*

sunnudagur, 5. júlí 2020
Flýtival:
Innlent
|
Fólk
|
Erlent
|
Frjáls verslun
|
Sjónvarp
|
Neðanmáls
|
Staðreyndavogin
Tímabil:
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|


maí, 2007

 

Pertti Ijäs ráðinn útibússtjóri


 

Sjanghæ hlutabréfavísitalan í Kína féll um 6,5% í gær í kjölfar þess að stjórnvöld tóku þá ákvörðun að þrefalda stimpilgjald sem lagt er á öll hlutabréfaviðskipti, úr 0,1% upp í 0,3%. Þetta er mesta lækkun á hlutabréfum í Kína á einum degi í þrjá mánuði, en í lok febrúar hrundi hlutabréfamarkaðurinn um meira en 9%. Sérfræðingar segja að þetta sé ein skýrasta vísbendingin sem komið hafi frá kínverskum ráðamönnum í langan tíma um að stjórnvöld stefni að því að kæla hlutabréfamarkaðinn. Sjanghæ hlutabréfavísitalan hefur hækkað um meira en 60% það sem af er þessu ári og um tæplega 300% á síðastliðnum tveimur árum. Aðgerðirnar höfðu umsvifalaust áhrif víðs vegar um Asíu. Allir hlutabréfamarkaðir í álfunni - nema á Tælandi - lækkuðu í kjölfarið; mestu féllu markaðir í Japan, Hong Kong og Singapúr. Áhrifanna gætti einnig á evrópskum verðbréfamörkuðum, enda þótt lækkanir þar hafi verið minni heldur en í Asíu. Síðast þegar Kínverjar tóku þá ákvörðun að hækka stimpilgjald á hlutabréfaviðskipti árið 1997, leiddi það til þess að gengi svokallaðra A-hlutabréfa 300 stærstu félaganna sem skráð eru í júönum í kauphöllunum í Sjanghæ og Shenzhen, lækkuðu um 30% á næstu fjórum mánuðum. Í rökstuðningi kínverska fjármálaráðuneytisins fyrir ákvörðuninni kom fram að hún væri gerð til þess að "styrkja heilbrigða þróun á verðbréfamörkuðum" í Kína. Einstaklingar og minni fjárfestar hafa á undanförnum vikum horft hýru auga til þess skjóta ávinnings sem er í boði á hlutabréfamarkaðinum, en nýverið vöruðu kínversk stjórnvöld almenning um þá hættu sem slíkum viðskiptum fylgir. Þau varnarorð hafa hins vegar litlu skilað. Í frétt Financial Times er bent á að í síðustu viku hafi fjöldi vörslureikninga farið yfir hundrað milljónir. Þessi gríðarmikli fjöldi slíkra reikninga gefur þó ekki rétta mynd af þeim raunverulega fjölda sem stundar hlutabréfaviðskipti. Sérfræðingar telja að virkir fjárfestar á hlutabréfamarkaði séu nær því að vera í kringum 20 milljónir. Staða kínverskra stjórnvalda er ekki auðveld: Annars vegar vilja þau draga úr þeirri miklu spákaupmennsku sem einkennir viðskipti með hlutabréf og hins vegar vilja ráðamenn forðast það að til mikilla hlutabréfalækkana komi, en slíkt myndi hafa afrifarík áhrif fyrir fjölmarga Kínverja sem hafa lagt undir allt sitt sparifé í slíkar fjárfestingar. Steve Sun, sérfræðingur hjá HSBC í Hong Kong, segir í samtali við Financial Times að stefna ríkisstjórnarinnar sé að reyna í smáum og varfærum skrefum að kæla hlutabréfamarkaðinn. Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.


 

Evrópski flugvélaframleiðandinn greindi frá því í gær að félagið hefði landað stórum samningi við Qatar Airways. Samkæmt samkomulaginu mun Qatar kaupa áttatíu flugvélar af gerðinni A350 og nemur heildarvirði samningsins um sextán milljarðir Bandaríkjadala. Sú upphæð gefur til kynna að Qatar hafi fengið góðan afslátt af listaverði vélanna, sem er í kringum 18,3 milljarðar dala. Þetta er stærsta einstaka pöntun sem Airbus hefur fengið og á afhending vélanna að fara fram árið 2013.


 

Robert Zoellick, fyrrverandi aðstoðarutanríkisráðherra og viðskiptafulltrúi núverandi Bandaríkjastjórnar, var í gær formlega tilnefndur af George Bush forseta í embætti forstjóra Alþjóðabankans. Zoellick tekur við embættinu af Paul Wolfowitz, sem þurfti að segja af sér í kjölfar þess að sérstök rannsóknarnefnd úrskurðaði að hann hefði brotið siðareglur bankans þegar hann hækkaði laun ástkonu sinnar. Robert Zoellick mun taka við stöðunni þann 30. júní næstkomandi og þarf stjórn Alþjóðabankans að samþykkja tilnefningu Bandaríkjanna. Slíkt er hins vegar aðeins talið vera formsatriði, en Zoellick nýtur mikillar virðingar á heimsvísu fyrir embættisstörf sín í gegnum tíðina.


 

Seðlabanki Noregs hækkaði í gær stýrivexti sína um 0,25 prósentustig, upp í 4,25%. Þetta er í þriðja skiptið á þessu ári sem bankinn tekur þá ákvörðun að hækka stýrivexti. Í rökstuðningi sínum sagði stjórn bankans að í ljósi þess að hagvöxtur sé öflugur í landinu um þessar mundir væri stýrivaxtahækkun nauðsynleg. Fjármálamarkaðurinn hafði fastlega gert ráð fyrir því að vextir yrðu hækkaðir.


 

Fasteignaverð í Bandaríkjunum lækkaði í fyrsta skipti í sextán ár þegar það féll um 1,4% á fyrstu þremur mánuðum þessa árs. Í þrettán af tuttugu stórborgum í Bandaríkjunum lækkaði verð fasteigna. Mesta lækkunin átti sér stað í Detroit þar sem fasteignaverð hefur lækkað um átta prósent frá því á sama tímabili í fyrra.


 

íslenskir bankar nefndir til sögunnar


 

Framkvæmdum við 2. áfanga 101 Skuggahverfis miðar vel en fimm byggingar verða reistar í þessum áfanga, samtals 97 íbúðir. Í frétt félagsins kemur fram að í byrjun júní hefst sala 13 íbúða sem flestar eru á efstu hæðum en afhending miðast við að þær verði tilbúnar undir innréttingar. Í september er áætlað að hefja sölu 84 íbúða sem afhentar verða fullbúnar.


 

Skuldatryggingarálag (CDS) íslensku viðskiptabankanna hefur lækkað umtalsvert að undanförnu og liggur nú á lægra bili en áður en neikvæð umræða spannst um fjármögnun bankanna á síðasta ári, segir greiningardeild Glitnis. Skuldatryggingarálag Landsbankans til fimm ára er 19 punktar, hjá Kaupþingi er það 29 punktar og 24 punktar hjá Glitni. Tryggingarálag Landsbankans hefur lækkað um 21 punktar frá því í ársbyrjun 2006, Kaupþings um 13 punktar og Glitnis um 8 punktar, að sögn greiningardeildarinnar. ?Skuldatryggingaálög banka hafa almennt farið lækkandi í heiminum enda virðist mikið magn af peningum í umferð. Tryggingarálag bankanna, sérstaklega Landsbankans og Kaupþings, hefur verið umfram lækkun álags á markaðnum í heild,? segir greiningardeildin. Hún segir margir áhrifaþættir hafa áhrif á tryggingarálag banka, suma geta bankarnir haft áhrif á en aðra ekki. ?Meðal áhrifaþátta sem bankarnir geta ekki haft áhrif á eru áhættufælni á mörkuðum og peningamagn í umferð. Viðbrögð bankanna við gagnrýni erlendra aðila hefur þó haft mest um það að segja að tryggingarálag þeirra hefur farið lækkandi. Þar á meðal má nefna bætta upplýsingagjöf, minni markaðsáhættu og afnám krosseignarhalds. Í tilfelli Landsbankans hefur efling innlána og þ.a.l. hærra hlutfall innlána af heildarfjármögnun að líkindum stuðlað að lækkun tryggingarálags bankans umfram hina íslensku bankana,? segir greiningardeildin.


 

Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 0,54% og er 8.202 stig við hádegi, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Veltan nemur fjórum milljörðum króna. Atlantic Petroleum hefur hækkað um 4,48%, Alfesca hefur hækkað um 2,36%, Glitnir hefur hækkað um 1,8%, Kaupþing hefur hækkað um 0,64% og FL Group hefur hækkað um 0,51%. Teymi hefur lækkað um 2,08%, Flaga Group hefur lækkað um 0,48%, Actavis Group hefur lækkað um 0,47%, Icelandiar Group hefur lækkað um 0,35% og Tryggingamiðstöðin hefur lækkað um 0,26%. Gengi krónu hefur styrkst um 0,4% og er 112,4 stig.


 

Ólafur Þ. Stephensen hefur verið ráðinn ritstjóri Blaðsins frá og með næstu mánaðamótum. Hann hefur verið aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins frá árinu 2001 og starfað sem blaðamaður í tæp 20 ár. Í frétt frá árvakri kemur fram að ráðning Ólafs markar upphaf að nýrri sókn Blaðsins á dagblaðamarkaði þar sem Árvakur hf. hefur sett sér að gera Blaðið að mest lesna dagblaði á Íslandi. Trausti Hafliðason, hefur verið ritstjóri Blaðsins frá því í desember síðastliðnum. Hann á í viðræðum við Árvakur um að fara til annarra trúnaðarstarfa á vegum félagsins. Hann mun þó starfa við hlið Ólafs á Blaðinu út júní. Ólafur Þ. Stephensen sagði í dag að markmiðasetning Árvakurs markaði þáttaskil í rekstri Blaðsins. ?Við dreifum Blaðinu í dag í 100 þúsund eintökum og Blaðið hefur þegar náð góðri fótfestu á blaðamarkaðnum. Við erum að undirbúa breytingar á efnisvali og efnistökum sem við ætlum að muni vekja athygli og auka lesturinn enn.? Einar Sigurðsson, forstjóri Árvakurs, sagði í dag að unnið hefði verið að því undanfarna mánuði að breyta félaginu, sem lengst af var útgáfufélag Morgunblaðsins eingöngu. ?Við höfum gert Árvakur að alhliða miðlunarfyrirtæki og sett okkur skýr markmið um vöxt allra miðla samstæðunnar. Við höfum sett það markmið að Blaðið verði mest lesna fríblað á Íslandi, að Morgunblaðið festi sig í sessi sem stærsta og mest lesna áskriftarblaðið og að mbl.is styrki stöðu sína enn sem langstærsti frétta- og afþreyingarmiðillinn á netinu. Við fylgjum þessari markmiðasetningu eftir með vinnuáætlun til næstu þriggja ára. Ráðning nýs ritstjóra að Blaðinu nú er liður í þeirri áætlun.? Ólafur Þ. Stephensen er stjórnmálafræðingur að mennt með MSc-gráðu frá London School of Economics and Political Science. Hann kom fyrst til starfa hjá Árvakri árið 1987 sem blaðamaður á Morgunblaðinu. Þar starfaði hann m.a. bæði í innlendum og erlendum fréttum og sem leiðarahöfundur. Ólafur var forstöðumaður upplýsinga- og kynningarmála hjá Símanum 1998-2000 og forstöðumaður stefnumótunar- og samskiptasviðs Samtaka atvinnulífsins 2000-2001, en sneri þá aftur á Morgunblaðið. Árvakur hf. hóf þátttöku í fríblaðaútgáfu haustið 2005 þegar félagið keypti helming hlutafjár í Ári og degi ehf., útgáfufélagi Blaðsins. Árvakur keypti síðan allt hlutafé fyrirtækisins í síðasta mánuði. Blaðið hefur frá upphafi verið prentað í prentsmiðju Árvakurs og frá því í september í fyrra dreift með dagblaðadreifikerfi Árvakurs.


 

villja halda félaginu í Kauphöllinni


 

Launavísitalan hækkaði um 4,1% á fyrsta ársfjórðungi frá fyrri fjórðungi, að því er segir í tilkynningu frá Hagstofunni. Launavísitala á almennum vinnumarkaði hækkaði um 4,2%, en mismunandi er milli starfstétta hversu mikil hækkunin var. Laun hækkuðu mest hjá þeim er starfa við fjármálaþjónustu, lífeyrissjóði og vátryggingar, um 6,5%, en hækkunin í iðnaði var minnst, um 3,4%. Launavísitala opinberra starfsmanna hækkaði um 3,7% á tímabilinu. Launavísitala hefur hækkað um 11% frá fyrsta ársfjórðungi, og hækkaði launavísitala á almennum vinnumarkaði um 11,7% og launavísitala opinberra starfsmanna um 9,5%. Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði kveða á um 2,9%-3,65% hækkun launataxta frá 1. janúar 2007. Í hækkun vísitölunnar gætir einnig áhrifa sérstaks samkomulags Sambands íslenskra bankamanna og Samtaka atvinnulífsins frá 28. ágúst sl. sem kvað á um sérstakar taxtahækkanir frá 1. janúar 2007 til samræmis við hliðstætt samkomulag Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins frá 22. júní 2006. Samkvæmt almennum kjarasamningum opinberra starfsmanna hækkuðu launataxtar þeirra um 2,9-3,0% um áramót.


 

Í aprílmánuði voru fluttar út vörur fyrir 19 milljarða króna og inn fyrir 30,3 milljarða króna. Vöruskiptin í apríl voru því óhagstæð um 11,3 milljarða króna samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar. Í apríl 2006 voru vöruskiptin óhagstæð um 10,2 milljarða króna. Fyrstu fjóra mánuðina 2007 voru fluttar út vörur fyrir 99,4 milljarða króna en inn fyrir 119,3 milljarða króna. Halli var á vöruskiptunum við útlönd sem nam 20 milljörðum en á sama tíma árið áður voru þau óhagstæð um 46,6 milljarða.  Vöruskiptajöfnuðurinn var því 26,6 milljörðum króna hagstæðari en á sama tíma árið áður. Fyrstu fjóra mánuðina ársins 2007 var verðmæti vöruútflutnings 22,9 milljörðum eða 30% meira  en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 46% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 10% meira en á sama tíma árið áður. Útfluttar iðnaðarvörur voru 40% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 43% meira en árið áður. Aukningu útflutnings má einna helst rekja til aukins álútflutnings og sölu flugvéla til útlanda. Fyrstu fjóra mánuði ársins 2007 var verðmæti vöruinnflutnings 3,7 milljörðum eða 3% minna en árið áður. Mestur varð samdráttur í innflutningi á fólksbílum og flugvélum en á móti kom aukning í innflutningi á hrá- og rekstrarvöru.


 

Landsbankinn hefur ráðið til sín níu starfsmenn frá finnska bankanum FIM Group Corporation sem er í eigu Glitnis. Meðal þeirra sem fara yfir eru fjórir starfsmenn greiningardeildar FIM og fimm miðlarar hjá finnska bankanum. Í samtali við Pétur Óskarsson, talsmann Glitnis, í Viðskiptablaðinu í dag hættu starfsmennirnir allir á einu bretti í upphafi vikunnar.


 

Það að hin fjölmenna kynslóð þeirra sem fæddust á eftirstríðsárunum, og stundum er kennd við hina svokölluðu hippamenningu, er í þann mund að setjast í helgan stein mun draga úr mögulegum hagvexti í Bandaríkjunum á næstu tíu árum og þar af leiðandi þurfa stjórnvöld að bregðast við með að því að innleiða umbætur á vinnulöggjöf og skattaumhverfi til þess að auka skilvirkni í hagkerfinu. Þetta er niðurstaða nýrrar skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Í skýrslunni er bandaríska hagkerfið mært fyrir mikla framleiðni en á sama tíma það brýnt fyrir stjórnmálamönnum að grípa þurfi til aðgerða til þess að viðhalda henni í kjölfar þess að fyrirsjáanlegt að hlutfall atvinnubærra manna kunni að lækka. Bent er á að "óviðeigandi" opinberar greiðslur til vel stæðra heimiliseigenda hafi aukið á ójöfnuð í hagkerfinu og það kunni að grafa undan pólitískum stuðningi við nauðsynlegar efnahagsumbætur í anda markaðslögmálanna. Einnig þarf að taka til hendinni þegar kemur að almenningsmenntun. OECD hvetur bandarísk stjórnvöld til þess að grípa til aðgerða til þess að stemma stigu við fjölgun þeirra sem setjast í helgan stein, endurskilgreina hverjir eigi rétt á bótagreiðslum frá ríkinu, skera niður skattalegar niðurgreiðslur til heimiliseigenda og auka framlög til menntamála. Fram kemur í skýrslunni að aukinn framleiðni sé lykillinn aðþví að tryggja hagvöxt sem getur staðið undir aukinni velmegun allra þjóðfélagshópa. Spá OECD gerir ráð fyrir að bandaríska hagkerfið geti vaxið ríflega um 2,5% sem er mun minna en að meðaltal síðustu þriggja áratuga, en meðaltalshagvöxtur á því tímabili var um 3,25%. Ástæðan fyrir óhagstæðari hagvaxtarspá er minni atvinnuþátttaka sögum þess að eftirstríðsárakynslóðin er í óða önn að setjast í helgan stein. Fram kemur í skýrslunni að stór hópur manna hætti að vinna þegar þeir eru á bilinu 62 til 65 ára gamlir, þá geta þeir fengið hluta af lífeyrisgreiðslum samkvæmt bandarískum lögum um almannatryggingar. Bent er á að lögin geti verið áhrifamikil þegar kemur að því að stýra atvinnuþátttöku og er mælt með því að engar lífeyrisgreiðslur greiðist til þeirra sem ekki hafa náð 67 aldri til þess að stemma stigu við minnkandi atvinnuþátttöku. Til þess að auka skilvirkni í hagkerfinu og draga úr ójöfnuði mælir stofnunin með því að dregið verði úr skattalegum ívilnunum til þeirra sem borga af húsnæðislánum af þeirri ástæðu að hátekjufólk hafi hagnast mest af því fyrirkomulagi. Þessi tillaga er meðal annars rökstutt með því að benda á að þessar ívilnanir hafi hugsanlega ýtt undir fjárfestingu í einkahúsnæði á kostnað annarra eigna heimilanna í landinu og þar af leiðandi hugsanlega haft áhrif á eignamyndun annarstaðar í hagkerfinu og þar með hamlað frekari hagvexti.


 

Það er mat ráðamanna á Nýja-Sjálandi að eftirspurn eftir þarlendum skuldabréfum verði áfram mikil. Haft er eftir Philip Combes, sem hefur umsjón með útgáfu ríkisskulda í stjórnkerfi landsins, í samtali við Dow Jones-fréttastofuna að allt bendi til þess að mikill áhugi sé meðal erlendra fjárfesta á nýsjálenskum skuldabréfum og ekkert bendi til þess að hann fari þverrandi. Rétt eins og á Íslandi eru vextir háir á Nýja-Sjálandi og gengi gjaldmiðils landsins gagnvart helstu gjaldmiðlum er sterkt. Vextir eru 7,75%, eða þeir næst hæstu í þróuðu hagkerfi á eftir Íslandi. Nýsjálenski dalurinn hefur haldist sterkur mun lengur en flestir gjaldeyrissérfræðingar gerðu ráð fyrir. Áhugi erlendra fjárfesta á skuldabréfum, sem er knúin áfram af háum vöxtum, hefur haldið nýsjálenska dalnum sterkum og náði hann sögulegu hámarki eftir að gengi hans var látið fljóta í síðasta mánuði en þá fór hann í 0,7493 gagnvart Bandaríkjadal. Meðalgengi nýsjálenska dalsins eftir að hann var látinn fljóta gegn öðrum gjaldmiðlum er 0,5800 gagnvart Bandaríkjadal. Þrátt fyrir að hið háa gengi geri að verkum að undirliggjandi áhætta felist í fjárfestingum í þarlendum skuldabréfum segir Combes að eftirspurning sé mikil. Hann segir að þrátt fyrir að það sé erfitt að meta hvernig fjárfestar meti samspil áhættu af gengislækkun og háum stýrivöxtum blasi við að stýrivextirnir geri það að verkum að áhuginn er mikill. Enda þótt gjaldeyrismiðlarar telji einsýnt að gengi nýsjálenska dalsins muni falla á næstu tólf mánuðum er hald manna að lækkunin verði ekki mikil. Áframhaldandi vaxtamunarviðskipti muni sjá til þess. Samkvæmt gögnum seðlabanka landsins héldu útlendingar 67% prósent af ríkisskuldabréfum landsins í þessum mánuði, sem er ekki fjarri sögulegu hámarki sem náðist í júlí á síðasta ári, eða 69,8%. Að sögn er munurinn á vaxtaskiptasamningum á móti undirliggjandi hlutabréfum í sögulegu hámarki.


 

Fjallað eru um tilboð Nasdaq í OMX kauphöllina í leiðara Wall Street Journal í gær. Fram kemur að þrátt fyrir að ekki sé hægt bera kaup á norrænu kauphöllinni saman við kaup á Kauphöllinni í London, sem Nasdaq hefur tvisvar borið víurnar í, þá séu þau engu að síður skynsamleg. Með þeim fái bandaríska kauphöllin aðgang að Evrópumarkaði og bent er á að hátæknifyrirtæki eins Nokia séu skráð á OMX , en Nasdaq hefur sérhæft sig í slíkum félögum. Einnig er bent á að kauphallirnar í Hong Kong og Singapúr noti sama hugbúnað og markaðsaðilar OMX. Slíkt kunni að skipta máli haldi samþjöppun meðal kauphalla áfram. Jafnfram er bent á að ef af kaupunum verði þá muni Nasdaq/OMX verða þriðja stærsta kauphöllin sem starfar yfir Atlantsála. Líkur eru leiddar að því að Nasdaq muni aftur gera tilboð í Kauphöllina í London en hinsvegar gætu forráðamenn hennar leitað í austurveg eftir samstarfi og sameiningum sé hald þeirra að þungamiðja alþjóðlegra verðbréfaviðskipta færist frá New York til Asíu. Fullyrt er í leiðaranum að fjárfestar og fyrirtæki hagnist mjög af þeirri samþjöppun sem hefur átt sér stað meðal kauphalla og að áframhaldandi alþjóðavæðing verðbréfaviðskipta blasi við.


 

Sala lóða fyrir allt að 377 íbúðir í nýju íbúðarhverfi í Urriðaholti í Garðabæ hófst þann 25. maí síðastliðinn. Tilboð höfðu borist í allar lóðirnar, en aðeins um helmingur tilboða mætti útgefnu viðmiðunarverði og heldur því söluferlið áfram. Söluna annast fasteignasölurnar Eignamiðlun og Miðborg. Þetta kemur fram í frétt Viðskiptablaðsins í dag.


 

Aðalfundur danska verslunarrisans Intersport Danmark A/S samþykkti á fundi sínum í gær að ganga til viðræðna við íslenskan fjárfestahóp sem samanstandur af fjárfestingarsjóðnum Kcaj og Straumi-Burðarás Fjárfestingabanka. Kcaj er fjárfestingarsjóður í umsjón fjárfestingarfélagsins Arev sem er að stærstum hluta í eigu Jóns Schevings Thorsteinssonar.


 

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,2% og er 8.159 stig við lok markaðar, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Veltan nemur 17,8 milljörðum króna, þar voru viðskiptin með Glitni fyrir um 13 milljarða króna. Eimskip hækkaði um 1,54%, Glitnir hækkaði um 1,27%, Icelandic Group hækkaði um 1,05%, Flaga Group hækkaði um 0,48% og Straumur-Burðarás hækkaði um 0,47%. Atlantic Petroleum lækkaði um 11,55%, 365 lækkaði um 2,05%, Alfesca lækkaði um 1,17%, Teymi lækkaði um 1,12% og Icelandair Group lækkaði um 0,7%. Gengi krónu styrktist um 0,2% og er 112,8 stig.


 

Hreinn Jakobsson stýrir útrás félagsins frá Danmörku


 

Sameiginleg velta Sólar og Emmessís verður ríflega einn milljarður króna en Sól keypti Emessís í síðustu viku. Í viðtali Viðskiptablaðsins við Snorra Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Sólar ehf., kemur fram að velta Sólar fyrir kaupin nam um 200 milljónum króna. Eins og komið hefur fram þá keypti Sól Emmessís hf. og er stefnt að sameiningu fyrirtækjanna í lok árs.


 

Glitnir hækkaði í gær verðmatsgengi Alfesca frá fyrra mati úr 5,2 í 5,3 krónur á hlut. Markaðsgengið var 5,17 við lok markaða í gær og var því verðmatsgengið 2,5% hærra þegar spá Glitnis kom út. Markgengi, vænt gengi eftir 6 mánuði,  er 5,5 krónur á hlut. Glitnir ráðleggur hluthöfum að halda bréfum sínum til langs tíma. Alfesca birti gott uppgjör fyrir stuttu,sem er ein helsta ástæða hækkaðs verðmats. Einnig hefur heimsmarkaðsverð á laxi lækkað og horfur eru fyrir stöðugt verð á næstunni. Endurfjármögnun félagsins mun lækka vaxtakostnað sem er jákvætt til langs tíma litið. Glitnir uppfærði rekstrarspá sína fyrir Alfesca, og spáir því að meðal EBIDTA-framlegð hækki úr 9,0% í 9,2%, en það skýrist að mestu vegna kaupa Alfesca á franska smurréttafyrirtækinu LTG. Góð sala hefur verið á slíkum réttum að undanförnu og lítið útlit er fyrir breytingu á því. Framtíðarvaxtarspá er óbreytt, 4,0%.


 

Fjármálaeftirlitið hefur tekið saman tölur um vanskil útlána hjá innlánsstofnunum miðað við lok mars 2007 og samanburð við næstu ársfjórðunga á undan. Yfirlitið sýnir að hlutfall vanskila af útlánum í lok 1. ársfjórðungs 2007 er 0,8% samanborið við rúmlega 0,5% í árslok 2006. Í lok 1. ársfjórðungs 2006 var hlutfallið 0,6%.


 

Útboð á ríkisvíxlum í flokki RIKV 07 0903 með tilboðsfyrirkomulagi fór fram hjá Lánasýslu ríkisins í dag eftir því sem kemur fram í tilkynningu Lánasýslunnar. Áætlað var að selja fyrir 2,5 til 5 milljarða að nafnverði. Alls bárust 26 gild tilboð fyrir allt að helmingi hærri upphæð eða 10,6 milljörðum króna. Tilboðum var tekið fyrir 4,8 milljarð á meðalávöxtun 13,548%. Hæsta ávöxtun tekinna tilboða var 13,623% og lægsta ávöxtun tekinna tilboða var 13,480%.


 

Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 0,12% og er 8.165 stig við hádegi, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Veltan nemur 15,4 milljörðum króna. Össur hefur hækkað um 1,36%, Glitnir hefur hækkað um 1,27%, Eimskip hefur hækkað um 1,07%, Icelandic Group hefur hækkað um 1,05% og Straumur-Burðarás hefur hækkað um 0,7%. Atlantic Petroleum hefur lækkað um 16,17%, Alfesca hefur lækkað um 0,78%, 365 hefur lækkað um 0,77%, Bakkavör Group hefur lækkað um 0,56% og Icelandair Group hefur lækkað um 0,53%. Gengi krónu hefur veikst um 0,02% og er 112,9 stig.


 

Að sögn Kristjáns Kristjánssonar, talsmanns FL Group, er danska viðskiptablaðið Børsen með rangar tölur í viðmiði sínu varðandi stöðu félagsins í B&O. Að sögn Kristjáns er tap FL Group af stöðunni um það bil 10 milljónir danskara króna eða 110 milljónir króna.


 

Samkvæmt frétt danska viðskiptadagblaðsins Børsen er gengi bréfa B&O nú 7% lægra en þegar FL Group keypti megnið af sínum bréfum í febrúar á síðasta ári. Því leiðir blaðið líkur að því að tap FL Group af þessari stöðu sinni, sem félagið hefur nú selt, sé um 60 milljónir danskra króna eða tæplega 700 milljónir króna.


 

Vísitala framleiðsluverðs í apríl 2007 er 121,3 stig og lækkaði um 0,5% frá fyrri mánuði samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni. Vísitala framleiðsluverðs fyrir sjávarafurðir hækkaði um 0,4% og vísitala fyrir stóriðju lækkaði um 3,6%. Vísitalan fyrir matvæli hækkaði um 0,1% en vísitala fyrir annan iðnað var óbreytt frá mars. Vísitala framleiðsluverðs fyrir vörur sem framleiddar voru og seldar innanlands hækkaði um 0,1% milli mánaða en fyrir útfluttar afurðir lækkaði hún um 0,9%. Í tilkynningu Hagstofunnar kemur fram að frá apríl 2006 hefur vísitala framleiðsluverðs hækkað um 3,9%; sjávarafurðir hafa hækkað í verði um 6,7%, afurðir stóriðju um 1,2% og matvæli um 4,9%.


 

Press Trust of India greindi frá því um helgina að Hamleys-leikfangaverslunarkeðjan muni opna verslun á Indlandi á næsta ári. Að sögn talsmanns Hamleys eru viðræður á byrjunarstigi en staðsetning hefur verið valin í Delhi, höfuðborg Indlands. Stjórnendur Hamleys sjá mikla vaxtarmöguleika á Asíumarkaði og mun fyrirtækið opna fyrstu sjálfstæðu verslun sína á erlendri grund í Dubai seinna á þessu ári. Fyrirtækið kannar einnig möguleika á opnun verslana í Kúvæt, Sádi-Arabíu og Kína.


 

Í kjölfar þess að bandaríska álfyrirtækið Alcoa gerði 28.5 milljarða Bandaríkjadala óvinveitt yfirtökutilboð í kanadíska fyrirtækið Alcan virðast flestir sammála um að samþjöppun muni eiga sér stað meðal helstu álfyrirtækja heims. Þrátt fyrir að stjórn Alcan hafi hafnað tilboðinu er gengið að því vísu að þar með sé ekki komið að sögulokum: Fleiri fyrirtæki munu blanda sér í slaginn en hinsvegar telja sérfræðingar mestu samlegðaráhrifin felast í því að Alcan og Alcoa fari í eina sæng. Í upphafi vikunnar greindi ástralska blaðið Sydney Morning Herald frá því að ensk-ástralska námu- og álvinnslufyrirtækið Rio Tinto hefði keypt sérfræðiaðstoð frá Detusche Bank til þess að fá ráðleggingar við hugsanlegt tilboð til yfirtöku á Alcan. Á svipuðum tíma hafði kanadíska dagblaðið Globe and Mail eftir fólki innan úr fjárfestingarbankageiranum að forráðamenn Norsk Hydro horfi einnig í sömu átt og séu að vinna að yfirtökutilboði sem nemur meira en 30 milljörðum Bandaríkjadala. Blaðið hermir að tilboðið yrði meðal annars fjármagnað með því að sækja fé í Olíusjóð Norðmanna, en norska ríkið á ríflega fjörtíu prósent í Norsk Hydro. Viðbrögð forráðamanna beggja fyrirtækja við þessum fréttum eru á sama veg: Vísað er til þeirrar stefnu að þau svari ekki orðrómi. Auk ofangreindra fyrirtækja er fullyrt í fjölmiðlum að fyrirtæki eins og BHP Billiton, Vale di Rio Doce, United Company Rusal, Anglo American og Xtrata sýni Alcan einnig áhuga. Einnig er talið að stórir einkafjárfestingasjóðir sjái tækifæri í álgeiranum, en slíkir sjóðir hafa drifið áfram yfirtökuhrinur á ýmsum sviðum undanfarin misseri. Aðkoma Norsk Hydro sögð óraunhæf Í frétt Dow Jones-fréttastofunnar um áhuga annarra álfyrirtækja á Alcan kemur fram að sérfræðingar telja litlar líkur á að úr samruna fyrirtækja eins og Rio Tinto BHP Billington verði: Samlegðaráhrifin yrðu ekki jafn mikil og milli Alcan og Alcoa. Jafnfram hefur fréttastofan eftir norskum sérfræðingi á markaði að Norsk Hydro sé einfaldlega of lítið í samanburði við Alcan að það geti tekið fyrirtækið yfir. Auk þess er bent á að frétt Globe and Mail um að Olíusjóður Norðmanna gæti lagt fram fé sé óraunhæf með öllu. Tímasetningin sé ekki hentug til þess að láta að sér kveða sökum þess að fyrirtækið sé enn að ganga frá sölu á olíu- og gashluta rekstrarins til Statoil. Verður innblástur sótt til Pac-Man? Þrátt fyrir að sérfræðingar telji samruna Alcoa og Alcan vera hagstæðan er ekki víst að leiðin að sameiginlegri sæng verði greið. Sem kunnugt er hvatti stjórn Alcan hlutafjáreigendur ekki að ganga að yfirtökutilboðinu sökum þess að það væri ekki nógu hátt og með öllu óljóst væri hvort að viðeigandi yfirvöld myndu gefa grænt ljós á slíkan samruna. Stjórn Alcoa lýsti því þó yfir í síðustu viku að hún hafi fundað með fjölda hlutafjáreigenda í Alcan og sagði þá vera móttækilega fyrir slíkum samruna. Stjórn Alcan gæti hinsvegar komið með krók á móti bragði. Hún segist ekki útiloka hina svokölluðu Pac-Man strategíu, en hún sækir innblástur sinn til vinsæls tölvuleiks og felst í því að fyrirtæki sem er orðað við óvinveitta yfirtöku snýr við blaðinu og freistar þess að taka yfir sjálfan tilboðsgjafann. Stjórnin hefur ennfremur lýst því yfir að hún hafi átt í viðræðum við þriðja aðila um aðrar leiðir til þess að tryggja stöðu fyrirtækisins. Af þessu má vera ljóst að brölt álfyrirtækja kann að vera uppspretta tíðinda á næstu árum og munu fyrirtæki sem hafa töluverð umsvif hér á landi vera í brennidepli.


 

Bankahópurinn sem Royal Bank of Scotland (RBS) fer fyrir afhjúpaði í gær formlegt tilboð sitt í ABN Amro, en þess hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Tilboðið hljóðar upp á 71,1 milljarð evra og verður 79% þeirrar upphæðar greitt í peningum, sem er töluvert hærra heldur en búist hafði verið við. Afgangurinn mun hins vegar verða greiddur með nýjum hlutabréfum í RBS sem gefin verða út, en auk skoska bankans samanstendur hópurinn af Fortis og Santander. Hið 71,1 milljarða evra tilboð bankanna skiptist þannig að RBS þarf að borga 38,3% upphæðarinnar (27,2 milljarða), Fortis 33,8% (24 milljarða) og Santander (19,9 milljarða). Í tilkynningu sem bankarnir sendu frá sér í gær kemur fram að hópurinn búist við því að yfirtökuferlið geti hafist ekki síðar en 13. ágúst næstkomandi og vonast er til þess að þá verði hægt að ljúka yfirtökunni einhvern tíma á síðasta ársfjórðungi þessa árs. Ef yfirtakan verður að veruleika þá telja bankarnir að hún muni spara þeim árlega 4,23 milljarða evra fyrir árið 2010, en kostnaðurinn við sjálfa yfirtökina er áætlaður 6,81 milljarður evra. Fjármögnun yfirtökunnar er tryggð RBS-hópurinn hefur undanfarinn mánuð verið í harðri baráttu við breska bankann Barclays um yfirráð í ABN Amro, en með þessu nýjasta útspili sínu telja bankarnir að þeir hafi náð yfirhöndinni. Yfirtökutilboð RBS-hópsins er 13,7% hærra heldur en hið vinveitta 63 milljarða evra tilboð Barclays í ABN þann 23. apríl síðastliðinn, sem stjórnendur hollenska bankans samþykktu. Í því samkomulagi var hins vegar einnig gert ráð fyrir því að bandaríski bankinn LaSalle, sem ABN er eigandi að, yrði seldur til Bank of America (BofA) fyrir 21 milljarð evra. Hluthafar ABN snérust aftur á móti gegn því tilboði og tókst að fá hollenskan dómstól til að úrskurða um að fresta bæri sölunni á LaSalle þangað til að samþykki hluthafa ABN Amro lægi fyrir. Bankarnir þrír segja að yfirtökutilboðið sé lagt fram með þeim fyrirvara að hluthafar ABN muni greiða atkvæði gegn sölunni á LaSalle til BofA. Jafnframt kemur fram í tilboði hópsins sem greint var frá í gær að bankarnir ætli að halda eftir um fimm milljörðum evra vegna hugsanlegra skaðabóta til BofA sem hópurinn þyrfti að inna af hendi í tengslum við þá deilu sem stendur um söluna á LaSalle. Hins vegar eru ekki sett fram nein sérstök skilyrði um hvernig fjármögnun RBS-hópsins verður háttað, heldur segjast bankarnir vera búnir að ábyrgjast það fjármagn sem til þarf svo að yfirtakan geti gengið eftir. Þessi trygging kemur í kjölfar þeirra getgáta sem uppi hafa verið - einkum á meðal stjórnenda ABN - um að RBS-hópnum myndi ekki takast að fjármagna yfirtökuna. Slíkar vangaveltur hafa núna verið slegnar út af borðinu. Sterk staða RBS-hópsins gagnvart Barclays Hópurinn hefur einnig útlistað nákvæmlega hvernig hann hyggst endurskipuleggja allan rekstur ABN Amro. Í frétt Financial Times í gær kemur fram að RBS muni taka að sér leiðandi hlutverk í því samhengi ef gengið verður að tilboði bankanna og auk þess taka ábyrgð á því að allar þær breytingar verði í samræmi við lög og reglur. Áform RBS-hópsins gera ráð fyrir því að RBS muni yfirtaka bandaríska bankann LaSalle og efla starfsemina í Bandaríkjunum og Asíu; Fortis yrði stærstur í smásölubankastarfsemi og lífeyristryggingum í Benelux löndunum; en Santander fengi hins vegar að yfirtaka þá starfsemi sem ABN er með í Brasilíu og Ítalíu. Í samtali við Dow Jones fréttastofuna í gær segir sérfræðingurinn Gert-Jaap Kraan hjá hollenska bankanum Theodoor Gilissen, að tilboð RBS-hópsins sé framúrskarandi gott fyrir hluthafa ABN Amro - sérstaklega í ljósi þess að hlutfall peninga í tilboðinu sé töluvert hærra heldur en reiknað hafði verið með. Undir þetta tekur einnig Simon Willis, sérfræðingur hjá NBC Stockbrokers, sem segir jafnframt að í kjölfarið sé RBS-hópurinn kominn í mjög sterka stöðu gagnvart Barclays um að ná yfirráðum í ABN. Willis bendir sömuleiðis á það að sökum þess að RBS segist hafa átt í viðræðum við stjórnendur BofA undanfarin misseri um söluna á LaSalle, sé það sterk vísbending um að hópurinn muni hugsanlega ná samkomulagi við bandaríska bankann á næstunni. Ef sú spá Willis gengur eftir mun það auka verulega líkurnar á því að RBS-hópnum takist að sigra Barclays í baráttunni um yfirráð í ABN Amro.


 

Í gær var undirritaður í Dusseldorf samningur milli Icelandair Hotels, dótturfyrirtækis Icelandair Group, og Hilton Hotels Corporation þess efnis að Nordica hótelið í Reykjavík verði hluti af Hilton hótelkeðjunni og heiti framvegis "Hilton Reykjavik Nordica". Á næstu vikum verður merkingum og ýmsu varðandi starfsemi hótelsins breytt í samræmi við staðla Hilton fyrirtækisins að því er segir í frétt Icelandair.


 

Seðlabanki Evrópu hyggst hætta að nota svokölluð dulmálsorð (e. code-words) þegar hann reynir að gefa til kynna að bankinn ætli að breyta stýrivöxtum sínum á næstunni. Þetta kom fram í viðtali við Axel Weber, einn af meðlimum Seðlabankaráðsins, í viðtali við Financial Times á mánudaginn. Að sögn Webers ætlar bankinn ekki framar að notast við orðtök á borð við að Seðlabanki Evrópu muni sýna "mikla árvekni" (e. strong vigilance) til að láta það í ljós að vaxtakostnaður muni væntanlega hækkar síðar í mánuðinum. Seðlabanki Evrópu mun ekki fylgja í fótspor Englandsbanka og Seðlabanka Bandaríkjanna og senda frá sér stutta yfirlýsingu í kjölfar þess að stjórn bankans hefur tekið stýrivaxtaákvörðun. Weber segist fremur vilja halda því áfram að boðað sé til fjölmiðlafundar einu sinni í mánuði eftir að Seðlabanki Evrópu hefur ákveðið stýrivexti. Reynslan af því hefur verið góð: Fyrirsjáanleiki varðandi stýrivaxtaákvarðanir bankans hefur aukist, sem aftur hefur skilað sér í árangursríkari peningamálastefnu. Stjórn Seðlabanka Evrópu ætlar að leggja mesta áherslu á leiðsögn til lengri tíma um hvernig bankinn muni bregðast við mismunandi ástandi í efnahagslífinu. Í viðtali við Financial Times heldur Weber því fram að einhvers konar dulmálsorð "geti ekki komið í stað djúprar greiningar á þróun efnahags- og peningamála. Það sem er jafnvel mikilvægast fyrir peningamálastefnu er að marka stefnumótun til lengri tíma og hvernig ákveðnar upplýsingar sem muni koma fram á þeim tíma verði meðhöndlaðar þegar ákvörðun um stýrivexti er tekin". Fyrir allt venjulegt fólk - og stjórnmálamenn einnig - eru flest þessi dulmálsorð sem bankinn hefur beitt hingað til, líkt og erlent tungumál, að mati Webers. Þrátt fyrir það að einhverjir aðilar á markaði telji sig þurfa á slíkum orðum að halda, þá eru þau engu að síður óþörf. Það væri betra tala skýrt mál sem allir ættu auðvelt með að skilja hvað þýddi í raun og veru. Slíkt myndi tryggja það að ekki kæmi upp neinn misskilningur um hver stefna bankans væri.


 

Gengi hlutabréfa í breska lággjaldaflugfélaginu British Airways (BA) hækkuðu um tæplega fjögur prósent þegar hlutabréfamarkaðir opnuðu í gærmorgun í London. Bréfin héldu áfram að hækka þegar leið á daginn og stuttu áður en markaðir lokuðu höfðu þau hækkað um 4,5%. Þessi hækkun er talin eiga sér rætur í þeirri staðreynd að flugfélagið greindi frá því síðastliðinn föstudag að bandaríski fjárfestingarbankinn Goldman Sachs hefði aukið eignarhlut sinn í fyrirtækinu upp í 5,14%, úr minna en þremur prósentum. Þessi hlutafjáraukning Goldman Sachs í British Airways, sem er þriðja stærsta flugfélagið í Evrópu, gerði það að verkum að orðrómur fór af stað um að fjárfestingararmur bankans væri að íhuga skref í þá veru að yfirtaka félagið. Sérfræðingar um flugiðnaðinn hafa undanfarin misseri talið líklegt að umsvif einkafjárfestingarsjóða í evrópska flugiðnaðinum muni aukast. Í frétt Dow Jones fréttastofunnar um málið í gær kemur aftur á móti fram að sumir sérfræðingar telji að þessi hækkun á bréfum í BA eigi sér eðlilegri skýringu: Bréfin hafi lækkað mikið það sem af er maímánuði og því hefði mátt búast við því að félagið myndi bráðlega rétta úr kútnum. Jafnframt er á það bent að framkvæmdastjóri BA, Willie Walsh, hafi keypt tíu þúsund hluti í félaginu í síðustu viku, sem hafi aukið bjartsýni manna á að gengi bréfanna myndi hækka. Um vika er síðan að British Airways greindi frá því að það hyggðist taka þátt í fyrirhuguðu yfirtökutilboði í spænska flugfélagið Iberia með hópi fyrirtækja sem bandaríski einkafjárfestingarsjóðurinn TPG Capital fer fyrir. Það er talið að tilboðið verði í kringum 3,5 milljarða evra, en Goldman Sachs bankinn er ráðgjafi hópsins við að skoða allar mögulegar leiðir við að yfirtaka Iberia.


 

Sala á nýjum fasteignum í Bandaríkjunum jókst í fyrsta skipti í fjóra mánuði og nam hækkunin 16,2%. Þetta er mesta hækkun á milli mánaða í fjórtán ár samkvæmt skýrslu sem birtist fyrir skemmstu þar í landi og gefur til kynna að von sé á því að viðsnúningur verði á bandaríska fasteignamarkaðinum á þessu ári. Hagfræðingar höfðu aðeins gert ráð fyrir því að salan myndi aukast um 0,2% í aprílmánuði.


 

Bandaríski einkafjárfestingarsjóðurinn TPG Capital greindi frá því í gær að félagið hefði dregið sig úr slagnum um hlut ítalska ríkisins í flugfélaginu Carrier Alitalia. Í kjölfarið eru aðeins tveir fyrirtækjahópar eftir sem hafa hug á því að leggja fram tilboð í Alitalia, en hið ríkisrekna flugfélag hefur verið rekið með tapi undanfarin misseri. Í tilkynningu sem TPG-hópurinn sendi frá sér kemur fram að hann hafi ekki verið í aðstöðu til að mæta öllum þeim kröfum sem ítalska fjármálaráðuneytið - sem ræður yfir eignarhlutnum - hefði sett í söluferlinu. Ráðuneytið ákvað í síðustu viku að það væri reiðubúið að selja allan hlut sinn í flugfélaginu (49,9%), ef einhver tilboðsgjafi óskaði eftir því. Áður hafði ítalska ríkið sagst ætla að halda eftir tíu prósenta hlut.


 

Vísitala neysluverðs í Þýskalandi hækkaði um 0,2% í maímánuði, samanborið við 0,4% hækkun í síðasta mánuði. Samkvæmt nýjum opinberum tölum sem voru kynntar í gær kemur fram að litlar verðhækkanir hafi verið á matvörum og að hitunarkostnaður hafi einnig lækkað. Þessar nýju verðbólgutölur voru að mestu leyti í samræmi við væntingar greiningaraðila. Verðbólga á ársgrundvelli í Þýskalandi mælist 1,9%.


