Veitingastaðurinn Slippurinn er til umfjöllunar á ferðavef BBC . Þar lýsir blaðamaður breska ríkisfjölmiðilsins upplifun sinni af heimsókn á veitingastaðinn.

Lýsir blaðamaðurinn m.a. yfir hrifningu sinni á matnum sem borinn fram er á staðnum, sem töfraður er fram af matreiðslumanninum og meðeigandanum Gísla Matthíasi Auðunssyni. Hráefnið komi nær einungis úr nærumhverfinu.

Í umfjölluninni er farið ofan í saumana á sögu Gísla sem og Slippsins. Gísli er alinn upp í Vestmannaeyjum en flutti upp á meginlandið 6 ára gamall. Saga hans innan veitingageirans er rakin, þar sem hann gegndi ýmsum störfum en í kjölfar hrunsins átti hann og fjölskyldan hans í erfiðleikum með að finna vinnu í Reykjavík.

Því fluttu þau á æskuslóðirnar í Vestmannaeyjum og þar fékk móðir Gísla þá hugmynd að opna veitingastað í Eyjum. Slippurinn opnaði árið 2012 og hefur frá upphafi verið opinn yfir sumartímann en lokaður þegar vetra tekur.

Þá mánuði sem veitingastaðurinn er lokaður hefur Gísli nýtt til að ferðast um heiminn til að fræðast um eldamennsku og matarmenningu á veitingastöðum víða um heim og hefur sett á fót „pop-up“ veitingastaði á stöðum á borð við London, Hong Kong, Grænlandi, Svis og Ítalíu.

Áhugasamir geta nálgast umfjöllun BBC hér .