Bandaríski einkafjárfestasjóðurinn Silver Lake hefur aukið hlut sinn í City Football Group (CFG) um sem nemur 4,1%. Sjóðurinn hélt á rúmum 10% hlut en er nú með 14,5% hlut í CFG sem er móðurfélag enska knattspyrnufélagsins Manchester City. Þetta kemur fram í grein hjá Financial Times.

Silver Lake sjóðurinn er þar með orðinn næst stærsti hluthafi CFG á eftir Abu Dhabi United Group, einkafjárfestasjóði í eigu Sheikh Mansour sem er einn helsti höfðingi Al Nahyan-fjölskyldunnar.

Silver Lake keypti hinn rúmlega 4% hlut af kínverska fjárfestingafélaginu China Media Capital, félag sem á nú um 8% hlut í CFG. Silver Lake, sem er með um 88 milljarða dala eignir í stýringu, var áður þekktast fyrir fjárfestingar í tæknifyrirtækjum. Á undanförnum misserum hefur sjóðurinn aukið umsvif sín í íþróttageiranum. Þannig hefur sjóðurinn nýlega fjárfest 200 milljónum dala í nýsjálenskt ruðningsfélag.

CFG á hluta í knattspyrnufélögum út um allan heim: í Bandaríkjunum, Ástralíu, Indlandi, Japan, Spáni, Úrúgvæ, Kína, Belgíu, Frakklandi og Ítalíu.