Félag á vegum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Baugs var nálægt því að kaupa stóran hlut í Formúlu 1 liðinu Williams árið 2007. Á þeim tíma var einnig rætt um að Jón Ásgeir myndi jafnvel stofna eigið F1 lið en ekkert varð af þessum áformum vegna fjármálahrunsins árið 2008. Jón Ásgeir ræddi um málið og áhuga sinn á Formúlunni í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark.

Baugur hafði verið styrktaraðili Williams um nokkurra ára skeið en samningurinn í fól í sér kostun fyrir félög í eignasafni Baugs, þar á meðal fyrir leikfangafyrirtækið Hamleys.

„Við vorum bæði styrktaraðilar hjá Williams og ég þekkti Frank [Williams stofnandann] bara nokkuð vel, mjög áhugaverður einstaklingur sem lenti í bílslysi, lamaðist fyrir neðan axlir. Hélt samt ótrauður áfram með sitt lið. Alveg frábær karakter. Við gerðum samning um kaup á hlut í hans liði,“ segir Jón Ásgeir.

Hann bætir þó við að Bernie Ecclestone, þáverandi forstjóri Formula One Group, hafi reynt að sannfæra sig um að stofna sitt eigið formúlulið fremur en að fjárfesta í Williams.

„[Formúlan] var nú á þeim tíma orðin svolítið þroskuð en þarna voru samt skrautlegir karakterar eins og Bernie Ecclestone, sem ég dílaði svolítið við. Hann vildi að ég myndi ekki fjárfesta í Williams heldur stofna annað lið, sem var með gælunafnið „Team 12“. Hann vildi fjölga um eitt lið á grid-inu.“

Annar þáttastjórnenda spurði Jón Ásgeir hvort að það megi yfir höfuð stofna stofna eigið formúlulið.

„Nei nei, Bernie var bara alráður. Það var geggjað að fylgjast með honum. Hann réði öllu, var í símanum 24/7. Svo þegar sjónvarpsútsendingarnar byrjuðu þá var ég eitt sinn inn á skrifstofunni hans á brautinni. Þá hringdi hann í útsendinguna og sagði: „Það þarf að þjappa áhorfendum svo það sýnist vera miklu fleiri á brautinni“. Hann var og er mikill karakter.“

Sports Investment, félag Baugs og Jóns Ásgeirs, samdi um kaup á 40% hlut í Williams í árslok 2008. Sumarið 2008 voru gerðar breytingar á kaupsamningnum þar sem hlutur Sports Investments var lækkaður í 10% en að lokum varð ekkert úr kaupunum.

Árið 2016 staðfesti Hæstiréttur úrskurð héraðsdóms sem viðurkenndi tveggja milljarða króna kröfu Williams Grand Prix Engineering sem almenna kröfu við slit Glitnis. Krafan byggði á ábyrgð sem bankinn veitti árið 2008 í tengslum við viðskipti Sports Investments og Jóns Ásgeirs við Williams-liðið.

„Líklega ekki góð fjárfesting“

Spurður hvort að kaup á Formúlu 1 liði geti talist góð fjárfesting, segir Jón Ásgeir að það sé líklega ekki tilfellið. Hann minnist þess að þegar kaupin í Williams voru í skoðun hjá sér hafi vinur sinn í Skotlandi sagt sér að heyra í Jackie Stewart, þreföldum heimsmeistara í Formúlu 1. Hann stofnaði Stewart Grand Prix sem keppti í Formúlu 1 árin 1997-1999.

„Þetta var klukkutíma fundur, mjög skemmtilegur karakter. Jackie sagði við mig: „Jón, þú munt aldrei græða á þessu. Það er ekki séns.“ Hann labbaði alveg yfir þetta,“ segir Jón Ásgeir.

„Hann hafði alveg rétt fyrir sér, hann skildi bransann. Það eru bara nokkur lið þarna sem eru með djúpa vasa. Hvort sem það er sett þak á hvað þau mega eyða í bílinn eða ekki, þá er það oft þannig að þau finna leiðir. Það er stigsmunur á dýpt vasanna í þessum bransa. Stóru liðin eyða alveg upp að þakinu en hin liðin komast ekki þangað. En þetta er 25% ökumaðurinn, það er líklegast það sem þú getur spilað með.“

Eini maðurinn sem horfði á formúluna

Jón Ásgeir viðurkennir að hann sé áhugamaður um formúluna og rifjar upp þegar Stöð 2, sem var í meirihlutaeigu eiginkonu hans Ingibjargar Pálmadóttur, var með sýningarréttinn á Formúlu 1.

„Það var gert grín að því upp á Stöð 2 lengi, af hverju í fjandanum við værum að kaupa þennan sjónvarpsrétt. Það væri bara einn maður sem horfði á þetta. [Menn spurðu] hvort það væri ekki bara ódýrara að fljúga mér út [á keppnir].“

Spurður um uppáhalds ökuþór, svaraði Jón Ásgeir:

„Schumacher er náttúrulega alveg einstakur - þó að innan formúluheimsins var hann ekkert vel liðinn. Svo var Häkkinen skemmtilega djarfur. Þetta voru miklar kempur þarna. Montoya sem keyrði fyrir Williams, snargeggjaður. Ég hitti hann nokkrum sinnum, mikill karakter fyrir utan brautina. Vettel kom skemmtilega inn í þetta. Já já ég fylgist ágætlega með þessu.“

Þáttastjórnendur báðu hann einnig um að velja á milli Lewis Hamilton og Max Verstappen. „Verstappen allan daginn.“