BMW X3 jeppinn hefur verið í boði með hybrid vél hér á Íslandi en hann er einnig framleiddur með bensín og dísel mótor. BMW iX3 er smíðaður í Kína þar sem BMW smíðar nú alla rafmagnsbíla sína fyrir heimsmarkað.

Í BMW iX3 er M Sport pakkinn staðalbúnaður. Hann inniheldur m.a. opnanlegt glerþak, straumlínulagaðar tvílitar 19” álfelgur, BMW Live Cockpit Professional-ökumannsrými með BMW Inntelligent-aðstoðarkerfi, forhitun og sjálfvirka loftkælingu með þriggja svæða stjórnun, sportsæti fyrir ökumann og farþega í framsæti og sportstýri með leðuráklæði. Sannarlega vel útbúinn bíll og ber BMW merkið með glæsilbrag.

Frábær aksturupplifun

Óhætt er að segja að bíllinn hafi komið mjög vel út hvað varðar akstursupplifun. Vélin er mjög hljóðlát og ekkert suð eins og oft einkennir nýlega rafmagnsbíla. Það er í raun lítið sem minnir mann á að hér sé um rafmagnaðan bíl að ræða nema blár hringur í kringum BMW-merkið á stýrinu og þá er einnig blái liturinn notaður á sjálfskiptingunni og fleiri stöðum í innréttingunni, kannski svona til að láta mann vita ef maður er ekki alveg viss.

Sjálfvirk fjöðrun

Bíllinn er með sjálfvirka fjöðrun sem gerir ökumanni kleift að stilla demparana að akstursskilyrðum og bæta þar með þægindi í akstri. Þá er bíllinn með þrjár stillingar, Comfort fyrir aukin þægindi, Eco fyrir minni rafmangsnotkun og Sport sem býður upp á sportlegri fjöðrun og meiri kraft.

Akstursdrægni er gefin upp 460 km og er rafmagnsnotkun í kWh/100 km 18,5-18,9. Samkvæmt framleiðanda getur hleðsla í 10 mínútur bætt allt að 90 km við akstursvegalengdina sé notuð hraðhleðslustöð en með heimahleðslu er það um 1 klst. og 37 mín. Dráttargeta sportjeppans er 750 kg.

Nánar er fjallað um BMW iX3 og upplifun blaðamanns af bílnum í Bílablaðinu, fylgiriti Viðskiptablaðsins.