Davíð Helgason, stofnandi hugbúnaðarfyrirtækisins Unity, hefur sótt um leyfi hjá Seltjarnarnesbæ um að reisa listaverkið Á tólta tíma (Til minningar um Jesústeininn) eftir Elísabetu Brynhildardóttur í fjörunni neðan við heimili sitt í Hrólfsskálavör á Seltjarnarnesi.

Á háflóði er listaverkið á kafi svo hægt er að ganga á því út í sjó líkt og viðkomandi gangi á vatni. Undirtitilinn Til minningar um Jesústeininn er vísun í sögu sem faðir Elísabetar sagði henni í æsku um Jesústeininn sem faðir hennar og vinur stóðu á í sjónum í Kópavogi líkt og þeir gengju á vatni samkvæmt lýsingu á heimasíðu Elísbetar en þar er einnig að finna myndir af verkinu.

Listaverkið hefur áður verið sett upp í Gorvík á milli Víkur- og Staðahverfis í Grafarvogi. Í lýsingu á verkinu sem send var inn til Seltjarnarnesbæjar kemur fram að verkið verði 60 sentimetrar breiður og tíu metrar langur steypurenningur sem komið verði fyrir lágrétt í fjörunni. Til stendur að Steypustöðin steypi verkið úr sérblandaðri steypu í dökkum lit svo hún falli sem best inn í umhverfið.

Umhverfisnefnd Seltjarnarness tók jákvætt í erindið á fundi nefndarinnar í vikunni en benti á að skráðar fornminjar og fjörur Seltjarnarness séu á náttúruminjaskrá. Því þurfi Davíð að afla umsagna viðeigandi opinberra aðila áður en hægt sé að taka ákvörðun í málinu.

Davíð, varð annar Íslendingurinn á auðmannalista Forbes fyrir á þessu ári í kjölfar skráningar Unity á markað. Hann keypti húsið við Hrólfsskálavör á 563 milljónir króna af Arion banka á síðasta ári . Bankinn eignaðist húsið, sem er 630 fermetrar, í skuldauppgjöri við Skúla Mogensen, stofnanda Wow. Nýlega var greint frá því að unnið væri að umfangsmiklum endurbótum á húsinu.

Davíð hefur einnig keypt næsta hús við Steinavör 10, sem er á 5.000 fermetra sjávarlóð, á hálfan milljarð króna líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í sumar.