66°Norður opnaði formlega nýja verslun á Regent Street í London í gær. Verslunin er 330 fermetrar að stærð og verður flaggskip verslana 66°Norður. Um er að ræða fyrstu verslun fyrirtækisins utan Íslands og Danmerkur.

„Við vorum búin að rannsaka markaðinn vel og sjáum bæði á þeim niðurstöðum og vefverslun okkar að Bretar eru mjög móttækilegir fyrir vörumerkinu. Fyrsti dagurinn fór mjög vel af stað í sölu og erum við mjög spennt fyrir komandi vikum í jólaversluninni í London,“ segir Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri 66°Norðurs, í tilkynningu.

Viðskiptablaðið sagði fyrst frá áformum 66°Norðurs um opnun verslunar í miðborg London sem og verslunar við Austurhöfn í maí síðastliðnum.

London stærsta sviðið

Fyrirtækið segir að nýja verslunin á Regent Street sé hönnuð með skírskotun í íslenska náttúru og landslag en arkitektastofan Gonzalez Haase hannaði rýmið.

„Í búðinni má einnig finna íslenska útilykt en ilmurinn sem 66°Norður og Fischersund hönnuðu saman má finna þegar gengið er inn í verslunina og má því segja að fólk komist hálfa leiðina til Íslands í miðri London hjá 66°Norður.“

66°Norður opnaði sína fyrstu verslun í Kaupmannahöfn árið 2014 og rekur fyrirtækið nú tvær verslanir í dönsku höfuðborginni. Fyrr í haust opnaði fyrirtækið pop-up verslun í Soho sem var opin í 66 daga á meðan undirbúningur var í fullum gangi í húsnæðinu á Regent Street. Þá hóf 66°Norður einnig sölu á fatnaði sínum í verslunum END Clothing í Bretlandi í síðustu viku.

„Við erum virkilega stolt af þessari verslun og geta miðlað vörumerkinu og sögu þess með einstökum hætti þegar kemur að búðarupplifun til nýrra viðskiptavina hér í Bretlandi. London er stærsta sviðið þegar kemur að smásölu á fatnaði og þetta er stórt skref fyrir fyrirtækið og mikil fjárfesting,“ segir Helgi Rúnar.

Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri 66°Norðurs, í nýju versluninni á Regent Street í gær.
© Aðsend mynd (AÐSEND)
© Aðsend mynd (AÐSEND)
© Aðsend mynd (AÐSEND)
© Aðsend mynd (AÐSEND)