leynt með skoðunum sínum á kappanum.


 

Lófatölvur með VGA skjá eru algeng sjón en farsímar með slíkan skjá hafa enn ekki litið dagsins ljós. Það kann að breytast áður en langt um líður. Fyrirtækið Intisyc hefur þróað frumgerð af nýjum snjallsíma með VGA skjá. Síminn kallast Carbonado. Skjárinn er fjórar tommur með VGA upplausn (640 x 480 punktar) og jafnframt snertiskjár.


 

Netið er langöflugasti upplýsingamiðill erlendra ferðamanna um Ísland. Ríflega helmingur svarenda í sumarkönnun Ferðamálaráðs Íslands sagist nota netið en í fyrstu könnuninni árið 1997 var þetta hlutfall innan við 20 af hundraði. Bæklingar eða handbækur eru nú næstmest notaði upplýsingamiðillinn en álíka margir nefndu einnig ferðaskrifstofur í eigin landi.


 

heildarsala á netinu verði 1.3 milljarðar.


 

Einmenningstölvur í heiminum verða tvöfalt fleiri en þær eru núna eða um 1,3 milljarðar talsins árið 2010, einkum sökum gífurlegrar fjölgunar tölvunotenda í Kína, Rússlandi og Indlandi, að því er fram kemur í skýrslu greiningafyrirtækisins Forrester Research. Mest verður fjölgun PC tölva í Kína en gert er ráð fyrir að þar bætist við 178 milljónir nýrra tölvunotenda fyrir árið 2010. Alls bætast að mati fyrirtækisins 566 milljónir tölvunotenda í hóp þeirra sem fyrir eru en nú er talið að tölvunotendur séu 575 milljónir talsins.


 

Fartölvan hefur verið að sækja í sig veðrið á kostnað borðtölvunnar undanfarin ár og nú hefur það gerst í fyrsta skipti í Danmörku að sölutölur yfir fartölvur eru hærri en sölutölur yfir borðtölvur. Sama þróun hefur verið hér á landi en tölur skortir til að fullyrða um heildarsöluna. Samkvæmt horfum greiningafyrirtækisins IDC á Norðurlöndum bendir margt til þess að á 4. ársfjórðungi þessa árs verði í fyrsta sinn heildarsala á fartölvum meiri en á borðtölvum.


 

Netið er orðið einn helsti viðkomustaður fólks í leit að jólagjöfum og samkvæmt breskum spám um jólaverslun á Netinu aukast þessi viðskipti um 64% milli ára. Í frétt BBC segir að jafnframt sýni ný skoðanakönnun að fólk eyðir meira fé að jafnaði í gjafir sem keyptar eru á Netinu, en á það er bent að úrvalið hafi líka aukist. Helmingur allra Breta kaupir nú vörur á Netinu og 85% þeirra, um 18 milljónir manna, áforma að kaupa mikið af jólagjöfum á Netinu.


 

Bandarískir vísindamenn vara karlmenn við því að sitja með fartölvu í kjöltunni því ný rannsókn sýnir að hitastigið hækkar í pungnum sem getur dregið úr sæðisframleiðslu. Sérfræðingar í frjósemi beina því þeim tilmælum til ungra karlmanna sem vilja verða feður að sitja ekki með fartölvuna í fanginu og segja að frjósemin geti verulega skerst við þá miklu hitahækkun sem verður í eistunum.


 

Hópíþróttir í Bandaríkjunum er að detta upp fyrir. Á hverju ári eru Bandaríkjamenn spurðir að því hvaða íþrótt þeir stundi og sýna kannanir að hver einasta íþrótt nema amerískur fótbolti, hefur verið á undanhaldi síðustu ár. Árið 2003 spiluðu til dæmis um 28 milljónir bandaríkjamanna körfubolta. Könnunin sýnir að iðkendum hefur fækkað um 4% frá fyrra ári. Þær íþróttir sem hafa verið að vaxa mjög í Bandaríkjunum eru hins vegar göngur, útilegur, tækjaíþróttir, sund og keila, allt íþróttir sem menn geta stundað einir með sjálfum sér. Þá sýnir könnunin að sterk fylgni er á milli efnahags fólk og og þeirra íþrótta sem það stundar.


