*

laugardagur, 4. desember 2021

júní, 2005

 

Nú stendur keppnin í Wimbledon sem hæst og hafa vinsældir mótsins aldrei verið meiri. Þessi aukni áhugi hefur leitt af sér hærri tekjur til mótshaldara jafnt sem keppenda. Ungar stjörnur, Maria Sharapova og Andrew Murray, eru meðal keppenda og er reiknað með að auðæfin streymi til þeirra gangi allt upp hjá þeim.


 

Í upplýsingatækniheiminum er nú fylgst grannt með átökum milli risafyriritækjanna tveggja sem framleiða örgjörva, Intel og AMD. Á dögunum lagði AMD fram kæru á hendur Intel fyrir einokunartilburði og staðhæfir að fyrirtækið hafi borið fé í Dell, Toshiba og Sony og veitt ríkulega afslætti til annarra stórviðskiptavina eins og NEC, Acer og Fujtisu. Talsmenn Intel hafa í stuttri fréttatilkynningu vísað ásökunum keppinautarins á bug og segjast ævinlega virt lög þeirra landa þar sem fyrirtækið starfi.


 

Norska ríkisstjórnin lagði fram í vikunni áætlun um innleiðingu á opnum hugbúnaði í allar opinberar stofnanir í Noregi. Í síðasta lagið árið 2009 á allur hugbúnaður að vera byggður á opnum stöðlum. Samkvæmt áætlun norskra stjórnvalda eiga allar stofnanir hins opinbera í lok ársins 2006 að gera áætlanir um notkun opinna grunnkóða og síðast árið 2009 eiga öll upplýsingatæknikerfi opinberra stofnana að byggjast á opnum stöðlum.


 

88% Íslendinga nota tölvu og 86% nota internet. Flestir nota internetið því sem næst daglega. Algengara er að einstaklingar kaupi vörur og þjónustu um internet og enn er vinsælast að panta farmiða, gistingu eða annað ferðatengt. Hlutfall heimila með tengingu við internet er hvergi hærra í Evrópu en á Íslandi en árið 2005 voru 84% íslenskra heimila tengd interneti. Þrjú af hverjum fjórum nettengdum heimilum nota háhraðatengingu.


 

Mikil uppsveifla á árinu 2004 skapaði óraunhæfar væntingar um mikinn vöxt á árinu 2005, segir í nýrri greiningu IDC um upplýsingatækni á Norðurlöndum. Nú gerir spáin fyrir árið ráð fyrir 3,7% vexti í greininni en í fyrra var vöxturinn 5,4%. Horfur næstu ára í norrænu ríkjunum eru hins vegar góðar en IDC spáir því að uppsveiflan verði 4,4% árið 2006 og 6,2% árið 2007.


 

Íþróttavöruframleiðandinn Nike birti í dag uppgjör sitt fyrir fjórða ársfjórðung. Uppgjörið er ekki seint á ferð eins og ætla mætti, heldur lýkur fjárhagsári félagsins 31. maí ár hvert. Hagnaður Nike jókst um 15% á fjórða ársfjórðungi miðað við sama tíma í fyrra og var 1,3 dollarar á hlut. Tekjur félagsins jukust um 7% miðað við sama tímabil á síðasta ári og námu 3,72 milljörðum bandaríkjadala. Ef tekið er tillit til myntbreytinga var tekjuvöxtur hins vegar aðeins 4%.


 

EMC og Sun Microsystems gerðu í gær opinbert samstarf fyrirtækjanna sem fulltrúar þeirra segja að tryggi samhæfi milli helstu framleiðsluvara þeirra. Samstarfið felur meðal annars í sér að stýrikerfi Sun, Solaris 10, verður samhæft öllum gagnageymslulausnum EMC. Einnig áformar EMC að setja upp allan gagnageymsluhubúnað sinn í Solaris 10 stýrikerfi, m.a. EMC PowerPath og Legato NetWorker.


 

Verð á háhraðatengingum hér á landi er hæst í Evrópu og gildir þá sama við hvaða hraða er miðað. Þetta kemur fram í skýrslu frá IT- og Telestyrelsen í Danmörku sem unnin var fyrir menntamálaráðuneytið danska. Danskir fjölmiðlar segja að verðið á ADSL tengingum í Danmörku sé með því hæsta sem gerist í Evrópu, aðeins á Ítalíu, Austurríki og Íslandi þurfi að greiða hærra verð fyrir ADSL tengingar.