 

FL Group hefur selt allan hlut sinn í danska fyrirtækinu Bang & Olufsen A/S (B&O), eða sem svarar 10,76% af hlutafé fyrirtækisins. Kaupendur eru hópur danskra og alþjóðlegra stofnanafjárfesta. Söluandvirðið nemur um 10,2 milljörðum króna. FL Group hefur verið hluthafi í B&O frá því í ársbyrjun 2006 segir í tilkynningu félagsins. Ekki kemur fram hvort söluhagnaður er af eigninni. Salan á hlut FL Group í B&O er í fullu samræmi við stefnu FL Group og með henni aukast möguleikar félagsins til að takast á við ný verkefni. Að undanförnu hefur FL Group meðal annars fjárfest í evrópska fjármálageiranum, t.a.m. með kaupum á 2,99% hlut í Commerzbank í Þýskalandi og í afþreyingariðnaði í Bretlandi auk þess að styðja við uppbyggingu Refresco sem keypt hefur fjögur fyrirtæki á undanförnum vikum. Ennfremur hefur FL Group nýverið greint frá umtalsverðri fjárfestingu á fasteignamarkaði í Bandaríkjunum í samstarfi við Bayrock Group LLC, þarlent fasteignafélag. Félögin hafa þegar hafið undirbúning nokkurra stórra þróunarverkefna austan hafs og vestan. Hannes Smárason forstjóri FL Group segir: ,,Fjárfestingastefna FL Group einkennist af miklum sveigjanleika og stöðugri leit að fjárfestingakostum sem bæta eiga hag fyrirtækisins. Sem hluthafi í B&O, leiðandi fyrirtæki á sínu sviði í heiminum, hefur FL Group öðlast mikilsverða reynslu og við óskum B&O velfarnaðar í framtíðinni. Við teljum hinsvegar rétt nú, í þágu okkar hluthafa að kanna nýjar slóðir.? Um FL Group FL Group er alþjóðlegt fjárfestingarfélag sem sérhæfir sig annars vegar í áhrifafjárfestingum og umbreytingar¬verkefnum þar sem áhersla er lögð á langtíma fjárfestingar í skráðum og óskráðum félögum og hins vegar í markaðsviðskiptum sem lúta að skammtíma fjárfestingum sem og framkvæmd afleiðu- og verðbréfaviðskipta tengdum eignasafni félagsins. Höfuðstöðvar FL Group eru í Reykjavík en félagið er einnig með skrifstofur í Kaupmannahöfn og London. Það fjárfestir einkum í Norður-Evrópu, aðallega á Norðurlöndum og Bretlandi, en vinnur þó einnig á öðrum mörkuðum. FL Group er skráð á OMX Nordic Exchange í Reykjavík (OMX: FL). Í lok mars 2007 námu heildareignir félagsins 303 milljörðum króna og markaðsvirði þess var 236 milljarðar. Stærstu hluthafar FL Group eru: Oddaflug B.V (19,8%), í eigu Hannesar Smárasonar, forstjóra félagsins; Gnúpur fjárfestingafélag (19,1%); Baugur Group (18,2%) og Icon og Materia Invest (10,7%). Í sumum tilvikum eru hlutir skráðir á nafn íslenskra fjármálafyrirtækja vegna framvirkra samninga. Frekari upplýsingar má finna á www.flgroup.is


 

Væntingavísitala Gallup mælist nú 154,3 stig og hefur ekki verið hærri síðan mælingar hófust árið 2001, segir greiningardeild Landsbankans."Vísitalan hefur hækkað mikið á síðastliðnum mánuðum en samkvæmt Capacent átti svipuð þróun sér stað í aðdraganda kosninganna 2003," segir greiningardeildi.Væntingavísitalan getur tekið gildi á bilinu 0 til 200. "Hún fær gildið 100 ef að jafnmargir eru bjartsýnir og svartsýnir. Vísitalan er byggð á mati á núverandi efnahagsaðstæðum og ástandi atvinnumála og væntingum til þessara þátta eftir 6 mánuðui, auk væntinga um heildartekjur heimilsins eftir 6 mánuði," segir greiningardeildin.Hún segir hækkun vísitölunnar nú skýrist að mestu af væntingum til ástands í efnahags- og atvinnumálum eftir sex mánuði, en þær aukast gífurlega frá fyrri mánuði.


 

Samkvæmt tilkynningu til Kauphallar íslands hefur William Fall, nýr forstjóri Straums-Burðarás Fjárfestingabanka, fengið kauprétt að 103.591.450 hlutum í bankanum á genginu 20.43. Kaupverðið nemur 2,1 milljarði króna.


 

verður langstærsta kæliog frystigeymslufyrirtæki heims


 

Eimskip Holdings Inc, dótturfélag Hf. Eimskipafélag Íslands, hyggst gera formlegt yfirtökutilboð í allt hlutafé Versacold Income Fund á genginu 12,25 Kanadadollara á hlut. Stjórn Versacold Income Fund hefur samþykkt samhljóða að mæla með yfirtökutilboðinu. Baldur Guðnason, forstjóri Eimskips: ?Tækifærið til að yfirtaka Versacold samræmist mjög vel framtíðarstefnu félagsins um að byggja upp öflugt net kæli- og frystigeymslna um allan heim. Kæli- og frystigeymslur Versacold styðja vel við alþjóðlegt flutninganet Eimskips og mun sameinað fyrirtæki bjóða upp á öfluga þjónustu í fimm heimsálfum. Við höfum mikla trú á stjórnendum Versacold og starfsemi félagsins sem þeir hafa byggt upp á svo árangursríkan hátt. Tilboðið hefur fengið mjög jákvæðar viðtökur og eykur það vonir okkar um að þessi yfirtaka verði að veruleika.? Stjórn Versacold Income Fund telur, eftir að niðurstöður óháðrar nefndar liggja fyrir, að tilboð Eimskips sé sanngjarnt og hagkvæmast sé fyrir hluthafa að taka tilboðinu. Fjárhagslegir ráðgjafar Versacold Income Fund, UBS Investment Bank, hafa einnig komist að þeirri niðurstöðu að hagkvæmast sé fyrir hluthafa að samþykkja tilboðið. Í tengslum við tilboðið hefur Clarke Inc., stærsti hluthafi Versacold, skuldbundið sig til þess að selja Eimskip 8.259.284 hluti í félaginu eða sem nemur 19,% af útistandandi hlutum. Að auki hefur KingSett Real Estate Growth LP No.2 skuldbundið sig til þess að selja Eimskip 2.697.720 hluti í félaginu eða sem nemur 6,2% af útistandandi hlutum. Gert er ráð fyrir að hluthöfum félagsins verði sent formlegt yfirtökutilboð fyrir 13. júní 2007. Tilboðið verður í gildi í a.m.k. 35 daga og er meðal annars háð því að eigendur að 66,67% heildarhlutafjár samþykki tilboðið. Að auki er tilboðið háð almennum skilyrðum og leyfum frá opinberum eftirlitsstofnunum. Ef yfirtakan gengur ekki eftir hefur Versacold skuldbundið sig til þess greiða Eimskip 20 milljónir Kanadadollara eða sem nemur rúmlega einum milljarði króna. Tilboðið er að fullu fjármagnað að hálfu Eimskips, Royal Bank of Canada Capital Markets og KingSett. Royal Bank of Canada hefur veitt Eimskip ráðgjöf vegna tilboðsins. Versacold er leiðandi félag í kæli- og frystigeymslum í Bandaríkjunum og jafnframt á heimsvísu. Félagið á og rekur 72 kæli- og frystigeymslur í Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu, Nýja Sjálandi og Argentínu. Versacold er skráð í Kauphöllina í Toronto.


 

Í dag var Exiqon skráð í Kauphöllinni í Kaupmannahöfn. Exiqon er tíunda félagið sem er skráð á aðalmarkað Nordic Exchange á þessu ári. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Kauphallarinnar. Exiqon er flokkað í heilbrigðisgeira og er líftæknifyrirtæki sem þróar, framleiðir og markaðssetur vörur og búnað á sviði erfðagreininga. Fyrirtækið þjónar vísindamönnum sem starfa í lyfjaiðnaðinum og á rannsóknarstofnunum um allan heim. Sala á framleiðsluvörum Exiqon hefur tvöfaldast á undanförnum árum. Hið sama gildir um vöruúrvalið sem býður upp á helstu nýjungar á sviði efnafræðirannsókna sem samþættar eru nethugbúnaði sem stuðlar að skjótum og áreiðanlegum niðurstöðum vísindamanna. Framleiðslan byggist á tækni sem er vernduð með einkaleyfi og er Exiqon með 75 vörur byggðar á þeirri tækni. Framleiðsluvörur Exiqon eru fyrst og fremst markaðssettar á heimasíðu félagsins, www.exiqon.com, en einnig af dreifingaraðilum þess, samstarfsaðilum og viðurkenndum fyrirtækjum. Aðalskrifstofur Exiqon eru á stað sem kallast Medicon Valley, skammt frá Kaupmannahöfn. ?Okkur er ánægja að bjóða Exiqon velkomið til Nordic Exchange. Exiqon er afar áhugavert félag, sem hefur þróast á undraverðan hátt. Exiqon er jafnframt eitt af mörgum líftæknifyrirtækjum sem fara á skrá í kauphöll. Við erum með 52 félög skráð í heilbrigðisgeiranum á aðalmarkaðnum og 10 á First North,? segir Jan Ovesen, forstjóri OMX Nordic Exchange í Kaupmannahöfn. Viðskiptalota hlutabréfa í Exiqon, sem hefur auðkennið EXQ, er 200. Exiqon flokkast með smærri félögum í heilbrigðisgeiranum.


 

Skeljungur gengur í dag frá kaupum á P/F Føroya Shell sem verið hefur í eigu Shell International Petroleum Company Limited. Starfsemin verður áfram rekin undir vörumerki Shell með sama hætti og hér á landi. Kaupverð er trúnaðarmál segir í frétt félagsins.  Stjórnarformaður Føroya Shell, Petra Koselka, segir: ?Skeljungur hefur í mörg ár starfað undir vörumerki Shell á Íslandi þannig að það er okkur ánægjuefni að Skeljungur taki við sem nýr eigandi félagsins.? Gunnar Karl Guðmundsson, forstjóri Skeljungs, segir: ?Við erum þess meðvituð að við erum að taka við traustu félagi með djúpar rætur í færeysku samfélagi. Við hlökkum til að halda áfram frábæru starfi sem unnið hefur verið af starfsfólki og stjórnendum í þeim tilgangi að viðhalda góðum árangri undanfarinna ára.? Í síðustu viku sagði Hakun Djurhuus starfi sínu lausu sem forstjóri P/F Føroya Shell. Skeljungur leitar nú nýs eftirmanns í Færeyjum. Skeljungur mun taka yfir alla starfsemi P/F Føroya Shell, sem samanstendur af 10 þjónustustöðvum, tveimur birgðastöðvum, 13 olíuflutningabifreiðum og olíuflutningaskipinu Magn. Sala til fyrirtækja felst einkum í sölu til sjávarútvegs, gasolíusölu til iðnaðar og innlendra viðskiptavina sem og sölu á bensíni, díselolíu, svartolíu og smurolíum. Hjá félaginu, sem fagnaði 80 ára starfsafmæli árið 2005, starfa um 100 manns. Skeljungur hf. rekur hér á landi rúmlega 60 útsölustaði og 15 birgðastöðvar um allt land. Hjá Skeljungi starfa í dag um 300 manns. Þann 14. janúar nk. fagnar Skeljungur 80 ára starfsafmæli sínu undir vörumerki Shell.


 

Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 0,08% og er 8.140 stig við hádegi, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Veltan nemur tveimur milljörðum króna. Atlantic Petroleum hefur hækkað um 15,2% í 37 viðskiptum, Straumur-Burðarás hefur hækkað um 0,7%, 365 hefur hækkað um 0,51%, Landsbankinn hefur hækkað um 0,27% og Tryggingamiðstöðin hefur hækkað um 0,27%. Flaga Group hefur lækkað um 2,34%, Actavis Group hefur lækkað um 0,7%, FL Group hefur lækkað um 0,34%, Teymi hefur lækkað um 0,19% og Atorka Group hefur lækkað um 0,13%. Gengi krónu hefur veikst um 0,13% og er 113 stig við hádegi.


 

fyrsta bandaríska fyrirtækið sem sækir um skráningu hér á landi


 

heildareignir Klasa námu tæpum 8 milljörðum króna í árslok 2006


 

Landsbankinn hefur selt í Teymi fyrir um 50 milljónir króna, samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar. Um er að ræða 9.444.734 hluti en gengi viðskiptanna er ekki gefið upp. Við lok markaðar á föstudag var gengið 5,37. Miðað við það gengi er nemur andvirði sölunnar 51 milljón króna. Eignarhlutur Landsbankans í Teymi hefur lækkað í 9,84% úr 10,10%. Af eignarhlut bankans eftir viðskiptin er 6,85% eignarhlutur, vegna framvirkra samninga.


 

William Fall, fyrrum forstjóri Alþjóðasviðs Bank of America, tekur við starfi forstjóra Straums-Burðaráss fjárfestingabanka hf. Friðrik Jóhannsson, sem hefur verið forstjóri bankans frá því í júní 2006, mun starfa náið með William á næstu mánuðum til að tryggja að forstjóraskiptin gangi greiðlega. Þetta kemur fram í tilkynningWilliam Fall var forstjóri Alþjóðasviðs Bank of America frá árinu 2001, þar sem hann hafði yfirumsjón með og bar ábyrgð á allri starfsemi bankans utan Bandaríkjanna; hann mótaði og byggði upp ólík svið bankans, allt frá viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi til fyrirtækja- og millibankastarfsemi, í 18 löndum. Þessi starfsemi gat af sér verulegar rekstrartekjur og yfir 20% arðsemi eigin fjár fyrir bankann, sem er annar stærsti banki heims.William gekk til liðs við Bank of America árið 1995 og bar ábyrgð á fjölda tekjusviða áður en hann var skipaður forstjóri Alþjóðasviðs bankans. William starfaði áður fyrir Westpac Banking Corporation og Kleinwort Benson. Hann er með meistarapróf í náttúruvísindum frá Cambridge-háskóla.Björgólfur Thor Björgólfsson, formaður stjórnar Straums-Burðaráss segir í tilkynningu:?Það er mér mikið gleðiefni að William skuli hafa ákveðið að ganga til liðs við Straum-Burðarás. Hann hefur til að bera víðtæka reynslu úr starfi sínu hjá Bank of America, þar sem hann leiddi alþjóðlega uppbyggingu á einum stærsta banka veraldar. Ráðning Williams sem forstjóra Straums-Burðaráss markar mikilvæg tímamót í umbreytingu bankans í fjárfestingabanka sem er samkeppnishæfur á alþjóðamörkuðum og með sterka stöðu á Norðurlöndum. Ég er sannfærður um að William er rétti maðurinn til að leiða bankann til enn frekari vaxtar.Stjórn Straums-Burðaráss vill þakka Friðriki Jóhannssyni fyrir mikilvægt framlag hans til vaxtar bankans. Friðrik hefur byggt upp traustan grunn fyrir áframhaldandi vöxt Straums-Burðaráss á alþjóðlegum vettvangi og leitt bankann í átt að því marki að gera hann að alþjóðlegum fjárfestingabanka. Framþróun Straums-Burðaráss hefur verið hröð undanfarið ár og einsýnt er að nærri öllum þeim markmiðum sem sett voru í Ársskýrslu 2006 fyrir næstu þrjú ár verður náð á árinu 2007. Það er okkur ánægjuefni að Friðrik mun vera áfram og tryggja þarmeð skilvirka yfirfærslu.??Ég er mjög ánægður með að ganga til liðs við þennan kraftmikla fjárfestingabanka," segir William Fall í tilkynningu. "Straumur-Burðarás hefur gríðarleg sóknarfæri: fáir fjárfestingabankar á Norðurlöndum geta byggt framtíðarvöxt sinn á jafn sterkum efnahagsreikningi. Ég mun halda áfram að vinna að, og í samræmi við, stefnu bankans og ég hlakka til að verða hluti af framtíð Straums-Burðaráss.?


 

Viðskipti stöðvuð með hluti Hf. Eimskipafélags Íslands. Frétt væntanleg. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.


 

Tómas Kristjánsson ér hættur sem framkvæmdastjóri Fjármálasviðs Glitnis og Finnur Reyr Stefánsson hættir sem framkvæmdastjóri Rekstrarsviðs, en þeir hyggja á stofnun fjárfestinga- og fasteignafélags að því er kemur fram í tilkynningu bankans. Tómas og Finnur Reyr hafa undirbúið þessa breytingu í nokkurn tíma og er ákvörðun þeirra tekin í samráði við bankann.


 

Baugur Group hefur bætt við sig í Keops fasteignafélaginu og er nú komið með 32% af hlutafénu að því er kemur fram á netsíðu danska viðskiptatímaritinu Börsen. Félagið keypti í dag 2,5 milljón hluta fyrir 608 milljónir króna.


 

Sigrún Guðjónsdóttir frá hugbúnaðar- og ráðgjafafyrirtækinu Innn hf. og Elías Guðmundsson frá ferðaþjónustufyrirtækinu Hvíldarkletti ehf. voru verðlaunuð í dag fyrir bestu markaðsáætlanirnar við útskrift í verkefninu Útflutningsaukning og hagvöxtur (ÚH) sem Útflutningsráð Íslands stendur að í samvinnu við Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, Landsbanka Íslands, Bakkavör Group, Byggðastofnun, Samtök iðnaðarins og Félag kvenna í atvinnurekstri.  Þetta kemur fram í tilkynningu.Þetta er í 17. skiptið sem ÚH námskeið er haldið á vegum Útflutningsráðs en um er að ræða þróunarverkefni fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem hafa áhuga á að hefja útflutning eða festa í sessi útflutning sem þegar er hafinn. Að þessu sinni tóku fulltrúar 12 fyrirtækja þátt í námskeiðinu en þau eru Hótel Reynihlíð á Mývatni, Jarðböðin við Mývatn, Afurðarstöð KS á Sauðárkróki, Infotec í Reykjavík, Hótel Laki í Efri-Vík við Kirkjubæjarklaustur, Fiskiðjan Bylgja í Ólafsvík, MKM Footwear í Reykjavík, Batteríið Arkitektar í Reykjavík, Innn í Reykjavík, Hvíldarklettur á Suðureyri, Hvalaskoðun Reykjavíkur og Navia í Reykjavík.


 

Í dag var átta blaðamönnum sagt upp á fríblaðinu Nyhedsavisen. Um þetta var tilkynnt á hádegisfundi í dag. Ástæða þessa er sögð vera góð auglýsingasala í blaðið og að ekki sé eins mikil þörf sé á skrifum og áður. Í mótmælaskyni lögðu allir blaðamenn blaðsins niður störf í dag, en forsvarsmenn blaðsins segja að það muni ekki hafa afdrifaríkar afleiðingar. Blaðamennirnir munu mæta aftur til vinnu á morgun. Blaðamönnum á Nyhedsavisen hefur fækkað nokkur sem af er ári, þónokkrir hafa hætt en engir ráðnir í stað þeirra. Í dag eru 152 sem vinna sem vinna á ritstjórn blaðsins.


 

Í samræmi við 18. grein, 2. málsgrein finnskra fyrirtækjalaga (Finnish Companies Act) hefur Glitnir í dag sent tilkynningu til FIM Group Corporation í Finnlandi þar sem fram kemur að Glitnir á meira en níu tíunduhluta (9/10) hlutafjár og atkvæðaréttar í FIM. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.Glitnir á nú 42.176.109 hluti í FIM sem samsvarar um 89,81% hlutafjár og atkvæðaréttar í FIM.Í samræmi við 1. mgr. 18. gr. finnskra hlutafélagalaga, hefur Glitnir rétt til að leysa til sín hluti annarra hluthafa í FIM. Sá innlausnrréttur sem Glitnir hefur ákveðið að nýta getur tekið til allra hluta sem gefnir hafa verið út af FIM og eru í eigu annarra hluthafa.


 

Gengi króna mun halda áfram að hækka og muni haldast sterk fram á haust en gefi þá eftir nokkuð snögglega, að mati greiningardeildar Glitnis, en krónan hefur hækkað um tæp 13% það sem af er ári.?Kauptækifæri myndast á gjaldeyrismarkaði þegar gengisvísitala íslensku krónunnar nær lágmarki í 110, evran fer í 81 krónur og dollarinn í 60 krónur. Reikna má með því að þetta gerist á allra næstu vikum. Nokkrar líkur eru á að vísitalan fari enn neðar og að erlendur gjaldeyrir verði þar með enn ódýrari. Við teljum að ef af því verður muni það verða skammvinnt en í leiðinni gott tækifæri,? segir greiningardeildin.Hún segir mikil bjartsýni um efnahagsframvindu styðji gengi krónu. ?Seðlabankinn boðar áframhaldandi strangt peningalegt aðhald til að bregðast við þenslueinkennum í þjóðarbúskapnum og væntingar eru um að munur innlendra og erlendra skammtímavaxta haldist áfram hár,? segir greiningardeildin.Hröð lækkun gengis krónunnar er ekki óalgeng eftir styrkingartímabil líku, að sögn greiningardeildarinnar, sem rifjar upp að á vormánuðum síðasta árs lækkaði gengið um ríflega 16% á tveimur mánuðum, eftir styrkingarferli.


 

Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 0,04% og er 8.126 stig við hádegi, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Veltan nemur 1,6 milljarði króna. Atlantic Petroleum hefur hækkað um 9,28%, Eimskip hefur hækkað um 2,22% en félagið hefur hækkað um 23,95% á fjórum vikum, Icelandair Group hefur hækkað um 1,07%, 365 hefur hækkað um 0,77% og Exista hefur hækkað um 0,75%. Actavis Group hefur lækkað um 0,83%, Teymi hefur lækkað um 0,57%, Flaga Group hefur lækkað um 0,46%, Bakkavör Group hefur lækkað um 0,46% og Landsbankinn hefur lækkað um 0,13%. Gengi krónu styrktist um 0,24% og er 113,2 stig.


 

Bresku matvörukeðjurnar Tesco, Sainsburys, Waitrose, Iceland, M&S og Co-op hafa lofað að sniðganga íslensk fyrirtæki vegna nýhafinna hvalveiða. Í þessu felst að engar íslenskar sjávarafurðir verða keyptar af fyrirtækjum sem eru tengd hvalveiðum á einhvern hátt, enda jafngildir slíkt stuðningsyfirlýsingu við hvalveiðar, að sögn ýmissa samtaka, en ákvörðun bresku keðjanna kemur í kjölfarið af miklum þrýstingi frá umhverfisverndarsamtökum þar í landi, til að mynda Whale and Dolphin Conservation Society (WDSC) og World Society for Protection of animals (WSPA). Hvalveiðar Íslendinga byggjast á lygum, segir Chris Stroud formaður WDCS, en sú fullyrðing að hvalir éti burt verðmæta fiskstofna er uppspuni frá rótum að sögn Stroud. Eftir tvær vikur mun Alþjóðahvalveiðiráðið hittast, en þá má búast við harðvítugum deilum milli ríkja, en skiptar skoðanir eru um lögmæti og réttmæti hvalveiða innan ráðsins.


 

Íslenska hagkerfið mun halda áfram að kólna og jafnvægi komast á, en ennþá er hætta á harðri lendingu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá OECD. "Verulega hefur hægst á hagvexti, en verðbólguþrýstingur og viðskiptahalli eru ennþá til staðar", segir í skýrslunni. Eftir hinn mikla hagvöxt sem var á árunum 2005 (7,6%) og 2006 (7,2%) sem hleypti verðbólgunni af stað er loksins að hægjast um. Búist var við að erlend fjárfesting myndi dragast saman eftir að uppbyggingu álversins lyki, en nú er útlit fyrir að sá samdráttur verði meiri en ætlað var. OECD væntir nú 0,8% hagvaxtar á Íslandi á árunum 2007 og 2008. Einnig spáir OECD lægri verðbólgu en fyrr, lækkar spá sína úr 3,7% í 3,3%. Ísland er með mesta viðskiptahallann af öllum OECD-löndunum árið 2006, um 26,7% (hlutfall af vergri landsframleiðslu). Hallinn mun dragast stórlega saman þegar fullur kraftur kemst í álútflutninginn sem mun aukast mikið hér á næstu misserum. Stofnunin væntir þess að viðskiptahallinn á Íslandi muni dragast stórlega saman á þessu ári og því næsta,  hallinn verði 13,9% 2007 og 7,8% árið 2008, sem er þó nokkuð hátt. OECD bendir Seðlabanka Íslands á að halda vöxtum háum þar til verðbólgumarkmiðið er í augnsýn. Heildareftirspurn verði að dragast saman og verðbólguvæntingar í takt við markmið.


 

og tekur sæti í stjórn félagsins


 

Valgerður Sverrisdóttir hefur ákveðið að gefa kost á sér í embætti varaformanns Framsóknarflokksins, en ákvörðun um það verður tekin á miðstjórnarfundi flokksins sem haldinn verður í næsta mánuði. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem haldinn var á skrifstofu flokksins. Hún  hefur verið alþingismaður frá árinu 1987, iðnaðar- og viðskiptaráðherra frá 1999-2006 og utanríkisráðherra frá 2006-2007, en hún var fyrsta konan til að gegna ofantöldum ráðherraembættum og hefur verið lengst kvenna ráðherra í ríkisstjórn.Valgerður sagði Framsóknarflokkinn hvorki vera til hægri né vinstri, heldur stefndi beint áfram í að vinna að lausn mála sem frjálsyndur umbótaflokkur. Hún segir ánægjulegt að ný ríkisstjórn skuli sækja stefnumál sín í smiðju Framsóknarflokksins, en megintilgangur Samfylkingar hafi átt að vera mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn, en annað hafi komið á daginn. Erum við því á fullri ferð inn í fjögurra flokka kerfið á ný og það mun verða Framsóknarflokknum hagstætt.Valgerður telur að hún og Guðni myndu verða gott teymi með sterka breidd í forystu flokksins. Það sé mikilvægt nú að veita nýjum og stórum meirihluta á Alþingi aðhald, næg væru tækifærin og sagðist hlakka til að takast á við ný verkefni. Valgerður er sú eina sem lýst hefur yfir framboði í embættið en það losnaði þegar Jón Sigurðsson sagði af sér sem formaður flokksins á miðvikudag og Guðni Ágústsson tók við af honum.


 

Sameining Nasdaq og OMX nýtur stuðnings stjórna beggja kauphallanna og hluthafa að 16,6% hlutafjár. Þar á meðal eru fjárfestar eins og Investor AB, Nordea Bank AB og Magnus Böcker.


 

Tilboð Nasdaq kauphallarinnar í OMX jafngildir því að OMX er metið á 3,7 milljarða bandaríkjadala eða  233 milljarða króna. Þetta er 19% yfir lokagildi gærdagsins. Það er hins vegar 25% yfir meðalgengi síðustu 20 viðskiptadaga. Hlutföll við sameininguna eða yfirtökuna, hvernig sem menn kjósa að kalla það, er þannig að Nasdaq er metið 58% og OMX 42%.


 

Niðurstöður Hagstofinnar sýna að tölvur eru á 89% heimila á Íslandi og 84% heimila geta tengst interneti. Nærri níu af hverjum tíu nettengdum heimilum nota ADSL, SDSL eða annars konar xDSL tengingu og einungis 7% nettengdra heimila nota hefðbundna upphringi-tengingu eða ISDN. Níu af hverjum tíu Íslendingum á aldrinum 16?74 ára nota tölvu og internet. Flestir nota internetið því sem næst daglega. Tilgangur einstaklinga með notkun internets breytist lítið milli ára og líkt og fyrri ár var miðillinn helst notaður til samskipta og upplýsingaleitar. Árið 2007 hafði um þriðji hver Íslendingur pantað og keypt vörur eða þjónustu um internet á því þriggja mánaða tímabili sem spurt var um. Enn er algengast að fólk kaupi farmiða, gistingu eða annað tengt ferðalögum um internet.


 

Stjórn Hf. Eimskipafélags Íslands hefur ákveðið að fela ABN Amro Bank og Hannesi Hilmarssyni, forstjóra Air Atlanta hf., að sjá um sölu á flugrekstrartengdum eignum félagsins sem meðal annars felur í sér að finna kaupendur að 100% hlut félagsins í Air Atlanta hf. Á yfirstandandi ári er gert ráð fyrir að um 20% af veltu Hf. Eimskipafélags Íslands komi frá Air Atlanta hf. Stefnt er að því að ljúka sölu á Air Atlanta á næstu mánuðum að því er segir í frétt félagsins. Að auki hyggst Hf. Eimskipafélag Íslands selja 49% hlut sinn í Avion Aircraft Trading (AAT). Unnið er að því í samráði við eigendur 51% hlutar í AAT sem er í eigu Artic Partners. Artic Parners er í eigu Hafþórs Hafsteinssonar, stjórnarformanns AAT, Arngríms Jóhannssonar, stjórnarmanns í AAT og annarra stjórnenda AAT. Gert er ráð fyrir því að söluferlið klárist á næstu vikum. Hf. Eimskipafélag Íslands hefur stefnt að frekari uppbyggingu á sviði flutningastarfsemi, í skiparekstri og kæli- og frystigeymslulausna á alþjóðavísu undanfarin ár og vill einbeita sér enn frekar að þeim möguleikum sem þar felast. Söluandvirði flugrekstrartengdra eigna sem Eimskip hyggst selja verður notað til frekari vaxtar og til að greiða niður skuldir félagsins. Áhrif sölunnar, fyrir utan söluhagnað, á fjárhagslega afkomu félagins er óveruleg. Áætluð heildaráhrif á efnahag félagsins nemur í kringum 300 milljónum Evra eða um 25 milljörðum króna. Baldur Guðnason, forstjóri Eimskips um stefnubreytinguna: ?Ég sé mjög mikil tækifæri í frekari uppbyggingu í flutningastarfsemi, skiparekstri og kæli- og frystiflutningum um allan heim. Við teljum þá starfsemi vera mjög arðsama og stöðuga fyrir hluthafa félagsins til lengri tíma litið. Eftirspurn eftir flutningum og geymslu á kæli- og frystivörum eykst sífellt í heiminum og ætlum við að vera lykilaðili í þeim vexti sem framundan er.? Hannes Hilmarsson, forstjóri Air Atlanta: ?Við lítum á stöðuna sem einstakt tækifæri fyrir Air Atlanta. Félagið hefur markað sér stöðu sem leiðandi flugfélag á sviði blautleigu flugvéla og okkur hefur tekist að byggja upp sterka stöðu á markaði fyrir fraktvélar í kjölfar endurskipulagningar á árinu 2006. Air Atlanta er vel í stakk búið til að stækka flota sinn og er þess vegna vel staðsett á ört vaxandi markaði fyrir fraktflutninga á alþjóðavísu.? Justin Symonds, yfirmaður ráðgjafar á alþjóðaflutningasviði hjá ABN AMRO Bank: ?Okkur hlakkar til að starfa náið með Eimskip og Hannesi Hilmarssyni við að móta framtíð Air Atlanta. Við sjáum mikla vaxtarmöguleika á markaði fyrir breiðar fraktflugvélar þar sem Air Atlanta hefur skapað sér góðan sess.?


 

Vöxtur í alþjóðahagkerfinu er meiri heldur en hann hefur verið í langan tíma sökum þess að ekkert lát virðist vera á efnahagsuppgangi í Kína, en einnig - og ekki síður - vegna þess að hagvöxtur á evrusvæðinu hefur tekið hressilega við sér. Sú staðreynd vegur upp á móti því að sá samdráttur sem farinn er að gera vart við sig í bandaríska hagkerfinu er meiri heldur en menn höfðu áður haldið. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um horfur í hagkerfum heimsins sem var kynnt í gær. OECD hækkaði fyrri spá sína um hagvöxt á evrusvæðinu á sama tíma og stofnunin telur að hagvöxtur í Bandaríkjunum á þessu ári verði minni heldur en áður hafði verið gert ráð fyrir. Jean-Philippe Cotis, aðalhagfræðingur OECD, segir í viðtali við Dow Jones fréttaveituna í gær að það væri orðið einsýnt að það mætti rekja aukin efnahagsvöxt á evrusvæðinu til Þýskalands og Ítalíu. Efnahagsbati Þýskalands, sem endurspeglast í auknum hagvexti og minnkandi atvinnuleysi, hefur fylgt í kjölfar þess að ríkisstjórn Angelu Merkel ákvað að ráðast í umbætur í efnahags- og atvinnumálum. Það kemur hins vegar mun meira á óvart að ítalska hagkerfið sé farið að taka við sér. Aðeins tvö ár eru síðan að breska vikuritið The Economist sagði að Ítalía væri "hinn raunverulegi veiki maður í Evrópu". Cotis segir að OECD hafi haft efasemdir um að Ítalía yrði eitt þeirra ríkja sem ætti mestan þátt í efnahagslegum viðsnúningi á evrusvæðinu, en samkeppnishæfni þarlendra fyrirtækja hefur versnað verulega á undanförnum árum. Engu að síður virðist raunin vera sú að ítölsk útflutningsfyrirtæki hafi hagnast mikið á þeim aukna hagvexti sem hefur orðið í Þýskalandi síðastliðin tvö ár. Mælt með stífri peningamálastefnu Það bendir flest til þess að hagvöxtur í Kína, fjórða stærsta hagkerfi heimsins, verði enn eitt árið meiri heldur en tíu prósent, en í skýrslu OECD segir að þessi mikli vöxtur í Kína gæti leitt til efnahagslegs óstöðugleika í landinu. Það er mælt með því að kínversk stjórnvöld ráðist í ákveðnar aðgerðir til þess að koma í veg fyrir að svo verði; meðal annars er Kínverjum ráðlagt að leyfa gjaldmiðli sínum að hækka til þess að minnka vaxandi verðbólguþrýsting og koma á meira jafnvægi í milliríkjaviðskiptum. OECD kallar eftir því að seðlabankar á heimsvísu sýni fyllstu vargætni gagnvart þeim vísbendingum sem farið er að bera á um aukinn verðbólguþrýsting. Seðlabankar ættu fremur að velja þann kost að framfylgja stífri peningamálastefnu til þess að tryggja það að verðbólga verði ekki að raunverulegu vandamáli víðsvegar um heim. Á þessu er þó ein undantekning segir OECD: Japansbanki ætti hvorki að hækka né lækka stýrivexti sína á næstunni, heldur að viðhalda þeim í 0,5% í eitt ár til viðbótar. Þrátt fyrir að hagvöxtur hafi aukist verulega í Japan að undanförnu þá hafa laun ekki hækkað jafn mikið og búist hafði verið við, auk þess sem einkaneysla á enn eftir að taka við sér. Engu að síður hafa flestir hagfræðingar - og bankinn raunar gefið það sterklega til kynna - spáð því að Japansbanki muni mjög líklega hækka stýrivexti sína á næstunni. Ekki um hættuástand að ræða Svokölluð kjarnaverðbólga - verðbólga án orku-, matvæla-, áfengis- og tóbaksliða - í bandaríska hagkerfinu er einn hugsanlegur áhættuþáttur varðandi áframhaldandi vöxt í alþjóðahagkerfinu, segir í skýrslu OECD. Af þeim sökum er það mat OECD að Seðlabanki Bandaríkjanna ætti að bíða þangað til snemma á næsta ári með að lækka hjá sér stýrivexti, nema ef til þess kemur að slæm skuldastaða einstaklinga á fasteignamarkaðinum fari að smita út frá sér með víðtækum afleiðingum fyrir hagkerfi landsins. Cotis segir að ef spá OECD um aukin hagvöxt á evrusvæðinu á þessu ári gangi eftir muni það leiða til þess að Seðlabanki Evrópu hækki stýrivexti sína að minnsta kosti tvívegis um 0,25 prósentustig, upp í 4,25%. OECD telur einnig að það séu sterk rök fyrir því að Englandsbanki þurfi að hækka stýrivexti enn frekar á árinu, enda þótt bankinn hafi fylgt mjög stífri peningamálastefnu undanfarin misseri. Þrátt fyrir miklar hækkanir á hlutabréfamörkuðum þá er ekki hægt að líkja ástandinu við það sem var til staðar í lok tíunda áratugarins, segir OECD. Um slíka hlutabréfabólu er ekki að ræða um þessar mundir og því fer fjarri að stutt sé í einhverskonar hættuástand í alþjóðahagkerfinu. Cotis segir hins vegar að til þess að slíkt ástand verði ekki að veruleika þurfi ríkisstjórnir og seðlabankar að haga stefnu sinni skynsamlega og taka mark á þeim varnarorðum sem þeim berast. Annars er möguleiki á því að endurtekning verði á þeim efnahagsvandræðum sem alþjóðahagkerfið gekk í gegnum í lok níunda og tíunda áratugarins.


 

Hlutabréf féllu í kauphöllinni í Sjanghæ í gær í kjölfar þess að kínversk stjórnvöld komu þeim skilaboðun áleiðis í gegnum ríkisfjölmiðla að fjárfestar og fjármálafyrirtæki ættu að vera meðvitaðri og upplýstari í ákvörðunum sínum og íhuga þær hættur sem kunna að felast í spákaupmennsku. Teikn eru á lofti um að stjórnvöld í Alþýðulýðveldinu hafi í auknum mæli áhyggjur á því að meiriháttar leiðrétting á hlutabréfamarkaðnum kunni að vera yfirvofandi og að hún verði til þess að sparnaður fjölda íbúa þurrkist út. Linnulausar hækkanir á hlutabréfamörkuðum þar eystra hafa orðið til þess að fjöldi fjárfesta hefur keypt hlutabréf í þeirri trú að markaðir haldi áfram að hækka. Hlutabréfavísitalan í Sjanghæ hefur hækkað um meira en 300 prósent á tæpum tuttugu og fjórum mánuðum og margir sérfræðingar telja að slík hækkun fáist vart staðist. Einn þeirra er fyrrum seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Alan Geeenspan, en á miðvikudag varaði hann við því að gengi kínverskra hlutabréfa kynni að leiðréttast með "dramatískum hætti." Þrátt fyrir að ummæli manna á borð við Greenspan hafi mikla vigt eru ekki allir á þeirri skoðun að þau komi til með hafa mikil áhrif á kínverska markaðinn. Í Financial Times er haft eftir Steven Sun, sérfræðingi í Asíumörkuðum hjá HSBC, að venjulegir fjárfestar í Kína hafi ekki hugmynd um hver Greenspan sé. Hinsvegar ætla margir að einhverskonar stjórnvaldsaðgerðir verði til þess að markaðurinn leiðréttist. Í samanburði við verð á öðrum hlutabréfamörkuðum í Austur-Asíu er verðið á kínverskum hlutabréfum það hæsta. Fram kemur í frétt Financial Times að verð hlutabréfa sem skráð eru í Kína sé áttatíu prósent hærra en verð þeirra kínversku hlutabréfa sem eru skráð í Hong Kong. Sérfræðingar telja líkur á að markaðurinn leiðrétti sig fljótlega og spáir HSBC tíu til fimmtán prósenta lækkun og að vísitalan í Sjanghæ verði komin niður 3500 stig í lok árs. Um þessar mundir er hún í 4300 stigum.


 

Tilkynning hefur verið send út um að stjórnir Nasdaq og OMX hafi hafið viðræður um sameiningu kauphallanna tveggja. Við sameiningu kauphallanna verður til stærsti markaður á sviði tæknifyrirtækja í heiminum.


 

Nýverið keypti Miðbæjarfélagið ehf. í Reykjavík eignina Byggðarhorn í Árborg á 450 milljónir króna. Hins vegar höfðu feðgarnir Sigurður Fannar Guðmundsson og Guðmundur Sigurðsson keypt jörðina af Gísla Geirssyni fyrir sex mánuðum síðan á 105 milljónir. Í millitíðinni hafa þeir feðgar látið leggja vegi og verið með aðrar framkvæmdir á svæðinu fyrir um 70 milljónir króna. Þeir hafa því hagnast um 275 milljónir króna við sölu á jörðinni.


 

Velta á fasteignamarkaði hefur aukist jafnt og þétt frá áramótum og síðustu vikur hefur í kringum 200 kaupsamningum verið þinglýst á viku, segir greiningardeild Kaupþings. ?Stórkaupavísitala Gallup er góð vísbending um framtíðareftirspurn á fasteignamarkaði en hún hefur haft mjög góða fylgni við veltu fyrir utan skot í mars sem líklega má rekja til mæliskekkju,? segir greiningardeildin. Hún segir stórkaupavísitalan innihaldi upplýsingar frá einstaklingum á aldrinum 16-75 ára um fyrirhuguð húsnæðis- og bifreiðakaup auk ferða til útlanda. Ef húsnæðiskaup eru skoðuð sérstaklega sést að vísitalan hækkar um 32% frá birtingu síðustu mælingar stórkaupavísitölunnar. ?Ljóst er að vísitalan er mun hærri nú heldur en hún var mánuðina á eftir innkomu bankanna á íbúðalánamarkaðinn þegar velta tók verulega við sér í kjölfarið. Ef vísitalan hefur það forspárgildi sem verið hefur ætti velta á fasteignamarkaði að fylgja í kjölfarið. Bjartsýni íslenskra neytenda hefur verið mikil undanfarna mánuði en einnig gæti þessi aukna eftirspurn helgast af því að lánshlutfall Íbúðalánasjóðs var hækkað í mars sem hefur liðkað fyrir íbúðakaupum. Fasteignaverð frá áramótum hefur hækkað um 6%. Þessi vísbending um aukna eftirspurn á fasteignamarkaði gæti haft áhrif til enn frekari hækkunar fasteignaverðs á komandi mánuðum,? segir greiningardeildin.


 

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,09% og er 8.123 stig við lok markaðar, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Eimskip hækkaði um 2,79%, Atlantic Petroleum hækkaði um 0,83%, 365 lækkaði um 0,77%, Alfesca lækkaði um 0,59% og Össur lækkaði um 0,45%. Flaga lækkaði um 3,56%, Teymi lækkaði um 2,03%, Icelandic Group lækkaði um 1,48%, Exista lækkaði um 1,03% og Bakkavör Group lækkaði um 0,69%. Gengi krónu veiktist um 0,46% og er 113,6 stig.


 

Hæstiréttur Íslands hefur snúið við dómi undirréttar og dæmt þýðanda Friends þáttanna vinsælu eina milljón króna í skaða- og miskabætur. Auk þess voru honum dæmdar 800.000 krónur í málskostnað. Jón Steinar Gunnlaugsson skilaði séráliti og vildi staðfesta hinn áfrýjaða dóm.


 

Það þarf ekki sérkunnáttu til að taka myndir í vegabréf. Það er niðurstaða Hæstaréttar í máli Ljósmyndarafélags Íslands á hendur ríkinu. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að útgáfa vegabréfa sé meðal verkefna sem stjórnvöldum eru falin með lögum og séu þannig hluti af stjórnsýslu ríkisins. Myndataka í vegabréf sé órjúfanlegur þáttur í útgáfuferlinu og að ekki séu gerðar faglegar kröfur þannig að jafnað verði við myndatöku í atvinnuskyni í skilningi iðnaðarlaga. Var íslenska ríkið því sýknað af kröfu Ljósmyndarafélagi Íslands.


 

Hagnaður Icelandic Group jókst í 2,3 milljónir evra á fyrsta ársfjórðungi úr einni milljón evra á sama tíma fyrir ári. Framlegð fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var 14,2 milljónir evra, samanborið við 10,4 milljónir evra á sama tíma fyrir ári. Arðsemi eigin fjár nam var 5,3% en hún var neikvæð um 5,7% á sama tíma í fyrra. Hrein fjármagnsgjöld á fjórðungnum námu 5,9 milljónum evra samanborið við 5,6 milljónir evra á sama tímabili fyrir. Gengistap á fjórðungnum nam hundrað þúsund evra, samanborið við gengishagnað að fjárhæð 2,3 milljónir evra á sama tímabili síðasta árs.


 

Hagkaup vinnur að að opnun 7.600 fermetra verslunar í Holtagörðum fyrir næstu áramót og nýrrar 4.000 fermetra verslunar í Garðabæ, sem kemur í stað þeirrar eldri. Þetta kemur fram í upplýsingum fyrirtækisins vegna ársuppgjörs þess. Auk verslunarinnar í Holtagörðum munu skrifstofur fyrirtækisins flytjast þangað.


 

Dansk- íslenska viðskiptaráðið efnir til kvöldfundar á efri hæð veitingastaðarins Kaffi Sólon í Bankastræti og verður fundurinn í kvöld kl. 20.00. Yfirskrift fundarins er Sögur frá Köben og verða sögur forsvarsmanna smærri fyrirtækja sem hafa haslað sér völl í Kaupmannahöfn á eigin forsendum í öndvegi. Hver er reynsla þeirra af rekstri fyrirtækis í öðru landi, er mikill munur á Íslandi og Danmörku þegar að rekstri fyrirtækis kemur og í hverju felst hann helst.Þeir sem segja sögur sínar eru Lárus Jóhannesson framkvæmdastjóri 12 Tóna Reykjavík/Kaupmannahöfn og ber erindi hans yfirskriftina: ?Getur þú gert þetta á morgun? Nei en ætti að vera klárt eftir 5 vikur!?Sömuleiðis mun Friðrik Weishappel, eigandi Laundromat kaffihúsasamstæðunnar í Kaupmannahöfn halda erindi og verður yfirskriftin: ?Fékk sjokk þegar útibússtjórinn sagði mér að bankinn væri ekki þjónustustofnun!?


 

Eimskip-CTG í Noregi tók í dag við nýju frystiskipi, sem er þriðja nýja frystiskipið sem félagið fær afhent á einu og hálfu ári. Að auki eru þrjú önnur frystiskip í smíðum fyrir félagið. Afkastageta Eimskip-CTG meira en tvöfaldast með tilkomu nýju skipanna. Fjárfestingin í sex nýjum frystiskipum er í samræmi við stefnu félagsins að verða leiðandi flutningsaðili á Norður Atlantshafi en nýr skipafloti tryggir hagkvæmari flutninga á vegum félagins. Heildarfjárfestingin í sex nýjum skipum fyrir Eimskip-CTG nemur um 8 milljörðum króna en samið var um smíði þessara skipa á árunum 2004 til 2006. Nýja frystiskipið er blanda af frysti- og gámaskipi og er 82 metra langt og 16 metra breitt og er það sérstaklega styrkt til siglinga í ís. Hámarksganghraði þess er 16 sjómílur á klukkustund og burðargeta þess er 2.500 tonn. Skipið getur borið 2.000 bretti og 28 gámaeiningar á þilfari. Á skipunum er síðuport af fullkomnustu gerð sem styttir löndunar- og lestunartíma um allt að helming. Eimskip-CTG sérhæfir sig í flutningum og geymslu á frosnum og kældum sjávarafurðum á Norður Atlantshafi. Með öflugu flutningskerfi býður Eimskip-CTG sjávarútvegsfyrirtækjum alhliða þjónustu, allt frá löndun og geymslu sjávarafurða til flutninga til kaupenda ásamt tengdri þjónustu. Flutningsnet Eimskip-CTG samanstendur nú af 15 frystiskipum og fimm frystigeymslum í Norður og Vestur ? Noregi. Fyrirtækið er með starfsstöðvar á lykilstöðum í Noregi og Murmansk. Frystiskipið var byggt af Myklebust Verft AS í Noregi. Skipið á eftir að fá nafn en það verður nefnt eftir fossi í samræmi við hefð Eimskips að nefna öll skip sín eftir fossum. Ráðgert er að skipið fá nafn í Reykjavík í byrjun júní. Baldur Guðnason, forstjóri Eimskips, segir í tilkynningu. ?Við erum mjög ánægð með að bæta enn einu frystiskipi við skipaflotann. Eimskip hefur þegar bætt við þremur nýsmíðuðum skipum á einu og hálfu ári. Þegar við fengum fyrsta skipið afhent var það fyrsta nýsmíði á frystiskipi af þessari stærð í heiminum í hátt í tvo áratugi. Nýja skipið er þriðja skipið af sex sem tekið er í notkun eftir að við kynntum að við ætluðum að ráðast í smíði nýrra frystiskipa árið 2004. Nýju skipin spila lykilhlutverk í að útvíkka og bæta ?door to door? þjónustu milli Noregs, Bretlands, Belgíu og Hollands og styrkja stöðu Eimskips sem leiðandi flutningsaðili á Norður Atlantshafi.?


