Bandaríska leikkonan Carol Burnett hefur sett íbúðina sína í Los Angeles á sölu á 4,2 milljónir dala, eða sem nemur 600 milljónum króna.

Hin 260 fermetra íbúð inniheldur þrjú svefnherbergi og er staðsett í Wilshire byggingunni í Westwood. Í íbúðinni eru tvær svalir með útsýni annars vegar yfir fjöllin í Santa Monica og hins vegar UCLA þar sem Burnett sótti nám. Eitt svefnherbergið er notað sem skrifstofa og inniheldur einkalyftu, að því er kemur fram í grein Wall Street Journal.

Burnett og eiginmaður hennar, tónlistarmaðurinn Brian Miller, hafa að mestu leyti búið í Santa Barbara undanfarna tvo áratugi. Hún segir í samtali við WSJ að þau hjónin séu lítið í Los Angeles þessa dagana og að íbúðin í Westwood sé orðin óþörf.

Burnett, sem verður 90 ára á næsta ári, er einna þekktust fyrir að stýra „The Carol Burnett Show“, en þátturinn var sýndur á árunum 1967-1978. Þá lék hún „Miss Hannigan" í kvikmyndinni „Annie“. Nýlega lék hún í margverðlaunuðu þáttunum „Better Call Saul“.