*

laugardagur, 23. október 2021

júlí, 2004

 

Microsoft hefur ákveðið að taka slaginn við Google um fréttaþjónustu á Netinu. Í tengslum við MSNBC fréttasíðu fyrirtækisins verður opnuð ný vefsíða, "Newsbot" þar sem dregnar verða í dilka fréttafyrirsagnir frá rúmlega 4.800 fréttamiðlum, í líkingu við það sem Netnotendum þekkja af Google News vefsíðunni. Á nýju Microsoft síðunni geta notendur ennfremur valið fréttir eftir eigin höfði.


 

Nýtt og klókt afbrigði af MyDoom veirunni skaut leitarvélar í kaf í gær. Um var að ræða svokallaða DoS árás (Denial-of-service) þar sem flóð af tölvupósti á tiltekin skotmörk leiða til þess að netþjónarnir ráða ekki við magnið. Nýja veiran er öllum ýmsum nöfnum, MyDoom.M, MyDoom.M@mm eða MyDoom.O, gerði óskunda hjá fjórum leitarvélum, AltaVista, Yahoo, Google og Lycos en tvær þær síðasttöldu áttu í miklu basli við að svara fyrirspyrjendum.


 

Hugbúnaðarrisinn Microsoft tilkynnti í fyrradag um þá ákvörðun að greiða $75 milljarða af handbæru fé sínu til hluthafa á næstu fjórum árum. Þessi aðgerð er að áður óþekktri stærðargráðu en Microsoft hefur nýverið hafið hóflegar arðgreiðslur til hluthafa. Fyrirtækið hefur legið undir þrýsting um að breyta stefnu sinni í arðgreiðslumálum, þar sem dregið hefur úr söluvexti, auk þess sem bitastæðum fjárfestingartækifærum fyrir fyrirtæki af þessari stærðargráðu hefur fækkað. Hingað til hefur ástæða Microsoft fyrir því að greiða ekki út arð verið sú að stjórnendur hafa talið fyrirtækið geta ávaxtað fjármunina betur en hluthafar almennt. Nú virðist staðan breytt og því er ákveðið greiða þetta mikla fé út til hluthafa.


 

Netnotendur hafa hlaðið niður tvöfalt fleiri kvikmyndum, leikjum og lögum á þessu ári borið saman við síðasta ár, þrátt fyrir umfangsmiklar aðgerðir gegn slíkri háttsemi. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu CacheLogic, fyrirtækis í Bretlandi, sem birt var í dag. Fram kemur í Reutersfrétt að betri Nettengingar og betri tækni til að þjappa skrám hafi leitt til þess að Netnotendur geti hlaðið niður stærri skrám en áður á skemmri tíma.


 

DVD diskar verða úreltir innan tíu ára ef ekki fyrr að mati Bill Gates, stofnanda og stjórnarformanns Microsoft. Hann var inntur eftir því í viðtali við þýska tímaritið Bild fyrir skömmu hvernig heimilsafþreyingin yrði í framtíðinni og svaraði því til að DVD diskar ættu sér enga framtíð. Hann sagði fáranlegt að fólk væri að bera á sér kvikmyndir og tónlist á litlum silfruðum diskum og stinga þeim inn í tölvur.


 

Samskiptatækni Lögreglunnar í Reykjavík er um þessar mundir að taka miklum tækniframförum í takt við kröfur nútímans. Tekin er í notkun ný símatækni með svokallaðri Centrexvæðingu á símkerfi embættisins. Lögreglan í Reykjavík og Síminn gerðu nýlega með sér samning um hið nýja kerfi, sem sett var á markað fyrir um tveimur árum. Með Centrexkerfinu hefur lögreglan sameinað öll símanúmer og síma embættisins í eitt kerfi, sem fær nýtt símanúmer, 444 1000.


 

PharmaNor hf. og AGR hafa undirritað samning um kaup á innkaupa- og birgðastýringarhugbúnaðinum AGR Innkaup. Megin markmið innleiðingarinnar er að ná fram hagræðingu í birgðastýringu, hækkun á þjónustustigi og aukningu í sjálfvirkni innkaupaferlisins. Auk PharmaNor þá hafa fjölmörg íslensk fyrirtæki innleitt hugbúnaðinn AGR Innkaup, t.d. Aðföng, ÁTVR, Essó, Fríhöfnin, Húsasmiðjan, Johan Rönning, MS, Nathan&Olsen, Oddi, Olís, Orkuveita Reykjavíkur og SS.


 

BlueStar undirritaði nýlega samning við Landsteina Streng um dreifingu á Infostore verslunarlausninni um Bandaríkin og Kanada. Infostore er samhæft kassa- og bakvinnslukerfi fyrir verslanir og veitingageirann. BlueStar er í hvað örustum vexti af þeim alþjóðlegu fyrirtækjum sem dreifa virðisaukandi og sérhæfðum tæknilausnum og mun starfa með Watts Up, Inc. við dreifingu Infostore.


 

Microsoft hefur greitt 497 milljóna evru sektina sem framkvæmdastjórn Evrópusambandalagsins lagði á fyrirtækið fyrir meint brot á samkeppnislögum. Talsmaður ESB greindi frá þessu í dag. Microsoft greiddi sektina þrátt fyrir að hafa áfrýjað málinu til Evrópudómstólsins. Framkvæmdastjórnin taldi sem kunnugt er að Microsoft væri að notfæra sér markaðsráðandi stöðu í Evrópu og krafðist þess af fyrirtækinu að hætta að senda frá sér Windows stýrikerfi með Windows Media hugbúnaðinum.


 

KB banki hefur valið SAP bankalausn fyrir inn- og útlána starfssemi bankans. Markmið bankans með kaupunum er að samþætta starfsemi sína á Norðurlöndunum, staðla ferla og draga úr fjölda sértækra kerfa sem eru nú í notkun innan bankans. Nýherji mun annast innleiðingu bankalausnanna í nánu samstarfi við starfsfólk bankans og SAP.


 

Tæknival var eitt fimmtán íslenskra fyrirtækja tilnefnt til viðurkenningar umhverfisráðuneytis vegna framúrskarandi starfs að umhverfismálum. Umhverfisráðherra veitir árlega þessa viðurkenningu, Kuðunginn, fyrirtæki eða stofnun sem skarar fram úr á sviði umhverfismála. Að þessu sinni hlut fyrirtækið Hópbílar hf, viðurkenninguna.Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.