 

Greiningardeild Kaupþings spáir áframhaldandi hækkun á vísitölu neysluverðs í næsta mánuði eða sem nemur 0,6% hækkun milli mánaða. Hækkunina má að mestu rekja til hækkun á fasteignaverði og á eldsneyti. Nái spáin fram að ganga verður tólf mánaða verðbólga í júní 4,1%, samanborið við 4,7% hækkun í maí. ?Hratt hefur dregið úr tólf mánaða verðbólgu á síðustu mánuðum en á sama tíma í fyrra gekk yfir mikið verðbólguskot í kjölfar gengisveikingar krónunnar. Að mati Greiningardeildar er enn talsverður verðbólguþrýstingur í hagkerfinu. Bjartsýni neytenda er í hæstu hæðum um þessar mundir og á sama tíma hefur líf færst yfir fasteignamarkaðinn. Þá er enn mikil þensla á vinnumarkaði og engin kólnun þar sjáanleg, atvinnuleysi í sögulegu lágmarki og launahækkanir milli ára að mælast í kringum 10%,? segir hún.


 

Evrópski fjárfestingarbankinn (EIB) gaf í gær út nýjan flokk krónubréfa fyrir fjórum milljörðum króna með gjalddaga í janúar 2010. Bréfin bera 10,25% vexti, að sögn greiningardeildar Glitnis. ?Alls hefur EIB nú gefið út krónubréf að fjárhæð 70,5 milljarða króna sem ekki eru komin á gjalddaga en EIB er þriðji stærsti útgefandi krónubréfa á eftir KFW (þýska ríkinu) og hollenska bankanum Rapobank. Samanlagt standa þessir þrír útgefendur að baki 57% heildarútgáfu krónubréfa fram til þessa,? segir greiningardeildin. Hún segir að það sem af er ári hafa verið gefin út krónubréf að fjárhæð 155 milljarða króna en útistandandi krónubréf nema nú 370 milljörðum króna alls að nafnvirði. ?Útgáfa krónubréfa styður við gengi krónunnar að öðru óbreyttu. Að sama skapi veldur uppgreiðsla krónubréfa lækkun gengis krónunnar ef fjárfestar kjósa að framlengja ekki krónubréfaeign sinni. Á meðan vaxtamunur við útlönd er hár er hins vegar líklegt að krónubréfaútgáfan haldi áfram enn um sinn,? segir greiningardeildin. Krónan Gengi krónunnar hefur hækkað um 13% frá áramótum og síðustu þrjá viðskiptadaga styrktist krónan um ríflega 2% sem verður að teljast mikil styrking á svo skömmum tíma, samkvæmt greiningardeildinni. ?Útgáfa krónubréfa í gær ásamt stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefur stutt við gengi krónunnar og aukið bjartsýni fjárfesta, en ríkisstjórnin boðar frekari lækkanir skatta á fyrirtæki og einstaklinga. Við lokun markaða í gær stóð gengisvísitalan í 112,85 og hefur vísitalan ekki verið lægri frá því í mars á síðasta ári. Það sem af er degi hefur gengi krónunnar hins vegar lækkað og gera má ráð fyrir að einhverjir kjósi að taka hagnað eftir hækkun undanfarinna daga. Líklegra er þó að gengislækkunin sé tímabundin,? segir greiningardeildin.


 

Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 0,53% og er 8.087 stig við hádegi, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Veltan nemur 3,7 milljörðum króna. Eimskip hefur hækkað um 0,64% og Mosaic Fashions hefur hækkað um 0,3%. Teymi hefur lækkað um 2,03%, Icelandic Group hefur lækkað um 1,48%, FL Group hefur lækkað um 1,19%, Bakkavör Group hefur lækkað um 1,11% og 365 hefur lækkað um 1,03%. Gengi krónu hefur veikst um 0,34% og er 113,5 stig.


 

Avion Aircraft Trading hefur gengið frá kaupum á tveimur nýjum Airbus A330-200 fraktvélum, vélarnar koma í fyrsta skipti á markað í ársbyrjun 2010. Listaverð hverrar vélar er um 8 milljarðar íslenskra króna en raun kaupverð er umtalsvert lægra og er ekki gefið upp segir í frétt Avion. Kaupin á vélunum tveimur er til viðbótar við kaup á sex slíkum vélum í síðastliðnum febrúar . Samtals er því um að ræða átta vélar og hafa tvær af þeim verið seldar til Icelease og tvær leigðar til Icelandair Cargo dótturfélaga Icelandair Group. Vélarnar verða afhentar 2010 til 2012 og er þetta í fyrsta skipti sem íslensk fyrirtæki kaupa og reka nýjar vélar frá Airbus. Í tilkynningu kemur fram að ákvörðun Avion Aircraft Trading um kaup á þessum vélum byggist á hagstæðu kaupverði, spám um mikinn vöxt á fraktmarkaði og áætlaðri þörf fyrir meira en 400 fraktvélar af þessari burðargetu næstu 20 árin. Airbus A330-200 fraktvélin er eina vélin í sínum stærðarflokki sem getur borið 64 tonn með 7.400 km hámarks flugdrægi og hámarks burðargetu upp á 69 tonn með 6,000 km flugdrægi. Yfir 60 flugfélög reka í dag farþegaútgáfuna sem auðveldar viðkomandi flugfélögum að taka fraktútgáfuna í notkun. Avion Aircraft Trading er í 51% meirihlutaeigu Hafþórs Hafsteinssonar og Arngríms Jóhannssonar, stjórnenda og annara fjárfesta og 49% í eigu HF Eimskip. Félagið var stofnað í apríl 2005 og hefur fyrir þessi kaup keypt 30 flugvélar, aðallega Airbus A300-600, Boeing 747-400 og nýjar Boeing 777 fraktvélar sem síðan eru seldar aftur á markaði.


 

Fitch Ratings staðfesti í dag lánshæfiseinkunnir Straums-Burðaráss fjárfestingabanka hf.: langtímaeinkunn BBB-, skammtímaeinkunn F3, óháð einkunn C/D og stuðningseinkunn 3. Horfur lánshæfiseinkunnanna eru stöðugar. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Staðfestingin kemur í kjölfar tilkynningar Straums-Burðaráss um kaup á 62% hlut í finnska bankanum eQ. Gert verður yfirtökutilboð í allt hlutafé og kauprétti í eQ. Að sögn Fitch eru kaupin í takt við það markmið Straums-Burðaráss að verða leiðandi Norrænn fjárfestingabanki. eQ starfar í Finnlandi en kaupin passa vel við starfsemi Straums-Burðaráss á sviði fyrirtækjaráðgjafar og miðlunar á Norðurlöndum, sem að sögn Fitch er nú þegar með starfsemi á Íslandi, í Danmörku og Svíþjóð, auk Bretlandseyja og Hollands. Kaupin bæta eignastýringu við þjónustuframboð Straums-Burðaráss en eQ er leiðandi í eignastýringu, verðbréfamiðlun og fyrirtækjaráðgjöf. Þar sem þjónusta eQ skapar fyrst og fremst þóknunartekjur munu kaupin tryggja enn frekar vöxt stöðugra tekjustofna hjá Straumi-Burðarási.


 

Christian Clausen, nýr framkvæmdastjóri fjármálafyrirtækisins Nordea, varar við því að sala ríkisins á hlut þess í fyrirtækinu fari úr böndunum. Salan mun fá umfjöllun í fjölmiðlum og því er brýnt að halda að sér höndum. Clausen sagði á morgunverðarfundi hjá Börsen: ?Sænska ríkið verður að halda rétt á spöðunum, til að mynda er mikilvægt að rétt verð fáist. Ég hugsa að þetta muni taka nokkurn tíma, en þegar allt kemur til alls er það ríkið sem ákveður hver lokaniðurstaðan verður.? Clausen lagði áherslu á að Nordea yrði ennþá í fremstu röð á sínu sviði og að vöxtur sé forgangstriði, auk þess sem góð afkoma til hluthafa sé mikilvæg. Nordea er í eigu fjögurra stórra banka á Norðurlöndunum auk sænska ríkisins, eins og áður sagði.


 

Fjármögnun á áltæknigarði í Þorlákshöfn er í höfn eftir að fyrirtækinu Artus ehf. var tryggt bolmagn frá erlendum fjárfestum. Samið hefur verið við Línuhönnun um framkvæmd á umhverfismati. Þetta kemur fram á fréttavefnum sudurland.is. ?Nú á aðeins eftir að tryggja samninga við orkufyrirtæki,? segir Jón Hjaltalín Magnússon, forsvarsmaður Artus, í samtali við fréttavefinn en hann segir sérstaklega horft til Hellisheiðarvirkjunar. Reiknað er með að framkvæmdir hefjist næsta sumar segir á sudurland.is.


 

greiða einn milljarð króna í arð til hluthafa


 

Stjórn Sameinaða lífeyrissjóðsins hefur ákveðið að taka upp reglur Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (Principles for Responsible Investment). Reglurnar sem eru leiðbeinandi fyrir stofnanafjárfesta um allan heim fela í sér að þátttakendur skuldbinda sig til að taka tillit til umhverfislegra og félagslegra þátta við fjárfestingar sínar, auk þess sem lögð er áhersla á góða stjórnarhætti fyrirtækja sem fjárfest er í segir í tilkynningu.


 

Stjórnendur Barclays útlistuðu í gær áætlun sína vegna yfirtökunnar á ABN Amro á fundi með fjármálaráðherra Hollands, Wouter Bos, en endanlegt vald til að samþykkja samruna bankanna liggur í hans höndum. Það var einnig fastlega gert ráð fyrir því að Barclays myndi í lok dagsins í gær senda skjöl til hollenska seðlabankans og breska fjármálaeftirlitsins, þar sem óskað verður eftir því að yfirtökutilboð bankans í ABN Amro hljóti samþykki. Í kjölfarið hyggst Barclays auk þess reyna að ljúka við gerð nauðsynlegra umsókna og koma þeim í hendur í 108 samkeppniseftirlita í 53 löndum víðsvegar um heim, áður en þessi mánuður er úti. Með þessu móti vonast Barclays eftir því að ná ákveðnu forskoti á RBS-hópinn, sem samanstendur af Royal Bank of Scotland, Fortis og Santander, en breski bankinn á í harðri samkeppni við hópinn um að ná yfirráðum í ABN Amro. Heimildarmenn Financial Times sem vel þekkja til framgangs málsins, telja að Barclays geti lagt fram formlegt tilboð í ABN í lok júlí. Ef af því verður gæti það orðið til þess að fjárfestar ákveði fremur að fallast á tilboð Barclays heldur en RBS-hópsins, enda þótt tilboð hins síðarnefnda sé hærra, eða 71 milljarðar evra samanborið við 63 milljarða evra tilboð Barclays sem ABN Amro samþykkti 23. apríl síðastliðinn. Í frétt Financial Times kemur fram að RBS-hópurinn hafi mætt töluverðri andstöðu af hálfu stjórnenda ABN á undanförnum misserum. Helsta ástæða þess eru hugmyndir bankahópsins um að skipta ABN Amro í þrennt, en slíkt ferli myndi taka mörg ár í framkvæmd og ætti sér ekki neitt fordæmi fyrir banka að sömu stærðargráðu og ABN. Þrír möguleikar í stöðunni Belgíski bankinn Fortis hélt hluthafafund sinn í gær og þar kom fram í ræðu stjórnarformannsins, Maurice Lippens, að bankinn væri ekki enn búin að ákveða hvert næsta skref hans yrði varðandi slaginn um ABN. Það liggur fyrir að bankahópurinn sem Fortis er hluti af verður að taka ákvörðun fyrir næstkomandi sunnudag. Þrír möguleikar eru í stöðunni: Leggja fram annað og betra tilboð í ABN, draga sig tilboð sitt til baka, eða fresta því að taka ákvörðun, en samkvæmt hollenskum hlutabréfalögum er heimilt að biðja um lengri frest. Hins vegar verður að teljast mjög ósennilegt að hópurinn ákveði að hætta við yfirtökuna á ABN Amro. Í ræðu sinni á hluthafafundi Fortis sagði Lippens að í ljósi þeirrar öflugu stöðu sem bankinn hefði komið sér upp á Benelux-svæðinu, þá væri það óskynsamlegt að virða að vettugi jafn gott tækifæri til þess að útvíkka starfsemi bankans enn frekar. Engu að síður lagði Lippens áherslu á það að þrátt fyrir þá staðreynd að samruni ABN Amro og Fortis yrði mjög hagstæður, þýddi það ekki að hann væri tilbúin að borga yfirverð fyrir hollenska bankann.


 

Farsíma- og breiðbandseining France Telecom, Orange, er nú nærri því að ganga frá kaupum á spænskri einingu Deutsche Telekom, Ya.com, segja aðilar sem nákomnir eru málinu. Orange mun því hafa boðið hærra en samkeppnisaðilinn Vodafone. Yfirtakan er hluti af stærri samningi milli Deutsche Telekom og France Telecom, en samkvæmt honum mun Deutsche Telekom kaupa farsímaeiningu France Telecom í Hollandi. Markaðsaðilar meta Ya.com á 33-42 milljarða króna.


 

Þýski varnarmálaráðherrann, Franz Josef Jung, sagði á mánudaginn að bandaríska herliðið í Afganistan þyrfti sýna mun meiri gætni í hernaðaraðgerðum sínum gegn hryðjuverkamönnum í landinu, til að koma í veg fyrir mannfall borgara. Jung sagði í samtali við þýsku sjónvarpsstöðina ZDF að ef Bandaríkjaher bætti ekki úr þessu myndi það leiða til þess að herinn fengi almenning í Afganistan upp á móti sér. Ummæli varnarmálaráðherrans endurspegla þær áhyggjur sem fara vaxandi á meðal evrópskra ráðamanna í kjölfar frétta um hátt mannfall afganskra borgara sem hægt er að rekja til bandarískra hernaðaraðgerða.


 

Bandaríski flugleiðaframleiðandinn Boeing Co. staðfesti í gær afkomuspá sína fyrir árið, sem gerir ráð fyrir að tekjur fyrirtækisins verði á bilinu 3,9 til 4 billjónir króna. Þá staðfesti fyrirtækið einnig afkomuspá næsta árs, sem gerir ráð fyrir 4,38 til 4,45 billjónum króna í tekjur. Fyrirtækið gerir einnig ráð fyrir hærri arðgreiðslum á næsta ári, en þá verður dregið úr fé sem varið er til rannsókna og þróunar. Fyrirtækið spáir enn að afhentar verði á bilinu 515 til 520 þotur á næsta ári.


 

Á fundi fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Henry Paulson, og varaforseta Kína, Wu Yi, náðist samkomulag um að Kína grípi til aðgerða sem muni leiða til þess að Kínverjar opni enn frekar fjármálaþjónustumarkað sinn fyrir erlendum fyrirtækjum. Kína mun samkvæmt samkomulaginu aflétta takmörkunum á aðgengi nýrra hlutabréfafyrirtækja að mörkuðum, sem mun skapa bandarískum fyrirtækjum tækifæri og blása lífi í samkeppni í hlutabréfaviðskipti í Kína, ásamt því að færa nýja sérfræðiþekkingu inn á markaðinn, segir Paulson. Þá verður erlendum bönkum umsvifalaust heimilt að bjóða upp á sína eigin tegund af debit- og kreditkortum.


 

Rússneski námurisinn Norilsk Nickel hefur hækkað tilboð sitt í kanadíska nikkelframleiðandann LionOre Mining International og býður nú 27,5 kandadíska dali á hlut, sem metur fyrirtækið á tæplega 390 milljarða króna. Tilboðið er tíu prósent hærra en útistandandi yfirtökutilboð svissneska fyrirtækisins Xstrata PLC, en stjórn LionOre mælti með tilboði Xstrata við hluthafa í síðustu viku. Tilboðið er einnig 28% hærra en fyrra tilboð Norilsk, sem lagt var fram í byrjun maí.


 

Stærsta námufyrirtæki heims, BHP Billiton, hefur stigið fram sem mögulegur bjargvættur álframleiðandans Alcan gegn óvinveittu yfirtökuboði samkeppnisaðilans Alcoa, að því er kemur fram í frétt Globe and Mail. Aloca lagði fram ósamþykkt yfirtökuboð í Alcan þann 7. maí síðastliðinn, sem hljóðar upp á tæpa 1.700 milljarða króna, en Alcoa mælti með því við hluthafa sína á þriðjudaginn að hafna tilboðinu, þar sem það endurspegli ekki verðmæti fyrirtækisins og sé langt undir markaðsvirði þess. Dick Evans, forstjóri og framkvæmdarstjóri Alcan, sagði við það tilefni að fyrirtækið væri að skoða alla þá möguleika sem væru í stöðunni og það fælist meðal annars í því að það stæðu yfir umræður við aðra aðila. Globe and Mail greindi svo frá því í gær að viðræður á milli BHP Billiton og Alcan hafi átt sér stað, en þær væru á frumstigi og hafa ekki verið staðfestar. BHP Billiton varð til við samruna ástralska fyrirtækisins Broken Hill Proprietary Company og breska fyrirtækisins Billiton árið 2001, og er það stærsta sinnar tegundar, en fyrirtækið er tvískráð í Bretlandi og Ástralíu. Greiningaraðilar hafa einnig velt vöngum yfir því hvort önnur fjársterk námufyrirtæki á borð við Rio Tinto PLC og Xtrata PLC muni stíga fram að samningaborðinu. Einnig hefur það ekki verið útilokað að Alcan muni gera tilraun til yfirtöku á Alcoa. Óvíst er hvort Alcoa sé reiðubúið að hækka tilboð sitt, en Kevin Lowery, talsmaður Alcoa, segir að engar viðræður hafi átt sér stað síðan yfirtökuboðið var lagt fram. Hann segir að fyrirtækið muni fara yfir svar Alcan á næstunni, en Alcoa sé áfram í þeirri trú að tilboðið sé sanngjarnt og hagstætt hluthöfum. Alcoa hafði átt í árangurslausum samrunaviðræðum við Alcan í tæplega tvö ár, áður en fyrirtækið lagði yfirtökuboðið fram. Alcoa segir að samruni fyrirtækjanna sé nauðsynlegur þar sem fyrirtæki sem starfa á nýjum mörkuðum séu sífellt að auka markaðshlutdeild sína, en fyrirtæki á borð við United Co. Rusal frá Rússlandi, Aluminum Corp. frá Kína og Dubai Aluminum hafa öll verið að auka við framleiðslu sína í löndum þar sem orkuverð er lægra. Alcoa heldur því fram að hagræðing við samruna fyrirtækjanna muni fela í sér rúmlega 60 milljarða króna sparnað á ársgrundvelli. Tekjur sameinaðs fyrirtækis myndu verða rúmlega 3.300 milljarðar króna og framleiðslugeta þess væri 7,78 milljónir tonna af áli á ári. Hjá sameinuðu fyrirtækinu myndu starfa 188 þúsund starfsmenn í sex heimsálfum, en sem kunnugt er rekur Alcan álverið í Straumsvík og Alcoa rekur álverið á Reyðarfirði.


 

Samkvæmt nýrri löggjöf Evrópusambandsins (ESB) munu verða sett höft á svokölluð reikigjöld (e. roaming) í farsímaþjónustu, sem mun verða til þess að símtöl milli landa innan ESB munu verða að minnsta kosti helmingi ódýrari en áður, segir í frétt Financial Times. Reikigjöld eru sett á þegar farsímanotandi ferðast út fyrir þjónustusvæði þess aðila sem hann hefur þjónustusamning við og nýtir þjónustu annarra aðila án þess að hafa gert við hann samning. Þessi markaður hefur verið að mestu óafskiptur þar til nú og hafa farsímafyrirtæki nýtt sér það óspart, enda eru reikigjöld talsvert há víðast hvar. Samkvæmt nýju löggjöfinni er fjarskiptafyrirtækjum óheimilt að leggja meira en 0,49 evrur, fyrir virðisaukaskatt, í reikigjald fyrir hverja mínútu þegar hringt er og 0,24 evrur þegar svarað er. Reikigjöld eru mishá innan sambandsins, en eru yfirleitt að minnsta kosti helmingi hærri en hámark nýju löggjafarinnar. Þessi löggjöf markar nokkra sérstöðu í Evrópusambandinu, þar sem henni var mætt af mikilli mótstöðu ríkisstjórna og hagsmunaaðila, meðal annars Vodafone, en gefið er að henni verður vel tekið af almenningi. Fjarskiptamálaráðherra sambandsins, Viviane Reding, stóð að baki laganna sem voru kynnt á síðasta ári, en frá árinu 2005 hafði hún varað fjarskiptafyrirtækin við því að gjöldin væru of há og bent þeim á að lækka þau sjálfviljug. Hún segir að reikigjaldamarkaðurinn hafi brugðist þessu ákalli og að Evrópubúar væru neyddir til að greiða allt of há gjöld fyrir símtöl milli landa, sem væru allt að fjórum sinnum hærri en kostar að hringja innanlands. Hin nýja löggjöf er mikill sigur fyrir neytendur og einnig innri markað fjarskipta, að mati Reading. "Þetta er óhefðbundin íhlutun, enda vandamálið óvenjulegt og hefur sýnt sig að markaðurinn hefur ekki getað leiðrétt það að sjálfsdáðum. Í Evrópu eru 480 milljónir farsímanotenda og nota yfir hundrað milljónir þeirra reikiþjónustu í dag, en Reding segir að tugir milljóna muni nýta sér reikiþjónustu í kjölfar lagasetningarinnar. Bretland, Frakkland og Spánn voru meðal helstu andstæðinga löggjafarinnar, en þar eru staðsett mörg af stærstu fjarskiptafyrirtækjum sambandsins. Andstæðingar hafa áhyggjur af því að löggjöfin muni hafa íþyngjandi áhrif á þennan sívaxandi iðnað, en fjarskiptafyrirtæki hafa getað sótt rúmlega 700 milljarða króna í reikigjöld á ársgrundvelli fram til þessa.


 

Nýskipaður forsætisráðherra Frakklands, François Fillon, hefur heitið skjótum aðgerðum sem miði að því að blása lífi í efnahag Frakklands. "Frakkland er keppnisbifreið í Formúlu 1. Við þurfum að keyra á fullum krafti til að standast alþjóðlega samkeppni, á sama tíma og gætt er að vélinni og séð til þess að bifreiðin endi ekki útaf brautinni," sagði Fillon í viðtali við franska fjölmiðla. Hann sagði jafnframt að nauðsyn væri að hafa hraðan á, þar sem Frakkland hafi dregist verulega aftur úr. Þessa stefnu kynnir Fillon í aðdraganda þingkosninga Frakklands, sem fara fram í júní næstkomandi, en spáð er að UMP, hægri-flokkur Sarkozy og Fillon, muni sigra með miklum meirihluta. Í kjölfar kosninganna hefur ríkisstjórnin boðað að haldinn verði sérstakur þingfundur þar sem gerðar verða verulegar umbætur á skattaumhverfi landsins. Fillon ítrekaði að þessi umbótaáætlun verði lögð fram í júlí og að hún muni hrista verulega upp í efnahagnum og snúa honum á rétta braut. Samkvæmt áætluninni mun yfirvinna verða undanskilin skatti, vaxtagreiðslur af fasteignalánum verða frádráttarbærar frá skatti, erfðaskatti verður nánast útrýmt og 50% þak sett á heildarsköttun einstaklinga. Meðal markmiða Fillon og frönsku ríkisstjórnarinnar er að stefna að því að ná 3% hagvexti í landinu. Fillon vildi þó ekki gefa upp tímamörk um hvenær þessu markmiði skuli náð. Hann segir að spár ríkisstjórnarinnar um 2,25 til 2,5% hagvöxt á árinu standi í bili, sem sé nokkuð gott miðað við hvernig hagvöxtur þjóðarinnar hafi verið að undanförnu, en síður í samanburði við meðaltal stærri þjóða.


 

Kaupþing banki hefur á ný minnkað hlut sinn í finnska kæli- og frystiþjónustufyrirtækinu Huurre Group. Að sögn Helga Bergs, framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Kaupþings, minnkaði bankinn hlut sinn niður í 50% aftur í kjölfar þess að nýtt stjórnendateymi kom inn í Huurre. Nýir stjórnendur félagsins keyptu 25% hlutafjár af Kaupþing sem hafði aukið eignarhlut sinn upp í 75% á síðasta ári. Að sögn Helga reyndist nauðsynlegt að skipta út stjórnendateymi félagsins og var meðal annars nýr forstjóri ráðinn að félaginu í ágúst í fyrra. Kaupþing keypti allt hlutafé í Huurre með stjórnendum félagsins í maí 2003. Félagið var þá leiðandi fyrirtæki í Evrópu í kæli- og frystiþjónustu. Félagið velti þá um 150 milljónum evra en velta félagsins hefur verið tvöfölduð síðan þá. Árið 2004 var fyrirtæki keypt í Bretlandi en helstu markaðssvæði félagsins eru á Norðurlöndunum, Norður-Evrópu, Bretlandi og einnig er nokkur sala til Rússlands. Helgi vildi ekkert tjá sig um hve lengi Kaupþing hygðist eiga hlut sinn í Huurre en ljóst er að félagið verður þar inni heldur lengur en ætlað var í upphafi. Bridgepoint Capital keypti Huurre Group árið 1998 og vann við að efla Huurre-samstæðuna bæði með innri og ytri vexti, til dæmis með kaupum á Prepan A/S í Noregi árið 1999 og Svensk Butiksservice árið 2000, sem er viðhalds- og kæliþjónustudeild sænsku verslunarkeðjunnar ICA. Þegar Kaupþing kom að félaginu var ætlunin að leggja áherslu á að auka þátt Huurre Group í samþættingu evrópsks kæli- og frystiiðnaðar og auka innri vöxt félagsins með því að efla þjónustuþátt Huurre Group.


 

Í dag kl 10.30 fer sneisafull Boeing 757 þota Icelandair í loftið á Keflavíkurflugvelli í áætlunarflugi til New York í Bandaríkjunum. Flugið í dag markar upphaf morgunflugs frá Íslandi vestur um haf, sem er söguleg nýbreytni í millilandaflugi til og frá Íslandi, segir í frétt frá flugfélaginu.


 

Í dag undirrituðu Icelandair Cargo og Icelease, dótturfyrirtæki Icelandair Group, samning við Avion Aircraft Trading um leigu og kaup á samtals fjórum nýjum Airbus A330-200 fraktflugvélum. Icelandair Cargo leigir tvær vélanna beint frá AAT en Icelease kaupir tvær og leigir áfram til Icelandair Cargo. Tvær flugvélar verða afhentar vorið 2010 og hinar tvær ári seinna. Áætlaðar árlegar tekjur af rekstri þessara fjögurra þota eru um 15-18 milljarðar króna segir í frétt Icelandair.. Með þessum fjórum Airbus þotum er Icelandair Cargo að hrinda í framkvæmd langtímastefnu um rekstur hagkvæmra flugvélategunda, áætlunarflug til fjarlægra markaða í Asíu og Ameríku, margföldun á stærð félagsins og stóraukin umsvif á Keflavíkurflugvelli. A330-200 fraktvélin fer í framleiðslu síðla árs 2009 og verður Icelandair Cargo einn fyrsti notandinn í heiminum. Hún hefur 50% meira rými en Boeing 757-200 vélarnar sem fyrirtækið notar nú, ber 69 tonn, eða tvöfalt meira en B757, og hefur mun meiri flugdrægni. Hreyflar eru hljóðlátari og menga minna en hreyflar almennt auk þess sem eldsneytiseyðsla er minni. Skráð listaverð þessara flugvéla hjá Airbus er um 130 milljónir bandaríkjadala að því er kemur fram í fréttinni.  Í dag koma um 80% af veltu Icelandair Cargo frá starfsemi sem tengist Íslandi en um 20% af öðrum mörkuðum. Stefnt er að því að þessi hlutföll snúist við á næstu árum. ?Við horfum einkum til Kína, Indlands og Persaflóasvæðisins og tengingu um safnflugvöll í Evrópu við Ísland og Norður Ameríku?, segir Pétur J. Eiríksson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo í tilkynningu. ?Keflavíkurflugvöllur verður einnig safnvöllur og tengjast gegnum hann borgir í Bandaríkjunum og Kanada við lykilmarkaði í Evrópu. Við reiknum með að þrefalda vöruflæði um flugvöllinn, þrefalda tekjur frá því sem er í dag sem og að þrefalda afkomu með þessum samningum.? ?Aðeins heilbrigð og arðbær fyrirtæki geta fjárfest nýjustu og hagkvæmustu flugvélunum og þessi viðskipti sýna þann slagkraft og skýru framtíðarsýn sem býr í fyrirtækjum Icelandair Group?, segir Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair Group. ?Icelandair Cargo hefur vaxið hratt með arðbærum hætti undanfarin ár og stefnir nú á enn meiri vöxt á nýjum mörkuðum. Icelease er með leigusamninga við flugfélög um allan heim og er sívaxandi í flugvélaviðskiptum. Icelandair Cargo rekur nú fimm Boeing 757-200 fraktvélar og stefnir að því að fjölga þeim um eina til tvær fram að afhendingu A330. Eftir það verða þessar tvær tegundir reknar samhliða um óákveðin tíma. Félagið hefur vaxið um 20% á ári undanfarin ár og stefnir á svipaðan vöxt næstu árin. Flugfrakt er vaxtargrein, sem reiknað er með að vaxi næstu 20 ár um 6% árlega. Vaxtaráform byggjast á því að örva innri vöxt með auknu flugframboði inn á nýja markaði, og samstarfi við önnur flugfélög. Auk þess að selja frakt í 22 áfangastaði Icelandair þjónar félagið átta áfangastöðum með fraktþotum, sem eru Liege, Brussel, Jönköping, Humberside, East Midlands, New York, Charlotte og Halifax.


 

Mikill umsnúningur varð á rekstri og afkomu útgerðarfélagsins Granda á fyrsta ársfjórðungi að því er kemur fram í frétt á heimasíðu félagsins. Rekstrartekjur ársfjórðungsins voru 4.670 milljónir króna en voru 3.675 milljónir króna árið áður. EBITDA, án söluhagnaðar af Engey, var 1.478 milljónir króna eða 31,6% af veltu, en var 760 milljónir króna (20,7%) á sama tíma árið áður. Við bætast 662 milljónir króna vegna hagnaðar af sölu Engeyjar.


 

Bandaríski álrisinn Alcoa hefur undirritað viljayfirlýsingu við heimastjórnina í Grænlandi um byggingu nýs álvers á Grænlandi. Ef af verður yrð þetta fyrsta álverið á Grænlandi en gert er ráð fyrir að það verði 340.000 tonn að stærð og fái orku sína frá vatnsorkuveri.


 

álag á skuldir Landsbankans í sögulegu lágmarki


 

Optima ehf. í Reykjavík hefur keypt Bedco & Mathiesen ehf. sem er innflutningsfyrirtæki á sviði skrifstofubúnaðar. Í tilkynningu kemur fram að Bedco & Mathiesen ehf. samanstendur af fyrirtækjunum E.Th.Mathiesen hf sem var stofnað 1960 og Bedco hf. sem var keypt 1991. Framkvæmdastjóri Optima ehf. er Þorsteinn A.Guðnason.


 

Stjórnir BYRS sparisjóðs og Sparisjóðs Kópavogs, SPK hafa samþykkt að veita stjórnarformönnum þeirra umboð til að ganga til viðræðna um sameiningu sjóðanna. Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að það er mat stjórna fyrirtækjanna að með sameiningu yrði til betra og öflugra fjármálafyrirtæki sem komi viðskiptavinum, starfsfólki og stofnfjáreigendum til góða. Í tilkynningunni kemur fram að umhverfi sparisjóða sem og annarra fjármálastofnana tekur sífelldum breytingum. Það krefst aukinnar stærðar og arðsemi til að þeir standi sterkir gagnvart síharðnandi samkeppni. Sameiginlegur sjóður BYR og SPK yrði með 130 milljarða króna efnahag og því vel í stakk búinn til að takast á við krefjandi verkefni framtíðarinnar. BYR rekur nú 6 útibú í Reykjavík, Garðabæ og Hafnarfirði og SPK er með 3 útibú í Kópavogi. Með sameiningu fjölgar möguleikum til framþróunar og sóknar og til yrði fyrirtæki með mjög sterka markaðsstöðu í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði. Í tilkynningunni kemur fram að engin sérstök tímamörk eru sett í þessum viðræðum en ætlunin er að hraða vinnunni eins og kostur er og að niðurstaða fáist sem allra fyrst.


 

Ingólfur H. Bender, forstöðumaður Greiningar Glitnis, fjallar um stjórnarsáttmála nýrar ríkisstjórnar í Morgunkorni greiningardeildarinnar. Þar segir hann: "Heilt á litið virðist hér vera á ferðinni áframhaldandi frjálslynd umbóta- og velferðarstjórn sem leggur áherslu á góð rekstrarskilyrði fyrirtækja ásamt jöfnuði og bættum hag heimilanna. Um er að ræða sterka stjórn með mikinn þingmeirihluta sem líkleg er til að halda áfram með svipaða stefnu og drifið hefur hagvöxt hér á síðustu árum."


 

Þórdís J. Sigurðardóttir, stjórnarformaður Teymis, hefur keypt bréf í félaginu fyrir tæpar 160 milljónir króna. Þórdís hefur stöðu fruminherja hjá félaginu. Kaupin voru tilkynnt til Kauphallar og þar kemur fram að Þórdís festi kaup á 29.462.885 hlutum á genginu 5,39. Heildarkaupverðið er því nálægt 160 milljónum króna.


 

Í nýrri skýrslu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) kemur fram að ríkisaðstoð við atvinnulíf er með minnsta móti á Íslandi. Stofnunin kannaði ríkisaðstoð í EFTA löndunum á árunum 2004 og 2005 og bar saman við ESB-ríkin. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins.


 

British Ariways (BA) staðfesti í gær að það hyggðist taka þátt í fyrirhuguðu yfirtökutilboði í spænska flugfélagið Iberia með hópi fyrirtækja sem bandaríski einkafjárfestingarsjóðurinn TPG Capital fer fyrir. Sérfræðingar telja líklegt að tilboð TPG-hópsins verði að minnsta kosti um 3,6 evrur á hvern hlut, eða samtals um 3,5 milljarðar evra. BA ítrekaði þó fyrri afstöðu sína í síðustu viku um það myndi ekki leggja til neitt fjármagn í fyrirhugað tilboð í Iberia, heldur yrði hluthöfum þess boðin hlutabréf í British Airways. Í tilkynningu sem breska lággjaldaflugfélagið sendi frá sér í gær kemur fram að auk TPG og BA, samanstandi hópurinn af þremur spænskum félögum; Vista Capital, Inversiones Ibersuizas og Quercus Equity. Markmið hópsins næstu daga og vikur er einfalt: Að kanna alla möguleika á yfirtökutilboði í Iberia, fjórða stærsta flugfélagi í Evrópu. Þrátt fyrir að TPG-hópurinn hafi lýst yfir vilja sínum á því að leggja fram tilboð í Iberia er enn of snemmt að fullyrða hvort af yfirtökutilboðinu verður. Hins vegar hafa félögin stigið stórt skref í þá veru, en með því að vera búin að ákveða samsetningu fyrirtækjahópsins getur hópurinn hafið áreiðanleikakönnun á Iberia og í framhaldi af því lagt fram hugsanlegt yfirtökutilboð. APAX skilið útundan Það skipti TPG miklu máli að fá British Airways í lið með sér. BA er eigandi að tíu prósent hlut í Iberia og hefur auk þess þess fyrsta rétt á því að hafna öllum tilboðum sem berast í félagið sem eru gerð í meira en þrjátíu prósent af hlutabréfum Iberia. BA hefur einnig á að skipa tveimur fulltrúm í stjórn Iberia. Sú staðreynd að BA hyggst starfa með TPG-hópnum hefur því minnkað líkurnar á því að önnur félög muni bætast við síðar og keppa við hópinn um Iberia, en í lok aprílmánaðar var uppi orðrómur um að BA ætlaði að slást í hóp með APAX, breskum einkafjárfestingarsjóði. Hins vegar hefur slíkt nú verið slegið út af borðinu. Heimildarmenn Dow Jones fréttaveitunnar segja að APAX hafi tekið þá ákvörðun að segja sig frá slagnum um Iberia. Að mati sumra er talið sennilegt að BA hafi gert það að skilyrði fyrir samstarfi við TPG-hópinn að APAX yrði skilið útundan. Iberia tilkynnti í lok marsmánaðar að TPG Capital hefði gert bráðabirgðatilboð í flugfélagið og í kjölfar þess fór TPG leita eftir samstarfsaðilum. Það er nauðsynlegt fyrir BA og TPG að hafa þrjú spænsk félög í lið með sér til að leggja fram yfirtökutilboð í Iberia. Þau munu að minnsta kosti eiga 51% hlut í Iberia ef yfirtaka hópsins gengur eftir, en með því móti er tryggt að þau geti notið ávinnings af þeim flugsamningi sem er í gildi milli Spánar og Suður-Ameríku. Samkvæmt þeim samningi verður spænskt flugfélag sem flýgur til Suður-Ameríku að vera í meirihlutaeigu spænskra ríkisborgara. Opnar fleiri dyr fyrir BA Í kjölfar þess að Evrópusambandið (ESB) og Bandaríkin gerðu nýlega með sér samkomulag um aukið frjálsræði í flugi yfir Atlantsála (e. Open Skies Agreement) var fastlega búist við því að sameining flugfélaga þvert á landamæri aðildarríkja ESB myndi færast í aukana. Sérfræðingar segja að fyrirhugað tilboð einkafjárfestingarsjóðanna í Iberia sé til marks um aukin umsvif slíkra sjóða á evrópska flugiðnaðinum og muni líkast til verða til að flýta fyrir nauðsynlegri uppstokkun á rekstri og eignarhaldi flugfélaga í álfunni. Í frétt Financial Times segir að British Airways hafi hingað til farið fremur varfærnum skrefum í þá veru að yfirtaka önnur flugfélög í Evrópu, samanborið við mörg önnur samkeppnisfyrirtæki þess. Stutt er síðan að Air France og Lufthansa yfirtóku hollenska flugfélagið KLM og Swiss. Ef áform BA að yfirtaka Iberia ásamt TPG-hópnum takast, telja sérfræðingar um flugiðnaðinn að félaginu muni reynast auðveldara á næstu árum að taka enn frekari skref í þá átt að útvíkka starfsemi sína í Evrópu.


 

Borgaryfirvöld í Tókýó hyggjast koma á fót sérstöku svæði í borginni sem verður hannað sérstaklega með það að markmiði að laða að erlenda fjárfestingarbanka. Um er að ræða hin eftirsóttu svæði Marunouchi og Nihonbashi í Tókýó. Meðal annars er gert ráð fyrir því að byggðar verði fjölmargar rúmgóðar íbúðir, tungumálaskólar reistir og veitingastaðir sem yrðu opnir eftir miðnætti. Yuji Yamamoto, ráðherra fjármálaþjónustu í ríkisstjórn Japans, sagði í ræðu sem hann félt fyrir bandaríska viðskiptaráðið (e. American Chamber of Commerce) að markmið stjórnvalda væri að efla stöðu Tókýóborgar sem miðstöðvar alþjóðlegs fjármálalífs í heiminum, þar sem yrði eftirsótt fyrir erlend fyrirtæki að koma á fót starfsemi. En að undanförnu hefur mikið borið á því að erlend fjámálafyrirtæki hafi afskráð félög sín af kauphöllinni í Tókýó. Á því svæði sem borgaryfirvöld í Tókýó vilja endurhanna fyrir erlend fyrirtæki eru nú þegar Japansbanki og Kauphöllinn með starfsemi. Yamamoto vill að slakað verði á núverandi byggingar- og skipulagsreglum sem þar gilda. Slíkt myndi gera verktökum auðveldara fyrir að ráðast í það að reisa skrifstofubyggingar, íbúðarblokkir, skóla og sjúkrahús sem yrðu sérstaklega sniðin að óskum og þörfum þeirra sem starfa hjá erlendu fyrirtækjunum á svæðinu. Yamamoto benti á nýju Marunouchi bygginguna sem ákveðna fyrirmynd í þessum efnum, en hún er opin allan sólarhringinn - sem er óvenjulegt í Japan - og hefur veitingastaði sem eru einnig opnir eftir miðnætti. Sjötíu prósent þeirra sem leigja íbúðir í byggingunni eru útlendingar. Ummæli Yamamoto um að hann teldi að það væri nauðsynlegt fyrir japönsk stjórnvöld að huga í auknum mæli að því að bæta viðskipta- og rekstrarumhverfi fyrir erlend fyrirtæki, endurspegla þær vaxandi áhyggjur sem eru til staðar í Japan um að Tókýó sé smátt og smátt að missa stöðu sína sem alþjóðleg fjármálaborg. Ástæðan fyrir þeirri þróun er einkum rakin til of hárrar skattlagningar og flókinnar lagasetningar um starfsemi fjármálafyrirtækja. Erlendir bankar hafa lengi haldið því fram að háir fyrirtækjaskattar í Japan hafi staðið í vegi fyrir því að þeir geti skráð starfsemi sína þar. Yamamoto viðurkenndi óbeint að þetta væri vandamál, þegar hann benti á að sá öflugi efnahagsuppgangur sem hefur verið á Írlandi undanfarin ár sé að hluta til vegna þess að skattar á fyrirtæki hafi á sínum tíma verið lækkaðir verulega þar í landi. Stutt er síðan að Robert Feldman, hagfræðingur hjá bandaríska fjárfestingarbankanum Morgan Stanley í Tókýó, skrifaði í nýlegri skýrslu að sú staðreynd að erlend félög séu að færa starfsemi sína frá Tókýó til Hong-Kong, London og Singapúr, hafi vakið japanska ráðamenn til umhugsunar um þessa nýju stöðu sem runnin er upp. Engu að síður þarf meira til heldur en að koma á fót sérstökum svæðum fyrir erlend fyrirtæki í Tókýóborg ef Japanar hafa hug á því að snúa við þessari þróun.


 

Bandaríska olíverktakafyrirtækið Halliburton myndi fagna því ef fjárfestir frá Miðausturlöndum myndi kaupa stóran hlut í félaginu. Frá þessu greindi Dave Lesar, framkvæmdastjóri Halliburton, en félagið hyggst opna höfuðstöðvar í Dubai. Halliburton hyggst auka tekjur af starfsemi sinni í Miðausturlöndum og gerir ráð fyrir því að ráðast í verkefni fyrir samtals 80 milljarða Bandaríkjadali á næstu fimm árum á svæðinu. Gengi hlutabréfa í Halliburton hafa hækkað um 17% síðustu þrjá mánuði.


 

Framkvæmdastjóri lyfjafyrirtækisins Pfzier, Jeffrey Kindler, hefur tilkynnt að breytingar verði gerðar meðal helstu stjórnenda félagsins. Annars vegar mun yfirmaður rannsókna- og þróunardeildar Pfzier, John LaMattina, segja af sér um leið og eftirmaður hans yrði fundinn, og hins vegar myndi nýlega ráðinn fjármálastjóri félagsins, Alan Levin, víkja og er ætlunin að ráða annan einstakling sem hefur meiri reynslu af því að starfa á Wall Street.


 

Gengi hlutabréfa í Marks & Spencer (M&S) féllu um 2,9% í gær þrátt fyrir að félagið hefði greint frá því að hagnaður þess á fjárhagsárinu 2007 - sem lauk 31. mars síðastliðinn - hefði hækkað um 29%. Nam hagnaðurinn samtals 965,2 milljónum punda, sem var aðeins yfir því sem greiningaraðilar höfðu að meðaltali spáð. M&S sagði að rekstur félagsins það sem af er nýju fjárhagsári gengi vel þrátt fyrir að samkeppni á markaðinum væri grimm. Taldi framkvæmdastjórinnn Stuart Rose að von væri á enn harðara samkeppnisumhverfi, auk þess sem fyrirsjáanlegt er að Englandsbanki muni hækka stýrivexti sína á árinu.


 

Þrír keppa nú um að kaupa hollenska fjarskiptafyrirtækið Orange af móðurfélagi þess France Telecom. Þeir sem koma til greina eru fjarskiptafyrirtækið T-Mobile, sem er í eigu Deutsche Telekom, félag á vegum hollenska bankans ABN Amro ásamt tveim einkafjárfestingasjóðum: Providence Equity Partners og Rabo Capital. Heimildir herma að líklegast er að T-Mobile fái Orange en samlegðaráhrif þeirra kaupa eru talin einna mest.


