Caroline Leonie Kellen, þýskur ríkisborgari fædd árið 1979, keypti dýrasta einbýlishús sem seldist á síðasta ári, Fjölnisveg 9, á 690 milljónir króna. Það gerir einbýlishúsið jafnframt það dýrasta sem selst hefur á Íslandi. Hún hefur búið lengst af í Bandaríkjunum en hún er dóttir Michaels Max Kellen sem var um tíma forstjóri fjárfestingabankans Arnhold and S. Bleichroeder Holdings.

Sunnakur 1 í Garðabæ var næst dýrasta einbýlishús sem selt var hér á landi á síðasta ári en húsið, sem er 451 fermetri að stærð, var selt á 375 milljónir króna í lok síðasta árs. Fermetraverð eignarinnar nam því tæplega 831 þúsund krónum. Hjónin Páll Snorrason, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs sjávarútvegsfyrirtækisins Eskju, og Málmfríður Lilly Einarsdóttir, fótaaðgerðafræðingur, keyptu húsið af hjónunum Hreini Jakobssyni, framkvæmdastjóra fjárfestingafélagsins Fjárstreymis, og Aðalheiði Ásgrímsdóttur, framhaldsskólakennara.

Umfjöllunin byggir á upplýsingum frá HMS. Þess ber þó að geta að gagnagrunnurinn er ekki fullkominn. Sem dæmi getur verið misræmi á milli birtrar stærðar eignar í fasteignaskrá og raunverulegrar stærðar. Skýringarnar á þessu geta verið ýmsar, sem dæmi kemur fyrir að sameign sé skilgreind í eldri sérbýliseignum og því ekki inni í birtri stærð.

Þriðja dýrasta einbýlishús landsins er einnig í Garðabæ en eins og Viðskiptablaðið greindi frá síðasta sumar festu hjónin Andri Gunnarsson, lögmaður, og Rakel Hlín Bergsdóttir, eigandi Snúrunnar, á Tjaldanesi 15 á Arnarnesi fyrir 370 milljónir króna. Það gera 867 þúsund krónur á fermetra. Eins og sjá má á meðfylgjandi lista yfir tíu dýrustu einbýlishús landsins í fyrra ratar umrædd fasteign raunar tvisvar á listann. Eignin var einnig seld í apríl sama ár þegar Róbert Wessman seldi hana til félagsins Laug ehf., sem er í eigu Kristjáns Magnasonar og Jóhanns Guðlaugs Jóhannssonar, náins samstarfsmanns Róberts, á 350 milljónir króna.

Tíu dýrustu einbýlishús landsins árið 2022

Heimilisfang Kaupverð (m.kr.) Stærð (fm) Fermetraverð (þ.kr.)
1. Fjölnisvegur 9 690 370 1.865
2. Sunnakur 1 375 451 831
3. Tjaldanes 15 370 427 867
4. Láland 3 360 330 1.091
5. Tjaldanes 15 350 427 820
6. Bauganes 22 320 343 932
7. Hávallagata 24 315 379 830
8. Hjálmakur 7 310 485 640
9. Skildinganes 34 300 366 821
10. Blikanes 22 295 302 977
Heimild: HMS

Leiðrétting: Í upphaflegri frétt Viðskiptablaðsins vantaði húsið að Fjölnisvegi inn á listann. Fréttin hefur verið uppfærð og beðist er velvirðingar á mistökunum.

Umfjöllunina má lesa í heild í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.