Þakíbúð með ásett verð upp á 75 milljónir Bandaríkjadala, um 9,3 milljarða króna, er væntanleg á markað í Los Angeles. Ef hún selst á ásettu verði yrði hún dýrasta íbúð í sögu L.A, að því er kemur fram í grein hjá Wall Street Journal. Íbúðin er á tveimur hæðum og er 1.200 fermetrar að stærð. Hún er ein af sextíu lúxusíbúðum í tólf hæða Four Seasons fjölbýlishúsi.

Jonathan Genton, framkvæmdastjóri byggingarverkefnisins, segir að hann hafi keypt lóðina fyrir um áratug síðan en að byggingu hússins hafi ekki lokið fyrr en nýlega vegna seinkana af völdum faraldursins. Sala á íbúðum í húsinu hafi byrjað árið 2018 og hafa um 70% íbúða nú þegar verið seldar og margir íbúar fluttir inn.

Verðbil íbúðanna er nokkuð breitt, en ódýrustu íbúðirnar til sölu eru settar á 3,5 milljónir dala. Dýrasta íbúðin hingað til var seld á 18,5 milljónir dala.

Ekkja framleiðanda 90210 og Melrose Place á metið

Hæsta verð sem greitt hefur verið fyrir íbúð í L.A. er 35 milljóna dala þakíbúð í Century hverfinu sem Candy Spelling festi kaup á árið 2010, að því er kemur fram í frétt WSJ. Hún er ekkja Aaron Spelling, eins afkastamesta sjónvarpsframleiðanda allra tíma, en hann framleiddi meðal annars hina vinsælu raunveruleikaþætti Beverly Hills 90210 og Melrose Place.

Hæsta verð sem greitt hefur verið fyrir einbýlishús í L.A. er síðan 177 milljóna dala einbýlishús í Malibu sem Marc Andreesen og eiginkona hans Laura Arrilaga-Andreesen keyptu í fyrra, en tískumógullinn Serge Azria seldi þeim húsið.

Ónæmi gegn papparössum

Í húsinu má finna ýmsa afþreyingu á borð við IMAX-bíósal, sundlaug, setustofu og veitingastað, en húsið býður einnig upp á hátæknilega öryggisgæslu.

Genton lýsir húsinu sem ónæmu fyrir papparössum, en íbúar hússins geta keyrt inn í neðanjarðar einkabílskúr og farið þaðan í lyftu sem leiðir þá beint upp í íbúð. Húsið býður einnig upp á einkabílskúr innan einkabílskúrsins ef íbúar eru feimnir við nágranna sína.