 

Bresk stjórnvöld munu krefja rússnesk stjórnvöld framsals á athafnamanninum Andrei Lugovoi vegna morðsins á fyrrum leyniþjónustumanninum Alexander Lítvínenko. Þar með er komin upp ný staða í einhverju dularfyllsta máli síðari tíma, en Lítvínenko lést í London í nóvember í fyrra eftir að eitrað hafði verið fyrir honum með pólóníum. Rannsókn málsins hefur orðið að spennuvaldi milli stjórnvalda í London og Moskvu og ljóst er að framsalskrafan geri ekkert til þess að draga úr honum. Í gær tilkynnti saksóknaraembætti Bretlands að rannsókn lögregluyfirvalda hafi leitt í ljós að fyllsta ástæða væri til að kæra Lugovoi fyrir morðið á Lítvínenko. Þeir hittust á barnum á Millenium hótelinu þann 1. nóvember í fyrra en síðar sama dag tók Lítvínenko að kvarta yfir eymslum. Tuttugu og tveim dögum síðar gekk hann á vit feðra sinna en á sjúkrabeðinum fullyrti hann að flugumenn á vegum stjórnvalda í Moskvu hefðu eitrað fyrir sér. Dauðastríð og andlát Lítvínenko vakti mikla athygli og margir settu það í samhengi við morðið á rússneska blaðamanninum Önnu Polikovskaya, en hún var myrt með köldu blóði í Moskvuborg í októbermánuði. Bæði Polikovskaya og Lítvínenkó áttu það sameiginlegt að hafa gagnrýnt Vladímír Pútín og ríkisstjórn hans harðlega. Polikovskaya hafði skrifað afhjúpandi greinar um framferði rússneska hersins í Tsjetsjeníu og Lítvínenkó hafði ásakað stjórnvöld í Moskvu um að standa fyrir hryðjuverkum gegn eigin borgurum til þess að réttlæta aðgerðir í héraðinu. Reyndar hafa fleiri dularfullir dauðdagar undanfarin ár í Rússlandi verið bendlaðir við ríkisstjórn Pútíns af gagnrýnendum hans. Ásökunum ætlað að gera Rússa tortryggilega Pútín hefur statt og staðfastlega neitað þeim ásökunum og ítrekað að hvorki rússneska ríkisvaldið né neinn í nánum tengslum við valdamenn hafi eitthvað haft með dauða Lítvínenko að gera. Viðkvæðið í Kreml hefur meðal annars verið að morðingjar Lítvínenko komi úr röðum þeirra sem sjá hag sínum borgið með því að gera stjórnvöld tortryggileg í augum Vesturlanda. Rétt eins og í Bretlandi var rannsókn á málinu fyrirskipuð í Rússlandi. Litlar líkur eru á því að Lugovoi verði framseldur. Interfax fréttastofan hefur eftir talsmanni ríkissaksóknarembættisins í Rússlandi að þar sem að Lugovoui væri rússneskur ríkisborgari heimiluðu lög landsins ekki slíkt framsal. Hinsvegar hefur verið bent á að bæði Rússland og Bretland eru aðilar að Evrópusamningnum um framsal sakamanna og sú aðild kann að opna lagaleið framsals. En sérfróðir telja aðra þætti eigi síður útiloka að Lugovoi verði framseldur. Borisar þáttur Berezovsky Rússnesk stjórnvöld hafa ítrekað - en án árangurs - krafið ríkisstjórn Bretlands um að framselja útlagann og auðmanninn Boris Berezovsky, sem býr nú í London. Berezovsky er eftirlýstur fyrir efnahagsbrot og fleiri glæpi. Hann er einn þeirra ólígarka sem sáu sæng sína upp reidda eftir að Pútín tók að þjarma að þeirri stétt manna á sínum tíma og hefur verið í útlegð allar götur síðan. Yfirlýsingar hans um nauðsyn valdbeitingar til þess að steypa Pútín af stóli fyrr á þessu ári gerðu það að verkum að rússnesk stjórnvöld tóku að leggja enn meiri þrýsting á framsal hans. Segja þau bresk stjórnvöld halda hlífiskildi yfir manni sem boði ofbeldi gegn lögmætum stjórnvöldum í Rússlandi og því verði ekki komist hjá framsali. Ljóst er að afstaða Rússa í máli Lítvínenkó verður ekki skilin án þess að setja það í samhengi við mál Berezovsky. Reyndar tengist Berezovsky bæði Lítvínenkó og Lugovoi. Þeir fyrrnefndu þekktust auk þess sem að Lugovoi starfaði eitt sinn sem öryggisvörður Berezovsky áður en að hann flúði land. Síðan þá hefur Lugovoi auðgast á viðskiptum í Rússlandi. Berezovsky sagði í viðtali við BBC í febrúar að Lítvínenkó hafi sagt við hann að Lugovoi, sem hann segir jafnframt vera nátengdan Pútín, hefði eitrað fyrir sér. Lugovoi hefur neitað því opinberlega að hafa verið viðriðinn málið. Í Rússlandi heyrast aðrar sögur. Í frétt breska blaðsins Guardian er hermt að ósætti milli Berezovsky og Lítvínenko hafi leitt til dauða hans. Haldið hefur verið fram að Berezovsky hafi skorið á fé til hans sem hafi leitt til þess að hann hafi þurft að finna upp aðrar leiðir til þess að afla tekna og það hafi leitt til þess að hann hafi lent í vafasömum viðskiptum. Ljóst er að bresk stjórnvöld munu freista þess að málinu verði ekki spyrt saman við tvíhliða samskipti ríkjanna tveggja sem og alþjóðamál. Ólíklegt er að það takist verði gengið hart fram með framsalskröfuna gegn Lugovoi í ljósi þess hvernig samskipti Rússa gagnvart sumum Evrópuríkjum hafa verið að undanförnu. Rússar eru í feikilega sterkri stöðu sökum þess hve Evrópa er háð þeim um innflutning á olíu og gasi auk þess sem að þeir eru lykilhlutverki þegar kemur að lausn aðkallandi mála í alþjóðakerfinu: Deilunni um kjarnorkuáform klerkastjórnarinnar í Íran og framtíðarstöðu Kosovo-héraðs.


 

Bresk stjórnvöld ætla að horfa til Persaflóa auk Kína og Indlands þegar kemur að því að forgangsraða áherslum í þróun viðskiptatengsla landsins. Gordon Brown, fjármálaráðherra, hefur beðið Viðskiptaráð Bretlands (e. U.K Trade & Investmen) að leggja sérstaka áherslu á að þróa og byggja upp viðskiptatengsl á landsvæðunum frá Marokkó til Írans. Þrátt fyrir að um sé að ræða mun minna markaðssvæði en hjá risunum í austri: Kína og Indlandi, er hagvöxtur sumstaðar mikill í Miðausturlöndum. Sérstaklega í furstadæmunum við Persaflóa en hagvöxtur í Dubai var til að mynda fimmtán prósent í fyrra. Viðskiptaráðið hyggst gera miðstöð viðskiptaþróunar á svæðinu enda búa þar um 100 þúsund breskir þegnar. Bresk stjórnvöld horfa sérstaklega til möguleika á sviði mennta- og heilbrigðismála. Eftir miklu þykir að slægja þegar kemur að tækifærum í heilbrigðisferðamennsku og auk þess hefur fjöldi háskóla á Vesturlöndum opnað útibú í furstadæmunum.


 

Viðræður á milli háttsettra bandarískra og kínverska stjórnmálamanna um viðskiptamál ríkjanna hófust í gær og lýkur í dag. Í brennidepli er hinn mikli halli sem er á inn- og útflutningi Bandaríkjanna til Alþýðulýðveldisins en búist er við fulltrúar Bandaríkjanna ítreki kröfur sínar um að kínversk stjórnvöld auki vikmörk gjaldmiðils síns, júansins, gegn Bandaríkjadal enn frekar. Umkvörtunarefnið er ekki nýtt, en þungavigtarmenn í bandaríska þinginu telja að tími sé til kominn að Kínverjar geri eitthvað í málinu. Bandarískt stjórnvöld segja að hinn mikla halla sem er á viðskiptum þjóðanna megi rekja til þess að kínversk stjórnvöld haldi gengi júansins of lágu gagnvart Bandaríkjadal til þess að styrkja stöðu útflutningsatvinnuvega landsins. Í fyrra nam halli á viðskiptum Bandaríkjamanna við Kínverja 232 milljörðum Bandaríkjadala. Kínverjar, sem hafa leyft júaninu að flökta ögn meir gagnvart dalnum að undanförnu, telja stöðugan gjaldmiðil forsendu þess að hægt sé að yfirstíga ýmsan vanda sem steðjar að hagkerfi landsins um þessar mundir. Hinsvegar er ljóst að sendinefnd þeirra muni finna fyrir enn meiri þrýsting málinu en áður þar sem að það styttist í forsetakosningar og sá málflutningur að óeðlilega veikt júan orsaki atvinnuleysi í Bandaríkjunum fellur í góðan jarðveg í mörgum herbúðum. Demókratar, sem nú fara með meirihluta á Bandaríkjaþingi, enduróma þennan málflutning í meira mæli en repúblikana og hafa meðal annars hótað að gripið verði til refsiaðgerða komi kínversk stjórnvöld ekki í auknum mæli til móts við umkvörtunarefni Bandaríkjamanna.


 

Jean-Claude Trichet, forseti evrópska seðlabankans, varaði verkalýðsleiðtoga álfunnar við því í gær að gera of miklar launakröfur fyrir hönd umbjóðenda sinna í samningum við atvinnurekendur. Trichet ávarpaði ráðstefnu Samtaka evrópskra verkalýðsfélaga í Sevilla á Spáni í gær. Hann sagði að hægt væri að leysa atvinnuleysisvanda aðildarríkja Evrópusambandsins ef að launþegar sýndu hóf í launakröfum og legðu árar á bát við að bæta samkeppnisstöðuna gagnvart umheiminum. Hann lagði jafnframt áherslu á að verkalýðsfélög og atvinnurekendur væru saman á báti og hefðu skyldum að gegna gagnvart þeim sem hafa ekki atvinnu og þyrftu þar af leiðandi að halda niðri verðbólgu sökum tengsla milli stöðugleika og fjölgunar starfa í hagkerfinu. Trichet hafði ekki salinn með sér í ávarpi sínu en sumir ráðstefnugesta sökuðu evrópska seðlabankann um að leggja áherslu á að berjast við "ímyndaðan dreka": verðbólguþrýsting á laun. Verkalýðsforingjarnir gagnrýndu jafnframt peningamálastefnu seðlabankans og segja vaxtarhækkanir undanfarin misseri skaða útflutningsiðnað í sambandinu.


 

Gordon Brown, hvetur leiðtoga átta helstu iðnríkja heims, G-8, til þess að koma sér saman um að aðstoða ríki Afríku við að koma sér upp gjaldfrjálsri heilsugæslu þegar þeir koma saman til skrafs og ráðagerða í Þýskalandi í næsta mánuði. Og það er ekki bara einn Gordon Brown sem sendir frá sér þessi hvatningaorð heldur tuttugu og níu aðrir nafnar hans víðsvegar um Bretland sem taka undir hana. Ekki er enn vitað um afstöðu Gordons Browns, núverandi fjármálaráðherra og arftaka Tony Blairs núverandi forsætisráðherra, en beðið er eftir að hann gefi hana upp auk þeirra 809 sem bera þetta hljómmikla nafn á Bretlandseyjum. Í tilefni af leiðtogafundi átta helstu iðnríkja heims hafa hjálparsamtökin Björgum börnunum (e. Save the Children), sem berjast fyrir að Vesturlönd aðstoði Afríkuríkin við að bæta heilsugæslukerfi sín, sett sig í samband við 840 nafna fjármálaráðherrans og ætla að fá þá til þess að taka undir kröfuna. Með þessu vilja þau freista þess að hinum verðandi forsætisráðherra verði hreinlega ekki stætt á að standa einn gegn tæplega eitt þúsund nafna sinna. Reuters-fréttastofan hefur eftir Vikki Taylor, fjölmiðlafulltrúa hjálparsamtakanna, að búið sé að senda bréf til allra þeirra sem heita Gordon Brown á Bretlandseyjum og þegar hafi þrjátíu svarað og tekið undir málstaðinn. Fjármálaráðherrann hefur ekki enn svarað. Til þess að kynna málstaðinn enn frekar munu samtökin aka um allt Bretland til þess að leita af mönnum sem bera nafn fjármálaráðherrans og fá þá til þess að taka undir kröfuna. Búist er við málefni Afríku beri á góma á leiðtogafundinum en gestgjafinn, Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur heitið að þrýsta á að iðnríkin standi við loforð um aðstoð við álfuna og leggur áherslu á að tekistverði á við hinn skæða alnæmisfaraldur sem þar geysar.


 

Hagnaður Alfesca nam 1,3 milljónum evra á þriðja ársfjórðungi, sem er 50% hækkun, og 18,9 milljónir evrum fyrstu 9 mánuði ársins, sem er 51% aukning milli ára. EBITDA nam 7,2 milljónum evra sem er 28,6% aukning milli ára, og 45,5 milljónum evra fyrir fyrstu 9 mánuði ársins sem er 21.7% hækkun milli ára að því er kemur fram í frétt fyrirtækisins.


 

Guðni Ágústsson tekur við stöðu formanns


 

Baugur Group hf. flaggaði í dag í 365 hf. en félagið hefur bætt við sig 81.238.912 hlutum og á nú 1.089.389.143 hluti í félaginu. Bréf 365 hækkuðu um 1,07% í dag og endaði gengi þeirra í 3,77. Sé tekið mið af því verði þá hefur Baugur fjárfest fyrir 306 milljónir króna í félaginu í dag.Baugur hefur þannig farið úr 29,40% hlutdeild upp í 31,76%. Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, er stjórnarformaður Baugs Group hf.


 

Konur skipa 8% stjórnarsæta meðal 100 stærstu fyrirtækja landsins. Konur eru í 32 af 408 stjórnarsætum. Árið 2005 var hlutfall þeirra 12% þannig að heldur virðist halla á hlut kvenna síðan þá. Þetta kemur fram í skýrslu sem Rannsóknasetur vinnuréttar og jafnréttismála við Háskólann á Bifröst hefur birt.


 

Áformað er, að Geir H. Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins gangi á fund forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar á Bessastöðum á morgun, miðvikudaginn 23. maí, kl. 9:30. Þetta kemur fram í frétt frá skrifstofu forseta Íslands. Fundurinn verður endanlega staðfestur á heimasíðu embættis forseta Íslands (forseti.is) í kvöld.


 

Lánshæfismatsfyrirtækið Moody?s hefur í dag staðfest allar lánshæfismatseinkunnir Landsbankans sem óbreyttar að því er kemur fram í tilkynningu bankans. Tilkynning Moody?s fylgir í kjölfar kaupa bankans á verðbréfafyrirtækinu Bridgewell.


 

Malcolm Eley tekur við starfi framkvæmdastjóra Seachill, dótturfyrirtækis Icelandic Group í Bretlandi, frá og með 22. maí 2007. Fyrirtækið var stofnað árið 1998 og hefur Malcolm starfað hjá fyrirtækinu síðan 1999. Þar áður vann hann í 8 ár við sölu á kældum vörum að því er segir í tilkynningu félagsins. Mike Walker, fráfarandi framkvæmdastjóri, mun sitja áfram í stjórn Seachill og mun sinna ráðgjafaverkefnum fyrir fyrirtækið.


 

Verkefnisstjórn Rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma hefur gert framvinduskýrslu til iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Í skýrslunni kemur fram að verkefnisstjórnin telur að það þurfi að gera endurbætur á matsaðferðum sem beitt yrði við mat á virkjunarkostum í 2. áfanga, einkum aðferðum til að meta landslag og sjónræn áhrif framkvæmda.


 

Hlutabréf hækkuðu í Kauphöllinni í dag um 0,57% og stendur Úrvalsvísitalan nú í 8,102 stigum. Viðskipti með hlutabréf námu tæpum ellefu milljörðum króna.


 

Gengið hefur verið frá samkomulagi um íslensk-rússneskan skóla um orkumál með áherslu á endurnýjanlega orkugjafa. Í gær var undirritað í Moskvu samkomulag þessa efnis milli Alþjóðaskólans um orkumál í Moskvu, sem Alþjóðasamskiptaháskóli rússneska utanríkisráðuneytisins (MGMIO) rekur, og Orkuháskólans á Akureyri, RES. Þetta kemur fram í frétt utanríkisráðuneytisins. Skólinn mun annast þjálfun og endurmenntun sérfræðinga á sviði alþjóðlegra orkuvísinda með séráherslu á endurnýjanlega orkugjafa. Skólinn mun m.a. standa fyrir nemenda- og kennaraskiptum og samstarfi á sviði rannsókna. Stofnun skólans er mikilsvert framlag til Norðlægu víddarinnar í samskiptum Evrópuríkja og Rússlands þar sem orku- og loftslagsmál eru forgangsmál segir í fréttinni. Samningurinn um skólastofnunina var undirritaður í Moskvu í gær í viðurvist sendiherra Íslands í Moskvu og háttsettra embættismanna rússneska utanríkisráðuneytisins.


 

Alfesca hefur samið um kaup á Le Traiteur Grec (LTG) sem er stærsta fyrirtæki í Frakklandi á sviði smurrétta úr grænmeti. Kaupverðið nemur 19,7 milljónum evra miðað við skuldlaust félag.Kaupunum, sem háð eru vissum skilyrðum, verður lokið með greiðslu reiðufjár en áætlað er að þeim verði lokið eftir endurfjármögnun samstæðunnar um miðjan júní. Fé til kaupanna fæst við endurfjármögnunina.


 

Alfesca hefur samið um kaup á Le Traiteur Grec (LTG) sem er stærsta fyrirtæki í Frakklandi á sviði smurrétta úr grænmeti. Kaupverðið nemur 19,7 milljónum evra miðað við skuldlaust félag að því er kemur fram í frétt félagsins.


 

Hlutabréf hafa hækkað um 0,8% í dag og stendur Úrvalsvísitalan nú í 8.119 stigum. Viðskipti með hlutabréf nema nú á hádegi 6,8 milljörðum.


 

Yfirtökutilboð Straums-Burðarás upp á 7,6 evrur á hlut er 49% yfir dagslokagengi eQ frá því í gær. Miðað við stöðu eigin fjár eQ í lok 1F 2007 er V/I hlutfallið 4,1 sem er mjög hátt í alþjóðlegum samanburði segir Greining Glitnis í Morgunkorni sínu. þeir benda á að til samanburðar keypti Danske Bank bankastarfsemi Sampo á 3,5-földu innra virði.


 

Samningar hafa tekist um kaup Vodafone á símaþjónustu fyrirtækisins Fjölnets á Sauðárkróki. Um er að ræða allan tækjabúnað sem tengist símrekstri Fjölnets auk þess sem Vodafone mun yfirtaka fyrirliggjandi viðskiptasamninga um símþjónustu. Vodafone mun þ.a.l. þjónusta m.a. Kaupfélag Skagfirðinga og dótturfyrirtæki þess, Sparisjóð Skagafjarðar, Sveitarfélagið Skagafjörð, Byggðastofnun, og ýmsa fleiri aðila að því er kemur fram í frétt þeirra.  Snorri Styrkársson, framkvæmdastjóri Fjölnets, segir að salan skapi ýmis tækifæri fyrir Fjölnet sem nú muni einbeita sér að rekstri kerfisveitu; internetþjónustu ásamt tengdum verkefnum. Á síðasta ári tók Gagnaveita Skagafjarðar ehf.  við rekstri ljósleiðaranets Fjölnets í Skagafirði. Gestur G. Gestsson, framkvæmdastjóri hjá Vodafone, segir samninginn vera eðlilegt framhald af auknum umsvifum Vodafone í Skagafirði á þessu ári. ?Við fengum öflugan umboðsaðila á Sauðárkróki til liðs við okkur í vetur, þegar raftækjaverslunin Rafsjá tók það hlutverk að sér, auk þess sem starfsmenn Vodafone hafa heimsótt flest heimili í Skagafirði með nýjan stafrænan myndlykil. Þeir hafa fengið frábærar viðtökur hjá Skagfirðingum, sem hafa fagnað uppbyggingu á Digital Ísland dreifikerfinu okkar, sem meðal annars er notað við dreifingu á dagskrá Stöðvar 2.? Vodafone hefur á undanförnum árum fest sig í sessi sem öflugur alhliða þjónustuaðili fyrir fyrirtæki og stofnanir. Sú staðreynd að mörg af öflugustu fyrirtækjum og sveitarfélögum landsins skuli ítrekað velja Vodafone til samstarfs segi sína sögu um áreiðanleika fyrirtækisins og gæði þjónustunnar. Meðal þeirra sem valið hafa Vodafone eru Actavis, Icelandair, Landsbanki Íslands, Reykjavíkurborg og Landspítali ? háskólasjúkrahús. Ótal mörg lítil og meðalstór fyrirtæki hafa einnig sé hag sínum best borgið með því að skipta við Vodafone.


 

FL Group hefur fjárfest í fjórum fasteignaverkefnum í Bandaríkjunum fyrir 50 milljónir bandaríkjadala að því er kemur fram í frétt félagsins. Verkefnin verða unnin í samstarfi við Bayrock Group sem er alþjóðlegt fasteignafélag staðsett í Bandaríkjunum. Þessi verkefni eru: ? Trump Soho ? Fimm stjörnu hótel í Soho hverfinu á Manhattan í New York í samstarfi við Donald Trump og Sapir Organization. ? Trump Lauderdale ? Fimm stjörnu hótel á strönd Fort Lauderdale í samstarfi við Donald Trump. ? Whitestone New York ? Þróun 13 ekru landsvæðis í Whitestone, Queens. Bayrock mun í framhaldinu byggja fjölda lúxus íbúða á svæðinu. ? Camelback ? Fimm stjörnu hótel í Phoenix. Áætlað er að verkefnunum verði lokið innan þriggja ára. Fjárfestingin verður fjármögnuð með eigin fé og lánsfé. Alfa Investment Consulting hafði milligöngu um viðskiptin og veitti Bayrock Group ráðgjöf. FL Group hefur einnig gert samkomulag við Bayrock Group um jafna hlutdeild fyrirtækjanna í sameiginlegu félagi sem ætlað er að fjárfesta í alþjóðlegum verkefnum á sviði fasteignaþróunar. Hannes Smárason, forstjóri FL Group segir í tilkynningu: ?Þetta er mjög spennandi verkefni, sem fellur vel að stefnu FL Group um að leita eftir nýjum ögrandi og álitlegum verkefnum. Fasteignamarkaðurinn er spennandi vettvangur, þar sem mikil samkeppni ríkir en hann býður jafnframt upp á mörg og margvísleg tækifæri. Við hlökkum til samstarfsins við þetta virta fyrirtæki, bæði á bandaríkjamarkaði og alþjóðlegum mörkuðum.? Tevfik Arif, stjórnarformaður Bayrock Group, segir í sömu tilkynningu: ?Við erum mjög ánægð með hafa náð samkomulagi við FL Group um þróun þessara verkefna og hlökkum til að starfa með þeim góða hópi sem þar vinnur í framtíðinni.?


 

Líftæknifyrirtækið Nimblegen Systems Inc. hefur lagt inn umsókn um skráningu á markað í Bandaríkjunum. Hyggst félagið þannig afla sér um 75 milljóna Bandaríkjadala eða tæpa fimm milljarða króna með frumskráningu (IPO). Fyrirtækið hefur verið með sína aðalstarfsstöð á Íslandi og hér vinna um það bil 40 manns á vegum félagsins að því er kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.


 

Launavísitala í apríl 2007 er 314,6 stig og hækkaði um 0,4% frá fyrri mánuði samvkæmt upplýsingum frá Hagstofunni.  Síðastliðna tólf mánuði hefur launavísitalan hækkað um 9,8%.


 

Almennt séð eru vextir í alþjóðahagkerfinu of lágir og þeir knýja áfram skekkju á mörkuðum, sem hefur leitt til þess að fjárfestar skuldsetja sig ógætilega í stöðutökum, sem aftur hefur ýtt undir hækkanir á eignamarkaði. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) sem var birt í gær. Fjármálastofnanir og skuldsettir fjárfestar ættu að vera betur meðvitaðir um þá áhættu sem því fylgir þegar aðgangur að ódýru fjármagni í heiminum er jafn greiður eins og raunin er um þessar mundir. Slíkt ástand getur ekki varað mikið lengur. Að lokum mun markaðurinn leiðrétta sig og til að vera undir það búin ættu fjármálastofnanir og fjárfestar að tryggja að þeir eigi nægt fjármagn fyrir hendi til að mæta hugsanlega tapi í nálegri framtíð, segir í skýrslu OECD. Varnaðarorð til vogunar- og einkafjárfestingarsjóða OECD kallar einnig eftir því að seðlabankar á heimsvísu - einkum í Asíu - aðlagi peningamálastefnu sína í meira mæli að þessu ástandi sem ríkir á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum. "Þegar skuldsetning spilar jafn stóran þátt í þeim öfluga efnahagsuppgangi sem átt hefur sér stað undanfarin ár, þá þurfa stjórnvöld að veita því athygli - sagan kennir okkur að slíkt endar oftar en ekki illa", segir Adrian Blundell-Wignall, forstöðumaður fjármála- og fyrirtækjasviðs OECD og höfundur skýrslunnar. Blundell-Wignall bendir á það að raunvextir séu líklega of lágir. Af þeim sökum hefur vægi og áhrif vogunar- og einkafjárfestingarsjóða aukist verulega á undanförnum árum. Í skýrslunni fer OECD varkárum orðum um mikilvægi þess hlutverks sem slíkir sjóðir gegna á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Vissulega veita einkafjárfestingarsjóðir mikilvæga þjónustu þegur kemur að því að endurskipuleggja rekstur fyrirtækja sem stendur ekki undir sér, á meðan vogunarsjóðir bjóða upp á mikið lausafjármagn sem aftur hjálpar til að draga úr sveiflum á markaði og þannig aukið hagvöxt. Hins vegar ef alþjóðlegur kostnaður á fjármagni er ekki rétt verðlagður sökum þeirrar miklu aukningu sem hefur orðið af framboði á ódýru lánsfé, þá gæti afleiðingin af því verið ofmat fjárfesta á getu þeirra til þess að skuldsetja sig í stöðutökum. Frumkvæði fjárfesta og fyrirtækja Í skýrslu OECD er því haldið fram að helsta ástæðan fyrir þessari aukningu sem hefur orðið af framboði á peningum sé annars vegar hinn gríðarmikli gjaldeyrisforði Kínverja og hins vegar lágir stýrivextir í Japan. Gjaldeyrisforði Kína er metin á 1,1 billjón Bandaríkjadala og er sjóðurinn að stórum hluta notaður til fjárfestinga í bandarískum skuldabréfum, sem hefur gert það að verkum að vextir eru lægri í Bandaríkjunum heldur en ella. Hinir lágu vextir sem lengi hafa verið í Japan hafa ýtt undir vaxtamunarviðskipti sem mjög erfitt er orðið að festa reiður á hversu umfangsmikil eru. Að mati Blundell-Wignall mun bakslag á markaðinum vera hrundið af stað þegar - frekar en ef - óstöðugleiki á alþjóðlegum fjármagnsmarkaði myndast sökum óeðlilega mikils framboðs af fjármagni. Slíkt ástand gæti meðal annars orðið til ef áframhald verður á slæmri skuldastöðu hjá einstaklingum á bandarískum fasteignamarkaði; lán sem vogunar, tryggingar - og lífeyrissjóðir hafa tekið falla í vanskil; vísbendingar um aukin verðbólguþrýsting fer að gera vart við sig í alþjóðahagkerfinu; eða ef jenið fer að styrkjast sem myndi leiða til þess að vaxamunarviðskipti minnkuðu. Til þess að koma í veg fyrir það að ofgnótt verði af framboði á fjármagni á alþjóðavísu, þá verða seðlabankar og ríkisstjórnir um allan heim að fjarlægja þá þætti sem leiða til þess að slíkt ástand verði að veruleika. Aftur á móti er stefna einstakra ríkja á sumum svæðum í heiminum þess eðlis að erfitt gæti reynst að ná samstöðu um stefnumótun í þeim efnum. Sökum þess ættu fjárfestar og fyrirtæki að eiga frumkvæði að því að ráðast í aðgerðir sem munu tryggja greiðslugetu þeirra betur til að mæta þeim breyttu aðstæðum á fjármagnsmörkuðum þegar vaxtakostnaður færist í "eðlilegra horf" á heimsvísu.


 

Alþjóðleg lyfjafyrirtæki hyggjast útvíkka starfsemi sína og auka fjárfestingu í Asíu á næstu mánuðum, þrátt fyrir að þau hafi áhyggjur af spillingu sem þar ríkir og erfiðleikum við að sækja um einkaleyfi. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem ráðgjafafyrirtækið PwC gerði á meðal 185 stjórnenda í lyfjaiðnaðinum. Eitt af hverjum þremur alþjóðlegum lyfjafyrirtækjum sem nú þegar er með starfsemi í Asíu ætlar að útvíkka starfsemi sína í álfunni enn frekar, meðal annars með því að ráðast í yfirtökur á öðrum fyrirtækjum í iðnaðinum. Þrjú af hverjum fjórum lyfjafyrirtækjum sem eru aðeins með starfsemi í heimalandi sínu, segja einnig að eitt af mikilvægari markmiðum þeirra sé að sækja inn á nýja markaði á heimsvísu og hafa þá Asíu einkum í huga. Þessar niðurstöður ættu ekki að koma sérstaklega á óvart. Mikill efnahagsvöxtur hefur verið í Asíu undanfarin ár og búast margir sérfræðingar við því að lyfjamarkaðurinn þar verði sá stærsti í heiminum. Fastlega er gert ráð fyrir því að í kjölfarið muni samkeppni á markaðinum aukast til muna. Það sem hinir 185 stjórnendur sem tóku þátt í könnuninni höfðu mestar áhyggjur af samhliða því að auka starfsemi sína í Asíu, var annars vegar ástand dóms- og réttarkerfisins og hins vegar verndun hugverkaréttar. Aftur á móti sagði meirihluti stjórnendanna að þeir hefðu orðir varir við framfarir í þessum efnum síðastliðinn fimm ár í Asíu. Meðferðarprófun (e. clinical trial) var aðallega nefnd sem sú viðskiptastarfsemi sem væri líklegust til að vera úthýst í auknum mæli til Asíu, en einnig lyfjaþróun og greiningarvinna. Stór lyfjafyrirtæki hafa fjárfest mikið í Singapúr, þar sem þrjátíu líftæknifyrirtæki starfa, og á undanförnum árum hafa fjáfestingarnar numið samtals 1,3 milljörðum Bandaríkjadala. Önnur lönd í Asíu þar sem mikil fjárfestingartækifæri eru fyrir hendi að mati öflugra lyfjafyritækja, eru Suður-Kórea, Kína og Indland.


 
Erlent
22. maí 2007

Kerling seld

Norsk Hydro tilkynnti í gær að það hyggðist selja efnaiðnaðarfyrirtækið Kerling til breska fyrirtækisins Ineos fyrir um 911 milljónir Bandaríkjadala. Salan er líður í þeirri stefnu fyrirtækisins að einbeita sér eingöngu að kjarnastarfsemi Norsk Hydro. Til þess að kaupin á Kerling nái fram að ganga þurfa evrópsk samkeppnisyfirvöld að leggja blessum sína yfir þau.


 

Hópur einkafjárfestingarsjóða, sem bandaríski sjóðurinn Providence Equity Partners fer fyrir, er að íhuga 7,5 milljarða punda tilboð í Virgin Media Inc. Þetta kemur fram í frétt breska blaðsins The Observer á sunnudaginn, án þess að blaðið vitni sérstaklega til heimildarmanna sinna. Í frétt blaðsins segir að þeir einkafjárfestingarsjóðir sem Providence sé að ræða við um að koma að tilboðinu séu Blackstone Group, Kohlberg Kravis Roberts & Co og Cinven Group. Tilboð í Virgin gæti borist á næstu vikum og hyggjast einkafjárfestingarsjóðirnir færa sér í nyt hið hlutfallslega lága verð sem er á gengi hlutabréfa breska félagsins.


 

Sérfræðingar hjá Centre for Global Energy Studies (CGES) telja að ekki verði komist hjá hækkunarhrinu á olíu á heimsmarkaði í sumar vegna þeirrar einföldu ástæðu að eftirspurn muni verða mun meiri en framboðið. Þeir telja ólíklegt að Samtök olíuframleiðsluríkja (OPEC) muni auka framboð á markaði sökum þess að þau vilja halda verðinu á hráolíu yfir sextíu Bandaríkjadölum á fatið. Sérfræðingar CGES telja að sveiflur verði miklar á þróun verðs á meðan að OPEC miðar við sextíu dalina.


 

Allianz, stærsta tryggingarfyrirtækið í Evrópu, greindi frá því í gær að það hyggðist kaupa rússneska tryggingarfélagið Progress-Garant. Allianz sagði að það hefði keypt alla hluti í rússneska fyrirtækinu af stjórnendum Progress-Garant. Samkvæmt samkomulagi sem félögin gerðu með sér verður kaupverð samningsins ekki gefið upp, segir í yfirlýsingu sem Allianz sendi frá sér í gær.


 

Ítölsku bankarnir UniCredit og Capitalia komu sér saman um helgina að sá fyrrnefndi myndi kaup þann síðarnefnda fyrir 22 milljarða evra. Með sameiningu ítölsku bankanna verður til annar stærsti banki Evrópu, aðeins HSBC verður stærri, en sameiginlegt markaðsverðmæti bankanna tveggja er ríflega hundrað milljarðir evra. Búist er við að hluthafar bankanna greiði atkvæði um samrunann í júlí og ef að hann stangast ekki á lög og reglur ætti hann að geta gengið í gegn í september. Hins vegar er ekki hægt að útiloka að annað tilboð verði lagt fram í Capitalia.


 

Samdráttur á bandaríska fasteignamarkaðinum mun hafa meiri áhrif á hagvöxt í landinu en áður var talið. Þetta kemur fram í nýrri könnun meðal hagfræðinga en hún var tekin saman fyrir samtökin National Association for Business Economics. Fram kemur í könnuninni það mat að hagvöxtur verði um 2,3% á þessu ári. Í sambærilegri könnun sem var gerð í febrúarmánuði var gert ráð fyrir 2,8% hagvexti. Reynist spáin rétt er um að ræða minnsta hagvöxt í Bandaríkjunum frá árinu 2002 en þá var hagkerfið búið að ganga í gegnum samdráttarskeið og var hagvöxtur á árinu aðeins 1,6%. Fjörtíu og átta hagfræðingar tóku þátt í könnuninni og telja þeir að fasteignamarkaðurinn sé myllusteinninn um háls hagkerfisins. Eftir að fasteignaverð hafði hækkað linnulaust í fimm ár tók að bera á samdrætti á síðasta ári og er það mat helmings þeirra hagfræðinga sem tóku þátt í könnunni að dýfan á fasteignamarkaðinum muni ekki taka á enda fyrr í fyrsta lagi á fjórða ársfjórðungi þessa árs. Hagfræðingarnir sem tóku þátt í könnuninni telja þó að hagkerfið taki við sér á næsta ári auk þess sem að hald þeirra er að ekki séu miklar líkur á samdráttarskeiði á næsta ári. Þeir spá um þriggja prósenta hagvexti árið 2008. Ástæða hagvaxtaraukningar milli ára telja þeir felast í aukinni fjárfestingu, betri birgðastöðu auk þess að gert er ráð fyrir að stöðugleiki verði kominn á fasteignamarkaðinn. Fleiri en helmingurinn af þeim hagfræðingum sem tóku þátt í könnuninni telja að minnsta kosti fjórðungslíkur á að samdráttarskeið verði í hagkerfinu á næstu tólf mánuðum. Fyrr í ár sagði Alan Greenspan, fyrrum seðlabankastjóri Bandaríkjanna, líkurnar vera einn á móti þrem. Hagfræðingarnir sem tóku þátt í könnuninni telja að verðbólga í Bandaríkjunum verði 2,9% árinu sem er mun hærri en spáð var í febrúarkönnuninni, en þá var spáð 2,4% verðbólgu. Aukin svartsýni á verðbólguhorfur má rekja til væntinga um frekari hækkana á olíu og öðrum orkugjöfum. Seðlabanki Bandaríkjanna gerir hinsvegar ráð fyrir að hægari snúningur á hjólum atvinnulífsins dragi úr verðbólguþrýstingi.


 

Virgin America, lággjaldaflugfélag flugfélag Richard Bransons, hefur loksins fengið grænt ljós frá yfirvöldum í Washington og mun geta hafið rekstur í sumar að því gefnu að flugfélagið uppfylli öryggisskilyrði. Upphaflega höfnuðu samgönguyfirvöld í Bandaríkjunum umsókn Virgin America um að hefja flugrekstur sökum þess að tengsl þess yfir Virgin Group þóttu brjóta í bága við þau lög sem takmarka áhrif útlendinga í rekstri þarlendra flugfélaga. Til þess að uppfylla skilyrðin þurfti Virgin að endurskipuleggja eignartengslin þannig að einsýnt væri að útlendingar réðu ekki yfir meira en fjórðungi hlutabréfa og slíta eignartengsl við Virgin Atlantic og Virgin Group. Stefnt er að því að Virgin America muni hefja rekstur í sumar og mun því Branson fá aðgengi að stærsta farþegaflugmarkaði heims. Flugfélagið mun nota flota af Airbus A319 og A320 flugvélum og í fyrstu fljúga beint á milli San Francisco og New York. Gert er ráð fyrir að áfangastöðum verði fjölgað hratt og áætlanir félagsins miðast við að áfangastöðum fjölgi um tíu á fyrsta rekstrarárinu. Með þeirra eru San Diego, Washington og Las Vegas.


 

Kínversk stjórnvöld hyggjast borga þrjá milljarða Bandaríkjadala fyrir tíu prósenta eignahlut í bandaríska einkafjárfestingarsjóðnum Blackstone. Það er óstofnaður fjárfestingarsjóður kínverska ríkisins sem kaupir hlutinn og eru þau til marks um áhuga stjórnvalda í Kína að auka vægi annarra eigna en bandarískra ríkisskuldabréfa þegar kemur að samsetningu hins gríðarlega mikla gjaldeyrisforða landsins. Hlutverk hins óstofnaða fjárfestingarsjóðs verður að ávaxta þennan gjaldeyrisforða, en hann nemur 1,1 billjón Bandaríkjadala. Kaup stjórnvalda í Peking á hlutnum í Blackstone fara fram samfara hlutafjárútboðs og skráningu bréfa einkafjárfestingasjóðsins á markað síðar á þessu ári. Stephen Schwarzman, aðalframkvæmdastjóri Blackstone, segir kaup Kínverjanna söguleg og að fjárfesting fjármögnuð með fé úr gjaldeyrissjóði landsins í slíku félagi sé til marks "um tímamót í þróun flæði fjármagns í heiminum". Kínversk stjórnvöld fengu bréfin með 4,5% afslætti miðað við útboðsverð sökum þess að þeim fylgir ekki atkvæðaréttur. Breska blaðið Financial Times leiðir að því líkum að þetta sé gert til þess að koma í veg fyrir andstöðu bandarískra stjórnmálamanna gegn fjárfestingunni. Auk þess að stjórnvöld í Washington og Peking deili hart um gengi júansins og aðra þætti í milliríkjaverslun landanna hefur andstæðingum Kínverja á Bandaríkjaþingi fjölgað í kjölfar valdatöku demókrata. Það er til marks um að kínversk stjórnvöld vilji forðast að vekja tortryggni í Bandaríkjunum með fjárfestingum sínum að á sama tíma og tilkynnt var um kaupin þá lýstu þau yfir að sambærilegar fjárfestingar væru ekki yfirvofandi og að tekið yrði tillit til stjórnmálaþátta við mótun fjárfestingastefnu hins óstofnaða sjóðs.


 
Erlent
22. maí 2007

S&P setur met

Enn eitt metið var slegið í Kauphöllinni í New York í gær en þá sló Standard & Poor?s 500 vísitalan met er hún fór í 1,527.46 stig í fyrsta sinn síðan í marsmánuði ársins 2000. Frammistaða S&P 500 þykir gefa góða vísbendingu um almenna frammistöðu hlutabréfamarkaðaris. Hækkanir gærdagsins má rekja til fregna um yfirtökur á fyrirtækjum. Tíðar yfirtökur hafa átt sinn þátt í að hlutabréf hafa farið hækkandi á mörkuðum vestanhafs undanfarið en hafa einkafjárfestingasjóðir gengið rösklega fram í þeim efnum. Fjárfestar héldu áfram að þrýsta vísitölum upp á við vegna fregna af markaði en ekkert virðist benda til þess að draga muni úr yfirtökuhrinu undanfarinna mánaða. Til að mynda var á sunnudag tilkynnt um yfirtöku á fjarskiptafyrirtækinu Allstel og General Electric tilkynnti í gær um sölu plastframleiðsluhluta fyrirtækisins til Sádi-Arabíu.


 

Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf. hefur keypt meirihluta í eQ Corporation, finnskum banka sem sérhæfir sig í eignastýringu, verðbréfamiðlun og fyrirtækjaráðgjöf. Gert verður yfirtökutilboð í allt hlutafé og kauprétti í eQ. Tilboðsverðið verður 7,60 evrur á hlut og 5,40 evrur fyrir hvern kauprétt. Samanlagt virði kaupanna og tilboðsins er 260 milljónir evra eða 22 milljarða króna.


 

Úrvalsvísitala Kauphallarinnar OMX á Íslandi hoppaði aftur yfir átta þúsund stiga múrinn í dag og endaði í 8.055 stigum eftir að hafa hækkað um 0,77% í viðskiptum dagsins. Viðskipti með hlutabréf í Kauphöllinni námu 8,5 milljörðum króna samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis.


 

Actavis hefur fengið samþykki bandarísku matvæla- og lyfjastofnunar til að markaðssetja þvagfæralyfið Finasteride í Bandaríkjunum og er sala lyfsins nú þegar hafin. Actavis hefur þar með markaðssett fimm ný samheitalyf í Bandaríkjunum í ár, af þeim 18-20 sem áætlað er að markasett verði á árinu 2007 segir í frétt félagsins. Finasteride, sem er í styrkleikanum 5 mg í töfluformi, er samheitalyf frumlyfsins Proscar® frá frumlyfjafyrirtækinu Merck, en lyfið er notað við góðkynja stækkun í blöðruhálskirtli. Actavis er í hópi fimm samheitalyfjafyrirtækja sem hafa markaðssett lyfið, en einkaleyfið rann út í júní 2006. Árleg sala lyfsins í Bandaríkjunum nam um 364 milljónum Bandaríkjadala (23 milljörðum króna), miðað við mars 2007, skv. upplýsingum frá IMS Health data. Sigurður Óli Ólafsson, aðstoðarforstjóri Actavis, segir í frétt: "Markaðssetning Finasteride er góð viðbót við lyfjaúrval okkar í Bandaríkjunum. Mikilvægt er að geta boðið öll stærstu lyfin sem falla af einkaleyfi og að hafa sem breiðast úrval lyfja. Þar hefur okkur tekist vel til og á seinni hluta ársins munum við sjá aukinn fjölda markaðssetninga lyfja í Bandaríkjunum."


 

Undirritað hefur verið samkomulag milli Auðhumlu svf., móðurfélags Mjólkursamsölunnar, og Sólar ehf. um kaup þess síðarnefnda á Emmessís hf. Samkomulagið er undirritað með fyrirvara um áreiðanleikakönnun að því er segir í tilkynningu.  Emmessís er eitt þekktasta vörumerki landsins. Mjólkursamsalan hóf framleiðslu á ísblöndu fyrir ísvélar árið 1954. Sex árum síðar var stofnað sérstakt fyrirtæki um ísframleiðsluna. Framleiðsluvörur Emmessís eru nú nálægt 120 talsins. Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri Sólar, fagnar kaupunum á einu þekktasta vörumerki landsins. ?Vörurnar eru framleiddar úr hreinum, íslenskum landbúnaðarafurðum sem eiga góða samleið með þeirri vöru sem Sól framleiðir í dag,? segir Snorri. Hann segir að rekstur ísgerðarinnar verði áfram á Bitruhálsi 1 en stefnt er að sameiningu félaganna í lok ársins. Guðbrandur Sigurðsson, forstjóri Auðhumlu, segir söluna á Emmessís eðlilegt framhald af þeim breytingum sem átt hafa sér stað hjá Auðhumlu og dótturfélögum þess. ?Við höfum mikla trú á þessum nýja eigendahópi og teljum að hann muni koma með ferska vinda inn í þá rótgrónu og farsælu starfsemi sem Emmessís hefur staðið fyrir í hartnær hálfa öld. Þá er okkur einnig umhugað um að eiga áfram gott samstarf við Emmessís um sölu þess mjólkurhráefnis sem félagið notar.? Fyrirtækjaráðgjöf SPRON sá um sölu félagsins og Arev aðstoðaði kaupanda. Kaupverðið er trúnaðarmál.


 

Alfesca kemur með uppgjör sitt fyrir fyrsta fjórðung (3. fjórðung skv. þeirra fjárhagsári) á morgun. Greiningardeuild Glitnis reiknar með ágætri afkomu á fjórðungnum, spá nokkrum framlegðarbata frá fyrra ári. Taka ber fram að árstíðarsveiflur eru í rekstri Alfesca.


 

Stofnaður hefur verið nýr einkafjármagnssjóður, Arev N1, sem mun hafa allt að þrjá milljarða króna til fjárfestinga í íslenskum neytendavörufyrirtækjum, aðallega á sviði heildsölu, smásölu og þjónustu. Sjóðurinn er í eigu Eignarhaldsfélagsins Arev og Icebank.


 

Aflaverðmæti íslenskra skipa nam 15,2 milljörðum króna á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2007 samanborið við 11,3 milljarða á sama tímabili 2006. Í frétt Hagstofunnar kemur fram að aflaverðmæti hefur aukist um 3,9 milljarða eða 34,7% milli ára.


 

Sjólaskip hf. og Samherji hf. hafa gert samkomulag um að Samherji hf. kaupi erlenda starfsemi Sjólaskipa hf. og tengdra félaga. Þessi félög hafa gert út 6 verksmiðjuskip og tvö þjónustuskip í lögsögu Máritaníu og Marokkó. Sjólaskip hf. eru með höfuðstöðvar á Íslandi, en með bækistöðvar á Kanaríeyjum að því er segir í fréttatilkynningu Samherja. Sjólaskip hf. hafa gert út fiskiskip við Máritaníu og Marokkó síðastliðin 10 ár. Starfsemin hefur vaxið stöðugt og reksturinn hefur gengið vel. Við reksturinn starfa ríflega eitt þúsund starfsmenn af ýmsum þjóðernum, þ.á.m. um 80 Íslendingar. Fiskiskipin eru áþekk að stærð og búnaði og Engey RE sem Samherji hf. keypti nýlega. Skipin veiða einkum makríl, hestamakríl og sardínellu. Aflinn er unninn um borð en skipin eru búin öflugum vinnslubúnaði og fiskimjölsverksmiðjum. Á hverju skipi eru um eitthundrað sjómenn segir í frétt Samherja.  "Starfsemi Samherja hf. erlendis hefur vaxið stöðugt frá því að hún hófst árið 1994 og verður nú um 70% af okkar veltu", sagði Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja hf.  í frétt á heimasíðu félagsins. "Þessi kaup eru stærsta fjárfestingarverkefni sem Samherji hf. hefur tekist á hendur. Við þetta verða ákveðin kaflaskil í rekstri okkar, því við höfum hingað til starfað í Norður- Atlantshafi. Við höfum skoðað möguleikana þarna vel og teljum að reynsla okkar og þekking muni nýtast vel í þessu verkefni. Það er jafnframt ljóst að þessi fjárfesting kallar á skipulagsbreytingar í Samherja hf. Við erum að taka við góðum rekstri sem hefur gengið vel, vaxið og dafnað og gerum ekki ráð fyrir að miklar breytingar verði á starfseminni" sagði Þorsteinn Már. Sjólaskip hf. hófu útgerðarrekstur í landhelgi Marokkó árið 1997. Reksturinn fór rólega af stað en hefur vaxið hratt ár frá ári. "Framsýnir, samheldnir og öflugir starfsmenn bæði á landi og sjó eiga stóran þátt í hversu vel hefur tekist að byggja upp þessa öflugu útgerð. Rekstur okkar hefur verið afar farsæll í þessu framandi og krefjandi rekstrarumhverfi", sagði Haraldur Jónsson framkvæmdastjóri Sjólaskipa hf. Eftir þessi viðskipti eiga Sjólaskip hf. eitt skip, Delta, sem stundar veiðar í landhelgi Marokkó og landar ferskum fiski til vinnslu þar í landi.