 

Íslenska vefmælingarfyrirtækið Modernus hefur undirritað samstarfssamning um Samræmda vefmælingu við Sp/f Gallup Føroyar. Tilraunamælingar eru þegar hafnar, og ef að líkum lætur verður listi Samræmdrar vefmælingar fyrir Færeyjar birtur í fyrsta sinn þann 10. janúar 2005 í formlegu samstarfi við Gallup Föroyar.


 

Bernie Ecclestone hefur reynt að freista formúluliðanna frá því að slíta sig úr tengslum við Formúlu-1 með því að stofna til nýrrar mótarðar undir verndarvæng samtaka bílsmiða í greininni, GPWC, með því að bjóða þeim 300 milljónir punda, jafnvirði rúmlega 36 milljarða íslenskra króna. Ecclestone býður greiðsluna þrátt fyrir að borgardómur í London hafi í byrjun vikunnar dæmt hann að kröfu þriggja banka frá yfirráðum í eignarhaldsfélagi sem á viðskiptaréttindi formúlunnar. Ecclestone lagði tilboðið fram á fundi liðsstjóra formúlunnar í London á mánudag. Sagðist hann Þar reiðubúinn að leggja peningana á borðið til að koma í veg fyrir klofning. Með því vill hann freista liðanna þar sem stofnun GPWC-mótanna er af fróðum talin myndu leiða til endaloka Formúlu-1 þar sem lið á borð við Ferrari, McLaren, Williams, Renault, Toyota og líklega BAR myndu hverfa úr greininni.


 

Farsímanotendur verða orðnir tveir milljarðar árið 2006 gangi spár finnska farsímarisans Nokia eftir. Nýendurskoðuð spá þessa stærsta farsímaframleiðanda heims sýnir að Nokia telur að útbreiðsla farsíma í heiminum verði hraðari en áður var ráð fyrir gert því áður hafði fyrirtækið gert því skóna að tveggja milljarða markinu yrði ekki náð fyrr en árið 2008. Vöxturinn verður mestur í Kína, Rússlandi, Indlandi og Brasílu að því er segir í frétt á heimasíðu Tæknivals.


 

Alls reyndust árásir tölvuveira vera 14% færri í nóvembermánuði borið saman við októbermánuð. Þetta kemur fram í mánaðaryfirliti veiruvarnafyrirtækisins Trend Micro. Alls skráði fyrirtækið 1.546 mismunandi afbrigði meinlegra veira en líkt og í síðasta mánuði var Netsky veiran yfirgnæfandi á listanum yfir tíu skæðustu veirurnar. Alls eru sex afbrigði af Netsky á topp tíu listanum þar af þrjú í efstu þremur sætunum með Netsky.P á toppnum.


 

Skýrr hf. hefur bætt rafrænum skilríkjum frá Thawte í vöru- og þjónustuúrval fyrirtækisins á sviði öryggislausna. Skilríki þessi eru hagkvæm í innkaupum og rekstri. Þau henta einkum litlum og meðalstórum fyrirtækjum, sem vilja tryggja samskipti sín á Internetinu.


 

Undirritaður hefur verið samningur á milli Vigors ehf., dótturfélags TölvuMynda, og Hafnarfjarðarbæjar um að uppfæra núverandi viðskiptahugbúnað bæjarfélagsins með Vigor Viðskiptahugbúnaði.


 

Netleikir verða sífellt vinsælli og gætu valdið Netþjónustufyrirtækjum vanda, segir í aðvörun frá eftirlitsfyrirtækinu Sandvine. Viðvörunin kemur í framhaldi af nýlegri greiningu sem sýndi að umferð á netkerfi nýja Xbox leiksins Halo 2 fjórfaldaðist daginn sem leikurinn kom á markað. Þessi mikla aukning hefur haldið áfram í desember. Netþjónustufyrirtæki verða að mati Sandvine að tryggja að netkerfin standist kröfur um aukna bandvídd.


