Böl Brewing hafnaði á dögunum í 1. sæti í alþjóðlegri bjórkeppni Brewdog, Collabfest 2021. 75 brugghús frá löndum víðsvegar um heiminn brugguðu bjóra sem seldir voru á Brewdog börum í Evrópu. Böl Brewing og Brewdog Reykjavík stungu saman nefjum og sendu út bjórinn We took them in the Bakarí . Keppnin virkar einfaldlega þannig að almenningur gefur bjórunum einkunn og sá bjór sem fær hæstu einkunnina vinnur.

„Þetta var hörð barátta og komst bjórinn okkar fljótlega upp í topp 5. Baráttan endaði svo á milli okkar og Duckpond Brewing frá Gautaborg í Svíþjóð,“ segir Andri Birgisson, framkvæmdastrarstjóri Brewdog Reykjavík.

„We took them in the bakarí er dökkur stout bjór bruggaður með snúðum sem við rupluðum frá vinum okkar í Brikk bakarínu. Bjórinn er bruggaður með ýmsum tegundum af dökku ristuðu korni og höfrum. Stíllinn er svolítið bland í poka, kveik pastry export stout, sem þýðir í rauninni sterkur stout með norsku sveitageri og bakkelsi,“ segir Hlynur Árnason, bruggmeistari Böl.

Bjórinn var sérbruggaður og aðeins í boði eina langa helgi. Þrátt fyrir að vera 7,5% að styrkleika seldust yfir 4.000 glös af honum á fjórum dögum. Bjórinn endaði keppnina með 4.15 af 5 mögulegum í einkunn og hafnaði eins og áður segir í efsta sæti.

„Baráttan var hörð en við náðum þessu, frændur okkar Svíar höfnuðu í öðru sæti með 4.14 og enduðu Japanir svo í því þriðja. Við erum í skýjunum með þessar móttökur og hlökkum til framhaldsins,“ segir Hlynur.

Þess má geta að We took them in the Bakarí er enn til í mjög takmörkuðu upplagi á Brewdog Reykjavík.

Böl Brewing er flökkubrugghús sem hefur starfað síðan í apríl 2020. Böl sérhæfir sig í framleiðslu á bjórum fyrir fólk sem vill prófa eitthvað nýtt og skemmtilegt.