 

Breytingar hafa átt sér stað á eignarhaldi fréttavefsins austurlandid.isen Einar Ben Þorsteinsson ritstjóri vefsins og annar af eigendum hans seldi hlut sinn í einkahlutafélaginu Íslensk fréttablöð í dag sem rekur Austurlandið.is.


 

Baugur er orðin stærsti hluthafi danska félagsins TK Development að því er kemur fram í danska viðskiptablaðinu Børsen. Þar kemur fram á Baugur á nú 6% hlut eða 1.684.000 hluti í TK Development.


 

Breytingar hafa orðið á eignarhaldi í rekstrarfélagi Domino´s á Íslandi, Futura ehf, en nýverið keypti Smáey ehf., í eigu Magnúsar Kristinssonar fjárfestis, alla hluti Baugs ehf. í félaginu. Domino´s er stærsta pizzafyrirtæki landsins með yfir 350 starfsmenn á landsvísu og 13 verslanir. Í stjórn félagsins voru þau Tryggvi Jónsson, Þórdís J. Sigurðardóttir og Ólöf Guðmundsdóttir. Allir stjórnarmeðlimir ganga úr stjórninni við kaupin að undanskilinni Ólöfu Guðmundsdóttur, meðstjórnanda, sem ásamt Kristni G. Bjarnasyni, meðstjórnanda og Magnúsi Kristinssyni stjórnarformanni skipa nýja stjórn Futura ehf. Nýr framkvæmdastjóri var ráðinn 1. maí, Ásdís Þrá Höskuldsdóttir en hún tók við starfi af Baldri Baldurssyni. Að sögn Ásdísar eru spennandi tímar framundan hjá fyrirtækinu. Fyrirhuguð er í ágúst opnun nýrrar verslunar á Akranesi og þá eru einnig í athugun möguleikar á uppsetningu verslanna í öðrum landshlutum. ?Það er óhætt að segja að mikið fjör verði á næstu misserum hjá Domino´s. Í lok maí munum við auka enn á þjónustuna við viðskiptavini okkar, en þá opnum við nýja heimasíðu þar sem m.a. verður hægt að panta beint af matseðli Domino´s. Einnig eru fyrirséðar breytingar á útliti vörumerkisins sem munu endurspeglast í útliti verslanna og alls kynningarefnis sem fyrirtækið lætur frá sér fara. Margar þessara breytinga má þegar sjá hjá verslunum Domino´s í Bandaríkjunum og Frakklandi,? segir Ásdís Þrá. ?Þá munu þessum breytingum einnig fylgja spennandi nýjir kostir á matseðli okkar ? eitthvað sem ekki er tímabært að uppljóstra á þessari stundu, en mun án efa falla vel í kramið hjá viðskiptavinum okkar,? segir Ásdís Þrá.


 

Hreinsitækni hefur eignast allt hlutafé í Holræsahreinsun. Félögin verða sameinuð undir nafni Hreinsitækni. Fram til þessa hefur Hreinsitækni verið í eigu einstaklinga, en nýlega gekk Hildingur, dótturfélag KEA frá kaupum á fjórðungshlut í félaginu. Með innkomu Hildings í félagið er lagður grunnur að frekari umsvifum Hreinsitækni segir í frétt félagsins.  


 

Héraðsfréttablaðið Eyjafréttir greina frá átökum um Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum í opnuumfjöllun sinni í dag. Þar kemur fram að Landsbankinn, viðskiptabanki Vinnslustöðvarinnar, hafi fimmtudaginn 12. apríl síðastliðinn látið hringja í fjölda hluthafa í Vinnslustöðinni hf. og gert tilboð í hlutabréfin í fyrirtækin á genginu 8,0.


 

Landsbankinn hefur gert yfirtökutilboð í öll hlutabréf breska verðbréfa- og fjárfestingabankans Bridgewell. Tilboðið hljóðar upp á 125 pens á hlut sem þýðir að heildarvirði bankans er metið á 60,3 milljónir punda eða sem svarar til 7,5 milljarða íslenskra króna, segir í frétt á vefsíðu Electronic News Publishing í Bretlandi. Breski bankinn Teather & Greenwood, sem Landsbankinn keypti árið 2005 og Bridgewell verða sameinaðir undir nafninu Landsbanki Securities UK.


 

fjórða útgáfan á árinu


 

Hlutabréf lækkuðu í Kauphöllinni í dag um 0,57% og Gengisvísitalan er nú 7.981 stig samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis.


 

OMX Nordic Exchange  mun í dag og á morgun vera með kynningu á skráðum félögum í New York .Alls verða 33 félög sem skráð eru í kauphöllum OMX kynnt  þar af íslensku félögin Exista, Glitnir og Össur og  að auki mun  Þórður Friðjónsson, forstjóri OMX Nordic Exchange á Íslandi halda erindi um íslenskt efnahagslíf og íslenska markaðinn. Þá mun hann varpa ljósi á gríðarlegan vöxt íslenska markaðarins og fjalla um þær breytingar sem orðið hafa á síðustu árum og þátttökuna íslensku kauphallarinnar í OMX.


 

Nýherji hf. undirritaði í dag samning um kaup á fyrirtækinu Dansupport A/S í Óðinsvéum í Danmörku. Dansupport er þjónustufyrirtæki sérhæft í uppsetningu á tölvu-, samskipta- og símakerfum fyrir meðalstór fyrirtæki. Helstu samstarfsaðilar Dansupport eru IBM, Avaya, Cisco og Microsoft í Danmörku. Kaupverðið er 190 milljónir króna segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.Nýherji hefur á undanförnum misserum annast fjölmörg verkefni erlendis við uppsetningu á síma- og tölvukerfum og hafa íslenskir starfsmenn annast þau verkefni. Þá hefur Nýherji haft tvo fasta starfsmenn í Danmörku á liðnu ári og munu þeir nú hefja störf hjá Dansupport A/S.Tekjur Dansupport á liðnu ári voru um 340 milljó króna og var EBITDA um 9 %. Kaupverðið er 190 milljónir króna og verður það fjármagnað að hluta með lánsfé, en annars með eigin fjármögnun. Gert ráð fyrir að kaupin á Dansupport hafi óveruleg áhrif á afkomu Nýherja á yfirstandandi ári, því áhersla verður lögð á áframhaldandi vöxt þess í Danmörku.Dansupport hóf upphaflega starfsemi í Óðinsvéum árið 1987 og eru starfsmenn þess nú um 30 reyndir ráðgjafar og tæknimenn. Dansupport veitir þjónustu á sviði tækni- og rekstrarþjónustu upplýsingatæknikerfa, uppsetningu og rekstur símkerfa auk hýsingarþjónustu. Nýlega opnaði félagið skrifstofu í Kolding til að þjóna viðskiptavinum á Jótlandi. Á næstunni verður einnig opnuð skrifstofa í Kaupmannahöfn, þar sem áhersla verður lögð á að þjóna viðskiptavinum í Kaupmannahöfn og annars staðar á Sjálandi.Framkvæmdastjóri Dansupport er Kenneth Rossau og mun hann verða tæknilegur framkvæmdastjóri á öllum starfsstöðum félagsins frá 1. júlí. Við stöðu framkvæmdastjóra tekur Claus Falk, en hann hefur á liðnum sjö árum gegnt stöðu framkvæmdastjóra Eltel Networks Telecom A/S í Kaupmannahöfn. Claus Falk er með háskólagráðu í verkfræði- og viðskiptafræði frá Háskólanum í Álaborg og hefur starfað á sviði upplýsingatækni frá árinu 1990. Þá hefur Rasmus Maahr verið ráðinn sem fjármálastjóri Dansupport, en hann var áður fjármálastjóri hjá Eltel Networks Telecom A/S og endurskoðandi hjá KPMG í Danmörku.Kaupin á Dansupport eru í samræmi við þá stefnu Nýherja að auka starfsemi samstæðunnar erlendis. Í október 2005 keypti Nýherji öll hlutabréf í fyrirtækinu AppliCon A/S, sem er sérhæft í ráðgjöf og þjónustu við SAP hugbúnaðog hafa síðan verið stofnuð AppliCon fyrirtæki í London og Stokkhólmi.


 

Útlit er fyrir að ekkert verði af fyrirhuguðu verkfalli flugmanna danska lággjaldaflugfélagsins Sterling, sem er í eigu Norhern Travel Holding, en flugmenn félagsins og forráðamenn þess hafa fundað síðan í gærdag, segir í frétt á vefsíðu danska viðskiptablaðsins Børsen. Um 15 þúsund Danir sem áttu pantað flug með Sterling á næstu dögum geta því andað léttar en útlit var fyrir að þeir gætu ekki haldið í sumarfrí með félaginu. ?Við erum við það að lesa samningana í gegn og ganga frá þeim. Gengið hefur verið frá stærstu ágreiningsmálum en það gæti tekið nokkra tíma í viðbót að ganga frá smáatriðum,? segir Stefan Vilner, upplýsingafulltrúi Sterling, í samtali við Børsen. ?Það sem skiptir höfuðmáli í þessum samningum eru laun og vinnutími flugmanna,? segir Vilner.


 

Hlutabréf í Kauphöllinni hafa lækkað um 0,58% í dag það sem af er degi samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis.  Í kjölfarið er Úrvalsvísitalan kominn niður fyrir átta þúsund stig á ný og er nú 7.980 stig.


 

-segir Davíð Oddsson Seðlabankastjóri


 

Seðlabankinn hefur greint frá tvennskonar breytingum á starfsaðferðum sínum. Annars vegar breytist framsetning stýrivaxta. Hingað til hafa stýrivextir sem Seðlabankinn hefur tilkynnt og birt í vaxtatilkynningum sínum í reynd verið ávöxtun á ári en ekki nafnvextir. Nú hefur verið ákveðið að framvegis verði allir vextir Seðlabankans settir fram og tilkynntir sem nafnvextir.


 

Uppgangur á kínverska hlutabréfamarkaðinum virðist engan endi ætla að taka þrátt fyrir að stutt sé síðan að Sjanghæ hlutabréfavísitalan féll um meira en 9% í lok febrúar og gætti áhrifanna af því hruni á mörkuðum víða um heim. Síðastliðinn miðvikudag fór hlutabréfavísitalan í Sjanghæ kauphöllinni í fyrsta skipti yfir 4000 stig og hefur núna hækkað um meira en 50% það sem af er þessu ári. Þær fréttir sem bárust í síðustu viku um að kínversk stjórnvöld hyggðust láta þarlenda banka fjárfesta í auknum mæli í erlendum verðbréfum hafa gert fátt annað heldur en að ýta enn frekar undir væntingar manna um að ekkert lát sé á frekari hækkunum á hlutabréfamörkuðum í Kína. Hagfræðingar telja ekki ólíklegt að hlutabréfavísitalan muni jafnvel ná 5000 stigum innan mánaðar. Enda þótt flestir sérfræðingar séu á einu máli um að kínverski hlutabréfamarkaðurinn sé talsvert ofmetinn um þessar mundir, þá virðast spákaupmenn hafa veðjað á að slíkt ástand geti varað í nokkurn tíma; hækkanirnar muni sennilega halda áfram þangað til kínversk stjórnvöld grípa til aðgerða til að draga úr hinum mikla vexti sem gæti ógnað efnahagslegum stöðugleika í landinu. Almenningur uppfræddur Kínverskur almenningur hefur einnig að undanförnu horft hýru auga til þess skjóta ávinnings sem er í boði á hlutabréfamarkaðnum. Sú þróun er ekki óeðlileg ef horft er til þess að kommúnistastjórnin hefur ákveðið að hámarksvextir á innlánsreikningum í kínverskum bönkum skuli ekki vera hærri heldur en rétt yfir 2%. Í ljósi þess að verðbólga í Kína um þessar mundir er í kringum 3% er ávöxtun almennings á því að geyma sparfé sitt inn á slíkum bankareikningum neikvæð. Það er því ekki að undra að almenningur hefur snúið sér að hlutabréfamarkaðnum og litið á hann sem vænlegan kost til þess að ávaxta fé sitt til elliáranna. En það er ekki víst að allir séu jafn vel að sér um þá áhættu sem slíkum fjárfestingum fylgir. Stjórnvöld í Kína ákvaðu því að bregðast við og senda frá sér yfirlýsingu á föstudaginn þar sem kauphallaraðilar eru hvattir til þess að upplýsa almenna fjárfesta í ríkara mæli um þá hættu sem getur fylgt því að fjárfesta á verðbréfamarkaði. Hörð eða mjúk lending? Þrátt fyrir að margir fjárfestar hafi veðjað á að áframhald verði á hækkunum á kínverskum hlutabréfum á þessu ári, telja sérfræðingar hins vegar að það sé fremur spurning um hvenær en ekki hvort þessar hækkanir taki enda og þá hversu miklar lækkanir muni fylgja í kjölfarið. Í frétt Dow Jones fréttaveitunnar segist Mark Williams, hagfræðingur hjá rannsóknarfyrirtækinu Capital Economics, vera tiltölulega bjartýnn á að afleiðingarnar verði ekki mjög víðtækar. Bendir Williams á þá staðreynd að kínverski hlutabréfamarkaðurinn sé fremur lítill ef horft er á hann í hlutfalli af heildarstærð hagkerfisins, einkum ef hlutabréfamarkaðurinn í Hong Kong er ekki tekin með í reikninginn. Flest kínversk fyrirtæki nýta einnig aðallega áunninn hagnað sinn til að fjárfesta fyrir á markaði, í stað þess að sækja sér fjármagn á verðabréfamörkuðum. Af þeim sökum myndu verulega lækkanir á hlutabréfum ekki leiða til þess að fjárfesting í atvinnulífinu myndi dragast það mikið saman. Það er aftur á móti erfiðara að spá fyrir um hvaða áhrif hrina hlutabréfalækkana í Kína myndi hafa fyrir hlutabréfamarkaði á heimsvísu - en það er þó líklegt að þau yrðu ekki mikil, að mati sérfræðinga. Bein erlend fjárfesting á kínverska markaðnum er fremur lítil, en á meðan ætti mikil eftirspurn kínverskra fyrirtækja eftir fjármagni og vörum að viðhaldast. Viðbrögð stjórnvalda í Kína eru aftur á móti talin skipta miklu máli um framhaldið. Andy Xie, sérfræðingur um kínverskra markaðinn, segir í grein sem hann skrifaði nýverið í South China Morning Post að ef ráðamönnum í Peking tekst að halda aftur af hinni gríðarlegu aukningu sem hefur orðið í einkaneyslu þar í landi sé líklegt að í kjölfarið myndu fylgja tvö ár þar sem hagvöxtur í Kína minnkaði niður í sjö til átta prósent. En standi yfirvöld hins vegar aðgerðalaus hjá og láti núverandi ástand halda áfram í ár eða svo, mun hlutabréfabólan að lokum springa, meðal annars sökum yfirvofandi samdráttar í bandaríska hagkerfinu. Og allar vonir um svokallaða mjúka lendingu á kínverska hlutabréfamarkaðnum yrðu að engu


 

Gengi hlutabréfa í Nordea, stærsta banka Norðurlanda, hækkuðu um rúmlega tvö prósent í kjölfar þess að fréttir bárust af því að framkvæmdastjóri fjármálasviðs bankans, Arne Liljedahl, hefði staðfest það á fjárfestingaráðstefnu í New York í gær að fjárfestingar- og vogunarsjóðir hefðu sett sig í samband við Nordea vegna sölu sænska ríkisins á 19,9% hlut í bankanum. Talsmaður Nordea, John Ekwall, sagði hins vegar síðar um daginn að of mikið væri gert úr orðum Liljedahl: "Hann var spurður um söluferlið á bankanum. Hann svaraði því til að við yrðum varir við mun meiri áhuga frá markaðinum en áður. Við fáum fleiri spurningar í dag heldur en við fengum fyrir nokkrum mánuðum varðandi söluferlið." Að sögn Ekwall væri það ekki raunin að einhverjir ákveðnir aðilar hefðu verið í sambandi við þá, enda væru það stjórnvöld sem hefðu yfirumsjón með söluferlinu en ekki bankinn sjálfur. Viðskiptablaðið Affärsvärlden greindi frá því á mánudaginn að bandaríski bankinn Citigroup og einkafjárfestingarsjóðurinn Kohlberg Kravis og Roberts (KKR) hefðu leitað til sænskra stjórnvalda vegna kaupa á hlutnum í Nordea.


 

Bancroft fjölskyldan, sem á 24% hlut í Dow Jones og fer með um 62% atkvæða í útgáfufélaginu, hittist í gær til að ræða nýjustu atlögu fjölmiðlafélags Rubert Murdochs, News Corp., til að samþykkja yfirtökutilboð þess upp á 5 milljarða Bandaríkjadala í fyrirtækið. Fjölskyldmeðlimirnir brugðust hins vegar ekki við ósk Murdochs um að hitta hann á fundi, sem vekur upp spurningar um möguleika hans á að komast yfir útgáfufélagið.


 

Ríkisrekna rússneska olíufyrirtækið Rosneft greindi frá því í gær að hagnaður félagsins á síðasta ári hefði minnkað um 15%, samanborið við árið 2005. Ein ástæðan fyrir minni hagnaði Rosneft voru hærri skattgreiðslur sem fyrirtækið þurfti að greiða. Nam hagnaður félagsins samtals 3,53 milljörðum Bandaríkjadala, sem var nokkuð meira heldur en spár greiningaraðila höfðu gert ráð fyrir. Rosneft hefur stækkað umtalsvert að undanförnu í kjölfar þess að félagið stóð í umdeildri yfirtöku á eignum Yukos sem var dæmt til gjaldþrots af rússneskum dómstólum. Gengi hlutabréfa í Rosneft hafði lækkað um 1,9% á hádegi í gær og stóðu bréfin í 7,98 dölum á hlut.


 

Vísitala neysluverðs í Bandaríkjunum hækkaði um 0,4% í aprílmánuði, sem er nokkuð minni hækkun heldur en í marsmánuði þegar vísitalan jókst um 0,6% á milli mánaða. Sérfræðingar telja að þetta gefi til kynna að verðbólguþrýstingur sé að minnka og færast nær því verðbólgumarkmiði sem Seðlabanki Bandaríkjanna stefnir að. Af þeim sökum er talið líklegra en ella að ekki sé von á stýrivaxtahækkunum hjá bankanum á næstunni, en á mánudaginn ákvað stjórn bankans að halda vöxtum óbreyttum í 5,25%.


 

Bandaríski smásölurisinn Wal-Mart tilkynnti í gær að hagnaður félagsins á fyrsta ársfjórðungi þessa árs hefði hækkað um 8% samanborið við árið í fyrra. Nam hagnaðurinn 2,83 milljörðum Bandaríkjadala, sem var í samræmi við spár greiningaraðila. Þessi hagnaðaraukning náðist með því að skera verulega niður í rekstrarkostnaði fyrirtækisins en til þeirra ráðstafana var nauðsynlegt að grípa þar sem sala hefur minnkað að undanförnu. Wal-Mart greindi einnig frá því að afkoma félagsins á öðrum ársfjórðungi yrði væntanlegi verri heldur en spár greiningaraðila á Wall Street gera ráð fyrir. Gengi hlutabréfa í Wal-Mart hækkaði um 0,4% þegar markaðir opnuðu í gær og stóð í 47,65 dölum á hlut.


 

Gengið hefur verið frá því hvernig staðið verður að sameiningu upplýsingaveitnanna Thomson Corporation og Reuters Corp. Með sameiningunni verður til stærsta fyrirtæki heims þegar kemur að miðlun fjármálaupplýsinga, frétta og annars greiningarefnis. Tilkynnt var í gær að Stofnfjárfestasjóður Reuters (e. Reuters Founders Share Company) gæfi grænt ljós á samrunann. Sjóðurinn ræður yfir einu hlutabréfi en í krafti þess getur hann haft úrslitaáhrif á ákvarðanir sem kunna að ógna ritstjórnarlegu sjálfstæði Reuters. Í kjölfar þessara frétta virðist fátt geta komið í veg fyrir að 8,7 milljarða sterlingspunda tilboði Thomson í Reuters verði tekið og af þau sameinuð í eitt félag. Það er að segja ef að það verður ekki túlkað að meirihlutaeign Thomson-fjölskyldunnar ógni ritstjórnarlegu sjálfstæði af regluvörðum Reuters og að stærð og að stærð og umsvif sameinaðs fyrirtækis brjóti ekki í bága við samkeppnislög. Hugsanlega kann samruninn þurfa að hljóta samþykki frá samkeppnisyfirvöldum en af honum verður mun sameinað fyrirtæki ásamt Bloomberg upplýsingaveitunni verða ráðandi á vettvangi miðlun fjármálaupplýsinga í heiminum. Forráðamenn Thomson og Reuters segjast bjartsýnir um að samkeppnisyfirvöld hafi ekki afskipti af samrunanum. Markaðsverðmæti beggja fyrirtækja er um 35 milljarðar Bandaríkjadala. Áætlaðar tekjur sameinaðs fyrirtækis verða um 11 milljarðar dala og munu sextíu prósent þeirra koma vegna miðlunar fjármálaupplýsinga. Um níutíu prósent af tekjunum munu koma frá á markaðssvæðum í Evrópu og í Ameríku. Forráðamenn fyrirtækjanna telja að hægt verði að ná fram 500 milljóna Bandaríkjadala árlegum sparnaði í rekstrinum innan þriggja ára. Yfirstjórn fyrirtækjanna verður sameinuð en þau munu samt verða skráð í sitthvoru lagi undir nöfnunum Thomson-Reuters Corporation, sem verður skráð í kauphöllina í Toronto í Kanada, og Thomson-Reuters PLC, sem verður skráð í London.


 

Heildarafli íslenskra skipa í nýliðnum aprílmánuði, metinn á föstu verði, var 10,1% meiri en í apríl 2006. Það sem af er árinu hefur aflinn dregist saman um 0,5% miðað við sama tímabil 2006, sé hann metinn á föstu verði. Þetta kemur fram í frétt Hagstofu Íslands. Aflinn nam alls 120.663 tonnum í apríl 2007 samanborið við 84.383 tonn í apríl 2006. Botnfiskafli jókst um rúm 4.100 tonn frá aprílmánuði 2006 og nam tæpum 49.500 tonnum. Þorskafli dróst saman um rúm 400 tonn, ýsuaflinn jókst um tæp 2.100 tonn og ufsaaflinn jókst um tæplega 400 tonn. Flatfiskaflinn dróst saman og var rúm 1.660 tonn. Afli uppsjávartegunda nam tæpum 68.300 tonnum og var allur kolmunni. Aukning uppsjávarafla nemur rúmum 32.300 tonnum. Skel- og krabbadýraafli var rúmlega 1.200 tonn samanborið við tæplega 1.050 tonna afla í apríl 2006. Munur á afla á föstu verði og í tonnum. Afli á föstu verði er reiknaður út til þess að finna breytingu á verðmæti heildaraflans að gefinni þeirri forsendu að verðhlutföll milli einstakra fisktegunda séu þau sömu og á ákveðnu viðmiðunarári sem hér er árið 2004. Hér er því um að ræða hliðstæðu við umreikning á afla yfir í þorskígildi. Aflinn í tonnum sýnir hins vegar magn aflans án tillits til þess að fisktegundir eru misjafnlega verðmætar.


 

Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að breyta ekki stýrivöxtum bankans nú. Þeir verða áfram 14,25%. Í frétt sem bankinn birtir á heimasíðu sinni eftir kl. 11 í dag verða rökin að baki ákvörðunar bankastjórnar kynnt. Næsta ákvörðun bankastjórnar Seðlabanka Íslands um vexti verður birt fimmtudaginn 5. júlí næstkomandi. þessi ákvörðun nú er í samræmi við spá markaðsaðila. 


 

Í dag var Nederman, smærra félag í iðnaðargeiranum, skráð í Kauphöllinni í Stokkhólmi. Nederman er 22.1 félagið sem er skráð í Nordic Exchange á þessu ári að því er kemur fram í tilkynningu. 


 

Úrvalsvísitalan hækkaði í dag um 1,2% en markaðurinn er í mikilli sveiflu og lokaði í sínu sögulega hæsta gildi í dag í 8.027 stigum samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis.


 

Góður ársfjórðungur hjá Icebank


 

Úrvalsvísitala OMS Kauphallarinnar á Íslandi hefur hækkað um 0,21% það sem af er degi samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Úrvalsvísitalan braut átta  þúsund stiga múrinn í morgun og er nú 8.026. Mikil sveifla hefur verið á hlutabréfamarkaðinum að undanförnu sem nú heldur áfram.


 

Saga Capital Fjárfestingarbanki hf. og Marel hf. hafa gert samning sín á milli um að Saga Capital gerist viðskiptavaki með hlutabréf í Marel, fyrir eigin reikning Saga Capital. Samhliða samningi um markaðsvakt hefur verið gerður samningur milli Marel og Saga Capital um kaup hins síðarnefnda á 3.700.000 nýjum hlutum í Marel.


 

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, reynir þessa dagana eftir fremsta megni að endurlífga stjórnarskrá Evrópusambandsins, en háttsettir embættismenn aðildarríkjanna 27 munu hittast í Brussel í dag og reyna að sætta þann ágreining sem ríkir um hvernig hin nýja stjórnarskrá eigi að líta út. Um nýliðna helgi fundaði Merkel meðal annars með forsætisráðherra Portúgals, Jose Socrates, en Portúgal mun taka við forystu í Evrópusambandinu (ESB) af Þýsklandi í næsta mánuði. Áætlun Merkel þessa síðustu daga sem hún fer með forystu í sambandinu er mjög skýr: Hún vill að á fundi aðilarríkjanna 27 sem sem mun fara fram 21. og 22. júní verði lagður grundvöllur að nýrri stjórnarskrá fyrir ESB í öllum helstu aðalatriðum - aðeins lítilvæg tæknileg atriði verði skilin eftir. Stjórnmálaskýrendur segja að samstaða sé að myndast á meðal helstu stjórnmálaleiðtoga ESB um þau atriði sem stjórnarskráin eigi að innihalda. Ekkert ríki er lengur að tala fyrir því að útvíkka enn frekar umfang hinnar upphaflegu stjórnarskráar, heldur er orðið augljóst að hin nýja stjórnarskrá mun minnka fremur en að auka völd embættismanna í Brussel og aðeins verða útvötnuð útgáfa af þeirri upphaflegu, sem var hafnað af Frökkum og Hollendingum í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir tveimur árum. Slík stjórnarskrá myndi kveða á um viðamiklar breytingar á stofnanakerfi Evrópusambandins með það að markmiði að þær endurspegluðu í meira mæli þær breytingar sem hafa orðið á ESB á undandanförnum árum; hún myndi koma í stað fjölda eldri samninga sem nú mynda lagagrundvöll sambandsins og einfalda ákvörðunartökuferlið. Hins vegar er helsta spurningamerkið sett við Pólverja og Breta, en hinir fyrrnefndu segja að nýtt kosningakerfi sambandins sé ósanngjarnt og hygli Þjóðverjum á kostnað smærri ríkja á meðan Bretar vilja ganga sem allra lengst í að minnka það umfang sem stjórnarskráin mun taka til. Í upphaflegu stjórnarskránni var gert ráð fyrir því að stofnað yrði sérstakt embætti utanríkisráðherra Evrópusambandsins. Nú er talið sennilegt að horfið verði frá þeim hugmyndum sökum mikillar andstöðu Bretlands. Að auki hafa Bretar talað fyrir því að kaflinn sem kveður á um sérstök grundvallarmanréttindi, meðal annars félagsleg réttindi, verði fjarlægður og njóta þeir einnig stuðnings Hollendinga í þeim efnum. Bretland hefur af því áhyggjur að ef stjórnarskráin innihaldi ákvæði um slík umfangsmikil réttindi muni það leiða til þess að dómstóll Evrópusambandsins fái einn meiri völd í sínar hendur, sem Bretar telja vera óásættanlega skerðingu á fullveldi sínu. Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.


 

Evrópski bankahópurinn sem vill yfirtaka ABN Amro - Royal Bank of Scotland (RBS), Fortis og Santander - útlistaði í gær tilboð sitt í hollenska bankann, í kjölfar þess að fjármálaeftirlitið þar í landi (AFM) óskaði eftir því að það yrði gert opinbert. Bankahópurinn, sem RBS fer í forystu fyrir, staðfesti að tilboð þess í ABN yrði fjármagnað að 70% hluta með peningum, afgangurinn með hlutabréfum í RBS og væri upp á 38,4 evrur á hlut, en auk þess yrði greitt 0,6 evrur á hlut í sérstaka arðgreiðslu. Það er því ljóst að tilboð RBS-hópsins er allt að sjö milljörðum evra hærra heldur en það sem breski bankinn Barclays lagði fram og samkomulag náðist um 23. apríl síðastliðinn. Í tilkynningu sem hópurinn sendi frá sér í gær kemur fram að RBS myndi taka að sér leiðandi hlutverk í því að endurskipuleggja allan rekstur ABN Amro ef gengið verður að tilboði bankanna. RBS myndi yfirtaka bandaríska bankann LaSalle og efla starfsemina í Bandaríkjunum og Asíu; Fortis yrði stærstur í smásölubankastarfsemi og lífeyristryggingum í Benelux löndunum; Santander fengi hins vegar að yfirtaka þá starfsemi sem ABN er með í Brasilíu og Ítalíu. ABN Amro sagði í gær að þeir hefðu ekki átt í neinum viðræðum við RBS-hópinn frá því 6. maí þegar bankinn ákvað að hafna tilboði hópsins í LaSalle upp á 24,5 milljarða Bandaríkjadala. Stjórnendur ASBN töldu tilboðið hefði ekki verið betra en 21 milljarðs dala tilboð Bank of America sökum þess að RBS-hópurinn hafi einnig gert það að skilyrði að fallist yrði um leið á yfirtökutilboð bankanna í ABN Amro.


 

Bandaríska olíufyrirtækið Chevron hefur ákveðið að segja upp starfsmönnum sínum á þeim olíusvæðum sem fyrirtækið er með starfsemi í suðurhluta Nígeríu í kjölfar þeirrar ólgu sem þar ríkir. Ákvörðunin er ákveðið áfall fyrir olíumarkaðinn og einnig hinn nýja forseta Nígeríu sem mun taka við völdum síðar í þessum mánuði. Það er áætlað að olíuframleiðslu í landinu hafi dregist saman um samtals 2,5 milljónir tunna á dag sökum árása herskrárra hópa á olíuvinnslustöðvar.


 

Stjórnarformaður franska bankans Societe Generale (SocGen) telur að bankinn geti leikið lykilhlutverk í margboðuðu samruna- og yfirtökuferli meðal evrópska fjármálastofnanna. Þetta kom fram í máli hans á aðalfundi bankans í gær. SocGen er talinn af mörgum álitlegur til yfirtöku og hafa hlutabréf bankans hækkað um meira en tuttugu prósent frá ársbyrjun vegna orðróms um hugsanlegt yfirtökutilboð. Ítalski bankin UniCredit Spa hefur oftast verið nefndur til sögunnar í því samhengi.


 

Finnski farsímaframleiðandinn Nokia greindi frá því í gær að félagið hefði hækkað afkomuáætlun sína fyrir annan ársfjórðung. Fyrirtækið segist búast við því að viðhalda þeirri markaðshlutdeild á heimsvísu sem því tókst að bæta við á fyrsta ársfjórðungi þegar hún jókst í 36%, en markmið Nokia fyrir árið 2007 er að auka markaðshlutdeild sína upp í samtals 40%. Í samtali við Dow Jones fréttastofuna sagði Thomas Langer, sérfræðingur hjá WestLB, að þessi tilkynning Nokia kæmi mjög á óvart. "Það væri vægast sagt ótrúlegt að félagið þyrði að birta slíkar jákvæðar fréttir jafn snemma á öðrum ársfjórðungi". Gengi bréfa í Nokia hækkaði um 5% í kauphöllinni í Helsinki í dag eftir félagið sendi frá sér hina endurskoðuðu afkomuáætlun.


 

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) telur að eistneskum stjórnvöldum muni ekki takast að uppfylla skilyrði fyrir upptöku evru. Þetta kemur fram í skýrslu sjóðsins sem var birt í dag. Sjóðurinn telur að stjórnvöld verði að skera niður útgjöld og ná fram afgangi af rekstri ríkissjóðsins til þess að kæla hagkerfið og auka líkurnar á að hægt verði að taka upp evru. Sérfræðingar sjóðsins telja að fjárlög þessa árs nái ekki fram þessum markmiðum og að stjórnvöld verði að telja markaðinum trú um að stefnt sé að því af heilum hug að taka upp evru.


 
Erlent
15. maí 2007

Chrysler selt

Tilkynnt var í gær að DaimlerChrysler hefði ákveðið að selja 80,1% hlut sinn í bandaríska bifreiðaframleiðandanum Chrysler til einkafjárfestingarsjóðsins Cerberus Capital Management. Kaupverðið er 7,4 milljarðar Bandaríkjadala. Sagt er að búið sé að tryggja stuðning verkalýðsfélaga við viðskiptin og gert er ráð fyrir að kaupin gangi í gegn á þriðja ársfjórðungi. Daimler-Benz og Chrysler Group sameinuðust árið 1998 undir merkjum DamlerChrysler. Fyrrnefnda fyrirtækið borgaði 36 milljarða dala fyrir Chrysler en reksturinn hefur gengið illa síðan þá. Gert er ráð fyrir að Cerberus muni nú ráðast í að skera niður í rekstri fyrirtækisins til þess að komu honum í ásættanlegt horf.


 

Gengi hlutabréfa Nordea, stærsta banka Norðurlanda, hækkuðu tæplega um þrjú prósent á mörkuðum í gær í kjölfar þess að sænska viðskiptablaðið Affärsvärlden greindi frá því að forráðamenn bandaríska bankarisans Citigroup og einkafjárfestingasjóðurinn Kohlberg Kravis og Roberts (KKR) hafi sett sig í samband við sænsk stjórnvöld um kaup á hlut sænska ríkisins í bankanum. Sænska ríkið á 19,9% hlut í bankanum og hafa núverandi stjórnvöld í Svíþjóð lýst því yfir að þau hyggist selja hann. Ákvörðun stjórnvalda í Stokkhólmi, sem og önnur einkavæðingaráform hennar, hafa vakið upp áhuga fjárfesta víða um heim. Frétt blaðsins byggist á ónafngreindum heimildum. Samkvæmt frétt Affärsvärlden hefur Charles Chuck Prince, forstjóri Citigroup, lengi haft hug á að gera starfsemi bankans umsvifameiri utan Bandaríkjanna. Talið er nánast öruggt að slagurinn um hlut sænska ríkisins í Nordea verður harður enda telja margir söluna verða til þess að knýja fram aukna hagræðingu og stærri rekstrareiningar í fjármálageiranum á Norðurlöndum.


 

Tilkynnt var um samkomulag milli Rússa annarsvegar og Kasaka og Túrkmena hinsvegar um helgina um lagningu gasleiðslna frá síðarnefndu löndunum til Rússlands. Með samkomulaginu mun staða Rússa á evrópska orkumarkaðinum styrkjast enn frekar en Evrópuríki auk Bandaríkjanna hafa reynt að draga úr vægi innflutnings á rússneskum gasiðnaði og hafa í því skyni reynt að fjármagna lagningu leiðslu sem myndi flytja gas frá Kaspíahafi til Evrópu gegnum Aserbaídsjan eða Tyrkland. Vladímír Pútín Rússlandsforseti skrifaði undir samkomulagið við Gurbanguly Berdymukhammedov, forseta Túrkmenistan, og Nursultan Nazarbayev, forseta Kasakstan, í hafnarborginni Túrkmenabashi við Kaspíahaf á laugardag. Samkomulagið þykir mikill sigur fyrir Rússa en þeir hafa att kappi við Vesturlönd um að tryggja sér flutning á hinni miklu orku sem er að finna í Mið-Asíu. Gasleiðslan mun fara frá Túrkmenistan gegnum Kasakstan til Rússlands þar sem hún tengist leiðsluneti Rússa sem liggur til Evrópu. Túrkmenistan er ákaflega auðugt af jarðgasi, en það er næst stærsti útflytjandi þess í fyrrum Sovétlýðveldunum á eftir Rússlandi. Að sama skapi eru miklar olíulindir Kasakstan. Nú þegar fer nánast allt jarðgas í Túrkmenistan gegnum rússneskar leiðslur og það sama gildir um meginþorra olíuútflutnings Kasaka. Undanfarin ár hafa leiðtogar í Evrópu í vaxandi mæli efast um hentugleika þess að vera jafn háðir Rússum um gasinnflutning og hafa sýnt því áhuga á að tryggja sér aðgang að gasi frá öðrum ríkjum og horft til ríkjanna sem liggja að Kaspíahafi í því samhengi. Að sama skapi hafa Bandaríkjamenn horft til olíuauðlinda Kasaka með það að augnamiði að draga úr innflutningi frá hinum óstöðugu olíuútflutningsríkjum í Miðausturlöndum. Ljóst er að samkomulagið frá því um helgina grefur verulega úr möguleikum Vesturlanda að sniðganga Rússa þegar kemur að því að fá aðgang að orkuauðlindum Mið-Asíu.


 

84% kemur erlendis frá


 

Gengið hefur verið frá sölu á öllu hlutafé í verktakafyrirtækinu Háfelli ehf. Eiður H. Haraldsson og fjölskylda, sem rekið hafa félagið frá 1986, hafa selt allt sitt hlutafé til félags í eigu Skarphéðins Ómarssonar og Jóhanns Gunnars Stefánssonar. Eiður mun starfa áfram hjá félaginu í ráðgefandi hlutverki. Hinir nýju eigendur þekkja vel til í verktakastarfsemi auk þess sem Skarphéðinn hefur unnið með eigendum Háfells undanfarinn ár segir í frétt félagsins. Háfell hefur starfað við fjölmörg vandasöm verkefni á undanförnum árum, þeirra langstærst er nú gerð Héðinsfjarðarganga í samvinnu við tékkneska fyrirtækið Metrostav sem lýkur árið 2009. Meðal verkefna Háfells á undanförnum árum má nefna tvöföldun Reykjanesbrautar, færslu Hringbrautarinnar 2005, endurgerð Sæbrautar 2007 auk fjölmargra stærri og smærri verka á svið vega- og gatnagerðar. Hjá Háfelli starfa um 60 manns með langa reynslu af flókinni mannvirkjagerð. Miklar framkvæmdir eru fyrirhugaðar á sviði samgöngumála á næstu árum og felast í því mikil tækifæri að mati nýrra eigenda segir í frétt. Nýr forstjóri félagsins, Skarphéðinn Ómarsson, "...er mjög ánægður með ná þessum áfanga, við ætlum að renna styrkari stoðum undir rekstur félagsins til að það haldi áfram að vaxa og dafna, eigendum og starfsmönnum til hagsbóta". Fyrirtækjasvið KPMG hafi umjón með sölu félagsins.


 

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,96% og er 7.932 stig við lok dags en það er hennar hæsta lokagildi, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Veltan nam 5,6 milljörðum króna.  "Áður hafði hún farið hæst föstudaginn 4.maí síðastliðinn en stóð hún þá í 7.859. Úrvalsvísitalan hefur ekki áður farið yfir 7.900 stiga múrinn en með þessu áframhaldi er ekki langt í að 8.000 stigin náist," segir greiningardeild Landsbankans. Atorka Group hækkaði um 8,38%, Teymi hækkaði um 5,32% í kjölfar verðmats frá Landsbankanum, Eimskip hækkaði um 4,4%, Marel hækkaði um 2,4% og 365 hækkaði um 2%. Straumur-Burðarás lækkaði um 0,25%, FL GRoup lækkaði um 0,17% og Actavis Group lækkaði um 0,12%. Gengi krónu styrktist um 0,53% og er 7.932 stig.


 

Hagnaður samstæðureiknings Milestone á fyrsta ársfjórðungi ársins 2007 nam 22,8 milljörðum króna fyrir skatta en 19,0 milljörðum króna að teknu tilliti til tekjuskatts. Kjarnafjárfestingar félagsins skiluðu hárri arðsemi og þróun á gjaldeyrismarkaði á tímabilinu var félaginu hagstæð, bæði hvað varðar rekstur og efnahag Milestone segir í frétt félagsins.


 

Mun bankarisinn Citigroup kaupa Nordea, stærsta banka norðurlandanna? Vangaveltur voru um það á netsíðu  sænska viðskiptablaðsins Affärsvärlden í morgun og hafa bréf Nordea hækkað nokkuð í kjölfar þess. Sem kunnugt eru nokkrir íslenskir fjárfestar meðal hluthafa Nordea.


 

Seðlabankinn mun kynna vaxtaákvörðun sína á miðvikudaginn. Greiningardeild Landsbankans telur að Seðlabankinn muni standa við þann lækkunarferil sem hann birti í Peningamálum í lok mars. Stýrivextir muni því ekki lækka  fyrr en í nóvember og verða 13,75% um áramótin.


 

Eignarhlutur Kaupþings banka hf. í norska trygginga- og fjármálafyrirtækinu Storebrand ASA svarar nú til 20,00% af hlutafé félagsins eða sem nemur 49.963.821 hlutum. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.Kaupþing hefur ákveðið að Storebrand verði fært sem hlutdeildarfélag í reikningum bankans, frá og með 14. maí 2007. Afkoma Storebrand mun því hér eftir verða bókuð hlutfallslega í gengum rekstrarreikning Kaupþings. Til þessa hefur eignarhlutur bankans í Storebrand verið færður á gangvirði og dregur þessi breyting því úr markaðsáhættu bankans.


 

Atlantsskip hafa opnað skrifstofu í Rotterdam í Hollandi. Opnun skrifstofunnar er stærsta skref sem Atlantsskip hafa stigið til þessa í útrás félagsins. Fyrst í stað munu fjórir starfsmenn starfa á skrifstofunni en Jaap Zevenbergen veitir henni forstöðu. Skrifstofan í Rotterdam mun starfa undir nafninu Atlantsskip Benelux að því er kemur fram í tilkynningu félagsins.


 

Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 0,38% og er 7.887 stig við hádegi, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Veltan nemur 3,9 milljarðar króna. Atorka Group hefur hækkað um 3,51%, Teymi hefur hækkað um 3,4% í kjölfarið á nýju verðmati frá Landsbankanum, Eimskip hefur hækkað um 3,3%, Atlantic Petroleum hefur hækkað um 1,74% og Össur hefur hækkað um 1,37%. Icelandair Group hefur lækkað um 0,37% og Actavis Group hefur lækkað um 0,35%.


 

segir forstjóri félagsins í bréfi til starfsmanna


 

Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri fjárfestinga Baugs í Bretlandi, er einn af hástökkvurum lista Retail Week. Gunnar, sem tók við umsjón með öllum smásölufjárfestingum Baugs fyrr á árinu, er nú í 22. sæti listans en hann kemur nýr inn. Hann er næst á eftir Pierre Omudyar, stofnanda eBay.


 

Jan Forsbom (42), framkvæmdastjóri eignastýringar FIM í Helsinki, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri eignastýringasviðs (e. Investment Management) Glitnis. Eitt af markmiðum sviðsins er að samþætta vöruframboð og þjónustu FIM þvert á starfssvæði bankans auk þess að efla þjónustu á sviði sjóðastýringar, eignastýringar, einkabankaþjónustu og dreifingar. Í tilkyningu kemur fram að Glitnir stefnir á umtalsverða aukningu á sviði eignastýringar á Norðurlöndum á næstu árum þar sem meðal annars verður byggt á góðum árangri FIM í Finnlandi. Jan Forsbom hefur gegnt lykilhlutverki við að gera FIM að leiðandi fjármálafyritæki á sviði eignastýringar, miðlunar og fyrirtækjaráðgjafar í Finnlandi, Svíþjóð og Rússlandi. Hann verður áfram staðsettur í Helsinki, þar sem meginstarfsemi alþjóðlegrar eignastýringar Glitnis fer fram. ?FIM hefur sýnt frábæran árangur á sviði eignastýringar og af 12 skráðum hlutabréfa- og verðbréfasjóðum eru fimm með 5-stjörnu einkunn frá Morningstar. Forsbom gengur til liðs við mjög öfluga liðsheild eignarstýringar og einkabankaþjónustu. Forsbom mun gegna lykilhlutverki við að styrkja sviðið sem eitt af kjarnatekjueiningum bankans,? segir Lárus Welding, forstjóri Glitnis. ? Forsbom er leiðtogi með umfangsmikla þekkingu á þessu sviði auk þess að hafa afar fjölbreytta reynslu af fjármála- og bankastarfsemi síðustu tvo áratugi. Það er tilhlökkunarefni fyrir bankann að hann taki við starfi framkvæmdastjóra eignasýringar,? segir Lárus. Glitnir keypti 68,1% hlutafjár í FIM í byrjun febrúar s.l. en yfirtökutilboði í félagið lýkur 16. maí. Samanlagt munu FIM og Glitnir reka alls 40 alþjóðlega verðbréfasjóði og eignasöfn samtals að verðmæti 9,3 milljarðar evra. Að teknu tilliti til veltu á 1. ársfjórðungi 2007 voru félögin samanlögð annar stærsti miðlarinn á norrænum verðbréfamarkaði. Félögin ráða sameignlega yfir 45 sérfræðingum á sviði markaðsgreiningar sem reglulega greina yfir 200 skráð félög á Íslandi, í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Rússlandi. Glitnir leggur áherslu á að styrkja yfirstjórn bankans með ráðningu leiðtoga sem státa af góðum árangri á fjármálamarkaði. Ráðning Jan Forsbom kemur í kjölfar þess að Morten Bjørnsen var ráðinn framkvæmdastjóri yfir viðskiptabankastarfsemi Glitnis á Norðurlöndum og Sveinung Hartvedt framkvæmdastjóri markaðsviðskipta bankans. Frank O. Reite verður framkvæmdastjóri yfir vexti Glitnis utan Íslands og viðskiptaþróun. Hann mun einbeita sér að stefnumótun og samþættingu þeirra norrænu fyrirtækja sem Glitnir hefur keypt að undanförnu. Jan Forsbom mun taka við nýju starfi 1. júní n.k. Morten Bjørnsen hefur störf 1. ágúst og Sveinung Hartvedt 1. september. ?Í mínum augum fellur starfsemi FIM mjög vel að Glitni. Það er nánast engin skörun á starfseminni og starfsmennirnir, með sína sérþekkingu, bæta hverjir aðra upp. Það er árangursmiðað andrúmsloft í báðum félögum og við höfum þegar komið auga á fjölda tækifæra til vaxtar. Saman munum við geta boðið viðskiptavinum fjölbreyttari vörur og þjónustu og aukið gæði þjónustunnar. Ég er sannfærður um að þessi þróun er til hagsbóta fyrir viðskiptavini bankans og ég hlakka til að geta lagt mitt af mörkum til vaxtar bankans,? segir Jan Forsbom. Glitnir er leiðandi aðili á norrænum verðbréfamarkaði. FIM eignastýring hefur á að skipa öflugri þekkingu á stýringu hlutabréfa, ekki hvað síst á nýmörkuðum -þar sem hvað mestur vöxtur á sér stað á heimsvísu. Samkvæmt tölulegum upplýsingum frá OMX-kauphöllunum og kauphöllinni í Ósló er Glitnir annar stærsti miðlarinn á Norðurlöndum á fyrsta ársfjórðungi 2007, að teknu tilliti til veltu, og með starfsemi í fimm löndum; á Íslandi, í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Rússlandi (tvö síðastnefndu löndin bættust við markaðssvæði Glitnis við kaupin á FIM). Markaðshlutdeild Glitnis á norrænum verðbréfamarkaði hefur vaxið umtalsvert á einu ári, úr 0,8% á 1. ársfjórðungi 2006 í 6,05% á 1. ársfjórðungi þessa árs. Þennan mikla vöxt má rekja til öflugs innri vaxtar og kaupa á fyrirtækjunum Norse Securities (nú Glitnir Securities), Fischer Partners (nú Glitnir AB) og FIM Group (yfirtökutilboði í FIM Group lýkur 16. maí n.k.). Samanlögð markaðshlutdeild Glitnis og FIM á 1. ársfjórðungi þessa árs var 26% á Íslandi, 6,66% í Finnlandi, 6,28% í Svíþjóð, 5,63% í Noregi og 3,24% í Danmörku. Markaðshlutdeild í norrænum hlutabréfaviðskiptum - 1. ársfjórðungur 2007* Skandinaviska Enskilda Banken AB 7,53 % Glitnir/FIM 6,05 % Morgan Stanley & Co. International LTD 5,99 % Carnegie Investment Bank AB 5,83 % Svenska Handelsbanken AB 4,44 % Jan Forsbom hóf störf hjá FIM árið 2000, þá sem framkvæmdastjóri FIM Securities Ltd. Hann varð framkvæmdastjóri hjá FIM Group Ltd 2005 og hefur leitt starfsemi FIM Asset Management Ltd frá sumri 2006. Jan Forsbom hefur verið framkvæmdastjóri HEX Exchange og aðstoðarframkvæmdastjóri OM Group, OM Energy Solution í Svíþjóð og framkvæmdastjóri SOM Ltd og EL-EX Electricity Exchange Ltd. Hann hefur unnið á sviði fjármála, miðlunar og eignastýringar frá 1987. Jan Forsbom stundaði nám við háskólann í Helsinki (lögfræði) og Henley Management (MBA) í Bretlandi. Hann er giftur og á fjögur.


