Borgar það sig að byggja hús sjálfur eða er hagkvæmara að kaupa fasteign sem þegar hefur verið reist? Þetta er spurning sem ætla má að hafi brunnið á fasteignaleitendum hér á landi um langa hríð.

Til að freista þess að svara þessari spurningu hafði Viðskiptablaðið samband við einstakling sem hefur reynslu af því að reisa eigið húsnæði. Umræddur einstaklingur er vél- og orkutæknifræðingurinn Arnar Jónsson en hann flutti í byrjun árs ásamt eiginkonu sinni og börnum úr höfuðborginni í nýtt einbýlishús sem er á tveggja hektara lóð á Hellu. Fjallað er um málið í sérblaðinu Heimili & framkvæmdir , sem fylgdi Viðskiptablaðinu og er opið öllum til lestrar.

Arnar er öllum hnútum kunnugur í byggingargeiranum enda menntaður húsasmiður í grunninn og lauk síðar tæknifræðinámi við Háskólann í Reykjavík. Hann hefur í gegnum tíðina starfað við smíðar sem og hjá verkfræðistofum, en í dag starfar hann hjá byggingafulltrúa Árborgar.

Arnar segir að í raun sé ekki hægt að svara ofangreindri spurningu með einföldu já-i eða nei-i, heldur fari það eftir aðstæðum og bakgrunni hvers og eins. Það liggi t.d. í augum uppi að það sé hagkvæmara fyrir fólk sem hefur einhvers konar sérfræðikunnáttu í greinum tengdum byggingargeiranum að byggja hús, heldur en fyrir þá sem þyrftu alfarið að reiða sig á þjónustu sérfræðinga.

Arnar ákvað að reisa einingahús og að hans sögn komu engir aðrir kostir til greina, þar sem hann hafi áður kynnst því af eigin raun að þar sé á ferðinni hagkvæmur og vandaður kostur.

Ferlið tók rúmt ár

„Fyrsta skrefið er að sjálfsögðu að finna sér og ganga frá kaupum á lóð. Þegar búið er að ganga frá því er næsta skrefið að verða sér úti um teikningar af húsinu sem á að byggja á lóðinni," segir Arnar, spurður um fyrstu skrefin í ferlinu. „Ef fólk ætlar að reisa einingahús þá þarf í raun bara að byrja á því að rissa upp grófa teikningu af því hvernig maður vilji hafa húsið. Á teikningunni þarf að koma fram hvernig húsið eigi að líta út, stærð þess, herbergjaskipan o.s.frv. Þetta eru nægar upplýsingar fyrir framleiðandann sem ég átti í viðskipt um við og þeir sáu svo um að gera nákvæmari teikningar af húsinu."

Hann bendir þó á að einnig þurfi að verða sér úti um arkitekt til þess að teikna aðaluppdrætti hússins og að auki þurfi að leita til sérfræðings til að gera séruppdrætti, sem svo þarf að skila til byggingarfulltrúa.

Framleiðandinn sem Arnar minntist á hér að ofan er litháíska fyrirtækið Ekobustas. Hann segir þann framleiðanda hafa orðið fyrir valinu þar sem tilboð þeirra hafi verið hagstæðast, auk þess sem gott orð fari af verkum félagsins.

„Ég teiknaði húsið upp sjálfur, sendi teikninguna á fjóra mismunandi framleiðendur og óskaði eftir tilboði. Ekobustas reyndust vera hagstæðastir og um þremur vikum eftir að ég fékk tilboðið flugum við konan mín út til Litháen, ásamt feðrum okkar, til þess að funda með þeim og fara yfir alls konar hluti varðandi húsið. Þeir eru með íslenskar byggingarreglugerðir og staðla þeim tengdum alveg á hreinu þar sem þeir hafa tekið þátt í byggingarverkefnum á Íslandi í mörg ár." Arnar segir að aðeins hafi liðið rúmt ár frá því að ákvörðun hafi verið tekin um að reisa húsið og þar til fjölskyldan flutti inn í það. „Í lok nóvember árið 2019 byrjaði ég að teikna upp húsið og rúmri viku síðar sendi ég teikningarnar út. Um miðjan desember var ég kominn með tilboð frá Ekobustas sem mér leist mjög vel á og þann 20. janúar 2020 heimsóttum við þá til Litháen."

