Alphabet, eigandi Youtube, hefur náð samkomulagi við The National Football League (NFL) um að sýna frá sunnudagsleikjum deildarinnar. Samningurinn gildir til næstu sjö ára. Þetta kemur fram í frétt hjá The Times.

Youtube mun greiða í kringum 2 milljarða dala á hverju ári á meðan samningurinn er í gildi, eða sem nemur 290 milljörðum króna. Það gerir samtals um tvö þúsund milljarða króna yfir árin sjö.

Á síðastliðnum árum hefur kapalsjónvarpsstöðin DirecTV sýnt frá sunnudagsleikjunum. Stöðin var með samning við NFL upp á 1,5 milljarða dala á ári, sem rennur út á næsta ári.

Íþróttir sýndar á streymisveitum

Tæknirisarnir vestanhafs eru farnir að gera sig gildandi á þessum markaði.

Apple gerði á dögunum 10 ára samning við Major League Soccer, fótboltadeildina vestanhafs, um að sýna frá leikjum deildarinnar á Apple TV. Þá hefur Apple einnig náð samkomulagi við hafnaboltadeildina Major League Baseball um að sýna leiki deildarinnar næstu árin.

Amazon hefur einnig samið við NFL um að sýna fimmtudagsleiki deildarinnar á streymisveitu sinni Prime. Samningur Amazon við NFL gildir til næstu ellefu ára.

Í frétt CNBC segir jafnframt að Apple, Amazon og Disney, sem rekur sjónvarpsstöðina ESPN, hafi öll haft mikinn áhuga á að sýna frá sunnudagsleikjum NFL. Á endanum sýndi Alphabet mestan áhuga og verða sunnudagsleikirnir því sýndir á Youtube TV.