 

Kaupverðið er 6,7 milljarðar bandaríkjadala (427 milljarða króna)


 

Kaupþing banki hf. hefur selt 31,25% eignarhlut sinn í Danól ehf og Ölgerð Egils Skallagrímssonar ehf. Kaupendur eru fjórir stjórnendur fyrirtækjanna, þeir Friðjón Hólmbertsson, Pétur Kr. Þorgrímsson, Ólafur Kr. Guðmundsson og Kristján Elvar Guðlaugsson. Icebank fjármagnar kaupin og var ráðgjöf í höndum Guðmundar B. Ólafssonar hrl. Friðjón starfar sem framkvæmdastjóri veitingasviðs og Kristján Elvar er framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá Ölgerðinni ehf. Ólafur Kr. er sölustjóri og Pétur Kr. er markaðstjóri hjá Danól ehf. "Velta fyrirtækjanna tveggja hefur aukist mjög á undanförnum árum og nam tæpum 10 milljörðum króna í fyrra," segir í tilkynningu.  


 

Tony Blair mun láta ef embætti forsætisráðherra Bretlands í lok næsta mánaðar. Hann er með þaulsetnari mönnum í embættinu og hefur markað djúp spor í stjórnmálasöguna. Anthony Charles Lynton Blair var réttur maður á réttum stað þegar hann tók við formennsku í Verkamannaflokknum árið 1994 í kjölfar þess að John Smith, nýkjörinn formaður flokksins, varð bráðkvaddur. Flestum var ljóst að hann myndi geta blásið nýju lífi í stjórnmálaafl sem byggði hugmyndafræði sína á kennisetningum sem döguðu uppi sem nátttröll er Sovétríkin hrundu. Barátta hans fyrir umorðun á þjóðnýtingarákvæði í stefnuskrá flokksins var til marks um nýjar áherslur sem höfðu mikil áhrif á stjórnmálalíf innan Bretland og utan. Þrátt fyrir að aðdáun jafnaðarmanna á Tony Blair hafi farið þverrandi undanfarin ár og hugtakið ?þriðja leiðin? heyrist ekki lengur eru áhrif hans jafnaðarmannahreyfingar víða um Evrópu óumdeilanleg: Hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Aðdáendur og andstæðingar Blairs, en fjölgað hefur í röðum þeirra síðarnefndu undanfarið, geta vart deilt um að hann á glæsilegan pólitískan feril að baki. Í áratug hefur hann drottnað yfir breskum stjórnmálum auk þess sem hann hefur látið til sín taka í alþjóðamálum. Þrír sigrar í röð í þingkosningum gera hann að sigursælasta leiðtoga Verkamannaflokksins og sé litið framhjá valdaferli Margaret Thacther þarf að fara aftur til tíma Napóleon-styrjaldanna til þess að finna þaulsetnari íbúa í Downing-stræti 10. Góðæri hefur meira og minna ríkt í Bretlandi frá því að Blair komst til valda árið 1997. Hagkerfið er kröftugt og kvikt og þegnarnir virðast kunna vel við kjarnann í efnahagsstefnu Blairs - sem felst í að hlutverk ríkisvaldsins sé að hvetja til aukins hagvaxtar með auknu frjálsræði jafnfram því að stuðla að réttlátri þjóðfélagsskipan. Það segir sína sögu að þrátt fyrir djúpstæðar óvinsældir forsætisráðherrans um þessar mundir telur ríflega helmingur kjósenda þegar allt kemur til alls að hann staðið sig vel í embætti. Reyndar setja margir spurningarmerki við hvort að eigna megi Blair heiðurinn af styrkri efnahagsstjórn: Þeir telja að hann eigi Gordon Brown, fjármálaráðherra og arftaki forsætisráðherrans. En það er ekki hagstjórnin sem hefur grafið undan stöðu Blairs; utanríkismálin ráða þar mestu um. Rót óvinsælda hans má fyrst og fremst rekja til stuðnings hans við þá ákvörðun George Bush, forseta Bandaríkjanna, að ráðast inn í Írak árið 2003 og hins nána sambands sem hefur ríkt milli þeirra. Eitt orð kemur upp í huga flestra þegar þeir nafn Anthony Eden og það er Súes. Margir vilja meina að sagan muni fara svipuðum höndum um Tony Blair og að orðið sem verður samtengt pólitískri arfleið Blairs verði: Írak. Hryðjuverkaárásirnar á New York og Washington D.C. þann 11. september árið 2001 mörkuðu þáttaskil. Blair steig fram tók allan vafa um hvar bresk stjórnvöld stóðu. Skilaboð hans til Bandaríkjamanna: Við stóðum með ykkur í upphafi, og við stöndum með ykkur uns yfir líkur. Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag


 

Hagnaður Deutsche Telekom, sem er stærsta fjarskiptafyrirtæki Evrópu miðað við sölu, lækkaði um 58% á fyrsta ársfjórðungi, en æ fleiri viðskiptavinir segja nú upp fastlínuviðskiptum við fyrirtækið. Hagnaður fyrirtækisins nam 40 milljörðum króna, samanborið við 94 milljarða árinu áður, en það er einnig langt undir væntingum greiningaraðila sem spáðu 65 milljarða krónu hagnaði. Fyrirtækið var áður með ráðandi markaðsstöðu á fastlínuviðskiptum í Þýskalandi, en 588 þúsund aðilar sögðu upp viðskiptum við fyrirtækið og sóttu frekar í viðskipti við lággjaldafyrirtæki.


 

Tap EADS, móðurfélags Airbus, nam 860 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við 45 milljarða krónu hagnað á sama tímabili í fyrra, en tapið kemur í kjölfar mikils kostnaðar við að endurskipuleggja Airbus eininguna, sem lenti í miklum vandræðum með afhendingu á nýjum þotum á síðasta ári. Tapið var þó mun minna en greiningaraðilar höfðu spáð, en þeir spáðu að meðaltali að tapið yrði 23,5 milljarðar króna. Bæði Eurocopter, sem framleiðir þyrlur og geimvísindadeild fyrirtækisins, EADS Astrium, skiluðu auknum hagnaði. En hergagnaframleiðslueining fyrirtækisins hélt áfram að hnigna.


 

Umsóknum um atvinnuleysisbætur í Bandaríkjunum fækkaði um níu þúsund í síðustu viku og er það fjórða vikan í röð sem þeim fækkar. Það þykir sýna fram á að atvinnumarkaðurinn hafi farið kröftuglega af stað í maí, eftir að hafa verið lítilfjörlegur í byrjun apríl. Nú eru 297 þúsund manns á skrá atvinnulausra og hafa ekki verið færri síðan 13. janúar síðastliðinn. Fjögura mánaða meðaltalið lækkaði um 11.500 niður í 317.250, en greiningaraðilar líta helst til meðaltalsins til að greina ástand atvinnumarkaðarins.


 

Vöruskiptahalli Bandaríkjanna jókst um 10,4% í marsmánuði og hefur nú ekki verið hærri í sex mánuði, en hækkandi hráolíuverð náði ekki að koma í veg fyrir aukningu eftirspurnar í Bandaríkjunum. Hallinn nemur nú um fjögur þúsund milljörðum króna, en hann var 3.700 milljarðar í febrúarmánuði. Greiningaraðilar spáðu því að hallinn næmi 3.800 milljörðum króna


 

Englandsbanki hækkaði stýrivexti sína í gær úr 5,25% í 5,5%. Fastlega hafði verið gert ráð fyrir hækkuninni en hún gerir það að verkum að stýrivextir hafa ekki verið hærri í sex ár. Í tilkynningu frá bankanum kom meðal annars fram að undirliggjandi verðbólguþrýstingur væri í hagkerfinu, vöxtur væri traustur og fjárfesting væri meiri en gert hafði verið ráð fyrir.


 

Innovate Logistics, dótturfélag Eimskips, hefur skrifað undir 10 ára samning við Nestlé UK Ltd, stærsta matvæla- og drykkjarvöruframleiðanda heims, um rekstur á 75.000 bretta kæligeymslu í Bardon, Leicestershire. Heildarvirði samningsins nemur milljörðum króna en hann felur í sér að Innovate byggir vörugeymslu sérstaklega sniðna að þörfum Nestlé og hefur Innovate umsjón með verkinu sem og rekstri geymslunnar næstu 10 árin að því er kemur fram í tilkynningu.  Samningurinn undirstrikar gott samstarf félaganna Innovate og Nestlé og eru báðir aðilar mjög ánægðir með þennan áfanga og fagna ákvörðun um að vinna saman til lengri tíma og að stærri verkefnum en áður. Samningurinn kemur til með að útvíkka samstarf fyrirtækjanna til muna en Nestlé hefur verið einn af stærstu viðskiptavinum Innovate í nokkurn tíma. Samningurinn er hrein viðbót við núverandi samninga um rekstur Innovate á sérhæfðri vörugeymslu í Scunthorpe og birgðastýringakerfi fyrir vörur frá Nestlé. Nýi samningurinn gildir frá 1. júlí 2007 og er undirbúningsvinna þegar hafin. Baldur Guðnason, forstjóri Eimskip, segir í frétt félagsins: ?Samningurinn við Nestlé sýnir hversu umfangsmikill rekstur okkar er orðinn og hvaða möguleika við ráðum yfir.. Ein af leiðunum sem við getum boðið viðskiptavinum okkar er að byggja kæligeymslur eftir þeirra hentugleika og stýra geymslu birgða til langs tíma eins og samningurinn við Nestlé felur í sér.?


 

Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 0,28% og er 7.836 stig við hádegi, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Veltan nemur 2,5 milljörðum króna. Icelandair Group hefur hækkað um 0,56% en í mogun var tilkynnt að félagið hefur undirritað viljayfirlýsing um kaup á tékkneska flugfélaginu, Tavel Service. FL Group hefur lækkað um 2,07%, 365 hefur lækkað um 1,41%, Actavis Group hefur lækkað um 1,14%, Flaga Group hefur lækkað um 0,89% og Bakkavör Group hefur lækkað 0,58%. Gengi krónu hefur veikst um 0,25% og er 116,8 stig.


 

12 mánaða verðbólga nú 4,7%


 

"mikil samlegðaráhrif," segir Jón Karl forstjóri Icelandair


 

velta fyrirtækisins mun aukast um 30% með kaupunum


 

Arnar Sigurmundsson stjórnarformaður Landsamtaka lífeyrissjóða gagnrýndi meðhöndlun Yfirtökunefndar á Glitnismálinu í ræðu sinni á aðalfundi samtakanna fyrr í dag. Þar sagði Arnar: "Það urðu því okkur sem vinnum á vettvangi lífeyrissjóðanna nokkur vonbrigði að lesa yfirlýsingu formanns nefndarinnar, sem gefin var í tengslum við viðskipti með hlutabréf í Glitni, að tveir ótilgreindir aðilar hafi hafnað að veita nefndinni upplýsingar sem tengdust fyrrgreindum viðskiptum."


 

Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,68% og er 7.859 stig við lok markaðar, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Veltan nam 6,7 milljörðum króna. Actavis Group hækkaði um 11,89% í kjölfar yfirtökutilboðs Novators, Marel hækkaði um 4,58%, Eimskip hækkaði um 2,91%, Landsbankinn hækkaði um 1,57%, Straumur-Burðarás hækkaði um 1,5%. Icelandic Group lækkaði um 0,6% og 365 lækkaði um 0,28%. Gengi krónu styrktist um 0,64% og er 116,4 stig.


 

Tap 365 hf. á fyrsta fjórðungi árins nam 35 milljónum króna en var 441 milljón fyrir sama tímabil í fyrra. Er því um verulegan rekstrarbata að ræða og er rekstur félagsins á áætlun, segir í tilkynningu. Helstu rekstrareiningar 365 hf. eru 365 miðlar ehf., Sena ehf., Sagafilm ehf., D3 ehf. og Innn hf. Sala tímabilsins nam 2.681 milljónum króna og jókst um 83 milljónir króna eða 3,2% frá sama tímabili í fyrra. Pro forma söluaukning var 8,9% frá fyrra ári. Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 139 milljónir króa en var neikvæð um 76 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi 2006 af áframhaldandi starfssemi. EBITDA hlutfall fjölmiðla og afþreyingar nam 4,8% en var 4,4% í fyrra. Nettó fjármagnsgjöld námu sjö milljörðum króna en þar á meðal var gengishagnaður 151 milljóni króna. Handbært fé og markaðsverðbréf námu 207 milljónum króna í lok tímabilsins. Eigið fé var 6.604 milljónir króna og eiginfjárhlutfall var 36,6%. ?Undanfarin misseri hafa verið tími mikilla umbreytinga hjá 365 hf," segir Ari Edwald forstjóri 356. "Vinna við þessar breytingar hefur verið tímafrek, kostnaðarsöm og reynt mikið á starfsfólk félagsins. Það er því ánægjulegt að sjá rekstrarbata koma fram á fyrsta ársfjórðungi og að rekstur félagsins sé samkvæmt áætlun. Mikilvægum áfanga hefur verið náð varðandi lækkun skulda sem hefur verið eitt aðal markmið félagsins. Með sölu á eignarhlut í Hands Holding nú í maí munu  skuldir lækka um 1.500 m.kr. Heildar skuldir félagsins höfðu auk þess lækkað á fyrstu 3 mánuðum ársins um 1.190 m.kr. Samfara sölunni á eignarhlutnum er félagið á lokastigi með endurfjármögnun hjá Landsbanka Íslands sem, ásamt sölunni á Hands Holding eignarhlutnum, leiðir af sér töluverða lækkun vaxtakostnaðar eða um 220 m.kr. á ári. Endurfjármögnunin tryggir fjármögnun félagsins til næstu ára. Vaxtaberandi skuldir miðað við skuldastöðuna í lok mars hafa þá lækkað um 1.700 m.kr. frá áramótum og koma til með að nema um 7.000 milljónir króna.? Rekstrarhorfur 2007 Í tilkynningu segir að stjórnendur staðfesta áður útgefnar áætlanir um veltu á bilinu 12-13 milljarða króna og EBITDA á bilinu 1.200 til 1.400 milljónir króna. Í ljósi sveiflna á auglýsingamarkaði og vaxandi kostnaðar við dreifingu Fréttablaðsins er gert ráð fyrir að félagið verði nær lægri mörkum áætlana. Við mat á framtíðarhorfum félagsins þarf að hafa í huga að árstíðasveiflna gætir í rekstri félagins þannig er fyrsti ársfjórðungur gjarnan sá lakasti en fjórði ársfjórðungur sá besti. Undanfarið hefur megin verkefni félagsins verið að ná fram aukinni hagræðingu og í því skyni hefur kostnaður verið lækkaður í stoðdeildum og yfirbygging félagsins minnkuð og er það gert í framhaldi af sölu og niðurlagningu ákveðinna rekstrareininga í fjölmiðlahlutanum. Áfram verður unnið að því að viðhalda og tryggja forystuhlutverk félagsins á sviði prent-, og ljósvakamiðlunar með Fréttablaðinu, Stöð 2, Bylgjuna og Visir.is í fararbroddi. Með tilkomu enska boltans á Sýn og formúlunnar munu opnast ný sóknarfæri fyrir félagið.


 

segir forstjóri Fjármálaeftirlitsins


 

Nýverið var gengið frá kaupum HugarAx á veflausnadeild Betri lausna ehf. Veflausnadeild Betri lausna hefur um árabil unnið að gerð veflausna fyrir fyrirtæki og stofnanir og þróað öflugt íslenskt vefumsjónarkerfi. HugurAx mun sjá um alla þjónustu við þá vefi sem áður voru í þjónustu Betri lausna ehf. og hafa starfsmenn Betri lausna, sem sinnt hafa veflausnum, nú þegar hafið störf hjá HugAx segir í tilkynningu.  "Við teljum að með því að sameina starfsemi veflausnadeildar Betri lausna starfsemi HugarAx þá séum við að tryggja notendum enn betri og fjölbreyttari þjónustu hjá stærra og öflugra fyrirtæki,? segir Ingimar Þór Friðriksson, framkvæmdastjóri Betri lausna í fréttinni.. Að sögn Páls Freysteinssonar, framkvæmdastjóra HugarAx, er þessi fjárfesting liður í að efla starfsemi fyrirtækisins á sviði veflausna. ,,Veflausnadeild Betri lausna fellur mjög vel að starfsemi HugarAx. Innan HugarAx er mikil reynsla og þekking á veflausnum og höfum við um árabil verið samstarfsaðili fyrirtækja og stofnana, sem hafa nýtt vefi sína til að auka hagkvæmni og hækka þjónustustig. Sífellt fleiri aðilar vilja gera afgreiðslu mála hraðvirkari og sjálvirkari og þá gegnir vefurinn lykilhlutverki. Við hlökkum til að vinna með þeim notendum, sem hafa verið í þjónustu Betri lausna, að áframhaldandi þróun á þeirra vefjum.? Markmið HugarAx er að vera öflugur samstarfsaðili fyrirtækja sem vilja ná árangri. Því markmiði er náð með samvinnu, frumkvæði, áreiðanleika, faglegum vinnubrögðum og framúrskarandi þjónustu. Viðskiptavinir HugarAx eru um 4.000 talsins, þar á meðal mörg af stærstu og öflugustu fyrirtækjum landsins. Hjá HugAx starfar um 135 manna hópur metnaðarfullra starfsmanna, sem hefur víðtæka þekkingu og reynslu á sviði upplýsingatækni segir í tilkynningu. Þar kemur fram að HugurAx býður kröfuhörðum viðskiptavinum fjölbreyttar lausnir og þjónustu m.a. á sviði viðskiptalausna, stjórnendalausna, starfsmannalausna, lausna fyrir orkugeirann og sérlausna.


 

Útflutningsráð skipuleggur nú viðskiptasendinefnd til Moskvu dagana 4.-6. júlí 2007. Borgarstjóri Reykjavíkur, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, leiðir viðskiptasendinefndina í heimsókn sinni til Moskvuborgar. Í ferðinni verður sérstök áhersla lögð á orkumál og hefur verið boðað til viðskiptaþings um nýtingu endurnýjanlegrar orku og viðskipti því tengd fimmtudaginn 5. júlí. Nú þegar hafa leiðandi fyrirtæki staðfest þátttöku sína í sendinefndinni, s.s. Orkuveita Reykjavíkur, Enex, Geysir Green Energy og HydroKraft Invest. Fyrirtækjum í tengdum greinum hefur verið boðin þátttaka í þinginu og einnig aðstoð við skipulagningu funda með rússneskum fyrirtækjum á meðan á heimsókninni stendur.


 

Markaðsverð Actavis orðið hærra en yfirtökutilboðið


 

Hlutabréf Actavis Group hafa verið færð á athugunarlista með vísan til tilkynningar til Kauphallarinnar þann 10. maí 2007 vegna yfirtökutilboðs. Þetta kemur fram í tilkynningu til kauphallarinnar.


 

Róbert Wessmann forstjóri Actavis mun ekki tjá sig um yfirtökutilboð Novators í félagið fyrr en eftir að stjórnin kemur saman. Stjórnin kemur saman eins fljótt og hægt er og verður tilkynning send út strax í kjölfarið. Það verður á allra næstu dögum. Líklegt er að Novator komi með bindandi tilboð í Actavis mjög fljótlega eða á næstu sjö til tíu dögum. Tilboðið sem nú liggur fyrir er ekki bindandi.


 

Merill Lynch telur tilboðið vera alltof lágt


 

ekki miklar líkur á öðrum tilboðum


 

Alcoa hyggst fjárfesta sjö milljarða Bandaríkjadali í Kanada til þess að afla stuðnings meðal þarlendra stjórnmálamanna við yfirtökutilboð í Alcan. Bandaríska dagblaðið Wall Street Journal fullyrðir að þrátt fyrir djúpstæða andstöðu sumra stjórnmálamanna við fyrirhugaða yfirtöku hafi margir snúist á sveif með Alcoa. Ef af sameiningunni verður myndu tekjur hins sameinaða fyrirtækis vera um 54 milljarðar Bandaríkjadala á ársgrundvelli. Hátt í tvöhundruð þúsund manns myndu starfa hjá fyrirtækinu sem réði yfir tólf námum, þrettán súrálvinnslustöðvum og fjörtíu og sex álbræðslum um heim allan. Sameinað fyrirtæki gæti framleitt hátt í átta milljónir tonna af áli á ári hverju eða um tuttugu prósent af heimsframleiðslunni. Ástæða andstöðu margra Kanadamanna við yfirtöku Alcoa á Alcan er meðal annars ótti við að missa eitt helsta flaggskip kanadísks iðnaðar í hendur erlendra fjárfesta. Talsmenn Alcoa hafa lýst því yfir að eigendur Alcan myndu fá ?umtalsverð? áhrif innan stjórnar sameinaðs fyrirtækis, og auk þess hafa þeir lofað gríðarlega mikilli fjárfestingu í Québec- fylki en þar eru höfuðstöðvar Alcan. Er talað um stærstu fjárfestingu einkageirans í sögu fylkisins í því samhengi. Auk þess segja talsmenn Alcan að höfuðstöðvar hins sameinaða fyrirtækisins yrðu á tveim stöðum: New York borg í Bandaríkjunum og Montral í Québec hinsvegar. Alcoa setti fram óvinveitt yfirtökutilboð á dögunum að verðmæti 33 milljarða Bandaríkjadala, eða um 2.100 milljarða íslenskra króna. Tilboðið var lagt fram eftir að viðræður um sameiningu á vinsamlegri nótum höfðu runnið út í sandinn. Ástæða tilboðsins er meðal annars að bregðast við aukinni samkeppni frá vaxandi álrisum á borð við Rusal í Rússlandi. Það er hald forráðamanna Alcoa að sameining geri félögunum kleift að vaxa með örari hætti en í sitthvoru lagi. En það dugir ekki eingöngu að sannfæra eigendur Alcan um að tilboðið sé ásættanlegt og að samlegðaráhrifin séu til staðar. Einnig þurfa stjórnvöld í Kanada að gefa grænt ljós á yfirtökuna, samkeppnisyfirvöld víða um heim þurfa að samþykkja hana, og á sama tíma þykir alls ekki ólíklegt að önnur álfyrirtæki blandi sér í slaginn um Alcan. Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.


 

Samdráttur varð á breska smásölumarkaðinum í síðasta mánuði þrátt fyrir að sala á fatnaði hefði aukist sökum þess góða veðurs sem ríkti í aprílmánuði. Í skoðanakönnun sem gerð var fyrir samtök smásöluverslana kom fram að salan hefði aukist um 2,4%, en það er nokkuð minna heldur en í marsmánuði þegar salan jókst um 3,9% og jafnframt minnsta söluaukning í geiranum frá því í nóvember árið 2006. Þessi afkoma smásöluverslana var töluvert lægri heldur en greiningaraðilar höfðu spáð fyrir um. Í skoðanakönnun sem Dow Jones fréttastofan gerði á meðal hagfræðinga var því spáð að salan myndi aukast um 5,2%. Helen Dickinson, sem sér um framkvæmd kannana um afkomu smásöluverslana hjá KPMG, segir að þessar tölur gætu bent til þess að von væri á minnkandi vexti í smásölu á næstunni, einkum í ljósi þess að fastlega er gert ráð fyrir stýrivaxtahækkunum hjá Englandsbanka. Frá því í ágústmánuði á síðasta ári hefur bankinn hækkað vexti í þrígang um 0,25% og mun væntanlega hækka þá upp í 5,5% þegar stjórn bankans tekur ákvörðun um stýrivexti í dag.


 

Rio Tinto gerði í gær lítið úr þeim orðrómi að fyrirtækinu hefði borist yfirtökutilboð frá helsta keppinaut sínum, BHP Bilition, en gengi bréfa í félaginu hækkuðu um 6,5% í viðskiptum í gær. Hlutabréf BHP hækkuðu einnig, eða um 2,4%. Fyrrum háttsettur stjórnandi Rio Tinto sem vildi ekki láta nafn síns getið, sagði hins vegar að það myndi koma honum mjög mikið á óvart ef BHP væri ekki að íhuga yfirtöku á Rio Tinto um þessar mundir. Þessar getgátur koma í kjölfar þess að álrisinn Alcoa gerði óvinveitt yfirtökutilboð í Alcan í vikunni og telja margir fjárfestar að það sé aðeins upphafið af því sem koma skal á hrávörumarkaðinum.


 

BNP Paribas, stærsti banki Frakklands að markaðsvirði, greindi frá því í gær að hagnaður fyrirtækisins á fyrsta ársfjórðungi ársins hefði hækkað um 25% frá því á sama tímabili í fyrra. Nam hagnaður félagsins á fyrstu þremur mánuðum ársins samtals 2,51 milljörðum evra. Þessi afkoma var vel yfir væntingum greiningaraðila sem höfðu að meðaltali spáð hagnaði upp á 1,99 milljarða evra. BNP Paribas hefur líkt og margir aðrir bankar í Vestur- Evrópu lagt mikla áherslu á að efla markaðsstöðu sína á þróunarmörkuðum (e. emerging market) til að vega upp á móti minnkandi vexti heima fyrir.


 

Fréttir af yfirtökutilboði Thomson á Reuters í vikunni hafa vakið upp áhyggjur vegna hugsanlegrar fákeppni á fjármálaupplýsingamarkaðinum. Sameinað félag Reuters og Thomson myndi ráða yfir um 34% hlutdeild af markaðinum, einu prósenti meira heldur en keppinauturinn Bloomberg. Þrátt fyrir að félögin muni reyna að halda því fram að með sameiningu þeirra verði til mikilvægt mótvægi við Bloomberg á markaði þá er ljóst að samningurinn mun þurfa að ganga í gegnum langt ferli samkeppnisyfirvalda í bæði Bandaríkjunum og hjá Evrópusambandinu.


 

Tyrkneska þingið ákvað í gær að binda formlega enda á forsetakosningarnar þar í landi eftir að forsetaframbjóðandi AKP stjórnarflokksins, Abdullah Gul, dró framboð sitt til baka fyrir skemmstu. Gul tók þá ákvörðun í kjölfar þess að stjórnarandstaðan á þingi sniðgekk kosningarnar í annað sinn. Gul var einn í framboði og því var ákveðið að slíta kosningaferlinu. Ríkisstjórn Tyrklands, undir forystu Recep Tayyip Erdogan, hefur flýtt fyrirhuguðum þingkosningum í landinu og munu þær fara fram 27. júlí næstkomandi. Auk þess eru uppi hugmyndir hjá AKP flokknum og breyta stjórnarskránni á þann veg að forseti landsins verði í framtíðinni kjörinn í þjóðaratkvæðisgreiðslu en ekki af hinum 550 kjörnu fulltrúum sem eiga sæti á þinginu.


 

Í sameiginlegri yfirlýsingu sem evrópskir fjármálaráðherrar sendu frá sér á þriðjudaginn er Nicolas Sarkozy, nýkjörinn forseti Frakklands, varaður við því að grafa undan sjálfstæði Seðlabanka Evrópu, en Sarkozy hefur meðal annars kennt peningmálastefnu bankans um þá stöðnun sem ríkt hefur í frönsku efnahagslífi. Fjármálaráðherrarnir, sem luku í gær tveggja daga fundarhöldum í Brussel, sögðu að það væri enginn vilji fyrir því að breyta stefnu Seðlabankans á þá leið að hann eigi að einblína í meira mæli á hagvöxt og atvinnustig á evrusvæðinu, á sama tíma og bankinn reynir að halda niðri verðbólgu. Sarkozy, sem gegndi í skamman tíma embætti fjármálaráðherra árið 2004, hefur kallað eftir því að helstu stjórnmálaleiðtogar Evrópu geti haft meiri áhrif á stýrivaxtaákvarðanir Seðlabankans. Hann hefur gagnrýnt það sem hann kallar ?þráhyggju? Seðlabanka Evrópu að berjast gegn verðbólgu sem jafnvel sé oft ekki til staðar, með því að hækka stýrivexti að ástæðulausu og þannig stuðla að hærra gengi evru gagnvart Bandaríkjdal. Sem fjármálaráðherra beitti Sarkozy sér fyrir því að vernda frönsk stórfyrirtæki sem hafa verið byggð upp í skjóli verndar ríkisvaldsins og í ræðum sínum í kosningabaráttunni fordæmdi hann yfirtöku indversks fyrirtækis á evrópska stálrisanum Arcelor. Sarkozy hefur einnig tekið undir áhyggjur sumra útflutningsfyrirtækja í Frakklandi, meðal annars Airbus og Air Liquide, að sterk staða evru gagnvart Bandaríkjadal sökum þeirrar peningamálastefnu sem Seðlabanki Evrópu fylgir, sé skaðleg fyrir samkeppnisstöðu þessara fyrirtækja á erlendum mörkuðum. Hugmyndum Sarkozy að meira tillit verði tekið til þessarra þátta í vaxtaákvörðun Seðlabankas er hins vegar algjörlega hafnað í yfirlýsingu evrópsku fjármálaráðherranna. Wilhelm Molterer, fjármálaráðherra Austurríkis, sagði eftir fund ráðherranna í Brussel að ?enginn stjórnmálamaður ætti að setja þrýsting á Seðlabanka Evrópu. Hann er sjálfstæður banki.? Ef áframhald verður á gagnrýni Sarkozy á Seðlabankann gæti það haft skaðleg áhrif fyrir samskipti hans og Angelu Merkel, kanslara Þýskalands. Merkel hefur lagt mikla áherslu á það í stjórnartíð sinni að sjálfstæði Seðlabankans verði virt, sem hún telur að sé hornsteinn evrunnar. Annar hugsanlegur ásteytingarsteinn í samskiptum Þýskalands og Frakklands er sú skoðun Sarkozy að réttlætanlegt sé að beita ríkisvaldinu til styðja við bakið og vernda ákveðna atvinnuvegi, en á þriðjudaginn tilkynnti flokkur Merkel, Kristilegi Demókrataflokkurinn, að hann myndi vera málsvari frjálsra viðskipta í hvítvetna. Þýsk stjórnvöld myndu bregðast við þeim ríkisstjórnum sem ógnuðu viðskiptahagsmunum Þýskalands með því að taka upp verndarstefnu og beita viðkomandi ríki refsiaðgerðum. Ein ástæða þess að fjármálaráðherrar Evrópu sjá ástæðu til að setja fram þessi varnarorð til Sarkozy, aðeins nokkrum dögum eftir að hann er kjörinn forseti Frakklands, er sá ótti sem ríkir í sumu löndum um að hann muni leggja það til að breytingar verði gerðar á stofnsamningi Seðlabanka Evrópu og meira tillit verði tekið til hagvaxtar við vaxtaákvarðanir bankans. Í skiptum fyrir þá kröfu Sarkozy myndi hann í kjölfarið vera reiðubúinn að styðja það að stjórnarskrá Evrópusambandsins verði endurlífguð, en hingað til hefur Sarkozy sagst vera því mótfallinn. Fjármálaráðherra Grikklands, George Alogoskoufis, sagði hins vegar á þriðjudaginn að hann teldi ekki neinar líkur á því að Þýskalands, Ítalía eða Spánn myndu samþykkja slíkar tillögur.


 

lágt tilboð Novators gæti lokkað aðra fjárfesta af stað


 
Erlent
10. maí 2007

Góð afkoma Sampo

Afkoma á rekstri finnska tryggingafélagsins Sampo var góð á fyrsta ársfjórðungi en hagnaðurinn var um 3,05 milljarðar evra. Helstu ástæðu hins mikla hagnaðar má rekja til sölu á bankastarfsemi Sampo til Danske Bank fyrir um 2,83 milljarða evra. Forráðamenn félagsins telja að útlit sé fyrir að afkoma af starfsemi félagsins á árinu verði góð en horfur á tryggingamarkaði þykja hagstæðar. Exista, sem meðal annars á Viðskiptablaðið, á um 15,5% hlut í Sampo. Þrátt fyrir góða afkomu féll gengi hlutabréfa Sampo á mörkuðum í gær. Er það fyrst og fremst rakið til væntinga að forráðamenn gáfu ekkert upp hvernig þeir hyggjast nýta umtalsverða fjárfestingargetu sína í kjölfar sölunnar til Danske Bank. Búist var við einhverjum tíðindum í gær. Dow Jones Newswire-fréttastofan hefur reyndar eftir Björn Wahlroos, aðalframkvæmdastjóra Sampo, að félagið sé ekki undir neinum þrýstingi um að láta til sín taka í fjárfestingum: Markaðsvirði fyrirtækja sé það hátt um þessar mundir og að Sampo geti því setið á fjármagninu um skeið. Gengi hlutabréfa í Sampo hafa hækkað um fjörtíu prósent undanfarna tólf mánuði sökum þess að mat manna er að félagið hafi fengið gott verð fyrir bankastarfsemi sína auk væntinga um að Sampo muni leika hlutverk í margboðaðri samþjöppunarhrinu á norrænum bankamarkaði. Stöðutaka Sampo í Nordea Bank AB þykir jafnframt renna stoðum undir þær væntingar, en sérfræðingar telja að Sampo muni freista þess að kaupa hluta af 19,9% hlut sænska ríkisins í bankanum.


 

Bandaríski seðlabankinn hélt stýrivöxtum óbreyttum í gær, rétt eins og sérfræðingar höfðu gert ráð fyrir. Stýrivextir í Bandaríkjunum eru 5,25%. Skiptar skoðanir eru á meðal sérfræðinga um hvort að seðlabankinn muni ráðast í lækkun stýrivaxta á árinu en þær ólíku skoðanir byggjast meðal annars á mati manna á því hvernig seðlabankinn metur verðbólgu- og hagvaxtarhorfur. Yfirlýsing seðlabankans bendir þó til að stjórendur hans hafi bæði áhyggjur af verðbólgu og hagvexti. Sumir sérfræðingar telja að nýlegar hagtölur bendi til þess að verðbólguþrýstingur sé minni en margir töldu og það eykur líkurnar á því að það styttist í vaxtalækkun. Bandaríski seðlabankinn hækkaði síðast vexti í júnímánuði í fyrra en þá voru vextir hækkaði í sautjánda sinn á tuttugu og fjögurra mánaða tímabili.


 

"Þetta tilboðsverð er í lægri kantinum að okkar mati," segir greiningardeild Glitnis um yfirtökutilboð Novator á Actavis. "Mikil samþjöppun á sér stað í samheitalyfjageiranum á heimsvísu og verðmargfaldarar í undaförnum yfirtökum eru háir."  Hún segir að yfirtökuverðið eiga að liggja á bilinu 95-100 krónur á hlut. Novator, félag í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, leggur fram tilboðið en félög tengd Novator eiga samanlagt um 38,5% í félaginu. Tilboðið hljóðar upp á 0,98 EUR á hlut eða 85,23 krónur á hlut. Lokaverð á bréfum félagsins í gær var 78,2 krónur á hlut. Til samanburðar metur greiningardeild Glitnis félagið á 87,7 krónur á hlut "og er tilboðsverðið því nálægt því sem að við teljum að endurspegli rekstrarvirði félagsins," segir greiningardeildin. Hún segir að skemmst er að minnast þess að Actavis hætti við að reyna við yfirtöku á Merck í síðustu viku vegna þess að stjórnendur töldu ekki stætt á því að borga of hátt verð. "Það sama átti sér stað seint á síðasta ári þegar að Actavis hætti við að reyna yfirtöku á króatíska félaginu Pliva. Við höfum áður sagt að við teljum að verði Actavis yfirtekið þá muni yfirtökuverðið líklega liggja á bilinu 95-100 krónur á hlut. Það verðbil endurspeglar líka virði rekstrarins m.v. þær forsendur sem að stjórnendur Actavis gefa sér um reksturinn á næstu árum. Við reiknum með að aðrir fjárfestar eða lyfjafyrirtæki komi fjótlega inn í tilboðsferlið og bjóði hærra verð. Við mælum því að svo stöddu ekki með að fjárfestar taki tilboði Novator," segir greiningardeildin.


 

Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 1,44% og er 7.839 stig við hádegi, samkvæmt upplýsingum frá Marksaðvakt Mentis. Veltan nemur ríflega fjörum milljörðum króna. Actavis hefur kækkað um 8,7% í kjölfar yfirtöku tilboðs frá Novator og rímar nú markaðsgengi og tilboðsgengið, Landsbankinn hefur hækkað um 2,13%, Eimskip hefur hækkað um 2,04%, Marel hefur hækkað um 1,96% og Straumur-Burðarás hefur hækkað um 1,75%. Icelandic Group hefur lækkað um 0,6% og 365 hefur lækkað um 0,28%. Gengi krónu hefur styrkst um 0,6% og er 116,5 stig.


 

Miðað við yfirtökutilboð Novator í Actavis sem samsvarar genginu 85,23 er verið að meta Actavis á 286 milljarða króna. Það er 23 milljörðum króna hærra verð en síðasta lokaverð gaf til kynna. Yfirtaka og afskráning Actavis er sú stærsta sem sést hefur í kauphöllinni til þessa.


 

365 hf. hefur selt allan hlut sinn, eða 30,7%, í Hands Holding hf. til Arena Holding óstofnaðs félags Baugs Group hf., Fons Eignarhaldsfélags hf. og Icon ehf. Salan er á bókfærðu verði eða kr. 1.620 milljónir sem að megin hluta verður greitt 28. júní næstkomandi eða kr. 1.500 milljónir að því er kemur fram í tilkynningu.  Sala þessi er liður í endurskipulagningu félagsins sem tilkynnt var 1. desember síðastliðin en þar kom fram að 365 hf. stefndi að því að selja þennan hlut innan 12  til 24 mánaða. Andvirði sölunnar verður varið til lækkunar á skuldum. Með þessari sölu munu vaxtaberandi skuldir lækka um kr. 1.500 milljónir eða í um kr. 7.000 milljónir. Að sögn Ara Edwald forstjóra 365 hf. er þessi sala stórt skref á þeirri leið að selja eignir sem ekki eru hluti af kjarnastarfsemi 365 hf. og laga skuldastöðu félagsins að þeim rekstri sem það er í á sviði fjölmiðlunar og afþreyingar á Íslandi.


 

Actavis staðfestir móttöku yfirtökutilboðs Actavis staðfestir að félaginu hefur borist tilkynning frá Novator, félags í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, stjórnarformanns Actavis þess efnis að félagið hyggist gera hluthöfum Actavis frjálst yfirtökutilboð í allt hlutafé í A flokki. Félög tengd Novator eiga nú þegar sem nemur um 38,5% af hlutafé félagsins í A-flokki. Markmið Novator er að eignast allt hlutafé félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Tilboðið verður lagt fram í evrum og hljóðar upp á 0,98 evrur á hlut (sem jafngildir 85,23 krónum á hlut, miðað við opinbert viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands þann 9. maí). Stjórn Actavis mun fjalla um málið eins fljótt og auðið er og senda frá sér tilkynningu.


 

tilboðið er 9% hærra en lokagengið í gær


 

stærð útgáfunnar 500 milljónir evra


 

Samkvæmt niðurstöðum IMD-viðskiptaháskólans í Sviss um samkeppnishæfni hagkerfa er Ísland nú sjöunda samkeppnishæfasta hagkerfi heims og fellur niður um þrjú sæti á milli ára. Samkvæmt niðurstöðum IMD eru Bandaríkin samkeppnishæfasta hagkerfið, Singapúr fylgir fast á eftir og loks er Hong Kong í þriðja sæti. Könnun IMD um samkeppnishæfni þjóða er mjög virt enda er hún víðtæk og ítarleg og tekur til meira en 300 mismunandi þátta í hagkerfum þjóða. Ísland hefur verið ofarlega á listanum undanfarin ár og skipað sér meðal efstu þjóða allt frá árinu 2003.


 

Að sögn Tryggva Þórs Haraldssona, forstjóri Rarik hf., undirbýr félagið nú aukin umsvif á erlendri grundu. Rarik hefur þegar tekið þátt í verkefnum erlendis meðal annars í Afríku þar sem Rarik kom að uppbyggingu dreifikerfis.


 

Fjárfestingar Íslendinga í Finnlandi hafa vakið mikla athygli undanfarið og í nýjasta tölublaði finnska viðskiptatímaritsins Talouselämä er mikil úttekt á fjárfestingum Íslendinga með ítarlegu viðtali og umfjöllun um þá bræður Ágúst og Lýð Guðmundssyni. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.


 

Hagnaður af rekstri SPRON samstæðunnar eftir skatta var 4.690 milljónum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins og jókst um 318% frá sama tímabili síðasta árs. Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 54,0% á ársgrundvelli segir í frétt félagsins.


 

Á Íslandi er heildarlaunakostnaður á almennum vinnumarkaði mestur í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, 29 evrur á vinnustund en minnstur í verslun og ýmissi viðgerðarþjónustu, 22,5 evrur samkvæmt evrópskri rannsókn á launakostnaði. Hagstofa Íslands greinir frá þessari niðurstöðu á vef sínum.


 

Glitnir banki hf. hefur í dag selt alla hluti sína í Fjárfestingafélaginu Máttur hf., hvers stofnun var tilkynnt í fréttakerfi Kauphallarinnar 27. janúar 2006. Þetta kemur fram í tilkynningu til kauphallarinnar.


 

Greiningardeild Glitnis hefur hækkað verðmatsgengið á Bakkavarar Group í 75,0 krónur á hlut úr 68,4. Verðmatsgengið er talsvert yfir gengi á markaði eða 68,2. ?Ráðlegging okkar til fjárfesta er að kaupa bréf í félaginu. Markgengi (e. target price) er 75,0 en það er spá okkar um hvar gengi bréfa í félaginu standi að sex mánuðum liðnum. Helstu ástæður fyrir hækkuðu verðmatsgengi eru hækkun tekna á spátímabilinu og lækkuð fjármagnsgjöld,? segir greiningardeildin.


 

Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 0,49% og er 7.752 stig við hádegi, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Veltan nemur 2,9 milljörðum króna. Marel hefur hækkað um 2% og er eina félagið sem hefur farið upp í dag. Mosaic Fashions hefur lækkað um 2,02%, Kaupþing hefur lækkað um 0,84%, Exista hefur lækkað um 0,63%, FL Group hefur lækkað um 0,52% og Actavis Group hefur lækkað um 0,51%. Gengi krónu hefur veikst um 0,02% og er 117,4 stig.


 

Í kjölfar stóraukinna tengsla Íslands við Finnland og mikillar útrásar íslenskra fyrirtækja þar í landi hefur verið ákveðið að setja á laggirnar finnskt- íslenskt viðskiptaráð.Viðskiptaráðið verður stofnað formlega þann 20. júní í Helsinki og líklega verður Pia Michelsson aðstoðarforstjóri Kaupþings í Finnlandi fyrsti formaður þess. Meginhlutverk ráðsins verður að sinna upplýsingagjöf um Ísland og íslensk fyrirtæki í Finnlandi og vera tengiliður á milli landanna tveggja. Tilgangurinn er að greiða fyrir auknum viðskiptum og auka tengslin. Hannes Heimisson sendiherra Íslands í Finnlandi á frumkvæðið af stofnunni.


 

Ágúst H. Leósson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Samson eignarhaldsfélags ehf. Ágúst hefur störf á næstu dögum. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Birgir Már Ragnarsson, fráfarandi framkvæmdastjóri Samson, hefur hafið störf fyrir Novator Partners LLP í Bretlandi.


 

fjórða yfirtakan á þremur mánuðum


 

Sveinung Hartvedt, framkvæmdastjóri hlutabréfaviðskipta hjá DnB NOR Markets í Noregi, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Glitnis sem er með starfsemi á Íslandi, í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Rússlandi.  Þetta kemur fram í tilkynningu.


 

Kaup á lyfjasöfnum (e. portfolio) getur verið áhugaverður kostur fyrir Actavis Group en lyfjafyrirtæki eru farin að hafa samband við félagið að fyrra bragði um slíkt. Sigurður Óli Ólafsson, aðstoðarforstjóri félagsins, segir að þar geti góð tækifæri legið. Ekki er alltaf nauðsynlegt að kaupa fyrirtæki. Þetta kom fram á afkomufundi félagsins í morgun.


