Minningarsjóður Lofts Gunnarssonar, Ægir Brugghús og Mói ölgerðarfélag hafa tekið höndum saman um framleiðslu á bjórnum Loftur lager. Bjórinn er framleiddur til minningar um Loft Gunnarsson og mun allur ágóði af sölu bjórsins renna óskiptur í minningarsjóðinn, sem hefur allt frá stofnun hans árið 2012 unnið að bættum hag heimilislausra og jaðarsettra hópa.

Þetta er í eitt af fyrstu skiptunum sem áfengur drykkur kemur út til styrktar slíku málefni. Bjórinn mun fást í Heiðrúnu, Skútuvogi, Garðabæ og Stekkjarbakka. Þá munu veitingastaðir á höfuðborarsvæðinu einnig bjóða upp á bjórinn af krana.

Loftur lést langt fyrir aldur fram hinn 20. janúar 2012 úr blæðandi magasári, sem allajafna er auðvelt að lækna ef meðhöndlað í tæka tíð. Hann var andlit sem margir, sem áttu leið um miðbæ Reykjavíkur þekktu, að því er segir í tilkynningu um nýja bjórinn.

„Hann var einn af þeim sem oft sáust mæla göturnar í höfuðborginni, auðþekkjanlegur af hávöxnum líkama, fallegum himinbláum augum, miklu skeggi, hermannajakkanum skrautlega, mörgum húðflúrum og breiðu og stóru brosi,“ segir um Loft í tilkynningunni.
„Hann var alltaf líklegur til að kasta kveðju á náungann, er hann mætti honum, og hélt svo áfram sína leið. Falleg sál í litríkum umbúðum. Hjartahlýr og örlátur á það litla sem hann átti. Allir voru jafnir í hans huga og hann sá alltaf það besta og bjarta í fólki.“

Minningarsjóður Lofts Gunnarssonar hefur frá stofnun hans árið 2012 viljað verið áberandi í umræðunni um þessi málefni og er í nánu samtali og samstarfi við velferðarsvið Reykjavíkurborgar, VOR-Teymið og úrræði fyrir heimilislausa svo sem gistiskýlin og konukot.

Sjóðurinn hefur keypt fjölda rúma, sjónvörp, húsgögn, fatnað og margt fleira inn í hin ýmsu úrræði sem eru til staðar. Á síðasta ári ári keypti sjóðurinn húsgögn og margt fleira inn í gistiskýlið á Lindargötu, keypti rúm og tæki inn í nýju smáhýsin í gufunesi og styrkti hið mikilvæga verkefni Frú Ragnheiði um 4 milljónir til kaups á nýjum bíl.

Frá upphafi þá hefur sjóðurinn ráðstafað yfir 20 milljónum til bæta aðbúnaðinn við hópinn, en fjöldi heimilislausra hefur tvöfaldast á síðustu fimm árum, en lesa má frekar um minningarsjóðinn hér . Bjórinn kemur í Vínbúðir næstkomandi miðvikudag, á dánardag Lofts, til að heiðra minningu hans.