 

Suður-kóreska tæknifyrirtækið Samsung hefur kynnt nýjan myndavélarsíma sem er með 1,5 gígabæta hörðum diski og getur geymt allt að 1000 ljósmyndir. Síminn, sem nefndur er SPH-V5400, er með 1 megapixela myndavél og hægt er að geyma allt að 3,5 klukkustunda löng myndskeið. Síminn mun kosta jafnvirði um 50 þúsund króna í Kóreu. Síminn er einnig búinn MP3 spilara, útvarpi og rafrænu orðasafni. Þá virkar síminn sem einskonar rafbók og geta notendur símans hlaðið niður texta og lesið hann á skjá símans.


 

Hvernig almenningur nýtir sér stafræna afþreyingu í framtíðinni er viðfangsefni metnaðarfulls þróunarverkefnis sem Evrópusambandið hefur hrundið af stað. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynnti um verkefnið í Nice í síðustu viku en það kallast "Networked & Electronic Media (NEM)". Samkvæmt frétt BBC um verkefnið vill framkvæmdastjórn ESB að fólk komi auga á eitthvert efni sem það hefur áhuga á og geti umsvifalaust séð að, hvort heldur er heima, í vinnu, eða á ferðalagi.


 

KB banki og MasterCard hafa tekið saman höndum og gefið íþróttafélögum og íþróttaþjálfurum tölvuhugbúnað í samstarfi við Sideline Sports,  en hugbúnaðurinn  auðveldar mjög skipulagningu æfinga og býður upp á markviss samskipti við íþróttaiðkendur, að því er fram kemur í tilkynningu frá félögunum.Hugbúnaðurinn heitir Sideline Organizer og hafa nokkur af stærstu íþróttafélögunum hér á landi notað það mikið við þjálfun. Til dæmis hafa þjálfarar íslenska landsliðsins í knattspyrnu og handknattleik notað það undanfarin ár sem og úrvalslið í ensku knattspyrnunni auk margra liða í NBA deildinni í körfubolta í Bandaríkjunum.Notendur forritsins eru á einu máli um að það hafi valdið þáttaskilum við þjálfun enda auðveldar það þjálfurum að hafa yfirsýn yfir allar þær upplýsingar sem áður voru skráðar í bækur, tölvugögn, myndbönd o.s.frv. Með þessu gefst íþróttaþjálfurum allra aldursflokka í ólíkum greinum kostur á ókeypis notkun á Sideline Organizer en íþróttakennarar, sjúkraþjálfarar og íþróttafræðinemar á Íslandi fá einnig aðgang að því.Bæði KB banki og MasterCard hafa verið dyggir styrktaraðilar í íslensku íþróttalífi og eru með þessu móti að auðvelda þjálfurum og íþróttafélögum að stunda markvisst og faglegt þjálfunarstarf í öllum greinum. Þetta er einnig umtalsverður fjárstyrkur fyrir þau íþróttafélög og sérsambönd sem áður þurftu að greiða fyrir afnotin af þessum hugbúnaði.Sideline Sports, sem  var stofnað árið 1999, hefur meðal annars framleitt hugbúnað fyrir körfubolta, amerískan fótbolta, knattspyrnu, tennis, blak, badminton, hokkí, íshokkí og hafnarbolta.


 

Bandarísk könnun leiðir í ljós að tónlistarfólk er ósammála þeim aðferðum sem samtök plötuútgefenda beita gegn skráaskiptum. Tónlistarfólk er hlynnt Netinu og lítur á það sem leið til að ná til nýrra aðdáenda og selja fleiri plötur. Þótt flestir líti á skráaskipti sem ólöglegt athæfi eru margir andvígir málaferlum vegna niðurhals. Pew Internet gerði könnunina og leitaði álits hjá 2.755 tónlistarmönnum, lagasmiðum og tónlistarútgefendum í mars og apríl á þessu ári.


