*

laugardagur, 16. október 2021

apríl, 2005

 

Nettónlistarbúðin Rhapsody er að opna á nýjanleik með talsverðum lúðrablæstri og býður viðskiptavinum 25 lög án endurgjalds. Verslunin, í eigu hugbúnaðarfyrirtækisins RealNetworks, hyggst veita Apple harða samkeppni og býður viðskiptavinum þrenns konar þjónustu, Rhapsody 25, Rhapsody Unlimited og Rapsody To Go. Láta verður þess getið að því miður er þessi þjónustu einvörðungu í boði fyrir Bandaríkjamenn.


 

Sjötta árið í röð hefur markaðshlutdeild EMC á heimsvísu aukist. Meðal tíu umsvifamestu fyrirtækja í gagnageymslulausnum varð aukningin mest hjá EMC á síðasta ári. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu greiningarfyrirtækisins Gartner. Aukningin milli ára hjá EMC nam rúmlega tveimur prósentustigum og hlutfall fyrirtækisins í nýjum samningum á árinu nam 29,5%. Þessar fréttir koma í beinu framhaldi af tilkynningu um afkomu EMC á fyrsta ársfjórðungi sem sýndi 26% veltuaukningu milli ára.


 

Sólin er aftur farin að skína hjá tveimur stærstu framleiðendum farsíma, Nokia og Motorola. Finnarnir hafa um 40% markaðshlutdeild í farsímum í heiminum og gleðjast mjög yfir tölum um árangur á fyrsta ársfjórðungi 2005 en Nokia seldi þá 17% meira en í fyrra, fyrir 7.4 milljarða evra. Og nú er reiknað með 15% söluaukningu á árinu öllu hjá Nokia. Motorola hefur ekki frá 2002 haft jafn mikla markaðshlutdeild og nú, mælist með 17.1% og seldi á fyrsta ársfjórðungi 1.4% meira en á sama tíma í fyrra og hefur aldrei selt fleiri farsíma í Evrópu.


 

Raftækjafyrirtækjum fjölgar sem taka þátt í sáttaviðræðum Sony og Toshiba um þróun á nýjum staðli fyrir nýja kynslóð DVD diska en viðræðurnar miða að því að afstýra fyrirsjáanlegum átökum. Meðal fyrirtækja sem eru komin að sáttaborðinu eru Panasonic og Philips. Í Reutersfrétt er haft eftir ónafngreindum heimildamönnum að viðræðurnar séu á frumstigi, þær geti tekið langan tíma og að jákvæð niðurstaða sé ekki tryggð. Um þriggja ára skeið hafa Sony og Toshiba farið fyrir hópi fyrirtækja með ólíkar hugmyndir um framtíðarsnið DVD diska.


 

Símtölum um Netið milli tölvunotenda hefur fjölgað gífurlega að undanförnu en notendur Skype hugbúnaðarins eru nú orðnir ein milljón talsins. Samkvæmt frétt MobileMag tilkynnti Nikas Zennstrom, forstjóri hollenska Skype fyrirtækisins, á ráðstefnunni Voice on the Net (VON) í Kanada, að á þessu ári yrði fáanleg farsímaútgáfa af Skype. Í dag er hægt að hlaða hugbúnaðinum ókeypis niður í tölvur sem keyra á Windows, Mac OSX og Pocket PC stýrikerfum en Skype áformar útgáfu fyrir Emdedded Linux, Symbian eða Windows Mobile stýrikerfi síðar á árinu.


 

Skýrr hf. hefur keypt allt hlutafé í Skríni ehf. á Akureyri og á nú fyrirtækið að fullu. Fyrir átti Skýrr 42 prósent hlutafjár, en aðrir hluthafar voru Tækifæri hf., Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Framtakssjóður Landsbankans og Brim hf. Skrín sérhæfir sig í rekstri tölvukerfa, Internetþjónustu, hýsingu, gagnaflutningi og hvers konar fjarvinnslu með höfuðáherslu á öryggi og traust vinnubrögð. Skýrr er dótturfélag Kögunar hf.


