Starfsteymi DNEG sem sá um tæknibrellurnar í kvikmyndinni Dune hlaut Óskarsverðlaun fyrir bestu tæknibrellurnar á verðlaunahátíðinni sem fór fram í gær.

Viðskiptablaðið sagði frá því síðasta sumar þegar Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, eignaðist 15% hlut í DNEG við 250 milljóna dala fjárfestingu, eða sem nemur 32 milljörðum króna, í móðurfélaginu Prime Focus.

Sjá einnig: Brellufélag Björgólfs á leið á markað

Í janúar síðastliðnum samþykkti DNEG að fara á markað með samruna við sérhæft yfirtökufélag og samhliða því stefnir fyrirtækið að sækja sér 168 milljónir dala í hlutafjáraukningu. Þá kom fram að Novator verði einn af leiðandi fjárfestunum í fjármögnunarlotunni.

Um er að ræða sjöttu Óskarsverðlaun sem teymi á vegum DNEG hlýtur á síðustu átta árum. Áður hafði fyrirtækið hlotið Óskarinn fyrir myndirnar Inception, Interstellar, Ex Machina, Blade Runner 2049 og First Man.