 

?Við ætlum að halda áfram að byggja upp félagið. Það er alveg klárt,? svarar Róbert Wessman, forstjóri Actavis Group, á afkomufundi félagins í morgun, spurður af fundarfesti hvort félagið sé ekki orðið að vænlegu yfirtökuskotmarki. ?Það hefur ekki verið á borðinu [yfirtaka á Actavis],? segir hann og telur ástæðuna vera hve ötult félagið hefur í yfirtökum.Fyrirtæki á lyfjamarkaði hafa verið að sameinast. ?Actavis hefur verið að leiða þá vinnu, í raun og veru. Mörg hinna félaganna vöknuðu upp nokkuð seint og eru að elta okkur og það sem við erum að gera. Það er í raun og veru eina skýringin fyrir því að enginn hefur nálgast okkur eins og staðan er í dag. Það er alveg ljóst af allri umfjöllun að Actavis er eitt áhugaverðasta félagið á markaðnum dag. Þú getur bara skoðað erlendar greiningar og erlenda umfjöllun,? segir Róbert.Hann játar að félagið á tiltölulega hagstæðum kennitölum og því vænlegt til yfirtöku. ?En að mörgu leyti þurfum við líka að taka tilliti til þess að sum þessara félaga sem eru ekki að eignfæra neinn þróunarkostnað. Bara til að bera saman epli og epli,? segir hann.


 

Thomson mun borga 8,8 milljarða sterlingspunda með reiðufé og hlutabréfum fyrir Reuters. Sameinað fyrirtæki yrði það stærsta í heimi þegar kemur að miðlun fjármálaupplýsinga og myndi ráða yfir þriðjungi af markaðinum. Markaðsverðmæti sameinaðs fyrirtækis verður 22,5 milljarðar punda. Reuters er ein þekktasta fréttastofa heims en helsta tekjulind fyrirtækisins er miðlun fjármálaupplýsinga. Thomson er kanadískt upplýsingafyrirtæki sem einnig selur lögfræði- og skattaþjónustu ásamt því að vera þekkingarmiðlun á öðrum sviðum. Undanfarið hefur fyrirtækið lagt áherslu á að hasla sér völl í fjármálaupplýsingageiranum. Í dag er það þriðja stærsta fyrirtæki heims í þeim geira á eftir Bloomberg og Reuters. Í sameiginlegri yfirlýsingu forráðamanna fyrirtækjanna tveggja mun sameinað fyrirtæki fá nafnið Thomson-Reuters en hinsvegar verða hlutabréf þeirra beggja áfram skráð í sitthvoru lagi á hlutabréfamörkuðum. Thomson-fjölskyldan, sem ræður yfir um 70% hlutabréfa í Thomson, mun áfram hafa töglin og hagldirnar í hinu sameinaða fyrirtæki. Fréttir af yfirtökutilboði í Reuters bárust fyrst síðastliðinn föstudag. Í kjölfarið hækkaði gengi hlutabréfa í Reuters um fjórðung. Tilboð Thomson metur Reuters á 697 pens á hlut. Sérfræðingar telja að gengi hlutabréfa í Reuters muni haldast nokkrum prósentum fyrir neðan tilboðið vegna endurspeglunar á þeirri áhættu að ekkert verði af sameiningunni. Fram kom í yfirlýsingunni að enn væri langt í land í viðræðunum um sameiningu en auk þess að ná fram samstöðu meðal hluthafa þyrfti að fá samþykki viðeigandi samkeppnisyfirvalda. Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.


 

Pólsk stjórnvöld ætla að leggja fram löggjöf sem veita sveitastjórnum frjálsar hendur til þess að fjarlægja styttur og minnismerki sem "heiðra einræðisstjórn kommúnista". Þrátt fyrir að löggjöfin sé boðuð í kjölfar ákafra deilna Eista og Rússa um sovéskt minnismerki í Tallin leggur menningarmálaráðherra Póllands, Kazimierz Ujazdowski, áherslu að hún tengist því máli ekki: Vinna við löggjöfina hófst mörgum mánuðum áður en sú deila braust út. Ujazdowski segir að löggjöfin miðist við að veita lægri stjórnsýslustigum í landinu auknar heimildir til þess að fjarlæga minnismerki og styttur sem heiðra á beinskeyttan máta einræðistímabil kommúnista í landinu. Hann segir að þörf sé á því að fjarlægja þau minnismerki sem móðga og særa þjóðarstolt Pólverja. Hinsvegar tekur hann fram að ekki verður átt við þau minnismerki sem heiðra hetjulund sovéskra hermanna og segir menningarmálaráðherrann ekki hægt að saka stjórnvöld um óvirðingu gagnvart þeim. Samskipti Rússa við ýmsar nágrannaþjóðir, sem áður tilheyrðu áhrifasvæði Sovétríkjanna, hafa verið stirð undanfarin ár. Orkumál og eldflaugavarnir hafa grafið undan samskiptunum svo einhver dæmi séu tekin og nú síðast virðist staðsetning stytta nægja til þess að kalla fram spennu. Rússar urðu sem kunnugt er æfir á dögunum yfir ákvörðun Eista að fjarlægja styttu af sovéskum hermanni úr miðborg Tallin og staðsetja hana í opinberum hermannagrafreit og brutust meðal annars út mótmæli í borginni. Ýmislegt bendir til þess að þau mótmæli hafi ekki verið sjálfsprottin: Til að mynda var fullyrt í tímaritinu The Economist í síðustu viku að starfsmenn rússneska sendiráðsins hafi fundað með leiðtogum mótmælanna áður en þau brutust út. Einnig hefur komið fram að árásir á vefsvæði eistneskra yfirvalda hafi verið gerðar úr tölvum sem eru með IP-tölur sem eru skráðar á rússnesk yfirvöld. Pólska löggjöfin verður lögð fram í næsta mánuði. Óljóst er hvort að hún muni leiða af sér sambærilega deilu og hefur átt sér stað á milli Rússa og Eista. Nýleg ummæli utanríkisráðherra Rússlands, Sergey Lavrov, útiloka slíkt ekki. Á mánudag voru uppi ásakanir um að Evrópusambandið (ESB) og Atlantshafsbandalagið (NATO) beittu sér fyrir því að ríki sem áður tilheyrðu áhrifasvæði Sovétmanna vanvirtu minningu sovéskra hermanna og að þau endurskrifuðu söguna. Samskipti Pólverja og Rússa hafa verið sérstaklega stirð undanfarin ár. Pólverjar óttast afleiðingar þess að ný gasleiðsla sem fyrirhugað er að byggja muni ekki fara gegnum landið á leið sinni frá Rússlandi til Evrópu og hafa meðal annars beitt fyrir sér innflutningsbanni á pólsku nautakjöti til þess að koma í veg fyrir frekari samstarf ESB og stjórnvalda í Moskvu í orkugeiranum. Á sama tíma bera rússnesk stjórnvöld kvíðboga fyrir því að hluti eldflaugavarnarkerfis Bandaríkjamanna verði staðsett í Póllandi.


 

Ákvörðun stjórnarflokksins í Taívan að útnefna Frank Hsieh sem forsetaframbjóðanda flokksins fyrir forsetakosningarnar á næsta ári gefur vísbendingu um að draga muni úr þeirri pólitísku spennu sem ríkt hefur í samskiptum Taívans og Kína undanfarin ár. Öfugt við núverandi forseta Taívan, Chen Shui-bian, er flokksbróðir hans Hsieh talinn vilja hverfa frá þeim sjálfstæðistilburðum sem einkennt hafa stjórnartíð Chen og koma á betri samskiptum við ráðamenn í Peking. Embætti forseta er valdamesta embættið í Taívan og ræður hann miklu um þá stefnu sem er mótuð og framkvæmd gagnvart Kína. Sigur Hsieh í prófkjöri Lýðræðislega Framfaraflokksins (DPP) um síðustu helgi kom stjórnmálaskýrendum nokkuð á óvænt, en Hsieh hlaut 45% atkvæða á meðan keppinautur hans Su Tseng-chang - sem naut stuðnings Chen forseta - fékk 33%. Sú staðreynd að Su tapaði í prófkjörinu þrátt fyrir stuðning Chen endurspeglar minnkandi völd og áhrif forsetans á síðasta ári kjörtímabils síns. Frá því að Chen var fyrst kosinn forseti Taívan árið 2000 - og aftur fjórum síðar - hefur hann ítrekað ögrað hinum valdamiklu nágrönnum í austri með sjálfstæðistilburðum sínum: Hann hefur talað fyrir því að Taívan muni að endingu hljóta sjálfstæði, auk þess að herða mjög á reglum um viðskipti og fjárfestingar við meginlandið. Í kjölfarið hafa kínversk stjórnvöld brugðist við með því að slíta öllum stjórnmálasamskiptum við ríkisstjórn hans. Hsieh hefur hins vegar allt aðra og raunsærri sýn gagnvart samskiptum Taívans og Kína. Hsieh gegndi starfi forsætisráðherra á árunum 2005 til 2006 en þurfti að víkja úr embætti sökum þeirrar gjörólíku afstöðu sem hann og Chen forseti höfðu gagnvart Kína: Hsieh vildi stefna að mun nánari efnahagstengslum við Kína, meðal annars að koma á beinu flugi til meginlandsins (sem gekk eftir), í því augnamiði að koma til móts við kröfur viðskiptalífsins. Hin pragmatíska afstaða Hsieh er talin líkleg til að auka sigurlíkur hans í forsetakosningunum sem fara fram í marsmánuði á næsta ári. Taívanar hafa sýnt að þeir vilja viðhalda óbreyttu ástandi í samskiptunum við Kína og óttast þær afleiðingar sem núverandi stefna Chen forseta gæti kallað yfir Taívan. Nýlegar skoðanakannanir varpa ljósi á það að á meðal almennings er lítill stuðningur við að Taívan lýsi yfir sjálfstæði, eða í kringum 90%. Stöðugleiki í samskiptum Taívans við Kína er ekki síður mikilvægur vegna þeirra miklu - og vaxandi - efnahagstengsla sem Taívan á við Kína. Þrátt fyrir spennu í stjórnmálaskiptunum er Kína stærsta viðskiptaþjóð Taívans og árið 2005 fóru um 40% af heildarútflutningi eyjunnar til Kína. Frá því árið 2002 hefur auk þess meira en helmingur af erlendum fjárfestingum Taívans verið í Kína. Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.


 

Það er núna undir hluthöfum ABN Amro komið hvort gengið verði að yfirtökutilboði hópsins sem samanstendur af Royal Bank of Scotland (RBS), Fortis og Santander eða því samkomulagi sem hollenski bankinn hafði gert við Barclays 23. apríl síðastliðinn. Sumir sérfræðingar telja hins vegar að ekki sé loku fyrir það skotið að RBS-hópurinn muni jafnvel á næstu dögum gera aðra lokatilraun til að komast yfir ABN Amro og leggja fram yfirtökutilboð beint til hluthafa ABN. Stjórnendur ABN höfnuðu á sunnudaginn tilboði RBS-hópsins í bandaríska bankann LaSalle upp á 24,5 milljarða evra, en það var gert með því skilyrði að ABN myndi að auki fallast á yfirtökutilboð hópsins í hollenska bankann upp á samtals 72 milljarða evra. ABN og breski bankinn Barclays þurfa núna að sannfæra hluthafa ABN um að hagsmunum þeirra verði best borgið með því að fallast á 67 milljarða evra yfirtökutilboð Barclays, sem lagt var fram í síðasta mánuði. Aftur á móti munu hin stirðu samskipti sem hafa ríkt á milli stjórnenda ABN og hluthafa bankans undanfarna daga og vikur ekki hjálpa til í því samhengi. Hópur hluthafa ákvað að kæra söluna á LaSalle til Bank of America fyrir 21 milljarð evra til hollenskra dómstóla, sem dæmdi þeim í hag á fimmtudaginn þegar hann úrskurðaði að ABN þyrfti að stöðva söluna á LaSalle. Ekki er heldur langt síðan að breski vogunarsjóðurinn The Children Investment Fund´s, sem á 1% hlut í ABN Amro, kallaði eftir því að framkvæmdastjórinn, Rijkman Groenink, yrði rekin úr starfi fyrir að hafa ekki hagsmuni hluthafa að leiðarljósi. Í rökstuðningi ABN fyrir því að hafna tilboði RBS-hópsins var meðal annars bent á það að hópurinn hefði ekki veitt hollenska bankanum nægilegar upplýsingar um þau atriði sem hann hefði gert athugasemdir við varðandi yfirtökutilboðið. Ekki er þó víst að ABN fari þar með rétt mál. Bandaríska dagblaðið Wall Street Journal hefur eftir heimildarmönnum sem vel þekkja til málsins að RBS-hópurinn hafi komið til móts við næstum allar þær kröfur sem ABN hafi gert. Að auki séu skilyrðin sem hópurinn hafi sett í yfirtökutilboðinu í raun verið mjög áþekk þeim sem ABN féllst á þegar gert var samkomulag við Barclays.


 

Stærsta tryggingarfyrirtæki Evrópu, Allianz, tilkynnti í gær að hagnaður félagsins á fyrsta ársfjórðungi þessa árs hefði hækkað um 82% frá því á sama tímabili fyrir ári. Þessi mikla hagnaðaraukning er einkum tilkomin vegna stöðugs vaxtar í rekstrartekjum en þær hækkuðu um 7% á tímabilinu, upp í 2,87 milljarða evra sem var nokkuð yfir væntingum greiningaraðila sem höfðu spáð rekstrartekjum upp á 2,66 milljarða evra. Rekstrartekjur af Dresdner Bank einingu Allianz hækkuðu einnig meira en búist hafði verið við, eða um 28%, og numu samtals 677 milljónum evra.


 

Air One, sem er næst stærsta flutningsfyrirtæki Ítalíu, greindi frá því í gær að félagið hefði skrifað undir samkomulag um að kaupa 50 Airbus A320 flugvélar. Í kjölfarið mun slíkum vélum Air One fjölga upp í 90 talsins. Þrátt fyrir að fyrirtækið hafi ekki viljað gefa upp kaupverðið, þá er líklegt að það sé í kringum 3,6 milljarðir Bandaríkjadala. Samkvæmt samkomulaginu er gert ráð fyrir því að vélarnar verði afhentar árið 2012 og eru liður í þeirri stefnu Air One að auka markaðshlutdeild sína á alþjóðlegum mörkuðum. Það hyggst fjölga evrópskum áætlunarleiðum sínum úr 9 upp í 35 fyrir árið 2012.


 

Einn af helstu ritstjórum bandaríska dagblaðsins Wall Street Journal (WSJ) vissi af tilboði Ruberts Murdochs í síðustu viku í móðurfélag WSJ, Dow Jones, áður en fréttir bárust af því til fjölmiðla. Hann ákvað hins vegar að greina ekki frá þeim upplýsingum, segir í frétt New York Times. Í fréttinni kemur einnig fram að sumir fjárfestar hafi komist að þessum upplýsingum og hafi í kjölfarið átt í viðskiptum með bréf í félaginu. Það er talið líklegt að bandaríska eftirlitsstofnunin með verðbréfaviðskipti (SEC) muni rannsaka málið frekar.


 

Margir fjárfestar telja að yfirtökutilboð Alcoa í Alcan sé til marks um það sem koma skal: Enn fleiri yfirtökur og sameiningar í áliðnaði sem og á öðrum hrávörumörkuðum. Nauðsyn þess að fyrirtæki á hrávörumarkaði hafi umsvif um heim allan þykir mikil og hún kann að vera hvati að frekari sameiningum. Í umfjöllun Dow Jones Newswires um þann markað eru leiddar að því líkur að eftirfarandi fyrirtæki kunni að verða tekin yfir á næstu misserum: Lonmin, U.S Steel og First Quantum Minerals. Jafnframt kemur fram í fréttinni að stærri fyrirtæki gætu hugsanlega gert tilboð í Alcoa, sem hefur sett fram óvinveitt yfirtökutilboð í samkeppnisaðila. Hækkanir á hlutabréfum í Alcan og Alcoa í kjölfar yfirtökutilboðs þess fyrrnefnda bendir til þess að fjárfestar á markaði taki fréttum af samþjöppun á álmarkaðinum fagnandi. Má gera ráð fyrir að kaup Alcoa á Alcan muni auka hagnað Alcoa fljótt og þau bjóða einnig upp á rekstrarsparnað. Þetta leiðir af sér að líklegt þykir að stærri álframleiðendur komi til með að líta Alcoa hýru auga verði af yfirtöku þess á Alcan. Sú staðreynd að mikil eftirspurn er eftir áli í heiminum, en gert er ráð fyrir að eftirspurnin muni tvöfaldast á næstu fimmtán árum, ásamt því mati sérfræðinga að yfirtökumöguleikar í geiranum séu takmarkaðir, kann að hraða samrunaferli í geiranum. Slík samþjöppun mundi jafnframt tryggja þeim álframleiðandum sem eftir standa enn sterkari stöðu þegar kemur að því að hafa áhrif á framboðshliðina við verðmyndun.


 

Kvos hf. er nú alvarlega að skoða frekari kaup á prentsmiðjurekstri í Austur-Evrópu en félagið rekur nú stærstu prentsmiðjur Búlgaríu og Rúmeníu. Að sögn Birgis Jónssonar, framkvæmdastjóra erlendrar starfsemi Kvosar, er félagið nú að skoða möguleg kaup í Ungverjalandi og Serbíu fyrir utan ný viðskiptatækifæri í Búlgaríu og Rúmeníu. Þetta kemur fram í frétt Viðskiptablaðsins í dag.


 

Hagnaður Actavis Group dróst saman um 15,3% í 27 milljónir evra á fyrsta fjórðungi ársins samanborið við sama tímabil á síðasta ári, og undirliggjandi hagnaður (að frátöldu afskriftum á yfirverði vegna fyrirtækjakaupa) dróst saman um 7,8% og var 32,4 milljónir evra. Lækkun hagnaðar skýrist að mestu leiti af hærri afskriftum og auknum vaxtakostnaði samstæðunnar vegna ýmissa fjárfestingarverkefna.Fyrsti ársfjórðungur er sá tekjuhæsti í sögu félagins og jukust tekjur um 11,9% í 382,7 milljónir evra, samanborið við 341,9 milljónir evra á sama tíma í fyrra.Undirliggjandi vöxtur (án tillits til fyrirtækjakaupa eða gengisáhrifa) nam 8,3%, sem skýrist einkum af góðum árangri í Bretlandi, Þýskalandi og Rússlandi, segir í tilkynningu.Eftir tekjusviðum:Pro forma sala í Mið- og Austur-Evrópu og Asíu jókst í 157,2 milljónir evra (1F 2006 pro forma: 138,3 milljónir evra). Undirliggjandi vöxtur nam 13,6%.Pro-forma tekjur í Norður-Ameríku námu 108,9 milljónum evra (1F 2006 pro-forma: 103,7 milljónir evra), og undirliggjandi vöxtur nam 5,0%Pro-forma sala í Vestur-Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku jókst um 9,9% í 79,7 milljón evra (1F 2006 pro forma: 72,6 milljónir evra).Sala til þriðja aðila dróst saman um 5,4% í 35,9 milljónir evra (1F 2006 pro forma 37,9 milljónir evra) .EBITDA hlutfall nam 20,7% í fjórðungnum, án tillits til dreifingar lyfja í Mið og Austur Evrópu var EBITDA framlegðin 23,1%.Þynntur undirliggjandi hagnaður á hlut dróst saman um 3,6% og var 0,00660 evrur á hlutAlls voru markaðssett 80 samheitalyf (48 einstök lyf), þar á meðal fékkst 180 daga einkasöluréttur á Ranitidine í BandaríkjunumGerðir voru samningar við stór þýsk sjúkrasamlög, sem styðja við vöxt á þeim markaði.Róbert Wessman, forstjóri Actavis um uppgjörið:?Árið fer vel af stað hjá okkur og ánægjulegt að sjá góðan viðsnúning á mörkuðum okkar í Þýskalandi og Bretlandi. Þá var árangur okkar áfram góður í Rússlandi og Bandaríkjunum og vöxtur samstæðunnar og framlegð í samræmi við útgefin markmið. Á síðari hluta ársins munum við sjá aukinn fjölda markaðssetninga nýrra lyfja og framlegð og vöxtur mun styrkjast eftir því sem líður á árið. Samhliða góðum undirliggjandi vexti munum við halda áfram að skoða áhugaverð tækifæri til vaxtar og framfylgja stefnu okkar um að koma Actavis í enn sterkari stöðu á heimsmarkaði?


 

Hagnaður Marel Food Systems nam milljón evra á fyrsta fjórðungi (87 milljónir króna), samanborið við 551 þúsund evrur á sama tíma fyrir ári (48 milljónir króna). Salan á fyrsta ársfjórðungi 2007 nam 72,2 milljónum evra (6,3 milljarðar króna) samanborið við 32,5 milljónir (2,8 milljarðar króna) sem er rúmlega tvöföldun (123%) miðað við sama tímabil árið áður. Frá fyrsta ársfjórðungi 2006 hafa félögin AEW Delford Systems og Scanvægt bæst við annars vegar 7. apríl og hins vegar 4. ágúst. ?Proforma? söluaukning frá fyrsta ársfjórðungi 2006 er 9,6%. Rekstrarhagnaður EBIT á fyrsta ársfjórðungi 2007 var 3,2 milljónir evra (279 milljónir króna) sem er 4,5% af tekjum samanborið við 0,5 milljónir evra (43,6 milljónir króna) í fyrra. Gjaldfærður einskiptiskostnaður vegna samþættingar nam um 3,2 milljónum evra (279 milljónir króna) á fyrsta ársfjórðungi. Rekstrarhagnaður EBIT, fyrir einskiptiskostnað var 6,4 milljónir, en það er 8,9% af sölu. Handbært fé frá rekstri nam 5,2 milljónum evra (454 milljónir króna), samanborið við 8,2 milljónir (715 milljónir króna ) sem fóru til rekstrar á fyrsta ársfjórðungi árið 2006. Handbært fé í lok tímabilsins nam 58,2 milljónum evra (5 milljarðar króna) Eigið fé nam 146 milljónum evra og eiginfjárhlutfall var 39,2% í lok mars 2007. Félagið er vel fjármagnað til þess að takast á við áframhaldandi ytri vöxt, segir í tilkynningu. ?Árið 2007 hefur farið vel af stað hjá Marel Food Systems,? segir Hörður Arnarson, forstjóri félagsins. ?Samþætting á rekstri Marel, Carnitech, Scanvægt og AEW/Delford gengur samkvæmt áætlun og mikilvægir áfangar hafa náðst í endurskipulagningu sölu og markaðskerfa fyrirtækjanna. Nú er unnið að samræmingu á vöruúrvali og vöruþróun fyrirtækjanna. Þótt umtalsverður árangur hafi náðst í samþættingu fyrirtækjanna er enn mikið verk óunnið í að nýta þau samlegðaráhrif sem stefnt er að. Afkoma og sjóðstreymi fyrirtækisins hefur batnað umtalsvert frá síðasta ári. Ánægjulegt er að sjá áframhaldandi sterkan innri vöxt fyrirtækisins um leið og starfsmenn hafa tekist á við flókið samþættingarferli.?


 

Hagnaður Tryggingamiðstöðvarinnar á fyrstu fjórðungi ársfjórðungsins nam 886 milljónum en hagnaður á sama tíma í fyrra var 626 milljónir króna.Bókfærð iðgjöld af vátryggingastarfsemi á Íslandi jukust um 18%.Bókfærð iðgjöld ríflega tvöfölduðust og voru þau 8.675 milljónir króna samanborið við 4.082 milljónir króna á sama tíma í fyrra.Rekstrartap af vátryggingastarfsemi var fimm milljónir króna, samanborið við 215 milljónir króna tap áfyrsta ársfjórðungi 2006. Tap af innlendri vátryggingarstarfsemi var 113 milljónir á tímabilinu.Fjárfestingatekjur félagsins námu 1.894 milljónum króna á tímabilinu en voru 1.711 milljónum króna árið áður.Heildareignir Tryggingamiðstöðvarinnar voru 73.812 milljónir króna þann 31. mars 2007 og hafa því aukist um 6% frá áramótum.Norska vátryggingarfélagið Nemi er hluti af samstæðu TM frá 1. september 2006 og hefur áhrif á samanburð rekstrar og efnahags TM á milli ára.Um uppgjöriðÓskar Magnússon, forstjóri TM, segir áframhaldandi vöxt vátryggingastarfsemi einkenna starfsemi félagsins á Íslandi. Vöxtur bókfærðra iðgjalda á Íslandi nam 18% á tímabilinu og eigin iðgjöld jukust um 22%. Í Noregi stóðu bókfærð iðgjöld í stað en tæplega 10% vöxtur var í eigin iðgjöldum. Hagnaður Nemi nam 153 milljónir króna á ársfjórðungnum.Tjónaþróun tveggja vátryggingagreina á Íslandi er enn áhyggjuefni. Tap er enn af slysatryggingum sjómanna og hafa þær ráðstafanir sem gripið var til á árinu2006 ekki skilað sér að öllu leyti. Tjónaþróun í greininni er sérstakt áhyggjuefni. Frjálsar ökutækjatryggingar eru reknar með tapi en gripið var tilráðstafana til að snúa þeirri þróun við undir lok ársins 2006. Vátryggingarekstur í Noregi var rekinn með 108 m.kr. hagnaði.Markaðsaðstæður voru hagstæðar á ársfjórðungnum og voru fjárfestingartekjur samstæðunnar 1.894 m.kr. Áfram var unnið að því að dreifa eignasafni félagsinsog var fjárfest í nokkrum félögum í Skandinavíu á tímabilinu. Hinn 2. maí síðastliðinn fékk TM styrkleikamat BBB frá S&P sem voru mjög ánægjuleg tíðindi.


 

1.602 milljóna króna hagnaður varð hjá Teymi eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi 2007. EBITDA hagnaður var 785 milljónir króna að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.  Söluhagnaður af eignarhlut í Securitas nam 439 milljónum króna eftir skatt.Hagnaður af áframhaldandi starfsemi nam 1.313 milljónum króna fyrir skatta. Gengishagnaður vegna erlendra langtímaskulda nam 1.282 milljónum króna.  Veltufjárhlutfall var 1,51 þann 31. mars 2007 og eiginfjárhlutfall 27%.


 

ABN Amro hafnaði í gær 24,5 milljarða Bandaríkjadala tilboði í bandaríska bankann LaSalle frá fyrirtækjahópnum sem Royal Bank of Scotland (RBS) leiðir. Hollenski bankinn sagði hins vegar að tilboð RBS, Fortis og Santander yrði lagt undir atkvæði hluthafa ásamt öðrum tillögum sem liggja fyrir. Í tilkynningu sem ABN sendi frá sér í gær kemur fram að bankinn telji að tilboðið hafi ekki verið betra heldur en 21 milljarðs dollara tilboð Bank of America (BOA), sökum þess að RBS-hópurinn gerir það einnig að skilyrði að fallist verði á fyrirhugað yfirtökutilboð bankanna í ABN Amro. Fyrirtækjahópurinn var aftur á móti ekki sammála þessu mati ABN og sögðu forsvarsmenn bankanna í gær að þeir teldu að tilboð þeirra væri "töluvert betra" heldur en það sem BOA hafði lagt fram. RBS-hópurinn er í harðri baráttu við Barclays um yfirráð í ABN og skiptir LaSalle bankinn í því samhengi miklu máli. Sala ABN á LaSalle til BOA var hluti af samkomulagi sem bankinn gerði við Barclays 23. apríl síðastliðinn. Hluthafar ABN snérust hins vegar gegn því tilboði og í síðustu viku tókst þeim að fá hollenskan dómstól til að úrskurða um að fresta bæri sölunni á LaSalle til BOA. Sérfræðingar telja að með þeirri ákvörðun dómstólsins hafi möguleikar Barclays á að yfirtaka ABN minnkað verulega. Heimildarmenn Financial Times sem vel þekkja til málsins segja að tilboð RBS feli einnig í sér það skilyrði að bankarnir muni ekki þurfa að standa í neinum málarekstri ef yfirtakan gengur í gegn vegna LaSalle, en Bank of America kærði ABN Amro á föstudaginn og krafðist skaðabóta auk þess að sett yrði lögbann á að hægt yrði að selja LaSalle til annarra aðila.


 

Bandaríski álrisinn Alcoa lagði fram óvinveitt yfirtökutilboð í helsta keppinaut sinn Alcan í gær og hljóðaði tilboðið upp á 26,9 milljarða Bandaríkjadala. Samruni þessara tveggja félaga, sem bæði eru með starfsemi hér á Íslandi, myndi gera það að verkum að til yrði langsamlega stærsta álfyrirtæki heimsins: Ársvelta sameinaðs fyrirtækis myndi vera 54 milljarðir dollara, framleiðslugetan væri um 30 milljónir tonna af áli og starfsmenn yrðu 188 þúsund talsins í 67 löndum. Alcoa hyggst fjármagna tilboðið með því að greiða bæði í peningum og hlutafé. Um yrði að ræða 32% yfirverð á bréfum í Alcoa miðað við gengi félagsins að meðaltali undanfarinn mánuð og 20% yfirverð í bréfum í Alcan, ef miðað er við gengið þegar hlutabréfamarkaðir lokuðu í New York síðastliðinn föstudag. Hlutabréf í Alcan höfðu hækkað um 32% á hádegi í gær á meðan gengi bréfa í Alcoa hafði hækkað um 6%. Tilboðið kemur í kjölfar þess að fyrirtækin hafa í tvö ár átt í stöðugum viðræðum um ýmsa möguleika á hugsanlegri samvinnu eða samruna Alcoa og Alcan, en síðasta haust runnu sameiningarviðræður hjá stjórnum félaganna út í sandinn. Kanadíska fyrirtækið Alcan hvatti í gær hluthafa sína um að bíða eftir því að stjórn fyrirtækisins myndi yfirfara tilboðið. Í tilkynningu sem Alan Belda, framkvæmdastóri Alcoa, sendi frá sér í gær segir hann að félagið hafi ákveðið að leggja fram kauptilboð í Alcan, þegar ljóst var að samningaviðræður fyrirtækjanna væru ekki að skila neinum áþreifanlegum árangri. Belda taldi það næsta víst að samruni félaganna myndi verða mjög svo hagfelldur fyrir bæði fyrirtækin: Samlegðaráhrifin gætu orðið í kringum einn milljarð dollara, hægt yrði að greiða niður skuldir í mun meira mæli og frekari tækifæri til útrásar myndu skapast. Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.


 

Warren Buffett, stjórnarformaður Berkshire Hathaway, sagði um helgina að tilboð fjölmiðlajöfursins Rupert Murdoch og fjölmiðlasamsteypu hans, News Corp, í Dow Jones væri til marks um aukinn áhuga auðmanna á því að eignast fjölmiðla og að aðrir þættir en hagnaðarvon stýrðu þeim áhuga. Á dögunum bauð Murdoch fimm milljarða Bandaríkjadala í Dow Jones. Bancroft-fjölskyldan, sem fer með ráðandi hlut í Dow Jones, hafnaði tilboðinu þrátt fyrir að það sé um sextíu prósentum hærra en markaðsverð fyrirtækisins. Tilboðið þykir það hátt að ekki er útséð með hvort að Murdoch takist að eignast fyrirtækið á endanum. Buffett lét þessi ummæli falla um helgina á ársfundi Berkshire Hathaway. Hann sagðist viss um að Murdoch væri reiðubúinn að viðurkenna að það væru fleiri þættir en arðsemisvæntingar sem stýrðu áhuga hans á Wall Street Journal, sem er flaggskip útgáfustarfsemi Dow Jones. Einnig kom fram í máli Buffetts að slíkur áhugi einskorðaðist ekki við Murdoch: Hann telur að auðmenn séu í auknum mæli reiðubúnir til þess að fjárfesta í ákveðnum fjölmiðlum vegna áhrifa þeirra, dagskrárvalds og virðingar. Berkshire Hathaway hefur fjárfest í fjölmiðlum og á hluta bæði í Buffalo News og The Washington Post. Á ársfundinum ræddi Buffett um hugsanlegan arftaka sinn hjá Berkshire Hathaway og upplýsti meðal annars að sex hundruð manns hafi sótt um að feta í fótspor hans er hann lætur af störfum. Hann sagðist vilja ráða fjóra hátt setta sjóðsstjóra og láta hvern og einn stýra um fimm milljörðum Bandaríkjadala og láta frammistöðuna skera um hver sé verðugastur til þess að setjast í stól hans. Buffett gegnir bæði stöðu aðalframkvæmdastjóra og aðalfjárfestis Berkshire Hathaway en hann hefur sagt að hann vilji ekki einn og sami maðurinn gegni stöðunum tveim eftir að hann hættir. Á ársfundinum tjáði hann fundarmönnum að hann hafi augastað á þremur líklegum arftökum hans á stól aðalframkvæmdastjóra en þeir eru innanbúðarmenn hjá Berkshire Hathaway. Á ársfundinum fór Buffett um víðan völl í máli sínu. Hann gagnrýndi "rafmagnshjörð" þeirra sem stýra vogunaraflssjóðum og sagði að síkvikar stöðutökur þeirra vera til marks um leik þar sem enginn stendur uppi sem sigurvegari á endanum. Hann gerði lítið úr þeim hræringum sem átt hafa sér stað á markaði með fasteignalán til þeirra einstaklinga sem hafa slæma skuldastöðu (e. subprime lending). Hann sagði bæði lánin og lántökuna vera "heimska" og telur að hræringar á þeim markaði muni ekki smita út frá sér. Buffett sendi frá sér viðvörunarorð: Hann sagði góðærið í rekstraumhverfi bandarískra fyrirtækja kynni að enda skyndilega vegna breytinga á stjórnmála- og fjármálaáhættu.


 

Franz Fehrenbach, aðalframkvæmdastjóri Robert Bosch, mun ekki taka að sér stjórnformennsku Siemens en þýsk blöð höfðu sagt frá því um helgina að hann væri líklegastur til þess að fá starfið. Siemens leitar nú logandi ljósi að arftaka Klaus Kleinfeld sem tilkynnti á dögunum að hann væri á förum frá fyrirtækinu. Siemens er stærsa verkfræði- og tæknifyrirtæki í Evrópu ef tekið er tillit til sölu.


 

Bandaríska flugfélagið American Airlines tilkynnti í gær að tvö hundruð flugfreyjur yrðu kallaðar aftur til starfa hjá félaginu. Er gripið til þessara aðgerða til þess að bregðast við fyrirsjáanlegum önnum á árinu.


 

Hugo Chavez, forseti Venesúela, hyggst setja útflutningsbann á stærsta stálframleiðanda landsins, Siderurgica del Orinoco, sem á að gilda þangað til að fyrirtækið annar innlendri eftirspurn. Siderurgica del Orinoco er meðal annars í eigu Argentínumanna, en Chavez hefur hótað þjóðnýtingu á fyrirtækinu. Í síðustu viku hótaði forsetinn að þjóðnýta banka myndu þeir ekki lækka vexti á lánum til innlendra iðnaðarfyrirtækja. Chavez var með svipaðar hótanir uppi áður en að hann þjóðvæddi fjarskipta- og raforkufyrirtæki fyrir nokkru.


 

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lýsti því yfir í gær að horfurnar fyrir hagvöxt á árinu væru enn betri enn gert hafi verið ráð fyrir til þessa, þrátt fyrir styrk evrunnar gagnvart öðrum helstu gjaldmiðlum heims og samdrátt í bandaríska hagkerfinu. Framkvæmdastjórnin gerir ráð fyrir að hagvöxtur í 29 aðildarríkjum sambandsins verði 2,9% á árinu en hún spáði 2,7% hagvexti í febrúar. Einnig eru horfurnar betri fyrir þau aðildarríki sem hafa tekið upp evru: Gert er ráð fyrir 2,6% hagvexti í evrulöndunum en í febrúar var spáð 2,4% hagvexti.


 

Hægt verður að eiga viðskipti með afleiður í Kauphöllinni næsta mánudag, 14. maí. Til að byrja með verður það staðlaðir framtíðarsamningar og valréttir með hlutabréf Glitnis, Kaupþings og Landsbanka, framtíðarsamninga á OMXI15 úrvalsvísitöluna og framvirka samninga á vísitölu neysluverðs. Þá verður hægt að eiga viðskipti með sérsniðnar afleiður á íslensk hlutabréf og úrvalsvísitöluna. Ennfremur verður settur á stofn lánamarkaður með hlutabréf félaga í OMXI15 en það auðveldar skortsölu á slíkum bréfum, að sögn greiningardeildar Glitnis. ?Breytingar þessar eru jákvætt skref í þróun íslenskra fjármálamarkaða. Afleiðuviðskipti hafa aukist geysihratt á alþjóðlegum fjármálamörkuðum undanfarin ár. Hér á landi hefur um nokkurt skeið verið unnt að eiga viðskipti með sérsniðnar afleiður af ýmsu tagi, og hefur það aukið dýpt og skilvirkni markaða, en ekki hefur verið markaður fyrir staðlaðar afleiður til þessa. Verður fróðlegt að fylgjast með verðmyndun á hinum nýju stöðluðu afurðum, ekki síst verðbólguafleiðunum, en þróun verðlags hefur óvenju mikið vægi á íslenskum fjármálamörkuðum vegna útbreiddrar verðtryggingar skuldabréfa og því líklegt að margir vilji ýmist nota slíkar afleiður til varna eða spákaupmennsku,? segir greiningardeildin.


 

Búlgarska ríkið á rétt á að fá hluta söluhagnaðar þess sem myndast við sölu á BTC til bandaríska fjárfestingarfélagsins AIG Global Investment Group. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins gæti sú upphæð numið 10% af þeim nettósöluhagnaði sem myndaðist umfram 300 milljóna evra söluverð. Þessi greiðsla verður innt af hendi af þeim sem tóku þátt í einkavæðingu félagsins fyrir þremur árum. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.


 

Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 0,42% og er 7.782 stig við hádegi, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Veltan nemur ríflega þremur milljörðum króna. Mosaic Fashions hefur hækkað um 4,07% í veltu sem nemur 700 þúsund, Atorka Group hefur hækkað um 1,55%, Bakkavör Group hefur hækkað um 0,74% og Actavis Group hefur hækkað um 0,25% en félagið mun birta uppgjör sitt eftir lok markaðar í dag. Hampiðjan hefur lækkað um 2,78%, FL Group hefur lækkað um 1,7%, Össur hefur lækkað um 1,31%, Straumur-Burðarás hefur lækkað um 1,22% og Marel hefur lækkað um 1,19%. Gengi krónu hefur veikst um 0,61% og er 117,5 stig.


 

Greiningardeild Landsbankans hefur endurskoðað verðmat sitt á Össuri í kjölfar þriggja mánaða uppgjörs. Metur hún gengið á 118,5 krónur á hlut en lokagengi var 114,5 krónur á hlut í gær og mælir með markaðsvogun. ?Frá síðasta verðmati okkar hefur íslenska krónan haldið áfram að styrkjast ásamt því sem vextir hafa verið að hækka á markaðssvæðum Össurar. Báðir þessir þættir hafa neikvæð áhrif á verðmat á Össur,? segir greiningardeildin. Hún segir afkomu Össurar á fyrsta ársfjórðungi hafi verið undir væntingum. Tekjur félagsins voru í takt við væntingar en samt í lægri mörkum þess sem við gerðum ráð fyrir. Endurskipulagning á sölu- og dreifingarkerfi félagsins í Bandaríkjunum leiddi til samdráttar í sölu á tímabilinu en gert er ráð fyrir að áhrifanna muni gæti í nokkra mánuði til viðbótar. Endurskipulagningunni fylgdi einnig meiri kostnaður en við gerðum ráð fyrir. Bati er í sölu á spelkum og stuðningsvörum í Evrópu eftir nokkra erfiðleika á síðasta ári. ?Samfara nýjum upplýsingum höfum við endurskoðað verðmat okkar og lækkað spá okkar fyrir árið í ár. Við sjáum þó ekki ástæðu, að svo stöddu, til að breyta nema lítillega spá okkar fyrir næsta ár og árin þar á eftir,? segir hún.


 

Urriðaholt ehf. hefur samið við fasteignasölurnar Eignamiðlun og Miðborg um að annast sölu á lóðum í fyrsta áfanga íbúðabyggðar í Urriðaholti í Garðabæ. Um er að ræða lóðir fyrir allt að 377 íbúðir, þar á meðal í fjölbýli, einbýli, raðhúsum og parhúsum. Sala lóðanna hefst 15. maí næstkomandi og tilboðsfrestur er til 24. maí að því er kemur fram í tilkynningu. Í samningnum er áhersla lögð á skýrar verklagsreglur í þeim tilgangi að gæta jafnræðis gagnvart væntanlegum kaupendum. Urriðaholt er nýtt hverfi í Garðabæ, ofan við Urriðavatn og í næsta nágrenni Heiðmerkur. Við skipulagningu Urriðaholts hefur áhersla verið lögð á sjálfbæra, mannvæna og umhverfisvæna byggð í tengslum við náttúruna, sem nýtur um leið greiðra samgönguleiða í næsta nágrenni. Þegar Urriðaholt verður fullbyggt er gert ráð fyrir að þar búi um 4.400 manns.


 

Eignarhaldsfélagið F-Capital ehf., sem er í eigu Baugs Group, heldur nú um 36,8% í Mosaic Fashions. Áður hélt BG Holding ehf. um hlutina fyrir hönd Baugs Group en bæði félögin eru að fullu í eigu fjárfestingarfélagsins, að því er fram kemur í tilkynningu til Kauphallarinnar. 20 stærstu hluthafar Mosaic Fashions eru: F-Capital ehf 36,7814% Arion safnreikningur 13,6886% Kaupþing banki hf 6,9292% Derek John Lovelook 6,5769% Straumur-Burðarás Fjárfest hf 4,0839% Landsbanki Luxembourg S.A. 3,8237% Citibank 3,4477% FL GROUP hf 3,0340% Lífeyrissjóðir Bankastræti 7 2,5568% Jane Karen Woolf 2,3927% Abacus Corporate Trustee Ltd. 1,1333% Margaret Eve Lustman 1,1019% Sharon Mary O´Connor 1,1019% Hannah Russell 0,8814% Landsbanki Íslands hf,aðalstöðv 0,7607% Eignarhaldsfélagið ISP ehf 0,7431% Gnúpur fjárfestingafélag hf 0,6906% Landssjóður hf,úrvalsbréfadeild 0,5950% Milestone ehf 0,5698% SJ1 ehf 0,5692%


 

meðal stjórnenda í viðhorfskönnun Viðskiptablaðsins


 

Nýtt verðmat Greiningardeildar Landsbankans á Mosaic gefur verðmatsgengið 17,9 og 12 mánaða vænt verð 20,2. Lokagengi bréfa félagsins í gær var 17,2, en bréf félagsins hækkuðu um 5.5% á föstudag í kjölfar frétta af tilboðinu. Eins og fram hefur komið er ekki ljóst hvort af formlegu tilboði verði eða á hvaða gengi. Þeir telja þó að tilboðsgengið 17,5 (7% álag á lokagengi bréfanna þann 3. maí) endurspegli ekki að fullu virði félagsins.


 

Hreyfing er að komast aftur á hugmyndir um að byggja hótel í Laugardal, nánar tiltekið þar sem stúkubygging Laugardalslaugarinnar stendur núna. Björn Leifsson í World Class hefur áður varpað fram slíkum hugmyndum og hefur átt fund með skipulagsstjóra Reykjavíkur um málið auk þess sem hann hefur kynnt hugmyndir sínar fyrir borgarstjóra og formanni íþrótta og tómstundaráðs Reykjavíkur. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag. Í samtali við Viðskiptablaðið sagðist Björn vera bjartsýnn á að af málinu verði og staðfesti hann að viðræður væru í gangi. Hefur verið farið fram á að World Class skili ítarlegri greinargerð til skipulagsyfirvalda en fyrirtækið hefur nú unnið að útfærslu hugmyndarinnar í tvö ár. World Class rekur nú íþrótta- og heilsurækt við laugina. Eftir því sem komist verður næst er rætt um það að ræða að byggja 220 herbergja hótel ef leyfi fæst til að rífa núverandi stúkubyggingu. Er rætt um að hótelið verði einni hæð hærra en núverandi stúkubygging. Um leið er rætt um áframhaldandi byggingar í kringum Laugardalslaugina og framkvæmdir við laugagarðinn. Heildarkostnaður við framkvæmdirnar gæti numið sjö milljörðum króna en formleg kostnaðaráætlun liggur ekki fyrir. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins kæmi bygging við hliðina þar sem væri sundaðstaða fyrir börn. Í kjallara yrði sundaðstaða fyrir eldra fólk. Þá er gert ráð fyrir rannsóknarsetri fyrir Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni og aðstaða fyrir lækna. Hringnum yrði síðan lokað með fundarsölum og gert er ráð fyrir að endurbyggja laugargarðinn. Laugardalslaugin var byggð 1968 og var Einar Sveinsson, húsameistari Reykjavíkur, hönnuður laugarinnar.


 

Skuldatryggingarálag (CDS) íslensku bankanna hefur lækkað nokkuð undanfarnar vikur, segir greiningardeild Landsbankans.?Álagið er langt undir meðaltali síðustu 18 mánaða og er farið að nálgast sömu gildi og þegar það var lægst í október 2005, um 20 punktar,? segir greiningardeildin.Skuldatryggingarálag Landsbankans er 22,0 stig, Glitnis er 26,3 stig og Kaupþings er 30,8 stig.?Frá áramótum hefur álagið lækkað um 8-18 punkta. Breyting lánshæfismats Moody?s á bönkunum í lok febrúar olli nokkurri lækkun á álaginu og fór það lægst í um 19,5 punkta hjá Landsbankanum og Glitni og í um 25,5 hjá Kaupþingi.


 

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,56% og er 7.815 stig við lok markaðar, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Veltan nam 4,5 milljörðum króna. Altantic Petroleum hækkaði um 7,74% en félagið hefur hækkað um 51,54% frá áramótum, Bakkavör Group hækkaði um 0,89%, Exista hækkaði um 0,63%, Eimskip hækkaði um 0,58% og Marel hækkaði um 0,4%. Icelandic Group lækkaði um 1,48%, 365 og Kaupþing lækkuðu 1,11%, Össur lækkaði um 0,87% og Actavis Group lækkaði um 0,76% en félagið birti uppgjör sitt á morgun. Gengi krónu hefur veikst um 0,22% og er 116,9 stig.


 

Uppgjör Teymis hf., móðurfélags Vodafone, SKÝRR, EJS, Kögunar og fleiri vegna fyrsta ársfjórðungs 2007 verður kynnt á morgun í húsakynnum félagsins í Skútuvogi 2. Uppgjörið sjálft mun liggja fyrir í Kauphöllinni upp úr hádegi.


