Félagasamtökin Kizombo is Icelandic býður upp á námskeið í Kozombo dansinum frá Angóla sem hefjast á morgun. Um er að ræða byrjendanámskeið en námskeiðið kostar 18 þúsund krónur fyrir staka einstaklinga, en ef pör skrá sig kostar námskeiðið 16 þúsund krónur á mánuði fyrir hvorn um sig að því er fram kemur á heimasíðu félagsskaparins.

Það vakti hins vegar athygli Viðskiptablaðsins að á facebook síðu námskeiðsins eru frekari afsláttarkjör auglýst, en ekki einungis hefðbundin afsláttur fyrir námsmenn eins og oft er, heldur fá hvort tveggja karlmenn en einnig atvinnulausir sama afsláttinn.

Er um að ræða 10% afslátt í öllum tilvikum, sem gerir þá 1.800 krónur væntanlega ef gert er ráð fyrir stökum skráningum. Byrjendanámskeiðið fer fram á þriðjudögum milli 19:00 og 20:00, en strax í kjölfarið kemur framhaldsnámskeið milli 20:00 og 21:00. Til viðbótar er svo þriðja stig kennt á fimmtudögum klukkan 19:40 til 20:40.

Félagsskapurinn hélt á tímabili kizombo danskvöld á Bryggjunni brugghúsi á mánudögum en hefur nú fært sig yfir á annað hvort fimmtudagskvöld í Bazaar Oddsson á gamla JL húsinu við Hringbraut 121. Fyrir kvöldin er iðulega í klukkutíma ókeypis kynningartími. Auk þess verður síðasta fimmtudagskvöld í hverjum mánuði Kizombo danskvöld á Hressó með DJ Cyppie Afrosól.