Akur, veitingastaður og vínbar hefur opnað á Hafnartorgi. „Formleg opnun á staðnum verður eftir nokkrar vikur þegar að Gallerýið á Hafnartorgi opnar en þar sem staðurinn er nú þegar tilbúinn, ákváðum við að taka smá þjófstart,“ segir Böðvar Lemacks, yfirkokkur og einn eiganda Akurs, í tilkynningu.

Akur er á jarðhæð Austurhafnar, við Bryggjugötu 4A og er hluti af hinu stækkaða Hafnartorgssvæði á milli Lækjartorgs og Hörpu. Úr gluggum Akurs er útsýni yfir gömlu höfnina.

Böðvar segir sérstöðu Akurs einkum vera sterk áhrif frá frönsku eldhúsi og norrænum kröfum um hráefnaval. Matseðillinn sé síbreytilegur til að tryggja að sem ferskast hráefni hverju sinni.

„Val á hráefni er númer eitt, tvö og þrjú á Akri. Hráefnið og meðferð þess skiptir höfuðmáli; þess vegna horfum við mikið til árstíðanna, hvar og hvenær íslenskt hráefni nýtur sín best og mótum svo matseðilinn eftir því. Hann verður því síbreytilegur og í stöðugri mótun eftir því hvað við höfum að vinna með hverju sinni.“

Sjálfur hefur Böðvar mikla reynslu af veitingarekstri en hann hefur undanfarin ár rekið veitingastaðinn Kröst sem staðsettur er á Hlemm mathöll. Þar áður vann Böðvar m.a. á Argentínu, Apótekinu & Grillmarkaðnum. Hann á ekki langt að sækja áhugann á matreiðslu því í fjölskyldunni eru margir kokkar og áhugi á mat og matreiðslu afar mikill. Með Böðvari í eldhúsinu er hinn danski John Steen Pedersen, yfirkokkur á Akri. Hann hefur m.a. unnið á Dill, Agern í NY og D.O.M. í Sao Paulo.

Eitt af því einkennir Akur er áhersla á gott úrval vína en á vínlistanum verða yfir 200 víntegundir.

„Frakkland og vínsvæði í nágrenni Frakklands verða í aðalhlutverki á vínlistanum, sem verður stór á alla mælikvarða. Við munum einkum bjóða upp á vín frá Champagne & Bourgougne í Frakklandi“, segir Böðvar. „Þeir sem við kaupum frá eru gjarnan minni vínframleiðendur sem hafa mikla ástríðu fyrir framleiðslu sinni og nota lífræna aðferðafræði við ræktun verða í aðalhlutverki. Þess má að lokum geta að frá hinum einstaka framleiðanda Koehler-Ruprecht Pfalz í Rínarlandi koma margar útgáfur af þurrum Riesling vínum.“