*

laugardagur, 16. október 2021

mars, 2005

 

Microsoft hefur hleypt af stokkunum nýrri þjónustu í Bandaríkjunum sem felur í sér að fyrirtækið býður eigendum snjallsíma, lófatölva og annarra farandgripa með Windows stýrikerfum að hlaða niður sjónvarpsefni. Um er að ræða ýmiss konar dagskrá sjónvarpsstöðva, fréttaþætti, íþróttaþætti, tónlistarmyndbönd og kvikmyndir frá sjálfstæðum framleiðendum en Microsoft hefur gert samninga við ein tuttugu fjölmiðlafyrirtæki um efni.


 

Bandaríkjamenn vilja ekki tala í farsíma á flugferðum. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem birtist í Sacramento Bee í Kaliforníu. Blaðið spurði lesendur sína álits á farsímanotkun í háloftunum og flestir óttast helst að sessunautar tali hástöfum í farsíma og hrópi: "Hæ elskan, ég er núna að fljúga yfir Los Angeles!" Eins og kunnugt er mjög til umræðu að heimila farsímanotkun í farþegaflugi en slíkt verður þó undir hverju og einu flugfélagi komið.


 

Farsíminn er plötuspilari framtíðarinnar, ekki iPod, að mati stjórnenda Ericsson. Símafyrirtækið hefur opnað tónlistarbúð. Verslunin selur þó ekki beint til neytenda heldur er henni ætlað að aðstoða farsímafyrirtæki sem vilja tilbúnar lausnir fyrir viðskiptavini sína. Samningar eru í höfn milli Ericsson og plötufyrirtækjanna Warner Music og Sony BMG en í versluninni, sem kallast M-use, eru í byrjun 100 þúsund lög.


 

TM Software er orðið Citrix Silver Solution Partner. Citrix er leiðandi í þróun lausna í innri uppbyggingu og aðgengi að upplýsingum í fyrirtækjum og opinberum stofnunum. Þorkell Guðjónsson ráðgjafi og Ómar Gísli Sævarsson kerfisstjóri hafa lokið CCA-prófgráðu (Citrix Certified Administrator). Áður hafði Ómar Örn Jósepsson viðskiptastjóri hlotið CCSP-gráðu (Citrix Certified Sales Professional).


 

Um áramótin gengu Síminn og Skandinavía Leikir frá langtímasamningi varðandi sölu tölvuleikja á vefsvæðum Símans siminn.is og hugi.is. Síminn og Skandinavía Leikir hófu samstarf síðastliðið sumar, þegar leikjasíða var opnuð á hugi.is, en nú hafa fyrirtækin aukið samstarf sitt til muna á þessum vettvangi. Viðskiptavinum Internetþjónustu Símans munu m.a. standa til boða ýmis tilboð á tölvuleikjum á svæðunum segir í tilkynningu fyrirtækisins.


 

Samtök myndrétthafa á Íslandi ? SMÁÍS hafa tekið í notkun nýja veflausn sem heldur utan um aðsókn í kvikmyndahús og gerir kvikmyndahúsunum kleift að vinna með hagkvæmum hætti tölfræði um aðsókn að kvikmyndum.


 

Franska fréttastofan AFP hefur ákveðið að höfða mál gegn eigendum Google. Hjá AFP eru menn orðnir langþreyttir á notkun frétta og ljósmynda í heimildarleysi á fréttavefsíðu Google en eigendur leitarvélarinnar hafa ekki svarað kröfum AFP um að hætta birtingu á efni stofunnar. AFP fer fram á rúman milljarð íslenskra króna í bætur. Málið er rekið fyrir dómstóli í Bandaríkjunum.


 

18. mars


 

Notkun Netsía til að hefta aðgang að ósæmilegu efni hefur aukist gífurlega meðal bandarískra foreldra sem eiga börn á unglingsaldri. Engu að síður kemur í ljós í könnun sem birt var í gær að unglingar hegða sér á Netinu með þeim hætti sem foreldrar myndu ekki fallast á. Könnun Pew Internet & American Life Project sýnir að 54% Nettengdra bandarískra fjölskyldna með börn á táningsaldri nota síur en sambærileg tala var 41% árið 2000. Það merkir að 12 milljónir fjölskyldna með ungling á heimilinu nota slíkar síur.


 

Og Vodafone hefur tekið í notkun GSM senda í Hvalfjarðargöngunum sem tryggja viðskiptavinum enn betri þjónustu á ferð þeirra um þjóðveg 1. Um er að ræða lokahluta verkefnis sem staðið hefur yfir frá því í fyrra og felur í sér helmings fjölgun á sendum á GSM dreifikerfi Og Vodafone á Vesturlandi.


