HM í Katar lauk í fyrradag með langþráðum sigri Lionel Messi og félaga í Argentínu. Lyfti Messi bikarnum í fyrsta skiptið á ferlinum.
En Argentínumenn fengu ekki einungis bikar að launum. Argentínska knattspyrnusambandið fékk greiddar 42 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur 6 milljörðum króna á gengi dagsins í dag. Þetta segir í grein hjá The Athletic. Um er að ræða veglegasta verðlaunafé í sögu Heimsmeistaramóts í knattspyrnu.
Þegar litið er til mótsins í Katar má sjá að Frakkar fá um 30 milljónir dala fyrir að komast í úrslitaleikinn, 12 milljónum dala minna en Argentínumenn.
Þá fá bronshafarnir frá Króatíu 27 milljónir dala og Marokkómenn 25 milljónir dala. Liðin sem duttu út í 8-liða úrslitum fá 17 milljónir dala og þau lið sem duttu út í 16-liða úrslit 13 milljónir dala.
Þjóðverjar ollu miklum vonbrigðum á mótinu og komust ekki upp úr sínum riðli. Þeir, ásamt hinum 15 liðunum sem fóru snemma heim, geta þó huggað sig við það að fá 9 milljónir dala fyrir það eitt að keppa á mótinu.
Ísland tók þátt í fyrsta skipti á HM í Rússlandi árið 2018. Fékk liðið 8 milljónir dala fyrir þátttökuna, en hefði fengið 4 milljónir dala til viðbótar ef liðinu hefði tekist að komast upp úr riðlinum.

63 milljarðar króna til 32 liða
Til að taka saman nemur heildarverðlaunaféð, sem FIFA ákvað að skyldi renna til þeirra 32 liða sem keppa á mótinu, 440 milljónum dala, eða sem nemur 63 milljörðum króna.
Til samanburðar nam heildarverðlaunaféð á HM í Rússlandi 400 milljónum dala.
Leikmenn Frakka fengu 37,5 milljónir
Misjafnt er hvernig knattspyrnusambönd kjósa að verja verðlaunafénu. Einhver peningur fer beint í vasa leikmanna, eitthvað til félaganna heima fyrir og svo framvegis.
Árið 2018, þegar Frakkar unnu mótið, lýsti forseti franska knattspyrnusambandsins því yfir að leikmenn myndu fá 30% af verðlaunafénu.
Franska sambandið fékk greiddar 38 milljónir dala í verðlaunafé fyrir að sigra mótið og má því gróflega áætla að hver leikmaður hafi fengið um 350 þúsund dali í sinn hlut. Á þeim tíma nam 350 þúsund dalir um 37,5 milljón króna.