 

Í dag kemur á markað ný útgáfu af norska vafranum Operu, útgáfa 8. Nýtt útlit og nýir möguleikar eiga að skapa Operu sóknarfæri í baráttunni við Firefox um silfrið í keppninni um vinsælustu vafrana. Firefox er sem stendur næst útbreiddasti vafrinn á eftir Internet Explorer en stjórnendur Operu með Íslendinginn Jon S. von Tetzchner í broddi fylkingar telja að með nýju útgáfunni harðni keppnin um annað sætið.


 

kostnaður við hvern völl fimm til þrettán milljónir króna


 

Enska knattspyrnufélagið Watford huggst losa sig við sína bestu leikmenn í sumar hvort sem það heldur sæti sínu í 1. deild eða ekki. Fjárhagur félagsins hefur verið slæmur í vetur þrátt fyrir góða frammistöðu í deildabikarnum. Heiðar Helguson á rúmt ár eftir af sínum samningi og því er spáð að hann verði meðal þeirra fyrstu sem fari, og þá væntanlega í úrvalsdeildina. Neil Cox, Bruce Dyer og Gavin Mahon, þrír aðrir lykilmenn, eru einnig nefndir til sögunnar. Breskir fjölmiðlar segja það vera nauðsynlegt fyrir félagið að fá einhverjar greiðslur fyrir þá og losna við þá af launaskránni. Watford hefur tapað öllum þremur leikjum sínum eftir að Ray Lewington var rekinn úr starfi knattspyrnustjóra og Adrian Boothroyd, óreyndur þjálfari, var ráðinn í stað hans. Liðið var lengst af í vetur í ágætri stöðu um miðja deild en nú er það aðeins markatala sem heldur liðinu frá fallsæti og útlitið er ekki gott.


 

Að eignast fótboltalið virðist vera orðið ákveðið stöðutákn í heiminum í dag og eru þeir þónokkrir milljarðamæringarnir sem hafa keypt sér eitt slíkt. Rússneski auðkýfingurinn Roman Abramovich, sem meðal annars á enska knattspyrnufélagið Chelsea, ber höfuð og herðar yfir aðra í geiranum hvað varðar ríkidæmi, en kappinn er metinn á 857 milljarða íslenskra króna hvorki meira né minna, en það eru 629 milljörðum króna meira en næsti á eftir, sem er Joe Lewis, hjá Tottenham. Abramovich er jafnframt talinn vera ríkasti maður á Bretlandseyjum og áttundi ríkasti maður Evrópu, samkvæmt lista sem blaðiðSunday Timestekur saman árlega. Eitt úrvalsdeildarlið hefur því ekki verið stór biti fyrir hann að kyngja þó svo Chelsea hafi tapað 88 milljónum punda á síðasta ári eða um 10,4 milljörðum króna. Skýringar á því eru að Abramovich varði 175 milljónum punda í leikmannakaup á síðasta keppnistímabili og námu launagreiðslur til leikmanna 115 milljónum punda á ári eða um 14 milljörðum íslenskra króna.


 

Sala á tölvum heldur áfram að aukast. Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs var tölusala í heiminum rúmlega 10% meiri en á sama tíma í fyrra. Samkvæmt tölum sem birtast nær samtímis frá greiningafyrirtækjunum Gartner og IDC nam aukningin milli ára 10,3% og 10,9%. Gartner telur að seldar hafi verið rúmlega 50 milljónir tölva á fyrstu þremur mánuðum ársins en IDC telur að seldar hafi verið rúmlega 46 milljónir tölva. Veikur Bandaríkjadollar er sagður ein helsta ástæðan fyrir stöðugri uppsveiflu í tölvusölu en bæði fyrirtækin nefna sérstaklega aukna tölvusölu í Evrópu og Suður-Ameríku.


