Næsta útgáfa hlutverkaleksins vinsæla, Diablo, sem tölvuleikjarisinn Blizzard gefur út, hefur verið opinberuð. Diablo 4 mun einkennast af meira frelsi, meiri tengingu við aðra spilara og stærri heimi til að skoða. Leikurinn er í vinnslu fyrir PC, PS4 og Xbox One, en þónokkuð langt er þó sagt í hann.

Haft hefur verið eftir leikstjóra leiksins – sem var tilkynnt um á ráðstefnunni BlizzCon nú um helgina – að leiksins væri ekki að vænta á næstunni, ekki einu sinni á mælikvarða Blizzard, sem er þekkt fyrir að seinka útgáfu þegar leikir þykja ekki tilbúnir. Ummælin hafa verið túlkuð sem svo að hann komi ekki fyrr en seint á næsta eða á þarnæsta ári.

Aðdáendur Diablo leikjanna er líklega farið að lengja eftir næsta leik, því Diablo 3 kom út árið 2012, og síðasta viðbót við hann árið 2014.

Opinn heimur og staðbundin vistkerfi
Diablo 4 mun gerast mörgum árum eftir atburði undanfarans, og öllu þyngra verður yfir umhverfinu, líkt og þekktist í eldri útgáfum leiksins. Hægt verður að spila sem fimm mismunandi tegundir (e. class) söguhetja, en aðeins hefur verið tilkynnt um þrjár enn sem komið er: villimann (e. barbarian), seiðkonu (e. sorceress) og drúida (e. druid).

Ólíkt fyrirrennurunum verður heimur leiksins algerlega opinn og aðgengilegur spilurum. Ekki þarf því að vinna sig í gegn um tiltekin svæði í tiltekinni röð eins og áður. Heimnum verður skipt í fimm mismunandi svæði, en öll verða þau samliggjandi svo aldrei þarf að bíða meðan næsta svæði er hlaðið inn. Þá verða sérstök staðbundin vistkerfi skrímsla, sem leikmenn hafa væntanlega áhrif á.

Svæðunum verður einnig að einhverju leyti deilt með öðrum spilurum á netinu, svo hægt er að rekast á aðra óþekkta spilara á víðavangi. Handahófskennda hella og dýflissur – sem hafa verið sérstakt einkenni Diablo leikjanna – fá leikmenn hinsvegar alveg útaf fyrir sig, nema að sjálfsögðu að þeir kjósi að taka saman höndum, en hámark fjögurra manna föruneyti (e. party) geta farið saman í hvern helli eða dýflissu.

Umfjöllun The Verge .

Umfjöllun Tom's Guide .

Umfjöllun Polygon .

Upplýsingar á vef Blizzard .