 

Ekkert lát er á stöðugum vexti á markaði með hugbúnaðarlausnir fyrir gagnageymslur en samkvæmt tölum frá fyrsta ársfjórðungi nemur aukningin milli ára 14.9% á heimsvísu. Þetta er sjötti ársfjórðungurinní röð þar sem vöxturinn mælist í tveggja stafa tölu, samkvæmt gögnum IDC. EMC er sem fyrr leiðandi fyrirtæki á þessu sviði með 30% markaðshlutdeild á fyrsta ársfjórðungi 2005.


 

Sjálfsagt er ekki auglýst með þessum hætti en þriðjungur bandarískra fyrirtækja hefur ráðið til sín starfsmenn sem eingöngu hafa þann starfa að lesa tölvupóst samstarfsmanna. Það er með öðrum orðum orðinn viðtekin hefð í bandarískum fyrirtækjum að allur tölvupóstur starfsmanna er lesinn af öðrum en viðtakanda í því skyni að tryggja að trúnaðarupplýsingar leki ekki út. Af stórum fyrirtækjum með þúsund starfsmenn eða fleiri hefur þriðjungur slíka starfsmenn á launaskrá. Annar þriðjungur hefur uppi áfrom um að ráða fólk til slíkra verka.


 

Samskip og knattspyrnudeild IBV hafa skrifað undir samning um samstarf félaganna til næstu tveggja ára.


 

Greiningafyrirtækið Gartner spáir því að fyrirtæki verji áfram miklum fjármunum í öryggismál viðvíkjandi upplýsingatækni og viðfangsefnin verði ekki síður ögrandi á komandi árum en þau hafa verið. Kostnaður fyrirtæja vegna öryggismála hefur farið stigvaxandi á síðustu árum en nú bendir margt til þess að toppnum sé náð. Fyrirtæki verði þó að reikna með að verja áfram miklu fé í öryggismál því ný tækni kalli stöðugt á nýjar lausnir.


 

duglegir starfsmenn verstir!


 

Fjölmiðlapistill Ólafs Teits Guðnasonar 3. júní


 

Sala á fartölvum í Bandaríkjunum hefur í fyrsta sinn í heilum mánuði verið meiri en sala á borðtölvum. Alls nam sala á fartölvum vestra í maímánuði 53% allra seldra PC tölva en í sama mánuði fyrir ári var hlutfallið 46%. Þetta kemur fram í tölum frá greiningafyrirtækinu Current Analysis. Fram kemur í AP-frétt að aukinnar spurnar eftir fartölvum megi rekja til verðlækkana og aukinna gæða. Verðlækkunin á síðasta ári nam 17% en borðtölvur lækkuðu að jafnaði aðeins um 4%, segir í fréttinni.


 

Það er ekki nema tæpt ár þar til bikarkeppnin og aðrir stórir viðburðir í ensku knattspyrnunni eiga að fara fram á Wembley leikvanginum. Ekki er verið að tala um gamla Wembley leikvanginn með turnunum tveimur, heldur nýja 757 milljóna punda (89 milljarða króna), sem verður byggður af svo miklum myndarskap að ódýru sætin munu vera stærri og betri en í gömlu konunglegu stúkunni.


 

Malcom Glazer skýlir sér nú frá reiðum aðdáendur Manchester United, sem gengið hafa hart að auðkýfingnum að undanförnu, bak við lög sem ætluð voru til að vernda menn frá aðgerðum dýraverndunarsinna.


 

Írar eyða allt að 2,1 milljörðum evra, eða 170 milljörðum íslenskra króna, sem er 1,8 prósent af vergri landsframleiðslu, í íþrótta- og tómstundamál á ári. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn um íþróttir á Írlandi. Rannsónkin var framkvæmd af ráðgjöfum A&L Goodbody um útgjöld í íþrótta- og tómstundamálum. Könnunin er með þeim fyrstu sem reiknar hagfræðileg áhrif íþrótta á hagkerfið.


 

Tölfuframleiðendur gera sífellt meira til að torvelda þjófnað á fartölvum sem stöðugt færist í vöxt. Ein af spjaldtölvum Fujitsu Siemens verður búin fingrafaraskynjurum frá AuthenTec fyrirtækinu að því er fram kemur í tímaritinu Business Journal í Orlando en Authen Tec hefur bækistöðvar í Flórída, í borginni Melbourne. Um er að ræða lausn sem Fujitsu Siemens samtvinnar aðgangshugbúnaði frá þýska fyrirtækinu iC Compas, Sicrypt Smarty, og veitir aukið öryggi og þægindi í notkun spjaldtölvanna.Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.