*

sunnudagur, 5. desember 2021

september, 2004

 

1. október 2004


 

Í dag opnaði Apple verslun í Kaupmannahöfn en þetta mun vera fyrsta sérhæfða Apple verslunin í Danmörku. Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að áhuginn hafi verið þvílíkur fyrir opnuninni að yfir 100 manns voru í svefnpokum fyrir utan verslunina aðfaranótt föstudagsins. Þar segir ennfremur að lögreglan hafi líkt þessu við tónleika svo mikill var ágangurinn á fyrstu tímum opnunarinar. Apple verslunin í Kaupmanna höfn er í eigu Öflun ehf/ Apple IMC á Íslandi.


 

Í október og nóvember verður hraðinn á öllum ADSL tengingum viðskiptavina aukinn umtalsvert. Vinna við að auka hraðann á tengingum er hafin, en viðskiptavinir þurfa ekki að biðja sérstaklega um aukninguna. Viðskiptavinir sem hefja ADSL áskrift frá og með deginum í dag fá áskrift samkvæmt nýju vöruframboði.


 

Samkvæmt nýrri könnun eru konur betri en karlar í því að hafa stjórn á tölvupóstinum sínum. Konur eru tuttugu mínútum lengri á hverjum degi við slíka vinnu og þær hafa einnig betri skipulag á pósthólfinu. Að því er fram kemur í danska Netmiðlinum ComOn náði könnunin til 500 stjórnenda hjá breskum fyrirtækjum. Að jafnaði hefur breskur karlmaður 444 bréf í pósthólfi tölvunnar sem bíða afgreiðslu en konurnar eru með 302 bréf - þrátt fyrir að þær taki á móti jafn mörgum tölvupóstssendingum á dag.


 

Canon hefur greint frá þeim áformum fyrirtækisins að fjárfesta fyrir 1,8 milljarða dollara í samstarfsverkefni með Toshiba. Verkefnið felst í því að þróa og framleiða nýja gerð af sjónavarpsskjám, svokallaða flatskjái. Til þessa hefur Canon verið þekktast fyrir ljósritunarvélar og myndavélar en nú hyggst félagið hasla sér völl á neytendamarkaði fyrir sjónvörp.


 

DVD diskar framtíðarinnar gætu geymt hundrað sinnum meira af gögnum en núverandi diskar, segir í frétt í Netútgáfu BBC. Þar er sagt frá þróunarstarfi vísindamanna við Imperial College í London sem eru að finna nýjar leiðir við geymslu gagna sem gæti þýtt að diskar gætu geymt eitt þúsund gígabæti eða 472 klukkutíma af efni. Tæknin kallast Multiplexed Optical Data Storage (Mods) og var kynnt á ráðstefnu um gagnageymslur í Tævan. Núverandi DVD diskar geyma 8.5Gb en nýjar kynslóðir diska sem áður hafa verið kynntar geta geymt 30 og 50Gb.


 

Sjónvarpsáhorfendur munu innan tíðar geta séð eftirlætissjónvarpsþætti sína eins og "Friends," "Big Brother" og "The Simpsons" gegnum símalínur. Sjónvarpsþáttum að eigin vali verður dreift um símalínur í nýrri kynslóð sjónvarpa sem byggja á háhraða tengingum við Netið, að því er fram kemur í Reutersfrétt. Slíkt sjónvarp kallast TVIP og hefur þegar skotið rótum í Evrópu hjá t.d. France Telecom, FastWeb á Ítalíu og HomeChoice í Bretlandi.


 

verður unnið í samráði við Verslunarráð


 

Sjónvarp er ekki lengur helsta afþreyingartækið á heimilum ef marka má niðurstöður nýrrar könnunar sem gerð var af Online Publishers Assiociation í Bandaríkjunum. Í aldurshópnum 18-54 ára kváðust 45.6% fremur velja Netið en sjónvarp þegar spurt var um miðla til skemmtunar. Yngra fólkið í 1235 manna úrtaki tók Netið fram yfir sjónvarp en valið á Netinu var þó ekki bundið við yngra fólkið. Þegar spurt var hvorn miðilinn fólk veldi fremur greiddu 50,5% Netinu atkvæði í aldurshópnum 18-24 ára en aðeins 28,5% völdu sjónvarp.