Húsið reist á fjórum dögum

Líkt og löngu þekkt er orðið mun árið 2020 helst lifa í minningunni sem árið þar sem COVID-19 heimsfaraldurinn lagðist á heimsbyggðina með tilheyrandi hörmungum. Arnar segir að umræddur faraldur hafi sannarlega sett strik í reikninginn. „Þegar framleiðsluferlið var í fullum gangi og það var komið að því að byrja að greiða þeim fyrir einstaka verkliði þá skall faraldurinn á, með tilheyrandi gengisveikingu krónunnar. Ekobustas voru blessunarlega mjög skilningsríkir og við fengum að bíða með að greiða stærsta hluta kostnaðarins þar til gengið var búið að rétta sig svolítið af."

Arnar ber litháíska fyrirtækinu og þjónustu þess góða söguna. Sem dæmi hjálpi það viðskiptavinum sínum við að flytja einingahúsið til Íslands frá Litháen þegar framleiðslu þess er lokið, enda eigi þeir í nánu samstarfi við Smyril Line, fyrirtækið sem sér um flutningana. „Það tók ekki nema um eina viku fyrir húsið að skila sér til Íslands frá Litháen," segir Arnar. Smyril Line hafi svo séð um flutninginn á einingunum á verkstað. Á verkstað mætti svo fjögurra manna teymi á vegum Ekobustas sem var flogið til landsins til þess að setja einingarnar saman. „Það tók þá aðeins fjóra vinnudaga að reisa húsið, sem er alls 250 fermetrar og á tveimur hæðum.

Það er hægt að velja að fá einingarnar óeinangraðar, einangraðar með rakasperrum eða farið enn lengra og látið þá setja rafmagnsdósir í samkvæmt teikningum. Svo er hægt að fara ennþá lengra og láta þá gifsa allt saman úti, þannig að einingarnar séu nær fullfrágengnar. Við ákváðum einmitt að láta þá gera það og eftir þessa fjóra daga er húsið var fullreist var það næstum því komið á byggingarstig fimm," bætir Arnar við. Hann leggur mikla áherslu á að í svona framkvæmdum sé hreinlega ekki í boði að fúska.

„Það þarf alltaf að vera með pípulagningameistara, rafvirkjameistara, húsasmíðameistara, múrarameistara og byggingastjóra, enda myndi byggingameistari ekki gefa grænt ljós á að hefja byggingu á húsi ef viðkomandi er ekki með iðnmeistara með sér í liði. En þar sem ég er húsasmiður sjálfur gat ég gert mjög mikið sjálfur eftir að búið var að reisa húsið. En ég þurfti auðvitað að fá þessa fyrrnefndu sérfræðinga á sínu sviði til þess að sjá um þau verkefni sem falla innan þeirra sérsviðs."

Hann segir að húsið hafi komið til hafnar á Íslandi þann 20. september í fyrra og að fjölskyldan hafi verið flutt inn í það 6. janúar sl. „Það voru vissulega einhver handtök eftir hér og þar þegar við fluttum inn. En það tók því ekki nema um þrjá mánuðir að reisa húsið og koma því í þannig stand að hægt var að flytja í það."

Kostnaðaráætlun stóðst í evrum, ekki krónum

Arnar segir að kostnaðaráætlun hafi nær alfarið staðist í evrum talið, en ekki í krónum, vegna fyrrnefndrar gengisveikingar sökum faraldursins. „Kostnaðurinn við að byggja húsið deilt niður á fermetrafjölda var ágætlega undir fermetraverði á svæðinu og kom því mjög vel út."

En þá komum við aftur að stóru spurningunni - er hagstætt að byggja sjálfur?

„Það er hagkvæmt ef maður er til í að leggja á sig mikla vinnu og hefur þekkingu til að ganga í ýmis verk sjálfur. Það sem gerði þetta sérlega hagstætt fyrir mig var að ég gat gert alla teikningapakka sjálfur. Að auki gat ég gert talsvert af frágangsvinnunni sjálfur. En mestur sparnaðurinn liggur í húsinu sjálfu. Það er mjög hagstætt að kaupa þessi einingahús að utan, þau eru sterkbyggð og allt efnið sem þau eru smíðuð úr er fyrsta flokks. Byggingatími einingahúsa er einnig brot af því sem tíðkast með öðrum aðferðum. Hlutirnir gerast mjög hratt eftir að einingarnar koma til landsins og er í raun hoppað beint úr byggingastigi 2 yfir á stig sem er á milli þess 4. og 5. á örfáum dögum." Arnar bendir einnig á að lóðaverð hafi mikið að segja. Það sé mjög misjafnt eftir sveitarfélögum og sem dæmi sé mun lægra lóðaverð á Hellu heldur en á höfuðborgarsvæðinu.

Nánar er fjallað um málið í Heimili & framkvæmdir, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Hægt er að nálgast blaðið hér .