*

laugardagur, 16. október 2021

maí, 2005

 

Landsliðsþjálfarar Íslands tilkynntu á dögunum um leikmannahópinn í leikjum karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Ungverjalandi og Möltu. Blaðamannafundur í þessu skyni var haldinn í húsakynnum Skýrr við Ármúla 2 í Reykjavík. Skýringin á staðsetningu fundarins er sú að á sama fundi var tilkynnt um nýtt vefsvæði Knattspyrnusambands Íslands, KSI.is, sem nú er komið í loftið. Það var Skýrr sem smíðaði vefsvæðið fyrir KSÍ.


 

Skýrr hf. hefur undirritað samstarfssamning við franska hugbúnaðarfyrirtækið Geckomedia um sölu og þjónustu á vörum fyrirtækisins hér á landi.


 

Á milli áranna 2003 og 2004 tvöfaldaðist sala á gagnagrunnum byggðum á Linux, að því er fram kemur í nýrri skýrslu frá greiningafyrirtækinu Gartner. Markaðurinn í heild stækkaði um 10,3%, úr 7,1 í 7,8 milljarða dala. Windows bætti stöðu sína um 10%, Unix tapaði markaðshlutdeild um 0,7% en vöxturinn í Linux sló öll með, 118,4%.


 

Fulltrúar Microsoft og framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins hafa ákveðið að finna lausn á deilumálum sínum fyrir næstu mánaðamót um refsiaðgerðir gegn hugbúnaðarrisanum fyrir brot á samkeppnislögum. Þetta er haft eftir yfirmanni samkeppnismála hjá ESB. Samkomulag liggur fyrir milli fulltrúanna þess efnis að fyrir mánaðamót verði ágreiningur úr sögunni.


 

Stjórn ISNIC ákvað á fundi sínum í gær að lækka verulega gjöld vegna stofnunar og endurnýjunar á lénum með sérstöfum í þeim tilfellum er sami aðili skráir lén stafsett bæði með og án íslenskra sérstafa. Þessi ákvörðun kemur í kjölfar verulegarar umræðu þar um undanfarið.


 

Fujitsu Siemens mun innan skamms kynna til sögunnar vörumerkið Esprimo með breiðri vörulínu nýrra fyrirtækjatölva. Fyrstu tölvurnar með nýja nafninu koma á markað í þessum mánuði. Esprimo tölvurnar koma til með að leysa af hólmi Scenic tölvurnar, eins og þær eru þekktar í Evrópu, og FMV Deskpower, en það heiti hefur Fujitsu Siemens notað á Bandaríkjamarkaði.


 

Breskir skólar gætu sparað stórfé með aukinni notkun opins hugbúnaðar, að því er fram kemur í nýrri skýrslu sérfræðinga. Í skýrslunni er talið að unnt sé að spara 44% á hverja PC tölvu í grunnskólum með því að nota opinn hugbúnað og 24% í framhaldsskólum. Skýrslan var unnin af British Educational Communications og Technology Agency, BECTA, og byggði á könnun í 48 skólum, þar af 15 sem þegar nota opinn hugbúnað.


 

Forseti brasilíska knattspyrnusambandsins CBF (Brazilian Footbal Confederation) Ricardo Teixeira hefur greint frá því að sambandið muni styðja framboð Sepp Blatter til forseta FIFA. Blatter sækist nú eftir endurkjöri og stuðningur Brasilíumanna skiptir miklu. Haft er eftir Teixeira að Blatter sé besti kosturinn enda hafi han staðið sig frábærlega sem forseti FIFA til þessa. Blatter var kosinn forseti FIFA árið 1998 þegar Joao Havelange steig til hliðar og naut hann stuðnings Havelenge. Rætnar tungur sögðu að Havelange, sem er frá Brasilíu, hafi treyst því að Blatter myndi ekki rannsaka embættisfærslur forvera síns. Blatter sigraði svo að nýju í kosningum 2002 og hefur nú tilkynnt að hann vilji sitja sitt þriðja kjörtímabil. Er talið nokkuð öruggt að honum verði að vilja sínum enda hefur honum tekist að leysa þokkalega úr þeim fjárhagserfiðleikum sem steðjuðu að sambandinu.


