Er Marie-Ines Romelle, hörundsdökk kona sem fædd er á eyjunni Guadeloupe í Karíbahafi, ákvað að dýfa sér ofan í hinn hefðaríka heim í Champagne-héraði í Frakklandi, tók hún fljótlega eftir því að hún skar sig úr hópi annarra er starfa og búa á svæðinu útlitslega séð.

Í stað þess að láta sér stafa ógn af því ákvað hún að lifa eftir kjörorðum sínum: „Þú verður að þora“. „Þegar við þorum, þá getum við hrundið upp lokuðum dyrum,“ segir Marie í samtali við Reuters .

Hin 42 ára gamla Marie rekur sitt eigið kampavínsvörumerki í samstarfi við vínframleiðanda á svæðinu. Kampavínið hennar ku heilla viðskiptavini á heimslóðum hennar í Karíbahafssvæðinu, þar sem þeir tengja sterkt við kampavínið hennar Marie vegna uppruna hennar.

Kampavínsvörumerkið ber heitið Marie Cesaire, eftir foreldrum Marie. Á umbúðum kampavínsins má finna hróður til Karíbahafseyjanna í formi myndar af kólibrífugli, auk þess sem hrár reyrsykur en notaður til að gera vínið sætara.

Að Marie best vitandi er hún eini hörundsdökki kampavínsframleiðandi í kampavínshéraðinu.

Líkt og fyrr segir er umrætt svæði mjög ríkt af hefðum og má aðeins skrá og kalla freyðandi vín kampavín ef vínið er framleitt í Champagne-héraðinu í Norðaustur Frakklandi.

Vonast til að saga sín hvetji aðra til dáða

Marie var þriggja ára er hún flutti frá Guadeloupe í úthverfi Parísar ásamt fjölskyldu sinni. Hún fékk mikinn áhuga á kampavíni eftir að hafa starfað á veitingastað á flugvelli í nágrenni Parísar.

Allt leit út fyrir að hún myndi gera heim viðskipta að starfsvettvangi sínum en árið 2015 ákvað hún að elta heldur draum sinn og hefja kampavínsframleiðslu í héraðinu.

Vonast hún til að saga sín hvetji fólk úr minnihlutahópum til dáða og það framkvæmi hluti sem það þorði ekki áður.

„Við [fólk sem tilheyrir minnihlutahópum] verðum að hætta að segja við sjálf okkur að við getum ekki gert hitt eða þetta.“