Laxveiðin síðasta sumar var lakasta í þrjú ár. Heildarveiðin var mest í Ytri-Rangá en veiði á stöng var mest í Miðfjarðará. Þegar veiði á stöng í 47 ám er skoðuð kemur í ljós að hún dalaði um 17% á milli ára. Síðasta sumar veiddust að meðaltali 128 laxar á stöng í þessum ám samanborið við 155 sumarið 2016.

Eins og margir laxveiðimenn vita kemur lokaskýrsla Veiðimálastofnunar um laxveiðina sumarið 2017 ekki út fyrr en í júní á næsta ári. Líkt og undanfarin ár tekur Viðskiptablaðið smá forskot á sæluna og rýnir í veiðitölur á vefsíðu Landssambands veiðifélaga (LV), angling.is.

Viðskiptablaðið hefur fengið upplýsingar um lokatölur í 47 laxveiðiám og reiknað veiði á stöng en sá mælikvarði gefur nokkuð góða mynd af veiði í ám. Veiði á stöng er líka besti mælikvarðinn til þess að bera saman laxveiðiár. Fjöldi stanga í ám getur verið misjafn milli ára en einnig eru þónokkur dæmi um að veitt sé mismargar stangir í ám yfir sumartímann. Ágætt dæmi um það eru Elliðaárnar þar er ýmist veitt á 4 eða 6 stangir  á veiðitímabilinu. Viðskiptablaðið hefur reynt eftir bestu getu að taka tillit til þessara þátta.

Ótrúlegar tölur í Miðfirði

Eins og áður sagði veiddust að meðaltali 128 laxar á stöng síðasta sumar. Er þetta mun lakari veiði en í fyrra þegar 155 laxar veiddust á stöng að meðaltali og miklu lakari veiði en laxveiðisumarið 2015 þegar 208 laxar veiddust að meðaltali á stöng. Hins vegar var veiðin í sumar miklu betri en árin 2012 og 2014. Þá veiddust að meðaltali 90 laxar á stöng.

Miðfjarðará er var besta laxveiðiá landsins síðasta sumar miðað við veiði á stöng. Alls veiddust 418 laxar á stöng í ánni. Veiðin í Miðfjarðará hefur reyndar verið ótrúleg síðustu þrjú ár því í fyrra skilaði hún 482 löxum á stöng og 655 sumarið 2015. Ytri-Ranga er í 2. sæti með 390 laxa á stöng.

Spútnik-áin

Í 3. sæti er spútnik-á ársins — Þjórsá. Í sumar var veitt á tvær stangir við Urriðafoss í Þjórsá og veiddust samtals 755 laxar eða 378 laxar á stöng. Þess ber að geta að á næsta ári verður veitt á fjórar stangir á þessu svæði. Talandi um fjölda stanga þá var síðasta sumar það fyrsta þar sem veitt var á fjórar stangir í Laxá á Ásum en þar hafði alltaf verið veitt á tvær stangir áður. Áin endaði í 4. sæti með 277 laxa á stöng. Þess má geta að sumarið 2015 var ótrúlegt í Laxá á Ásum því þá veiddust hvorki meira né minna en 898 laxar á stöng í ánni. Haffjarðará er í 5. sæti listans með 195 laxa á stöng.

Elliðaárnar eru gjarnan vanmetnar af veiðimönnum. Þessi perla í höfuðborginni er nú samt ein af betri laxveiðiám landsins. Þar veiddust 890 laxar síðasta sumar eða 171 lax á stöng. Þetta þýðir að árnar eru í 6. sæti á listanum.

Flestir laxar í Ytri-Rangá

Ytri-Rangá bar höfuð og herðar yfir aðrar ár á Íslandi síðasta sumar þegar heildarveiðin er skoðuð. Alls veiddist 7.451 lax þar í sumar en næstmest var veiðin í Miðfjarðará, þar sem 3.765 laxar veiddust. Í þriðja sæti er svo Eystri-Rangá með 2.143 laxa. Þó veiðin í þessum ám hafi verið góð þá var hún töluvert minni en sumarið 2016. Veiðin í Ytri-Rangá var til að mynd 20% minni nú en sumarið 2016, veiðin í Miðfjarðará dróst saman um 13% á milli ára og um 34% í Eystri-Rangá.

Í heildina voru 10 laxveiðiár með meira en 1.000 laxa heildarveiði síðasta sumar. Í fimm af þessum ám var jókst veiðin á milli ára. Veiðin í Grímsá var mjög slök sumarið 2016 en hún náði vopnum sínum síðasta sumar. Alls veiddust 1.290 laxar, sem er 112% aukning frá árinu áður.  Laxá á Ásum náði líka vopnum sínum á ný. Hún skilaði 1.108 löxum sem er 79% aukning frá sumrinu 2016.

Ítarlega er fjallað um laxveiði í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins. Meðal annars er hægt að skoða lista yfir veiði á stöng í 47 ám síðustu sex ár. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af tímartinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .