Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska handboltalandsiðsins, festi kaup á tveggja herbergja íbúð á annarri hæð í Austurhöfn fyrir 105 milljónir króna í byrjun mars. Íbúðin er 101 fermetri að stærð og verð á fermetra er því yfir eina milljón króna. Aron leikur með danska stórliðinu Álaborg en hann gerði þriggja ára samning við liðið í fyrra.

Kaupin eru gerð í gegnum félagið AP24 ehf. sem er alfarið í eigu Arons. Eignir félagsins námu um 145 milljónum króna í lok síðasta árs, samkvæmt nýbirtum ársreikningi. Félagið bókfærði fasteign á tæplega 45 milljónir og verðbréf á 97 milljónir. Eigið fé nam 22 milljónum og skuldir voru 122 milljónir, þar af var skuld við tengda aðila 92 milljónir.

Viðskiptablaðið sagði frá því í gær að félag á vegum Björgólfs Thors Björgólfssonar fjárfestis hefði nýlega fest kaup á íbúð í Austurhöfn á 310 milljónir.