Það hefur sennilega ekki farið fram hjá neinum að mikil ferðagleði hefur gripið um sig hjá Íslendingum. Svo virðist sem veðurblíðan nái til allra landshluta nema suðvesturhornsins. Því kappkosta íbúðar höfuðborgarsvæðisins við að koma sér úr bænum í leit að betra verði. Þá eru utanlandsferðir ófýsilegri kostur en oft áður sökum faraldursins og því oft aðeins eitt í stöðunni, keyra út á land.

Þá vakna upp spurningar um hvar og hvernig sé best að gista. Þá er heppilegt að Viðskiptaráð Íslands hefur gefið út handhægt líkan sem auðveldar fólki að ákveða hvort það sé hagstæðara að bóka hótelherbergi eða fjárfesta í hjólhýsi, fellivagni eða húsbíl.

Sennilegt er að kostnaður, í krónum talið, skipti máli við ákvörðunartöku fólks og kemur líkanið þar til bjargar. Það metur kostnaðinn sem hlýst af því að fjárfesta í hjólhýsi og af því að bóka hótelherbergi yfir ákveðið tímabil.

Vert er að taka fram að líkanið getur auðvitað ekki tekið inn huglæga þætti. Ef þú nýtur þess að fara í langa sturtu á morgnana og rölta í morgunverð þá er hótel sennilega þinn tebolli. Ef þú vilt hins vegar gista úti í náttúrunni án þess að áhyggjur af inn- og útskráningu er hjólhýsi sennilega eitthvað fyrir þig. Í öllu falli sakar ekki að kíkja hvort er hagstæðara!

Líkanið má finna hér .