 

24. september 2004


 

Íslandsbanki býður nú upp á þá nýjung að fyrirtæki og einstaklingar geti í fyrsta skipti skilað virðisaukaskattsskýrslum og greitt um leið í Netbanka einstaklinga og Fyrirtækjabankanum. Í þessari nýju þjónustu, sem verið hefur í þróun undanfarna mánuði, felst mikið hagræði og betri yfirsýn, því hægt er að nálgast eldri virðisaukaskattskýrslur í Netbankanum.


 

Heimsmarkaður fyrir MP3 tónlistarspilara verður í mikilli uppsveiflu á næstu árum og verður kominn í 58 milljarða dollara árið 2008, að mati greiningarfyrirtækisins IDC. Eitt stærsta atriðið í greiningu fyrirtækisins er sú yfirvofandi samkeppni sem iPod spilarinn frá Apple stendur frammi fyrir en talið er að nokkrir framleiðendur markaðssetji lófaspilara fyrir tónlist sem byggja á eins tommu eða minni hörðum diskum.


 

Skilnaður Jóakims prins og Alexöndru prinsessu í Danmörku leiddi til þess að heimsóknarmet voru slegin hjá dönskum Netmiðlum. Samanlagðar heimsóknir á danska Netmiðla hefur aldrei í sögunni verið meiri en í síðust viku þegar greint var frá því að hjónaband prinsins væri farið út um þúfur. Að mati formanns samtaka danskra Netmiðla, Foreningen af Danske InternetMidier, sýnir heimsóknametið að Danir reiða sig í vaxandi mæli á Netið og þegar stórtíðindi gerist leiti fólk frétta á Netmiðlum.


 

Fyrirtækið að baki stærstu og vinsælustu leitarvélinni á vefnum, Google, hefur ráðið til sín fyrrverandi starfsmenn Microsoft úr Internet Explorer deildinni og sterkur orðrómur er kominn á kreik þess efnis að fyrirtækið ætli að koma sér upp eigin vafra með heitinu Gbrowser. Samkvæmt frétt í Politiken hefur Google þegar tryggt sér lénið gbrowser.com. Google hefur á síðustu misserum aukið leitarþjónustu á vefnum og sett á laggirnar eigin tölvupóstsþjónustu, Gmail.


 

Því sem næst annar hver Dani eldri en fimmtán ára, eða 48%, nota farsímann til að senda og móttaka SMS skilaboð á hverjum degi. Til samanburðar eru aðeins 44% sem nota farsímann daglega til símtala. Þetta eru niðurstöður greiningafyrirtækisins IDC, sem Netmiðillinn ComOn greinir frá. SMS skilaboð eru áberandi vinsælust meðal farsímanotenda á aldrinum 15-20 ára þar sem 90% nota SMS daglega. Í þessum aldurshópi notar rúmlega helmingur símann til að hringja eða svara símtölum.


 

Eina fyrirtækið með IP Communications Express Specialization


 

Finnska farsímarisinn er að gera tilraunir með að nota farsíma til að notendur geti skipst á stafrænum skrám, myndum, videó eða tónlist. Eins og allir vita hefur svokallaður P2P (peer-to-peer) hugbúnaður notið gífurlegra vinsælda meðal tölvunotenda sem allt frá dögum Napster hafa hlaðið niður lögum og dreift sín á milli í milljarðatali. Skilin milli farsíma og tölva minnka sífellt og nú orðið er hægt að taka bæði ljósmyndir og kvikmyndir á farsíma og því augljóst notagildi af því að þróa hugbúnað til skráaskipta fyrir farsímanotendur. Og það er einmitt það sem Nokia vinnur að.


 

17. september 2004


 

Brasilía er miðstöð tölvuþrjóta og Netsvindlara. Starfsemi tölvuþrjóta er ekki glæpsamleg samkvæmt lögum í Brasilíu og þar er auðveldur aðgangur að netþjónum fyrir þá sem dreifa barnaklámi. Þetta kom fram á alþjóðlegri ráðstefnu um tölvuöryggismál sem einmitt er haldin í höfuðborg tölvuþrjótanna, Brasilíu. Uppruni 96 þúsund tölvuárása á síðasta ári er rakinn til Brasilíu en það er sexfalt fleiri árásir en frá nokkru öðru landi.