 

Einn merkilegasti samruni fyrirtækja í upplýsingatækni um langt skeið var kynntur í dag. Stjórnendur Adobe Systems greindu frá því á fundi með fréttamönnum að fyrirtækið hefði keypt Macromedia fyrir 3.4 milljarða Bandaríkjadala í því skyni að gera Adobe að stórfyrirtæki í hugbúnaðargeiranum. Bæði fyrirtækin eru víðkunn fyrir ýmiss konar margmiðlunarbúnað, Adobe þekktast fyrir PDF-tæknina og Macromedia fyrir "flash"-tæknina.


 

Ef litið er í innkaupakörfu hjá dæmigerðum bandarískum karlmanni kemur í ljós að hann eyðir meira fé í tölvuleiki en tónlist. Þetta er niðurstaða könnunar Nielsen Entertainment en hún sýnir að kaup á tölvuleikjum eru aðeins minni en kaup á DVD myndum en meiri en bæði kaup á CD tónlistardiskum og MP3 tónlistarskrám.


 

Stjórnendur Sony hafa óvænt látið í ljós vilja til þess að ræða um einn staðal fyrir næstu kynslóð DVD diska. Um skeið hefur stefnt í stríð milli Sony og Toshiba um nýja gerð af DVD diskum með gífurlegri geymslurými. Sony hefur verið að þróa Blu-Ray tæknina með 25 GB rými á annarri hlið DVD diski en Thosiba hefur þróð HD DVD tækni með 15 GB geymslurými. Fyrirtækin ætluðu bæði að setja á markað upptökutæki og afspilara fyrir "sína" tækni fyrir áramót ásamt samherjum sínum en bæði fyrirtækin hafa tryggt sér stuðning stórfyrirtækja á þessu sviði.


 

Ísland er í hópi ellefu landa sem eru sérstaklega undir smásjá alþjóðasamtakanna IFPI (International Føderation of the Phonographic Industry) sem hafa skorið upp herör gegn ólöglegu niðurhali á tónlistarskrám um Netið. Samtökin eru fulltrúar 1400 hljómplötuútgefenda sem telja að samdrátt í sölu tónlistar, úr 40 milljörðum dala 1999 til 32 milljarða dala í fyrra, megi rekja til ólöglegs niðurhals.


 

Bresk fyrirtæki eins og BBC, Channel 4, breska kvikmyndastofnunin og Opni háskólinn ætla að gefa almenningi kost á því að sækja sér ókeypis kvikmyndaefni af Netinu. Stofnanirnar eiga í fórum sínum mikið safn kvikmynda eins og nærri má geta en hugmyndin að koma söfnunum í hendur almennings var kynnt fyrir tveimur árum af þáverandi forstjóra BBC, Greg Dyke. Fólk fær "að eiga" afrit af myndbútum og nota þau til eigin sköpunar, segir í frétt BBC.


 

Þrátt fyrir síaukinn ruslpóst hafa þeir sem nota tölvupóst að einhverju marki lært að lifa með slíkum óumbeðnum auglýsingapósti og láta hann ekki fara jafn mikið í taugarnar á sér og áður. Þetta eru niðurstöður bandarískrar könnunar frá Pew Internet & American Life Project en 67% aðspurðra sögðu ruslpóst pirrandi en í sambærilegri könnun var hlutfallið 77%. Fram kom ennfremur í könnuninni að 28% aðspurðra sögðu að ruslpósti hefði fjölgað hjá sér milli ára.


 

Mjólkursamsalan í Reykjavík hefur tekið í notkun nýja útgáfu Vigor hugbúnaðarkerfis frá TM Software sem sinnir birgðahaldi og innkaupum. Markmiðið með endurnýjun hugbúnaðarins var í fyrsta lagi að ná utan um birgðir þannig að kerfið gæfi rétta mynd af stöðu þeirra á hverjum tíma, sem er forsenda þess að hægt sé að bæta vörustjórnun. Í öðru lagi að eigin framleiðsla fari í gegnum innkaupahlutann á sama hátt og innkaup frá öðrum framleiðendum og í þriðja lagi að fjárhagsbókun á innkaupum verði rafræn.


