Kanadíska poppstjarnan Justin Bieber nálgast nú samkomulag við fjárfestingasjóðinn Hipgnosis, sem telur Blackstone meðal fjárfesta, um sölu á útgáfurétt að tónlistarsafni sínu.

Heimildarmennn Wall Street Journal segja að samningurinn gæti hljóðað upp á 200 milljónir dala eða sem nemur 29 milljörðum króna. Í umfjöllun WSJ segir að erfiðara hafi reynst að ganga frá slíkum samningum að undanförnu, ekki síst vegna hækkandi vaxtastigs.

Þekktir tónlistarmenn hafa á síðustu árum selt rétt að tekjustreymi af lögum sínum fyrir himinháar fjárhæðir. Bruce Springsteen gekk sem dæmi frá hálfs milljarða dala samningi í lok síðasta árs og Bob Dylan fékk 350 milljónir dala fyrir útgáfurétt að tónlistarsafni sínu. Auk þess hafa yngri tónlistarmenn eins og John Legend og David Guetta farið sömu leið.

Þá er þetta ekki fyrsta tónlistarfjárfesting Hipgnosis. Félagið keypti útgáfurétt að tónlistarsafni Justin Timberlake fyrr á árinu á 100 milljónir dala. Þá fjárfesti félagið í útgáfuréttinum á tónlistarsafni Leonard Cohen og keypti auk þess 80% hlut í höfundarréttargreiðslum kántrísöngvarans Kenny Chesney. Kaup á útgáfurétt af tónlistarsafni Bieber yrðu hins vegar stærsta fjárfesting félagsins til þessa.

Ef kaupin ganga í gegn fær Hipgnosis réttinn á tekjustreymi af tónlistinni hans Bieber. Universal mun hins vegar áfram eiga upptökuréttinn á tónlistinni, eða hin svokölluðu masterréttindi.