 

Tölvuritinn IBM er í samningaviðræðum við Lenovo, stærsta tölvuframleiðanda í Kína, um sölu á borð- og fartölvusviði fyrirtækisins. Samkvæmt frétt íThe New York Timeser ætlun stjórnenda fyrirtækisins að beina kröftunum að ábatasamari þáttum eins og netþjónum fyrirtækja og tölvuþjónustu við viðskiptalífið. Í frétt Silicon Republic segir að IBM hafi kynnt fyrstu PC tölvuna árið 1981 og hafi þar af leiðandi "fundið upp" þá grein viðskipta sem snýr að PC tölvum.


 

Xerox, eitt þekktasta og stærsta fyrirtæki heims á sviði prentlausna, hefur falið Tæknivali að annast alla sölu og þjónustu á Xerox búnaði á Íslandi. Samningur þessa efnis tók gildi 1. desember síðastliðinn. Að sögn Sigrúnar Guðjónsdóttur forstjóra Tæknivals hafa tækni- og sölumenn Tæknivals að undanförnu fengið þjálfun í sölu, ráðgjöf, uppsetningu og viðhaldi á Xerox búnaði en Xerox hefur verið leiðandi í prent- og ljósritunartækni um áratugaskeið.


 

Fjögur stór útgáfufyrirtæki í Hollywood hafa greint frá stuðningi sínum við áform Toshiba um að framleiðslu næstu kynslóðar af DVD spilurum og þá tækni sem þar liggur til grundvallar. Undanfarið hafa framleiðendur keppst við að afla sér stuðnings stóru framleiðendanna við sína útgáfu af DVD en nú virðist Toshiba hafa dottið í lukkupottinn. Ákvörðunin er talin mikið áfall fyrir Sony.


 

Veirur fundust í rúmlega fimmtungi alls tölvupósts í Bretlandi í nýliðnum nóvembermánuði að því er fram kemur í talningu Sophos veiruvarnafyrirtækisins. Sober-I veiran sem greindist fyrst 19. nóvember hafnaði í 2. sæti á lista yfir útbreiddustu veirunar en rúmlega 20% sýkinga mátti rekja til hennar. Á toppnum trónir hins vegar Netsky P en sú veira drefist með skráaskiptaforritum. Hennar varð fyrst vart í mars. Fjórðungur sýkinga í nóvember er rakinn til Netsky P.


 

Óánægja ríkir meðal félagsmanna Fylkis og KR með það að nýir gervigrasvellir félaganna eru ekki upphitaðir. Virðist sem svo að ekki hafi verið gert ráð fyrir fjármagni til þess þegar framkvæmdir voru ákveðnar en það kostar um 18 til 20 milljónir króna að leggja hitalagnir í vellina.


 

Gengið hefur verið frá samstarfsamningi milli DHL Ísland og HSÍ og felur hann í sér að DHL á Íslandi verður aðalstuðningsaðili efstu deildar karla og kvenna í handknattleik. Samningurinn er fyrir keppnistímabilið 2004 - 2005, 2005 - 2006 og 2006 - 2007 Efsta deild karla og kvenna. mun bera nafn DHL og heitir nú DHL deildin. Guðmundur Ingvarsson, formaður HSÍ og Þórður Kolbeinsson framkvæmdastjóri DHL munu undirrita samninginn.


 

Atvinnurekendur eiga að fela starfsmönnum með fartölvu, farsíma og þráðlaust net meiri ábyrgð, segir í nýrri "hvítbók" Microsoft. Stjórnendur þurfa að læra að treysta starfsmönnum sínum til þess að nýta tæknina sem gefur kost á frelsi og sveigjanleika. Að mati Microsoft óttast margir stjórendur öryggi viðkvæmra upplýsinga hjá þeim starfsmönnum sem eru á ferð og flugi með fartölvur og farsíma.Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.