 

Ný kynslóð Xbox leikjatölvunnar verður ekki sýnd opinberlega í fyrsta sinn á E3 messunni í Los Angeles eins og reiknað hafði verið með. Þar ætla keppinautarnir, Sony og Nintendo, að sýna nýjar gerðir leikjatölva, en stjórnendur Microsoft ætla að vera skrefinu á undan og sýna nýju útgáfu Xbox á sjónvarpsstöðinni MTV viku áður en E3 sýningin hefst. Sérstök hálfrar klukkustundar útsending verður á MTV um nýju leikjatölvuna 12. maí.


 

Enn sem komið er hringja tiltölulega fáir Evrópubúar sín á milli yfir Netið. Í þessari viku var stigið stórt skref í þá átt að gera IP-símtöl almennari þegar Microsoft og American Online, tvö stærstu fyrirtæki í Netþjónustu í heiminum, hófu að bjóða Netsímaþjónustu í Evrópu í þeim tilgangi að lokka fleiri notendur að þessari tækni. Í frétt International Herald Tribune í dag er haft eftir þýskum sérfræðingi að enginn vafi sé á því, þegar til framtíðar er litið, að Netsímtöl leysi af hólmi hefðbundin símtöl eins og þau þekkjast í dag.


 

Enska stórliðið Manchester United gæti hugsanlega þénað um 15 milljónum pundum meira eða sem nemur um 1,7 milljörðum íslenskra króna á ári, ef það hættir að láta úrvalsdeildina sjá um auglýsingasamninga sína og sjái alfarið um þau mál sjálft. Þetta eru niðustöður útreikninga endurskoðunarfyrirtækisins Ernst & Young sem birtir voru á dögunum. Eins og flestum ætti að vera orðið kunnugt um hefur bandaríski auðkýfingurinn Malcolm Glazer, sem á all nokkur íþróttafélög í Bandaríkjunum, sýnt Manchester United mikinn áhuga á síðustu árum enda reynt all nokkrum sinnum að eignast félagið, stuðningsmönnum til mikillar gremju. Sérfræðingar segja líklegt að Glazer sé í þessum geira af þeirri einföldu ástæðu að í honum leynist góð viðskiptatækifæri en ekki vegna þess að áhugi hans á íþróttum sé svo mikill eins og í tilfelli Romans Abramovich, eiganda Chelsea. Hann sjái tækifæri í stöðunni sem geti fært honum mikla peninga og sé þessi þáttur ein aðal ástæða þess að hann hefur hvað eftir annað reynt að ná félaginu til sín.


 

Áttu í erfiðleikum með að finna og bóka hótel á Netinu? Yahoo leitarþjónustan er um þessar mundir að hleypa af stokkunum nýju sértæku leitarkerfi sem einmitt er ætlað fólki til að finna og bóka hótel. Um er að ræða viðbót við FareChase ferðaleitarvél Yahoo. Samkvæmt frétt InternetNews geta notendur klæðskerasniðið leitina eftir borgum og bæjum, þægindum og verði. Einnig verður unnt að sjá kort og lýsingar annarra gesta af viðkomandi hóteli.


 

Helmingur Norðmanna á stafræna myndavél og 40% þjóðarinnar á myndavélafarsíma. Í frétt Digi í Noregi segir að ljósmyndaverslunum hafi fækkað mjög á síðstu átta árum en á sama tíma hafi fjölgað verslunum sem selja ljósmyndavörur. Digi bendir á að myndavélar fyrir filmur hafi nánast eingöngu verið seldar í sérverslunum en stafrænar myndavélar fáist víða. Norðmenn eiga flestar stafrænar myndavélar sé miðað við fjölda heimila, 48% eiga slíkar vélar.


 

Samkeppnisyfirvöld í Danmörku hafa ákveðið að hefja rannsókn á því hvort danskir neytendur greiði DVD diska of háu verði. Í frétt Politiken á föstudag segir að Danir kaupi mikið af kvikmyndum á DVD diskum þrátt fyrir að þeir kosti miklu meira en myndbandsspólur. Aldrei fyrr hafi selst jafn margar kvikmyndir fyrir heimabíó og þær séu flestar á DVD diskum.Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.