 

Evrópubúar verða að bíða um óákveðinn tíma eftir nýju lófaleikjatölvunni frá Sony því forráðamenn fyrirtækisins hafa gefið út þá yfirlýsingu að útgáfunni á PSP hafi verið frestað. Skýringin er sögð sú að skortur er á leikjatölvunni strax og hún kemur á markað í Bandaríkjunum. Ætlunin var að setja PSP leikjatölvuna á markað bæði í Bandaríkjunum og Evrópu í lok marsmánaðar. Tölvan kom á markað í Japan í lok síðasta árs og hefur selst í 1,2 milljónum eintaka.


 

Allar sperrur og stálgrind nýja íþróttahússins á Suðureyri eru komnar upp og framkvæmdir eru í fullum gangi segir í frétt Bæjarins besta. Innan skamms verður hafist handa við að klæða húsið að utan og stefnt að ljúka því á næstu tveimur vikum. Að því loknu verður byrjað að vinna innandyra.


 

Ný rannsókn leiðir í ljós að veiruárásir á tölvukerfi eru ein helsta ástæða fyrir streitu hjá yfirmönnum upplýsingatæknimála hjá fyrirtækjum. Breskir vísindamenn hafa kannað hvernig yfirmenn upplýsingatæknimála hjá evrópskum fyrirtækjum takast á við sífellt meiri ógnanir vegna tölvuveira og annarra vandamála sem tengjast öryggismálum. Alls sögðu 72% aðspurðra að þeir ættu á hættu að verða reknir ef fyrirtækið yrði fyrir skaða af völdum veiru.


 

Á undanförnum árum hafa risið upp á Íslandi nokkur gríðarstór íþróttahús sem öll eiga það sammerkt að rúma heilan knattspyrnuvöll. Þegar hafa verið reist fjögur hús upp á 50.500 fermetra og innan skamms hefjast framkvæmdir við tvö ný 8.800 fermetra hús á Akranesi og í Fjarðarbyggð. Þegar þau verða risin verða komnir 78 þúsund fermetrar og 6 knattspyrnuvellir í fullri stærð undir þak. Ekki er þá meðtalin Laugardalshöllin sem nú er unnið við að stækka, en þar er reyndar ekki um yfirbyggðan knattspyrnuvöll að ræða.


 

Samtök breskra hljómplötuútgefenda fá í hendur nöfn og heimilisföng 31 einstaklings sem þau hafa kært fyrir ólögmæta dreifingu á tónlistarskrám yfir Netið. Hæstiréttur úrskurðaði í síðustu viku að sex Netveitum bæri að láta í té upplýsingar um þessa einstaklinga sem samtökin, The British Phonographic Industry (BPI), telja að hafi verið stórtækir í ólöglegri dreifingu á tónlist. Í fyrstu aðgerðum samtakanna sem hófust í október á síðasta ári var samið við 23 af 26 einstaklingum fyrir sömu brot á höfundarrétti.


 

Talið er að 820 milljónir tölva séu nú í notkun í heiminum. Á næstu tveimur árum er talið að þeim fjölgi og eftir tvö ár verði þær orðnar einn milljarður talsins. Þetta kemur fram í mati Computer Industry Almanac. Eins og vænta eru flestar tölvur í Bandaríkjunum, 220 milljónir eða 27% heildarinnar, í Japan eru 69 milljónir tölva og Kínverjar eru komnir í þriðja sæti yfir tölvueign í heiminum, með 53 milljónir.


 

Fujitsu Siemens sýnir á Cebit tæknimessunni í Hannover nýja umhverfisvæna tölvu þar sem blýmagnið hefur verði minnkað úr tólf grömmum niður í eitt gramm. Fyrirtækið notar tækifærið þegar þessi stærsta tæknisýning veraldar verður opnuð á morgun að kynna nýjustu "grænu" tölvuna, Scenic C620, sem inniheldur aðeins eitt gramm af blýi. Stjórnendur Fujitsu Siemens, sem leggja mikla áherslu á umhverfisvæna framleiðslu, gera því skóna að unnt verði að framleiða blýlausar fyrirtækjatölvur fyrir árslok en heimilstölvur verði án blýs í febrúar á næsta ári.


 

Bandaríkjamenn sem treystu á Netið til að fá pólískar fréttir tengdar forsetakosningum voru sex sinnum fleiri árið 2004 borið saman við árið 1996. Þessi breyting helst í hendur við snarminnkandi áhrif dagblaða á sama tíma. Fram kemur í Chicago Sun-Times að 18% fullorðinna Bandaríkjamanna töldu Netið annan tveggja mikilvægustu miðlanna um fréttir af kosningabaráttunni í fyrra en 3% voru þeirrar skoðunar árið 1996.


 

Íslendingar eru komnir í annað sæti á árlegum lista World Economic Forum yfir þjóðir sem nýta upplýsingatæknina hvað best. Ísland var á síðasta ári í tíunda sæti listans og því hækkum við okkur þjóða mest á milli ára. Könnunin náði til 104 landa. Singapúr er í fyrsta sæti en á eftir Íslandi koma Finnland, Danmörk, Bandaríkin og Svíþjóð.


