Yfir hundrað fagaðilar, blaðamenn og kvikmyndagerðarmenn koma að utan og taka þátt í Bransadögum RIFF í ár en þeir hefjast í dag, miðvikudaginn 6. október í Norræna húsinu og standa til 9. október. Sagt er frá þessu í fréttatilkynningu.

Á Bransadögum RIFF fara fram hinir ýmsu viðburðir. Má þar m.a. nefna Framleiðandadag, sem stýrt er af kvikmyndasérfræðingnum og blaðamanni Screen Daily,  Wendy Mitchell. Meðal þátttakenda verða Baltasar Kormákur, Erik Gilijnis, Jón Hammer, Ragnheiður Erlendsdóttir og Sigurjón Sighvatsson.

Þá stýrir Frédéric Boyer, dagskrárstjóri RIFF og Tribeca hátíðar í New York, „Verkum í vinnslu", vettvangi þar sem kvikmyndir og þáttaraðir eru kynntar fyrir alþjóðlegum sölu- og dreifingaraðilum. Í ár verða hátt í 10 íslensk verk kynnt þar á meðal sjónvarpsseríur eins og Ófærð III, Stella Blómkvist og Vitjanir, og kvikmyndir á borð við Abbababb!, Birta og  Sumarljós...og svo kemur nóttin, auk kvikmyndaverkefna frá Grænlandi og Færeyjum.

„Sérstakir gestir Bransadaga í ár eru Hollendingar en hollenskur kvikmyndafókus er á RIFF og munu framleiðendur, leikstjórar, blaðamenn og fleiri taka þátt í umræðum,“ segir í fréttatilkynningu RIFF.

Á hinu árlega RIFF spjalli muni ungir íslenskir kvikmyndagerðarmenn tala um hvað dreif þau áfram til að gera kvikmyndagerð að starfi sínu. „Stórleikkonan Trine Dyrholm verður með meistaraspjall 8. október sem er öllum opið og er stýrt af Margréti Örnólfsdóttur, handritshöfundi, og Halldóru Geirharðsdóttur, leikkonu.“

Auk þess verði haldin málþing um kvikmyndatónlist, kvikmyndagerð á Norðurslóðum og íslenskar sakamálasögur.

Dagskrá Bransadaga má nálgast hér .