 

Spænska knattspyrnuliðið Barcelona hefur gengið frá stórum auglýsingasamningi við kínversk stjórnvöld um að auglýsa ólympíuleikana sem haldnir verða í Beijing árið 2008. Þær fréttir bárust raunar í gær að kínversk stjórnvöld hefðu neitað að hafa átt viðræður við Barcelona.


 

Samþykkt var á aðalfundi Sparisjóðs Svarfdæla að gefa Dalvíkurbyggð upphitaðan og flóðlýstan knattspyrnuvöll í tilefni af góðri afkomu sjóðsins á síðasta ári. Um er að ræða völl í sparkvallaátaki KSÍ og rís hann á Dalvík og hefjast framkvæmdir nú þegar. Stærð vallarins er 18x33 m og er áætlað að hann verði tilbúinn um miðjan júní næstkomandi. Samkvæmt samningi við KSÍ mun sambandið leggja til gervigras af bestu gerð á völlinn og er það þegar komið til Dalvíkur. Sparisjóður Svarfdæla kostar allt annað við framkvæmdina og hefur þegar samið um framkvæmd verksins. Í heild mun kostnaður við verkefnið um 10 milljónir króna.Hagnaður af rekstri á liðnu ári nam 184 milljónum króna.


 

Hinn 3. maí sl. undirrituðu þeir Gísli Gíslason, bæjarstjóri á Akranesi og Sturlaugur Sturlaugsson, formaður ÍA samning milli Akraneskaupstaðar og Íþróttabandalags Akraness sem ætlað er að efla tengsl bæjarins og ÍA í því skyni að íþróttastarf á Akranesi verði áfram þróttmikið, æsku bæjarins til heilla ein og sagði við undirritun samningsins.  Í samningnum er sérstök áhersla lögð á forvarna- og uppeldishlutverk íþrótta og aukna samvinnu skóla og íþróttahreyfingarinnar en samningurinn mun án efa efla og styrkja enn frekar allt íþróttastarf á Akranesi.


 

EMC, sem er leiðandi fyrirtæki í gagnageymslulausnum, kynnti á dögunum fyrstu meiriháttar breytingu á CAS (Content Addressable Storage) gagnageymslukerfum sínum frá því Centera kerfið fyrir stórfyrirtæki kom á markað í apríl 2002. Nýja Centera kerfið er sniðið að þörfum meðalstórra fyrirtæki en hefur sömu afkastagetu og "dýrari eldri bróðir" eins og segir í frétt Computerworld, en geymslurýmið er 2.2TB. Nýja kerfið er byggt upp námkvæmlega með sama hætti og CAS kerfið fyrir stórfyrirtæki og hefur alla sömu kostina.


 

EJS hlaut á dögunum alþjóðleg verðlaun tölvurisans Dell, EDB Platinum Partner Award, fyrir framúrskarandi árangur í markaðsstarfi fyrirtækisins. "Þetta eru verðlaun sem samstarfsfyrirtæki Dell um allan heim keppa að,? segir framkvæm-dastjóri EJS, Viðar Viðarsson, sem tók á móti verðlaununum á tæknistefnu Dell í Róm.


 

Því sem næst helmingur allra seldra PC tölva í Danmörku eru fartölvur. Ekkert tölvufyrirtæki státar af jafn mikilli söluaukningu eins og Fujitsu Siemens en samkvæmt fréttPolitikener sala á fartölvum frá Fujitsu Siemens 77% meiri en á síðasta ári. Sala á fartölvum hefur aukist jafnt og þétt síðustu árin en hlutfall þeirra í heildarsölu PC tölvu heldur aldrei mælst hærra en nú, eða 45%. Talið er að innan skamms tíma verði fartölvur í meirihluta seldra PC tölva.


 

Fjölmiðlapistill Ólafs Teits Guðnasonar 6. maí


 

Undanfarna viku hefur gríðarlegt magn vírusa verið í umferð á Netinu og skapað töluvert álag á netkerfum fyrirtækja. Hjá TM Software er keyrð vírus- og ruslpóstsía áður en viðkomandi póstur kemst inn á innra net viðskiptavina. Skapar það aukið rekstraröryggi og minnkar álag á vírusvörnum netþjóna og útstöðva.Það sem af er maímánuði hafa 60% fleiri vírusar verið teknir úr umferð en allan aprílmánuð með vírus- og ruslpóstsíu TM Software. Þessi aukning helgast af afbrigði af Sober-vírusnum svokallaða, sem farið hefur eins og eldur í sinu um Netið. Til marks um álagið má nefna að frá 1. maí sl. hafa rúmlega 10% af heildarpóstflæði verið tekin úr umferð en allajafna er þetta hlutfall um 2-3%. Er þetta ein mesta útbreiðsla sem vírus nær á þessi ári en Sober-vírusinn breiðist mjög hratt út.