 

Cisco Systems kynnti í dag til sögunnar nýja línu af aðgangsbeinum. Um er að ræða beina sem eru fyrstu sinnar tegundar í heimi netiðnarins en þeir eru með innbyggða þjónustumöguleika er snúa að gagna-, tal- og myndflutningum sem og öðrum krefjandi þjónustum. Beinarnir eru ætlaðir fyrir lítil og meðalstór netumhverfi og henta því sérstaklega vel fyrir fyrirtæki á íslenskum markaði. Nýju 1800, 2800 og 3800 beinarnir eru fyrstu beinar sinnar tegundar sem sem veita allar kjarnaaðgangsþjónustur á einu bretti.


 

Viðskiptaháskólinn á Bifröst hefur samið við Skýrr hf. um kaup á upplýsingakerfi fyrir skólann. Upplýsingakerfið er stöðluð hugbúnaðarlausn frá Skýrr og byggir á sambærilegu kerfi sem Skýrr hefur þróað fyrir framhaldsskólana í landinu. Samningurinn felur í sér þróun, aðlögun og uppsetningu upplýsingakerfisins fyrir Viðskiptaháskólann, ásamt hýsingu og rekstri þess í kjölfarið. Jafnframt er kveðið á um sólarhringsþjónustu Skýrr við kerfið.


 

Tölvufyrirtækið Apple Computer, framleiðandi iPod tónlistarspilarans og eigandi iTunes tónlistarbúðarinnar, verður líkast til að reiða fram fúlgur fjár til Apple Corporation, fyrirtækis Bítlanna sálugu, til að ná fram sáttum í síðustu deilu fyrirtækja um vörumerkið Apple. Á sínum tíma, 1976, féllst tölvufyrirtækið á það að halda sig fjarri viðskiptum með tónlist en deildur fyrirtækjanna blossuðu upp á ný árið 1989 þegar hægt var að hlusta á tónlist í Apple tölvum.


 

Netfyrirtækið Yahoo! greindi frá því í dag að fyrir dyrum stæðu kaup á einkafyrirtækinu Musicmatch. Með kaupunum hyggst Yahoo! efla tónlistarþjónustu fyrirtækisins á Netinu en Musicmatch hefur boðið Netnotendum hugbúnað að til að stýra stafrænum lagasöfnum og hlusta á útvarpsstöðvar á Netinu. Einnig geta viðskiptavinir hlaðið niður tónlist frá verslun fyrirtækisins. Yahoo! rekur sem kunnugt er Launch tónlistarveituna á Netinu, sem hefur á boðstólum Netútvarp og tónlistarmyndbönd og hefur tekjur af auglýsingasölu.


 

Það er líklegt að allir Netnotendur hrökkvi í kút við að heyra þetta en menn fullyrða að veraldarvefurinn sé að hruni kominn. Þannig hljóðar í það minnsta upphaf fréttar í breska dagblaðinu The Guardian í morgun. Vitnað er í ummæli Patricks Gelsinger, tækistjóra hjá örgjörvarisanum Intel, en hann sagði á ráðstefnu í San Francisco á dögunum að Netið gæti ekki lengur ráðið við umferðarþungann sem fer um kerfið. Hann sagði að innviðir Netsins væru byggðir á þrjátíu ára gömlu líkani og að Netið réði ekki við að vera öruggt undir því mikla álagi sem það væri.


 

Hugbúnaðarfyrirtækið Íslensk fyrirtæki ehf. (e.c. Software), bjóða í samvinnu við Microsoft, Útflutningsráð Íslands og ÍMARK, til ráðstefnu um markaðssetningu á Netinu. Ráðstefnan er ætluð öllum þeim sem koma að rekstri vefsetra með einum eða öðrum hætti.


 
Hitt og þetta
13. september 2004

Torgið kveður

Einn af elstu vefjunum í mælingu hjá Modernus, torg.is, hefur nú kvatt lista Samræmdrar vefmælingar. Torgið var einn af frumherjunum 14 sem fyrstir hófu að birta tölur um notkun þann 1. maí 2001. Torgið hverfur þó ekki alveg því til stendur að gera það að sjálfstæðum vefhluta annars vefsetur. Þar með er þó lokið sjálfstæðri sögu Torgsins sem ásamt Strikinu var ætlað að verða ein helsta vefgátt lánsins.