 

Aðeins eitt fyrirtæki lagði fram tilboð í tíðniheimild til starfrækslu farsímanets á núverandi NMT tíðnisviði. Fyrirtækið Nordisk Mobil Ísland ehf. virðist því líklegast til að hreppa hnossið. Tilboðið var opnað að viðstöddum fulltrúum bjóðenda og fulltrúum fjölmiðla. Útboðið var auglýst 7. mars 2007.Tíðniheimildin gildir fyrir allt landið og felur í sér eftirfarandi tíðnisvið: 452,9875 - 457,4875 MHz / 462,9875 ? 467,4875 MHz (2 x 4,5 MHz)


 

Skrifað var undir samning um kaup á nýrri eftirlitsflugvél fyrir Landhelgisgæslu Íslands í Þjóðmenningarhúsinu í morgun. Samið var við kanadíska fyrirtækið Field Aviation um kaup á vél af gerðinni Dash 8-Q300 sem er sérstaklega hönnuð fyrir löggæslu, leit og björgun og hentar vel við íslenskar veðurfarsaðstæður að því er kemur fram í fréttatilkynningu.


 

Benedikt Gíslason, framkvæmdastjóri Eigin viðskipta, sem sagði upp ráðningarsamningi sínum þann 23. apríl sl., hefur látið af störfum hjá Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf. að því er kemur fram í tilkynningu bankans.


 

Bandaríski álrisinn Alcoa hefur gert yfirtökutilboð í kanadíska álrisann Alcan að því er kemur fram í erlendum fréttaskeytum. Gert er ráð fyrir að Alcan þurfi að greiða 33 milljarða Bandaríkjadala fyrir Alcoa en samlegðaráhrif eru talin vera einn milljarður dala. Bæði þessi félög eru með álver á Íslandi.


 

Í dag hefur Björn Borg AB, meðalstórt félag í neysluvörugeiranum, verið skráð í OMX Nordic Exchange í Stokkhólmi. Björn Borg kemur af lista First North á aðalmarkað Nordic Exchange að því er kemur fram í tilkynningu Kauphallarinnar. Björn Borg (áður Worldwide Brand Management AB) framleiðir nú fimm vöruflokka, þ.e. föt, skó, töskur, gleraugu og ilmvötn.. Björn Borg vörurnar eru seldar á 10 mörkuðum í Evrópu og þeirra stærstir eru Svíþjóð og Holland. Vörumerkið Björn Borg varð til í lok níunda áratugarins. Félagið hefur verið á First North í Stokkhólmi síðan í desember 2004. ?Björn Borg sýnir vel hvernig það fyrirkomulag okkar virkar að hafa aðalmarkað og annan markað, First North, fyrir félög í vexti. Félögin geta einbeitt sér að vexti og þróun á First North og þegar þau eru tilbúin og uppfylla skilyrðin á aðalmarkaðnum, geta þau flutt sig yfir?, segir Jenny Rosberg, framkvæmdastjóri Company Services hjá OMX.


 

Með tilliti til góðrar ávöxtunar og tryggrar stöðu Lífeyrissjóðs Vestfirðinga hefur stjórn hans ákveðið að leggja til að áunnin lífeyrisréttindi og greiðslur til lífeyrisþega verði hækkuð um 10% frá 1. janúar 2007.


 

Í kjölfar þess hve vel hefur tekist til með hliðarmarkaðinn First North á Norðurlöndunum mun OMX útvíkka þjónustu First North þannig að hún nái einnig til Eystrasaltsríkjanna á árinu 2007. Þetta kemur fram í frétt Kauphallarinnar.


 

Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum greiði tekjuskatt á ný en slíkt hefur ekki gerst í hálfan annan áratug eða síðan árið 1992. Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri VSV, sagði á aðalfundi félagsins um helgina að uppsafnað skattalegt tap Vinnslustöðvarinnar hefði hæst numið 2,3 milljörðum króna á þessu árabili og stjórnendur félagsins hafi á þeim tíma ekki séð fram á að tapið yrði nokkurn tíma nýtanlegt.


 

Í yfirlýsingu sem send var af út af Novator í Búlgaríu í kjölfar ummæla Grozdan Karadzhov, fyrrverandi stjórnarformanns símafyrirtækisins BTC, kemur fram að félagið hyggst standa við öll gefin fyrirheit vegna einkavæðingar BTC.


 

segir fyrrum stjórnarmaður félagsins


 

Finnair, sem FL Group á 22,4% hlut í, skilaði 9,3 milljóna evru hagnaði á fyrsta fjórðungi ársins (rúmar 800 milljónir króna), samanborið við fjögurra milljóna evru (347 milljónir króna) tap á sama tíma fyrir ári. Þetta kemur fram í Vegvísi greiningardeildar Landsbankans.


 

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,54% og er 7.859 stig við lok dags, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni. Þetta er hæsta dagslokagildi hennar til þessa. Mosaic Fashions hækkaði um 5,52% í kjölfar yfirtökutilboðs frá Baugi, Eimskip hækkaði um 1,46%, Exista hækkaði um 1,44%, FL Group hækkaði um 1,03% og Marel hækkaði um 0,93%. Össur og Teymi lækkuðu um 0,43%. Gengi krónu styrktist um 0,17% og er 116,61 stig.


 

Hagnaður Vinnslustöðvarinnar á fyrsta ársfjórðungi var 765 milljónir króna, sem er mikil breyting frá sama tímabili í fyrra þegar tap nam 213 milljónum króna.  Heildartekjur félagsins voru 1.750 milljónir króna en 1.769 milljónir króna á sama tímabili í fyrra.


 

Hlutabréf Mosaic Fashions hafa verið færð á athugunarlista með vísan til tilkynningar til Kauphallarinnar þann 4. maí 2007 vegna yfirtökuskyldu sem myndast hefur í félaginu.


 

Actavis hefur keypt markaðsleyfi sýklalyfsins Floxapen® af lyfjafyrirtækinu GlaxoSmithKline (GSK) í Evrópu. Actavis mun hefja dreifingu og sölu lyfsins á næstu vikum segir í frétt félagsins.  Floxapen® er sýklalyf með virka efninu flucloxacillin, sem er m.a. notað við sýkingum í húð, þvagfærasýkingum og heilahimnubólgu. Floxapen® hefur verið á markaði síðan á áttunda áratugnum og hefur sala lyfsins farið vaxandi æ síðan. Áætlaðar tekjur af sölu lyfsins á árinu 2007 eru um 12 milljónir evra (1,1 milljarður króna). Lyfið er þegar á markaði í Austurríki, Belgíu, Bretlandi, Hollandi, Írlandi, Lúxemborg, Möltu, Portúgal, Sviss og í Þýskalandi. GSK mun sjá um dreifingu á mörkuðum þar sem Actavis er ekki með starfsemi til næstu 12 mánaða og Actavis mun nýta sitt öfluga sölunet við markaðssetningu lyfsins á sínum markaðssvæðum. "Kaupin á Floxapen® eru góð viðbót við okkar lyfjaúrval, sem er í dag eitt það öflugasta á sviði samheitalyfja í heiminum. Við leitumst við að geta boðið okkar viðskiptavinum sem breiðast úrval lyfja og þau lyf sem við ekki þróum sjálf, kaupum við af þriðja aðila. Floxapen® fellur einmitt í þann flokk og hefur góða vaxtarmöguleika í sölu, segir Sigurður Óli Ólafsson, aðstoðarforstjóri Actavis um kaupin.


 

segir greiningardeild Glitnis


 

Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 0,15% og er 7.828 stig við hádegi, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Veltan nemur 2,7 milljörðum króna. 365 hefur hækkað um 7,25% í veltu sem nemur um 26 milljónum króna, Nýherji hefur hækkað um 1,15%, Exista hefur hækkað um 1,12%, Straumur-Burðarás hefur hækkað um 1,12% og Össur hefur hækkað um 0,43%. Hampiðjan hefur lækkað um 0,69%, FL Group hefur lækkað um 0,34%, Bakkavör Group hefur lækkað um 0,3% og Atorka Group hefur lækkað um 0,28%. Gengi krónu hefur styrkst um 0,04% og er 116,9 stig.


 

boðnir verði 17,5 króna á hlut í nafni nýs félags


 

samkvæmt nýjum lista tímaritsins Time


 

segja sérfræðingar á markaði


 

Nokkurra mánaða tilhugalífi Actavis og þýska lyfjafyrirtækisins Merck lauk skyndilega á miðvikudagskvöldið þegar Actavis dró sig til baka úr yfirtökuviðræðum. Halldór Kristmannsson, talsmaður Actavis, segir að heildarkostnaður vegna yfirtökutilraunar á Merck sé óverulegur. Skemmst er að minnast kostnaðarsamrar tilraunar Actavis til að yfirtaka króatíska lyfjafyrirtækið Pliva á síðasta ári án árangurs. Neikvæð fjárhagsleg áhrif vegna Pliva námu alls rúmleg tveimur milljörðum króna.


 

Sérfræðingar á markaði velta því fyrir sér hvort Kauphöllin hafi haft frumkvæði að því að stöðva viðskipti með bréf Mosaic Fashions, til að krefja félagið um svör í kjölfar frétta í erlendum miðlum um að Baugur íhugar að afskrá Mosaic.


 

frétt væntanleg


 

að því er kemur fram í frétt The Times


 

Valdir kaflar úr dagbókunum birtust á dögunum í nýjustu útgáfu bandaríska tímaritsins Vanity Fair. Heildarútgáfan, sem sagnfræðingurinn Douglas Brinkley ritstýrir, kemur svo út þann 22. maí. Reagan hélt dagbók allan sinn forsetaferil og eina tímabilið sem færslur eru ekki settar inn er þegar hann var að jafna sig eftir morðtilræðið árið 1981. Reagan er ekki með óþarfa orðvaðal þegar kemur að því að lýsa þeirri reynslu að verða fyrir byssukúlu: Hann sagði það vera sárt. Dagbókarfærslurnar benda til þess að forsetinn hafi snemma á ferli sínum verið upptekinn af uppgangi kommúnista í Mið-Ameríku en ekki er að sjá að það hafi haldið fyrir honum vöku. Einn dag árið 1981 ritar hann að bandarísk yfirvöld hafi haldgóðar sannanir um vopnasendingar kúbverskra stjórnvalda til Níkaragva. Í kjölfarið segist hann hafa horft á kvikmyndina Tribute með Jack Lemmon, sem hann segir vera frábæran leikara. Kvikmyndir eru aldrei langt á undan í dagbókarfærslunum. Meðal annars ritar Reagan um að hann hafi lofað kvikmyndaleikaranum ástsæla Jimmy Stewart að beita sér fyrir banni á að nútímatækni yrði beitt til þess að lita gamlar svarthvítar kvikmyndir. Það voru ekki eingöngu áhyggjur af uppgangi kommúnista í Rómönsku-Ameríku sem sóttu á forsetann í byrjun níunda áratugar nýliðinnar aldar. Ástandið í Miðausturlöndum sótti svo á hann að hann óttaðist að hinsta stund mankyns væri í sjónmáli.Í kjölfar þess að ísraelskir orrustuflugmenn sprengdu upp kjarnorkustöð Saddams Hussein í Írak árið 1981 segist hann óttast að dómsdagur sé í nánd. Hann gagnrýnir Menachem Begin, þáverandi forsætisráðherra Ísraels, fyrir loftárásina, en skrifar hjá sér að bandarísk stjórnvöld muni samt sem áður standa með Ísraelsmönnum. Hann segir jafnframt frá því í dagbókunum að hann hafi gagnrýnt Begin harðlega fyrir framferði ísraelska hersins í Líbanon og að hann hafi vísvitandi notað orðið "helför" í því samtali. Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.


 

Verið er að undirbúa nýja vinnulöggjöf í Kína sem er ætlað að bæta réttindi verkamanna og gefa verkalýðsfélögum meiri áhrif. Þrátt fyrir að ekki sé enn vitað hvernig löggjöfin muni endanlega líta út hefur málið þegar vakið upp ágreining á meðal bandarískra verkalýðsfélaga og stórfyrirtækja, en mörg verkalýðsfélög í Bandaríkjunum eru óánægð með þá þróun sem hefur orðið á síðustu árum að bandarískum störfum sé úthýst til Kína og annarra láglaunaþjóða í Asíu. Í síðustu viku sagði United Steelworkers (USW), eitt stærsta verkalýðsfélagið í Bandaríkjunum, að það væri hlynnt fyrirhuguðum breytingum á vinnulöggjöfinni í Kína og ásakaði um leið hóp fyrirtækja í Bandaríkjunum um að reyna hindra það að Kínverjar réðust í þessar umbætur. Forseti USW, Leo Gerard, gagnrýndi Viðskiptaráð Bandaríkjanna fyrir að heyja "siðlausa herferð í þeim tilgangi að grafa undan réttindum kínverskra verkamanna." En löggjöfin er ekki síður umdeild í Kína. Kommúnistaflokkurinn hefur heitið því að draga úr ójöfnuði sem hefur aukist hratt í Kína samhliða efnahagsuppgangi í landinu og er hinni fyrirhuguðu löggjöf ætlað að stemma stigu við þá þróun. Nýjustu tölur benda til þess að borgarbúar þéni rúmlega þrefalt meira heldur en samlandar þeirra í sveitunum. Þessi gríðarmikli ójöfnuður er þyrnir í augum kínverskra yfirvalda sem óttast að áframhaldandi þróun muni grafa undan markmiðum stjórnvalda um að stefna beri að "samfélagi samhljóma alþýðu" (e. harmonious society). Hins vegar hafa kínverskir ráðamenn það ofarlega í huga að nýja vinnulöggjöfin má ekki verða til þess að draga úr áhuga erlendra fjárfesta á að flytja starfsemi sína til Kína, en nú þegar eru mörg erlend fyrirtæki farin að flytja framleiðslu sína í meira mæli til Víetnam og Bangladesh vegna aukins launakostnaður í Kína. Sumir gagnrýnendur hafa bent á að með nýju lögunum verði mjög dregið úr sveigjanleika fyrirtækja til að segja upp starfsmönnum. Þrátt fyrir að flest vestræn fyrirtæki hafi temprað upphaflega gagnrýni sína á fyrirhugaða löggjöf þá hafa engu að síður mörg þeirra áhyggjur. Í skoðanakönnun sem lögfræðifyrirtækið Baker & McKenzie og ráðgjafarfyrirtækið Hewitt Associates gerði fyrr á þessu ári á meðal 436 fyrirtækja, kom fram að meira en helmingur þeirra taldi að nýju lögin myndu hafa neikvæð eða mjög neikvæð áhrif fyrir starfsemi þeirra í Kína.


 

Hollenskur dómstóll úrskurðaði í gær að ABN Amro verði að fresta fyrirhugaðri sölu á bandaríska bankanum LaSalle fyrir 21 milljarð Bandaríkjdala til Bank of America, en salan var hluti af samkomulagi sem bankinn hafði gert við Barclays í síðasta mánuði. Ákvörðun dómstólsins er talin líkleg til að minnka líkurnar á því að áform Barclays um að yfirtaka ABN Amro gangi eftir. Fyrirtækjahópurinn sem Royal Bank of Scotland leiðir mun hins vegar í kjölfar úrskurðarins fá meiri tíma til að leggja fram yfirtökutilboð sitt í ABN.


 

Royal Dutch Shell, næst stærsta olíufyrirtæki heimsins í einkaeigu, greindi frá því í gær að hagnaður félagsins á fyrsta ársfjórðungi þessa árs hefði aukist um 6% frá því á sama tímabili í fyrra, þrátt fyrir lækkandi olíuverð á heimsmarkaði og pólitíska ólgu sem ríkt hefur í Nígeríu. Hagnaður Shell nam samtals 7,28 milljörðum Bandaríkjadala á ársfjórðungnum, eða 1,15 dollarar á hlut. Fyrirtækið sagði að olíuframleiðsla þess að meðaltali á dag á fyrstu þremur mánuðum ársins hefði minnkað um 6% og verið 3,51 milljónir tunna, miðað við 3,75 milljónir tunna á sama tíma í fyrra. Gengi hlutabréfa í Shell hækkuðu um 2,1% í kjölfar afkomutilkynningarinnar.


 

Englandsbanki þarf að öllum líkindum að fara með stýrivexti upp í 5,75% til þess að ná tökum á verðbólgu á Bretlandi og jafnframt eru líkur á því að þeir verði komnir upp í 6% fyrir lok þessa árs. Þetta er hald matsfyrirtækisins Standard & Poor?s. Jean Michel Six, aðaðalhagfræðingur S&P í Evrópu, segir að þetta þýði 0,25% hækkanir í þessum mánuði og þeim næsta og jafnfram telur hann fjarlægan möguleiki á að Englandsbanki hækki um hálft prósentustig í næstu viku. Hann telur 40% líkur á að vextir verði komnir í 6% við lok þessa árs.


 

Tyrkneska þingið ákvað í gær að flýta fyrirhuguðum þingkosningum sem fram áttu að fara í nóvember næstkomandi og munu kosningarnar verða haldnar 22. júlí. Þessi ákvörðun AKP flokks Erdogans forsætisráðherra, sem hefur meirihluta á þingi, kemur í kjölfar þess að stjórnlagadómstóll Tyrklands úrskurðaði á þriðjudaginn að fyrsta umferð forsetakosninganna hefði verið ógild. Stjórnarandstæðingar á þinginu mótmæltu dagsetningu þingkosninganna þar sem þær færu fram á sama tíma og margir Tyrkir yrðu að heiman og hefðu því ekki möguleika á að greiða atkvæði.


 

Gistinætur á hótelum í mars síðastliðnum voru 87.600 en voru 73.700 í sama mánuði árið 2006, sem er fjölgun um 13.900 nætur eða tæplega 19% að því er kemur fram í tölum Hagstofunnar. Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum nema á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða þar sem þeim fækkaði um tæp 2%, úr 6.900 í 6.800.


 

segir greiningardeild Landsbankans


 

Hjálmur ehf. hefur keypt 28% hlut Sigurðar G. Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns í útgáfufélaginu Birtingi. Um leið hefur Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Hjálms, tekið við stjórnarformennsku Birtings og er afskiptum Sigurðar af félaginu lokið.Hjálmur ehf. er að öllu leyti í eigu Baugs Group hf. og átti 60% fyrir í Birtingi en er nú með um 90%, Elín Guðrún Ragnarsdóttir framkvæmdastjóri félagsins á 10% og þeir Reynir Traustason, Mikael Torfason og Jón Trausti Reynisson það sem eftir stendur.Að sögn Elínar eru engar breytingar áformaðar á rekstri félagsins á næstunni en það gefur út átta tímarit, en þau eru Nýtt Líf, Mannlíf, Vikan, Séð og Heyrt, Gestgjafinn, Hús og híbýli, Ísafold og Sagan öll.


 

Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 0,41% og er 7.817 stig við lok markaðar, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Veltan nam 8,4 milljörðum króna. Atlantic Petroleum hækkaði um 4,03%, Teymi hækkaði um 2,19%, Landsbankinn hækkaði um 1,58%, Straumur-Burðarás hækkaði um 1,24% og Atorka Group hækkaði um 1,14%. Össur lækkaði um 2,11%, Mosaic Fashions lækkaði um 1,2%, Flaga Group lækkaði um 0,44% og Marel lækkaði um 0,27%. Gengi krónu styrktist um 0,25% og er 117,1 stig,


 

segir í yfirlýsingu hans


 

segir greiningardeild Landsbankans


 

Greiningardeild Landsbankans mælir með kaupum og yfirvogun á bréfum Bakkavarar. Verðmat hennar er 71,4 krónur á hlut og tólf mánaða vænt verð 78,8. Lokagengi Bakkavarar í gær var 67,3.?Afkoma á fyrsta ársfjórðungi var yfir væntingum og útlit fyrir mjög gott ár, ekki síst í ljósi þess að fyrsti ársfjórðungur er að jafnaði slakasti fjórðungur ársins. Bakkavör ætlar sér að vera leiðandi í samþjöppun á breska matvælamarkaðnum á næstunni og styður nýafstaðin endurfjármögnun og heimild til hlutafjáraukningar það,? segir greiningardeildin.Hún segir að uppfærsla rekstrarspár og lækkun fjármagnskostnaðar koma til hækkunar en á móti kemur styrking krónunnar gangvart pundi undanfarið og almennar vaxtahækkanir í Bretlandi.


 

Halli á vöruskiptum við útlönd var 11,3 milljarðar króna í apríl, samkvæmt bráðabirgðatölum. ?Þetta er meiri halli en samanlagður halli á fyrsta ársfjórðungi þessa árs sem var rétt rúmir níu milljarðar króna. Þessi mikli halli í aprílmánuði virðist aðallega mega rekja til minni útflutnings,? segir greiningardeild Glitnis sem bendir á að miklar sveiflur geta verið í utanríkisviðskiptum milli mánaða. ?Viðskipti með stærri hluti eins og skip og flugvélar hafa til dæmis töluverð áhrif á mánaðarlegar tölur um utanríkisviðskipti,? segir hún. Hún segir þrátt fyrir mikinn vöruskiptahalla í apríl má gera ráð fyrir að hallinn dvíni þegar líður á árið eins og þróunin hefur reyndar verið undanfarna mánuði. ?Útflutningur áls mun aukast jafnt og þétt þegar líður á árið samfara því sem ný álverksmiðja verður tekin í notkun á Reyðarfirði í áföngum. Að sama skapi má ætla að innflutningur dragist saman. Enn er töluverður innflutningur á fjárfestingarvöru sem gera má ráð fyrir að dragist hratt saman þegar framkvæmdum tengdum stóriðju á Austurlandi lýkur á árinu. Einnig má ætla að hægja muni á innflutningi neysluvöru þegar líður á árið. Á heildina litið má því gera ráð fyrir frekari bata á vöruskiptum við útlönd á þessu ári, og að vöruskiptahalli reynist tiltölulega lítill á næsta ári,? segir greiningardeildin.


 

Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 0,2% og er 7.800 stig við hádegi, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Veltan nemur 4,9 milljörðum króna. Straumur-Burðarás hefur hækkað um 1,73%, Landsbankinn hefur hækkað um 1,44% - en bankinn birti uppgjör sitt í morgun, Atlantic Petroleum hefur hækkað um 1,34%, Teymi hefur hækkað um 1,31% og Actavis Group hefur hækkað um 0,64% en félagið tilkynnti í morgun að það hefur hætt við að yfirtaka Merck. Össur hefur lækkað um 1,69%, FL Group hefur lækkað um 0,86%, Mosaic Fashions hefur lækkað um 0,61%, Flaga Group hefur lækkað um 0,44% og Icelandic Group hefur lækkað um 0,37%. Gengi krónu hefur styrkst um 0,31% og er 117,1 stig.


 

Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, var dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir aðild að Baugsmálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í hádeginu í dag. Tryggvi Jónsson, fyrrverandi forstjóri félagsins, hlaut níu mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir aðild að málinu. En ákærulið á hendur Jóni Gerald Sullenberger var vísað frá.


 

Actavis hefur dregið sig út úr viðræðum um kaup á Merck. Félagið hefur framkvæmt ítarlega áreiðanleikakönnun á Merck og skilgreint fjölmörg áhugaverð samlegðartækifæri með félögunum segir í frétt félagsins. "Hinsvegar telur stjórn Actavis að það verð sem talið er að samkeppnisaðilar hafi boðið í félagið, vera orðið mun hærra en svo að það þjóni hagsmunum hluthafa félagsins að halda áfram samningaviðræðum," segir í tilkynningunni.


 

Vísitala neysluverðs hækkaði um 5,3% frá apríl 2006 til jafnlengdar í ár, segir í tilkynningu Hagstofunnar.


 

Atvinnuleysi á evrusvæðinu hefur ekki verið minna frá því að mælingar hófust árið 1993. Í marsmánuði mældist atvinnuleysi 7,2% á ársgrundvelli í þeim þrettán ríkjum sem nota evruna sem gjaldmiðil. Helsta ástæða þessa minnkandi atvinnuleysis er rakin til betri horfa í efnahagslífi Þýskalands og Frakklands, en einnig í Írlandi, Belgíu, Hollandi og Slóveníu. Seðlabanki Evrópu fylgist grannt með þessari þróun. Áhyggjur af vaxandi þenslu á vinnumarkaði í kjölfar aukins hagvaxtar gætu gert það að verkum að launahækkanir yrðu meiri heldur en innistæða væri fyrir. Slíkt myndi skapa verðbólguþrýsting og leiða til enn frekari stýrivaxtahækkana Seðlabankans. Greiningaraðilar gera ráð fyrir því að Seðlabanki Evrópu muni hækka stýrivexti sína úr 3,75% upp í 4% í júnímánuði og jafnvel aftur síðar á árinu. Það hægðist hins vegar aðeins á þeim viðsnúningi sem hefur átt sér stað á þýskum vinnumarkaði í síðasta mánuði, samkvæmt nýjum hagtölum. Þrátt fyrir að hagfræðingar segi að þær tölur hafi verið ákveðin vonbrigði þá bendir ekki neitt til annars en að sá efnahagsuppgangur sem ríkt hefur í Þýskalandi muni halda áfram. Vinnumálaráðherrann Franz Müntefering greindi frá því í gær að fjöldi atvinnulausra í Þýskalandi sé kominn undir fjórar milljónir í fyrsta skipti frá því árið 2002. Síðustu tvö ár hefur atvinnulausum þar með fækkað um 1,2 milljónir og 750 þúsund störf hafa verið sköpuð í hagkerfinu á sama tíma. Hin efnahagslega viðreisn í stærsta hagkerfi Evrópu hefur ekki eingöngu verið til góða fyrir hinn öfluga iðnað landsins - enda þótt hann hafi hagnast hvað mest. Þau mörgu ummerki sem eru til staðar um að efnahagur Þýskalands sé farinn að teka hressilega við sér hefur orðið til þess að mörg verkalýðsfélög í landinu eru þegar farin að krefjast töluvert hærri launa fyrir félagsmenn sína.


 

Fimm milljarða Bandaríkjadala yfirtökutilboði Ruberts Murdochs í bandaríska útgáfufélagið Dow Jones, sem meðal annars gefur út dagblaðið Wall Street Journal, var hafnað í gær af ráðandi hluthöfum félagsins. Þrátt fyrir að tilboðinu hafi verið hafnað er óljóst hvort Bancroft fjölskyldan, sem á 24% hlut í Dow Jones og fer með um 62% atkvæða í fyrirtækinu, er andvíg tilboðinu eða sé einungis að reyna að fá News Corp., fjölmiðlafélag Murdoch, til að hækka tilboð sitt enn frekar, en klofningur varð á meðal hluthafa um hvort rétt væri að fallast á tilboðið. Það hefur ýtt undir þann orðróm að von sé á tilboðum frá öðrum fjölmiðlasamsteypum eða fjárfestingarsjóðum, sem gæti leitt til verðstríðs um Dow Jones. General Electric - sem er eigandi að CNBC viðskiptasjónvarpsstöðinni - og bandaríska dagblaðið Washington Post hafa verið nefnd til sögunnar í þessu samhengi. Samkvæmt heimildarmönnum Financial Times sem vel þekkja til málsins var tilboð Murdoch lagt fyrir stjórn Dow Jones fyrir tveimur vikum síðan. Yfirtökutilboðið hljóðaði upp á 60 dollara fyrir hvern hlut og að greitt yrði með peningum. Í kjölfar þess að fréttir bárust af tilboðinu á þriðjudaginn hækkaði gengi bréfa í Dow Jones um 57%, eða upp í 57,28 dollara, áður en ákveðið var að loka fyrir frekari viðskipti með bréfin. Það hefur lengið legið ljóst fyrir að Murdoch ásældist Wall Street Journal sökum þeirrar hægri sinnuðu ritstjórnarstefnu sem blaðið aðhyllist. En núna á allra síðustu mánuðum hefur hann hins vegar horft til yfirtöku á blaðinu sem hagkvæma leið til að efla stöðu sína á markaði áður en hann stofnar viðskiptakapalstöð sem hann hyggst hleypa af stokkunum síðar á þessu ári. Í viðtali sem tekið var við Murdoch á sjónvarpsstöðinni Fox News - sem News Corp. er eigandi að - sagði hann að Wall Street Journal væri "stærsta blað Bandaríkjanna - eitt það stórkostlegasta í heiminum. En það þarf að vera hluti af stærra fyrirtæki til þess að hægt sé að þróa það enn frekar." Hlutabréf í News Corp. féllu um 4% í gær sökum þess að fjárfestar hafa miklar efasemdir um ákvörðun Murdoch að fjárfesta í dagblaðastarfsemi á sama tíma og lesendur og auglýsendur eru í síauknum mæli að færa sig yfir á internetið.


 

Hollenskur dómstóll mun í dag úrskurða um hvort stöðva eigi sölu ABN Amro á bandaríska bankanum LaSalle til Bank of America fyrir 21 milljarða Bandaríkjdala, en salan var hluti af samkomulagi sem bankinn gerði við Barclays 23. apríl síðastliðinn. Á sama tíma er fyrirtækjahópurinn sem samanstendur af Royal Bank of Scotland (RBS), Fortis og Santander í kapphlaupi við tímann um að leggja lokahönd á yfirtökutilboð sitt í hollenska bankann, en það verður að vera lagt fram fyrir miðnætti á sunnudaginn. Framkvæmdastjóri ABN, Rijkman Groenink, krafðist þess á þriðjudaginn að RBS - sem fer fyrir hópnum - gefi nákvæmari upplýsingar um áform sín en hópurinn hefur gefið það út að hann hyggist búta niður starfsemi ABN Amro. Breski vogunarsjóðurinn The Children´s Investment Fund, sem á eitt prósent hlut í bankanum og hefur barist hart fyrir því að samið verði við RBS-hópinn í stað Barclays, kallaði eftir því á þriðjudaginn að stjórn ABN myndi segja Groenink tafarlaust upp störfum og taka yfir söluferlið. Í bréfi sem sjóðurinn sendi frá sér til Arthur Martinez, stjórnarformanns ABN, segir að "Groenink hafi misst allan trúverðgleika og hafi mistekist að hafa hagsmuni hluthafa að leiðarljósi í störfum sínum." Í bréfinu sem Groenink sendi hins vegar RBS-hópnum - og Financial Times komst yfir - kemur fram að hann hafi ákveðnar efasemdir um hvernig bankarnir hyggist fjármagna yfirtökuna á ABN, en búist er við því að yfirtökutilboðið verði fjármagnað að 70% hluta með peningum og afgangurinn með hlutabréfum í RBS. Margir hluthafar í ABN Amro hafa aftur á móti ásakað Groenink um að vera með þessum bréfaskriftum að reyna að hindra með óeðlilegum hætti yfirtöku RBS-hópsins.


 

Fjárfestingarbankinn JP Morgan Chase greindi frá því í gær að bankinn hefði valið City fjármálahverfið í London fyrir nýjar höfuðstöðvar sínar í Evrópu. Ákvörðunin er bakslag fyrir helsta keppinaut City, fjármálahverfið Canary Wharf í London. Nýja byggingin mun verða um 900 þúsund fermetrar að stærð og hýsa fjárfestingarbankastarfsemi JP Morgan. Í tilkynningu sem JP Morgan sendi frá sér sagðist bankinn hafa valið City vegna góðrar staðsetningar, af hagkvæmisástæðum og vegna frábærra byggingargæða.


 

Bandaríska fjármálafyrirtækið Citigroup samþykkti í gær að kaupa Bisys Group Inc. fyrir 1,45 milljarða Bandaríkjadala, en félagið hyggst með því auka enn frekar við þjónustu sína í starfsemi vogunar- og fjárfestingarsjóða. Hluthafar í Bisys, sem hefur boðið upp á fjármálaþjónustu fyrir banka sem kjósa að úthýsa ákveðnum verkefnum, munu fá 11,85 dollara í peningum fyrir hvern hlut auk sérstakrar arðgreiðslu upp á fimmtán sent á hlut. Í samkomulaginu er einnig gert ráð fyrir að Citigroup muni selja tryggingar og lífeyrissjóðseiningar Bisys til J.C Flowers og þannig minnka heildargreiðsluna fyrir félagið í 800 milljónir dollara.


 

Credit Suisse tilkynnti í gær að hagnaður félagsins á fyrsta ársfjórðungi þessa árs hefði hækkað um 5%, samanborið við sama tímabil í fyrra. Hagnaðaraukningin var aðallega tilkomin vegna hagstæðs umhverfis á hluta- og skuldabréfamörkuðum og þóknunartekna frá fjársterkum viðskiptavinum. Samtals nam hagnaðurinn 2,7 milljörðum franka á ársfjórðungnum, en greiningaraðilar höfðu spáð að meðaltali hagnaði upp á 2,61 milljarða franka.


 

Hagnaður Landsbanka Íslands á tímabilinu var 13,8 milljarðar króna eftir skatta samanborið við 14,3 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi 2006. Hagnaður fjórða ársfjórðungs 2006 nam 14,1 milljarði króna. Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 45,2% samanborið við 36,3% á öllu árinu 2006 að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.  Grunntekjur samstæðunnar (vaxtamunur og þjónustutekjur) námu 20,6 milljörðum króna og jukust þær um 4,8 milljarða króna eða 31% samanborið við fyrsta ársfjórðung 2006 og 3,1 milljarð króna eða 17% samanborið við fjórða ársfjórðung 2006. Tekjur af erlendri starfsemi námu 12,3 milljörðum króna eða 42% af heildartekjum. Grunntekjur erlendrar starfsemi námu 10,7 milljörðum króna eða 52% af grunntekjum samstæðunnar á fyrsta ársfjórðungi 2007. Kostnaðarhlutfall tímabilsins reiknast 42,2%.  Gengismunur og fjárfestingatekjur námu 8,8 milljörðum króna samanborið við 1,2 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi 2006. Heildareignir bankans námu 2.317 milljörðum króna í lok mars 2007. Heildareignir bankans í evrum námu 26,3 milljörðum í lok mars 2007 samanborið við 23,2 milljarða evra í byrjun ársins. Innlán viðskiptavina jukust um 34% á fyrsta ársfjórðungi 2007 og námu 913 milljörðum króna í lok mars. Nema innlánin 62% af heildarútlánum til viðskiptavina samanborið við 48% í byrjun ársins.  Eiginfjárhlutfall (CAD) var 13,4% í lok mars 2007. Eiginfjárþáttur A var 11,7%.  ?Ég er mjög ánægður með afkomu Landsbankans á fyrsta ársfjórðungi 2007. Hagnaður eftir skatta nam tæpum 14 milljörðum króna og arðsemi eigin fjár var 45%. Tekjumyndun bankans er byggð á traustum og breiðum grunni, sem endurspeglast í góðum vexti grunntekna samstæðunnar, en þær jukust um 17% frá síðasta ársfjórðungi og 31% miðað við sama tímabil á fyrra ári. Samþætting erlendra dótturfélaga og starfsstöðva hefur gengið mjög vel og stefna bankans um sókn inn á alþjóðlegan markað meðalstórra fyrirtækja miðar vel. Velgengni bankans á innlánahlið hélt áfram á ársfjórðungnum, einkum í gegnum Icesave, og er 62% af heildarútlánum samstæðunnar nú fjármagnað með innlánum. Þessi þróun treystir efnahagsreikning bankans umtalsvert. Það er óhætt að segja að árið 2007 hafi farið vel af stað hjá Landsbankanum," segir Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri í tilkynningu félagsins. ?Niðurstaða fyrsta ársfjórðungs 2007 endurspeglar sterka stöðu Landsbankans, þar sem afkoma og arðsemi er með besta móti. Það má segja að ákveðin ró sé komin á umræðuna um íslensk fjármálafyrirtæki, eftir umrótasöm misseri. Moody´s gaf út nýtt lánshæfismat fyrir Landsbankann samkvæmt nýrri aðferðafræði, JDA. Samkvæmt henni hækkaði bankinn um 2 þrep, úr A2 í Aa3 og horfur um fjárhagslegan styrk fóru úr ?neikvæðum? í ?stöðugar?. Álag á skuldabréf bankans á eftirmarkaði hefur farið lækkandi og undanfarið hefur það verið um 20-22 punktar á bréf með 5 ára líftíma. Hækkað lánshæfismat, mikill vöxtur erlendra innlána og sterk lausafjárstaða samhliða áframhaldandi vexti hreinna vaxtatekna og þóknunartekna er það sem stendur upp úr á fyrsta ársfjórðungi 2007," segir Halldór J. Kristjánsson bankastjóri í fréttinni.


 

ávöxtun íslenskra fjárfesta nærri fimmföld


 

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, hefur keypt bæinn Kirkjuhvol í Þykkvabæ og flutt lögheimili sitt þangað frá Hafnafirðinum að því er segir í frétt sunnlenska fréttavefsins sudurland.is. Þar er haft eftir aðstoðarmanni Árna að fjármáðherra hyggist hafa annan fótinn í Þykkvabæ en búa áfram í Hafnafirði stærstan hluta árs.


 

Gengi krónu hefur ekki verið hærra frá því að hún var að veikjast í mars í fyrra og hefur styrkst um 9% frá áramótum, að sögn greiningardeildar Landsbankans. Lokagildi krónu var 117,4, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. "Meðal þess sem hefur haft áhrif til styrkingar er mikil jöklabréfaútgáfa á fyrstu mánuðum ársins. Í dag voru til að mynda gefin út jöklabréf fyrir fjóra milljarða króna en sama fjárhæð var á gjalddaga í dag," segir greiningardeildin. Greiningardeild Kaupþings telur að hár vaxtamunur við útlönd, ásamt loforði Seðlabankans um að hækka vexti ef krónan gefur eftir, muni viðhalda sterkri krónu á næstu mánuðum. "Hinsvegar gerum við ráð fyrir að krónan lækki nokkuð á næsta ári samhliða vaxtalækkunum Seðlabankans og að gengisvísitalan verði kringum 130 stig að meðaltali árið 2008," segir hún. Þá vekur hún athygli á að gengi krónunnar styrktist á mánudaginn síðastliðinn þrátt fyrir að aðrar hávaxtamyntir hafi margar hverjar lækkað í kjölfar umróts í stjórnmálum og á mörkuðum í Tyrklandi. "Áhyggjur fjárfesta af framgangi mála í Tyrklandi hafa hinsvegar farið dvínandi og hafa hávaxtagjaldmiðlar nú náð sér á strik á ný," segir greiningardeild Kaupþings.


 

Þrjú tilboð bárust í 16,667% eignarhlut ríkisins í Baðfélagi Mývatnssveitar hf. þegar tilboðin voru opnuð. Félag í eigu Blá lónsins átti hæsta boðið að fjárhæð 24 milljónir króna.


 

segir forstjóri TM


 

Handelsbanken verður aðili að OMX Nordic Exchange á Íslandi frá og með miðvikudeginum 2. maí. Bankinn getur þar með hafið viðskipti á íslenska hlutabréfamarkaðnum. Þetta kemur fram í tilkynningu.Handelsbanken er nú þegar aðili að Nordic Exchange í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi og Helsinki. Handelsbanken er fyrsta alþjóðlega fjármálastofnunin sem verður aðili að íslenska verðbréfamarkaðnum eftir samruna Kauphallarinnar við OMX Nordic Exchange í árslok 2006. Handelsbanken verður þar með fullgildur aðili að Nordic Exchange á Norðurlöndunum.?OMX Nordic Exchange á Íslandi býður Handelsbanken innilega velkominn. Útvíkkun bankans á aðild sinni sýnir svo ekki verður um villst að samruninn við OMX hefur fært íslenska markaðnum aukinn sýnileika. Handelsbanken er fyrsti aðilinn sem bætir Íslandi við OMX-aðild sína á Norðurlöndunum og við erum þess fullviss að fleiri munu fylgja í kjölfarið á næstu mánuðum. Bankinn mun núna geta boðið viðskiptavinum sínum upp á ýmis ný tækifæri gegnum sömu tengingu við Nordic Exchange og áður,? segir Þórður Friðjónsson, forstjóri OMX Nordic Exchange á Íslandi.Handelsbanken er alþjóðlegur banki sem var stofnaður 1871. Hann er stærsti bankinn í Svíþjóð og þriðji stærsti bankinn á Norðurlöndunum í útlánum til einstaklinga. Bankinn rekur 600 útibú og er með starfsemi í 20 löndum. Heildareignir hans eru jafnvirði 1.790 milljarða sænskra króna og hann skilaði 17,2 milljarða hagnaði á árinu 2006. Hjá bankanum starfa 10.000 starfsmenn og lánshæfismat hans er: Moody?s Aa1, S&P AA-, Fitch AA-.


 

Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 0,09% og er 7.762 stig við hádegi, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Veltan nemur 11,6 milljörðum króna. Atlantic Petroleum hefur hækkað um 4,2%, Mosaic Fashions hefur hækkað um 1,85%, Glitnir hefur hækkað um 1,69%, Teymi hefur hækkað um 0,87% og Atorka Group hefur hækkað um 0,86%. Össur hefur lækkað um 2,47%, Landsbankinn hefur lækkað um 0,58%, Kaupþing hefur lækkað um 0,37%, Exista hefur lækkað um 0,32% og Bakkavör Group hefur lækkað um 0,3%. Gengi krónu hefur styrkst um 0,44% og er 117,5 stig.


 

Lárus Welding, nýráðinn forstjóri Glitnis, hefur keypt í bankanum fyrir 3,99 milljarða króna, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni. Um er að ræða 150 milljónir hluta á genginu 26,6 en við hádegi er markaðsgengið 27,05 krónur á hlut. Umræddur kaupréttarsamningur er til fimm ára og ávinnast 20% hans á hverju ári á því tímabili. Kaupréttarverðið leiðréttist fyrir arðgreiðslum.


 

Bjarni Ármannsson fráfarandi forstjóri Glitnis hefur selt alla hluti sína í bankanum fyrir 6,8 milljarða króna, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni. Gengi viðskiptana er 29 krónur á hlut en markaðsgengi er 26,9 við hádegi. Um er að ræða 82.443.983 hluti sem voru í eigu Sjávarsýnar ehf. og 152.513.517 hluti í eigu Landsýnar ehf. Bæði félög eru í 100% eigu fruminnherjans.


 

Bakkavör Group hefur keypt franska salatframleiðandann 4G, sem sérhæfir sig í framleiðslu á ferskum tilbúnum salötum fyrir franskan markað. Stefnt er að því að samþætta rekstur 4G rekstri salatframleiðandans Cinguieme Saison, sem fyrir er í eigu félagsins. Kaupin koma til með auka framleiðslugetu og styrkja samband Bakkavör Group við viðskiptavini félagsins í Frakklandi auk þess sem þau skapa jafnframt tækifæri til frekari hagræðingar í rekstri. Þetta kemur fram í tilkynningu. 4G einbeitir sér að framleiðslu ferskra tilbúinna salatafurða undir vörumerkjum viðskiptavina sinna en hefur jafnframt náð umtalsverðum árangri í sölu á vörum undir eigin vörumerki, ?Vert Desire?. Velta fyrirtækisins er 2,3 milljarðar króna (26,3 milljónir evra) og skiptir félagið við alla helstu stórmarkaði Frakklands. 4G, sem var stofnað árið 2002, rekur eina verksmiðju í Macon, 70 km norður af Lyon í Frakklandi og er með 165 starfsmenn. Kaupin eru fjármögnuð úr sjóðum félagsins og er kaupverðið trúnaðarmál. 4G verður hluti af Bakkavör Group frá kaupdegi en kaupin munu hafa óveruleg áhrif á afkomu félagsins á þessu ári. ?4G fellur vel að þeim fyrirtækjum sem fyrir eru í eigu Bakkavör Group og teljum við að kaupin komi til með að styrkja stöðu félagsins á markaðinum fyrir tilbúin salöt í Frakklandi, í samræmi við langtímastefnu félagsins," segir Ágúst Gudmundsson forstjóri.


 

Sala hátæknifyrirtækisins Össurar var 80,4 milljónir Bandaríkjadala (5,5 milljarðar íslenskra króna) á fyrsta ársfjórðungi og jókst um 34% frá fyrsta fjórðungi 2006.  Söluaukning vegna innri vaxtar var 4% og Pro forma söluaukning var 7% að því er kemur fram í tilkynningu félagsins til kauphallarinnar. Hagnaður fyrir afskriftir, vexti og skatta (EBITDA) var 10,2 milljónir dala (698 milljónir íslenskra króna), jókst um 19% frá fyrsta fjórðungi 2006. EBITDA hlutfall var 12,7%, lækkar úr 14,3% fyrir sama tímabil í fyrra Tap tímabilsins var 2,7 milljónir Bandaríkjadala (184 milljónir íslenskra króna) samanborið við 571 þúsund Bandaríkjadala hagnað á fyrsta fjórðungi 2006. ?Við hófum umfangsmikla endurskipulagningu á sölukerfi okkar í Ameríku í febrúar. Verkefnið er liður í lokaáfanga samþættingar á stuðningstækjafyrirtækjunum sem við höfum keypt í norður Ameríku. Þetta kemur niður á söluvexti og rekstrarniðurstöðum til skemmri tíma litið, en sé litið til lengri tíma munu breytingarnar hafa verulega jákvæð áhrif. Það eru krefjandi tímar framundan en við sjáum nú fyrir endan á þessu tímabili og hlökkum til þess að uppskera árangurinn. Í Evrópu sjáum við hægan viðsnúning; niðurstöður eru sérlega ánægjulegar í Bretlandi og í Þýskalandi," sagði Jón Sigurðsson, forstjóri í tilkynningu félagsins.  


 

Á aðalfundum VBS fjárfestingarbanka hf. og FSP hf. sem haldnir voru í gær var samþykkt að sameina félögin undir nafni VBS fjárfestingarbanka hf. í samræmi við samrunaáætlun frá 9. mars 2007. Samruninn er háður samþykkiFjármálaeftirlitsins.Fram kom að samkvæmt drögum að rekstrarniðurstöðu sameinaðs félags á fyrstu þremur mánuðum ársins væri hagnaður fyrir skatta um 550 milljónum króna og greinist hann þannig í milljjónum króna:Hreinar vaxtatekjur 156Tekjur af eignarhlutum 410Þóknanatekjur og aðrar rekstrartekjur 147Önnur rekstrargjöld -115Framlag í afskriftareiknig útlána - 48Hagnaður fyrir skatta 550 milljónirNý stjórn er skipuð þeim Gísla Kjartanssyni sem jafnframt er formaður stjórnar, Gunnari Árnasyni, Símoni Sigurpálssyni, Páli Magnússyni og Þresti Leóssyni. Varamenn í stjórn eru Ólafur Elísson, Guðmundur Ingi Jónsson, Birgir Ómar Haraldsson, Jón Kristjánsson og Kristinn Ágúst Ingólfsson.


 

Jarðboranir hf. undirrituðu í dag, að viðstöddum iðnaðar- og viðskiptaráðherra, samning við þýska fyrirtækið Herrenknecht Vertical GmbH um kaup og kauprétt á hátæknivæddum stórborum sem eru sérstaklega hannaðir til að afla jarðhita á miklu dýpi. Þetta verða stærstu og öflugustu borar í tækjaflota Jarðborana en þeir eru tvöfalt öflugri en núverandi borar félagsins. Heildarvirði samningsins er um 6 milljarðar króna segir í frétt félagsins.


Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.