Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir hrósar stjörnunum BAFTA verðlaunahátíðarinnar fyrir að endurnýta föt. Björgólfur tengir við grein um BAFTA þar sem gestir voru beðnir um að endurnýta föt til að stuðla að kolefnishlutleysi hátíðarinnar.

Hann segir endurnýting tískuvarnings enga dægurflugu heldur tækifæri fyrir tískugeirann í átt að aukinni sjálfbærni.

Fjölmargar stórstjörnur endurnýttu föt sín á verðlaunhátíðartímabilinu, þar á meðal voru Jane Fonda, Elizabeth Banks og Joaquin Phoenix.

Björgólfur hefur látið meira að sér kveða á sviði sjálfbærni og umhverfismála að undanförnu. Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors, fjárfesti á síðasta ári í Rebag, sem sérhæfir sig í að selja notaðar lúxushandtöskur í gegnum netið.

Sjá einnig: Björgólfur í leit að grænum fjárfestingum

Þá sagði Björgólfur í nýlegri grein að hann teldi sig hafa fundið upp nýtt félagaform, málstaðarfélagið eða „cause corporation“ með vini sínum David de Rothschild, en fyrsta slíka félagið sé The Lost Explorer.

Í greininni, sem birt var viku fyrir efnahagsráðstefnuna í Davos í Sviss sem Björgólfur var viðstaddur, sagði hann árið 2019 hafa verið vaknaði til vitundar um umhverfisverndar fyrir alvöru. Þá ættu fræg ummæli Milton Friedman um að eini tilgangur fyrirtækja væri að skila hagnaði fyrir eigendur sína ekki lengur við. Yfirskrift ráðstefnunnar í Davos var Stakeholders for a Cohesive and Sustainable World.