 

Tölvupóstur er orðinn eitt skæðasta vopnið í valdabaráttu innan fyrirtækja, segir í niðurstöðum nýrrar rannsóknar frá Monash háskólanum í Ástralíu. Rannsóknin fólst í því að kanna hvernig starfsmenn fyrirtækja nota þessa algengu samskiptaleið en starfsmenn þriggja stórfyrirtækja á mismunandi sviðum voru undir smásjá vísindamanna. Í ljós kom m.a. að tölvupósturinn er notaður til að kynda undir neikvæðni, starfsmenn geyma t.d. tölvupóst sem sagður er sendendum til vansa í því skyni að geta gripið í hann sem vopn síðar gegn viðkomandi starfsmanni.


 

Örgjörvarisinn Intel tók í síðustu viku ákvörðun um meiriháttar stefnubreytingu í framleiðslu örgjörva. Hingað til hefur kapp verið lagt á það í þróun örgjörva að að gera þá sífellt hraðvirkari en frá þeirri stefnu verður nú horfið og megináherslan lögð á tvískipta örgjörva, svokallaða "dual-core" tækni. Það merkir á mannamáli að hafa í raun tvo örgjörva í stað eins. Frá árinu 2006 verða langflestir örgjörvar fyrirtækisins fyrir borðtölvur, fartölvur og netþjóna, tvískiptir, segir í frétt SFGate.


 

einn vinsælasti vefur landsins getur haldið áfram að vaxa


 

10. september 2004


 

Össur hefur valið MBS Navision hugbúnaðarlausnir frá Maritech fyrir starfsstöðvar fyrirtækisins í Norður Ameríku, en um er að ræða starfsstöðvarnar í Alisio Viejo, Califoníu, Seattle og Richmont. Stefna Össur er að allar starfstöðvar fyrirtækisins séu með MBS Navision, en Össsur hf. hefur notast við MBS Navision frá Maritech í nokkur ár. Markmiðin með innleiðingunni eru m.a. að staðla viðskiptaferla fyrirtækisins og draga úr notkun sértækra kerfa. Maritech mun annast innleiðingu og ráðgjöf í nánu samstarfi við starfsfólk Össurar segir í tilkynningu Maritech.


 

Opera Software kynnir nýjan búnað


 

Tekist hefur að senda 859 gígabæti þvert yfir Atlantshafið á minna en 17 mínútur. Með slíkum hraða, 6,63 gígabita á sekúndu, væri unnt að hlaða niður efni af DVD diski á fáeinum sekúndum. Þetta er með öðrum orðum frétt um nýtt hraðamet í gagnaflutningi milli tveggja netþjóna sem staðsettir eru hvor sínum megin Atlantshafsins, annar í Sviss og hinn í Bandaríkjunum. Hraðaaukningin frá fyrra meti nemur 35%, hvorki meira né minna.


 

Netnotendum með í háhraðatengingu við Netið hefur fjölgað mjög á skömum tíma og nú er svo komið að fjórir af hverjum tíu Netnotendum nýta sér slíkar tengingar, samkvæmt nýrri könnun NOP World. Aukningin milli ára nemur 105%. Bretar hafa sérstaklega fallið fyrir háhraðatengingum á síðustu mánuðum en á sex mánaða tímabili fór hlutfall Netnotenda með slíkar tengingar úr 27% í 41%.


 

Nokia símar munu innifela hugbúnað frá fyrirtækinu


 

Stjórnvöld í Kína hafa hert baráttuna gegn Net- og farsímaklámi með því að hóta þeim sem dreifa slíku efni allt að lífstíðarfangelsi,að því er fram kemur hjá Xinhua fréttastofunni. Yfirvöld hafa á síðustu vikum skorið upp herör gegn þessum óþverra og sagt að auðvelt aðgengi að slíku efni Netinu og annars staðar sé áhyggjuefni því það muni hafa slæm áhrif á æskuna og samfélagið. Herferðin hófst í júlí og frá þeim tíma hefur hundruð vefsíðna verið lokað og þrjú hundruð manns verið tekin höndum.Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.