 

TM Software hefur hlotið Gullvottun Microsoft eða ?Microsoft Gold Certified Partner?. Vottunin þýðir að starfsmenn TM Software uppfylla ýtrustu kröfur um þekkingu og þjónustu við kerfishugbúnað og lausnir frá Microsoft. TM Software er fyrst íslenskra fyrirtækja til að uppfylla nýjar og mun strangari reglur Microsoft um vottun af þessu tagi.


 

Stjórnendur Xerox hafa heitið því að skerða losun gróðurhúsalofttegunda um 10% á tíu ára tímabili, frá 2002 til 2012. Átakið nær til starfsemi Xerox hvarvetna í heiminum. Fyrirtækið hefur lengi verið í hópi þeirra bandarísku fyrirtækja sem láta sig umhverfismál miklu skipta. Xerox er löngu þekkt fyrir orkusparandi framleiðsluvörur en janframt hefur fyrirtækið unnið að þróun umhverfisvænna prentara, ljósritunarvéla og annars tæknibúnaðar í samræmi við stefnuna í umhverfismálum.


 

Mikil söluaukning varð hjá Fujitsu Siemens á fyrsta ársfjórðungi 2005 á fartölvum og öðrum tölvubúnaði til að ferðast með en samkvæmt fréttum nam aukningin 72.5%. Fujitsu Siemens Computers bætir stöðugt við sig á þessu sviði, að því er fram kemur í frétt I-Newswire, og hefur tryggt 4. sæti á svokkuðum IDC PC Tracker lista. Í samanlagðri sölu á borð- og fartölvum er Fujitsu Siemens með 24% söluaukningu á fyrsta ársfjórðungi meðan meðalaukningin varð aðeins 17%.


 

Firefox vafrinn frá Mozilla náði þeim merka áfanga síðastliðinn föstudag að hafa verið hlaðið niður 50 milljón sinnum. Samkvæmt frétt ZDNet heldur vafrinn sífellt áfram að éta stærri sneið af vafraköku Microsoft. Firefox vafrinn er hluti svokölluðum opnum hugbúnaði og var fyrst kynntur til sögunnar í nóvember á síðasta ári. Vinsældir vafrans hafa síðast aukist jafnt og þétt sem best sést á niðurhalinu á hálfu ári.


 

Tónlistarvefurinn Tónlist.is var með tilboð um síðustu helgi í tilefni 2 ára afmælis vefsetursins mæltist sérstaklega vel fyrir um helgina. Það voru um 20.000 Íslendingar sem sóttu vefinn heim og um þriðjungur þeirra eru nú skráðir notendur á vefnum. Þeir fengu allir 50 laga inneignir án endurgjalds og auk þess fengu þeir 16.000 notendur sem voru skráðir fyrir sama skammt.


 

Í fyrsta sinn er nú hægt að fletta upp á vefsíðu með samevrópska rótarléninu .eu. Fyrsta vefsíðan með þessari endingu er www.eurid.eu sem er skráningarstofa léna, Eropean Registry for Internet Domain Names (EURid). Lénið er nýlega komið í hóp svokallaðra rótarléna sem þýðir að hægt að heimsækja vefsíður með .eu endingunni. Fyrst um sinn er skráningarstofan reyndar eina fyrirtækið sem skartar þessari endingu á Netinu en í byrjun næsta árs geta einstaklingar og fyrirtækið sótt um slíkt lén.


 

Tæknival og Penninn á Akureyri hafa tekið höndum saman um samstarf á Norðurlandi. Penninn er þar með orðinn umboðs- og þjónustufyrirtæki Tæknivals á Norðurlandi en markaðssvæði Pennans á Norðurlandi nær allt frá Hrútafirði til Vopnafjarðar. Sigrún Guðjónsdóttir forstjóri Tæknivals segir í frétt á heimasíðu Tæknivals að þau sem stóðu að samningsgerðinni fyrir hönd Tæknivals séu mjög stolt af nýju samstarfsfyrirtæki á Norðurlandi og hún telur hagsmunum Tæknivals betur borgið en áður.Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.