 

Þjónustuver Skýrr býður nú virðisaukandi þjónustu sem er sérsniðin fyrir þau fyrirtæki og stofnanir sem annað hvort þurfa aðgang að sérfræðingum á sviði upplýsingatækni allan sólarhringinn eða vilja veita viðskiptavinum sínum slíkan aðgang.


 

Þann 25. febrúar síðastliðinn var undirritaður samstarfssamningur milli Hveragerðisbæjar og Íþróttafélagsins Hamars. Samningurinn gildir til ársloka 2009 og myndar ramma utan um samstarf bæjafélagsins og Hamars á tímabilinu. Samningurinn tekur til afnota félagsins af íþróttamannvirkjum bæjarins sem og beinna fjárframlaga til félagsins sem fara stig hækkandi á tímabilinu. Meðal nýjunga í samningnum er að Hamar fær nú til afnota húsnæði undir félagsstarf sitt í viðbyggingu við suðurenda íþróttahúss sem verður gríðarleg lyftistöng fyrir allt starf Hamars. Kveðið er á um í samningnum að sem flestar deildir félagsins öðlist gæðaviðurkenninguna ?Fyrirmyndarfélag" frá ÍSÍ. Eins er óumdeilanlegt forvarnargildi íþótta ein af forsendum samstarfssamningsins. Það voru Þorsteinn Hjartarson, forseti bæjarstjórnar Hveragerðis, og Guðríður Aadnegard, formaður Hamars, sem undirrituðu samninginn.


 

Kauphöll Íslands hefur undirritað samning við ráðgjafar- og þjónustusvið Opinna kerfa um netvarpsþjónustu fyrir skráð félög. Í kjölfar uppgjöra hafa skráð fyrirtæki í Kauphöll Íslands í auknum mæli haldið kynningarfundi þar sem greiningaraðilar og fjárfestar hafa fengið tækifæri til að koma á framfæri spurningum til forsvarsmanna fyrirtækja. Einnig hefur færst í vöxt að skráð fyrirtæki haldi kynningarfundi af öðru tilefni en í tengslum við birtingu uppgjörs.


 

Það kannast eflaust flestir íþróttaáhugamenn við vefinn Sport.is sem hefur frá árinu 2001 birt allt það helsta sem er að gerast í íþróttalífinu jafnt hér heima sem erlendis enda notið mikilla vinsælda. Sport.is er rekið af einkahlutafélaginu Markmönnum sem er í eigu þeirra Þórs Bærings Ólafssonar, Braga Hinriks Magnússonar og Hilmars Þórs Guðmundssonar. Þór segir að upphaflega hafi vefurinn Sport.is verið aðal starfsemi fyrirtækisins en sé þó í dag bara lítill hluti, en þó mikilvægur. En hvað gerir fyrirtækið fleira?


 

Árið 2004 var metár í sölu farsíma en þá seldust 674 milljónir farsíma í heiminum öllum eða 30% fleiri símar en fyrra ár. Salan var langt umfram væntingar, segir í skýrslu frá greiningafyrirtækinu Gartner, sem telur að farsímaframleiðendur megi áfram reikna með mikilli sölu farsíma. Flott útlit og nýjungar eins og niðurhal tónlistar gætu leitt til aukinnar sölu á þessu ári, segir í nýútkominni skýrslu frá Gartner.


 

segir ný dönsk rannsókn


 

Á síðasta ári var slegið met í fjölda auglýsinga á bandarískum vefsíðum. Netauglýsingar hafa ekki verið fleiri frá því árið 2000 þegar dot.com var tískuorðið. Ljóst er Netið sem auglýsingamiðill er í mikilli uppsveiflu en á bandarískum vefjum nam vöxturinn 32% milli áranna 2003 og 2004. Í fréttBerlingske Tidendeum málið segir að svipaða sögu eða betri sé að segja frá Danmörku er þar varð þvi sem næst tvöföldun í veltu Netauglýsinga milli ára.


 

mbl.is áfram mest notaður


 

Viðskiptavinir Microsoft, smásalar og keppinautar koma til með að segja framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í þessari viku hvort þeir telji að fyrirtækið hafi gert nóg til þess að fylgja tímamótaúrskurðinum frá síðasta ári vegna brota á samkeppnislögum. Samkvæmt fréttThe Timesí London koma skoðanir umræddra aðila til með að hafa áhrif á úrskurð framkvæmdastjóra ESB en telji þeir að Microsoft hafi ekki með fullnægjandi hætti fylgt þeim leiðum sem ákveðnar voru til að tryggja aukna samkeppni á hugbúnaðarmarkaði getur ESB beitt dagsektum.Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.