Ólíkt síðustu árum þá er gífurleg spenna í báráttunni um heimsmeistaratitilinn í Formúlu 1 en lokakeppnin í mótaröðinni fer fram í Abú Dabí í hádeginu á morgun. „Þetta er ein af stærstu keppnum samtímans,“ segir Kristján Einar Kristjánsson, umsjónarmaður Formúlunnar á Viaplay. „Við skulum bara öll njóta þess að verða vitni að einstökum viðburði.“

Bretinn Lewis Hamilton, sem keyrir fyrir Mercedes, hefur sýnt algjöra yfirburði á síðustu árum og unnið heimsmeistaratitilinn samfleytt frá árinu 2017. Í ár hefur þó Hollendingurinn Max Verstappen, ökumaður Red Bull Racing Honda, veitt honum harða samkeppni og eru þeir jafnir að stigum fyrir keppnina á morgun.

Þetta er í fyrsta skiptið frá árinu 1974 sem efstu tveir ökumenn á mótaröðinni eru jafnir að stigum fyrir lokakeppnina. Síðast var heimsmeistarinn ráðinn á lokakeppninni árið 2016 þegar liðsfélagarnir Hamilton og Nico Rosberg áttust við.

Dagsformið mun ráða úrslitum á morgun

Verstappen náði hraðasta hringnum í tímatökum í dag og verður því á ráspól og Hamilton annar þegar keppnin hefst á morgun. Þegar Viðskiptablaðið rædd við Kristján í vikunni sagðist hann eiga erfitt með að spá fyrir um hvorum bílnum henti brautinni í Abú Dabí betur.

„Við munum líklegast sjá mótið ráðast á dagsformi í síðustu keppninni,“ segir Kristján. Hann bendir á að hitastigið getur haft mikil áhrif á það hvernig Mercedes bíllinn nær að nýta dekkin sín. „Sekúndubrotin geta verið fljót að tapast.“

Einn besti slagur sögunnar

Aðalatriðið snúist þó um baráttuna á milli Hamilton og Verstappen sem hefur verið einstaklega hörð á brautinni á tímabilinu. „Við erum að horfa á slag sem jafnast á við þá bestu í sögunni.“

Max Verstappen er 24 ára gamall og á möguleika á að verða fjórði yngsti heimsmeistari í sögu Formúlu 1. Hann þykir óvæginn og afar djarfur í akstri sem sást meðal annars þegar hann gerðist brotlegur að mati dómara F1 í árekstri á milli hans og Hamilton í Sádi Arabíu um síðustu helgi.

„Verstappen er mjög aggresívur ökumaður sem dansar á línunni og fer yfir hana reglulega. Það áttu sér stað mjög umdeild atvik í keppninni í Sádi Arabíu sem eru enn í fersku minni. Við erum því að fara horfa á flugeldasýningu í Abú Dabí á morgun,“ segir Kristján.

Kristján bendir þó á að hinn 34 ára gamall Hamilton hefur að sama skapi alltaf þótt djarfur ökumaður en hefur ekki sýnt þær hliðar jafn mikið í síðustu keppnum sökum þess hve mikið er í húfi en hann hefur verið að elta Verstappen í stigatöflunni. „24 ára Lewis Hamilton var nákvæmlega eins og Max Verstappen í dag.“

Barátta á öllum vígstöðvum

Þó slagurinn um heimsmeistaratitilinn verður efst í huga nær allra áhorfenda á morgun þá eru fleiri atriði sem spennandi verður að fylgjast með. „Sú ótrúlega staða er uppi fyrir síðustu keppnina að ekkert lið er öruggt í sínu sæti,“ segir Kristján.

Mercedes og Red Bull keppast um efsta sætið í liðakeppninni en fyrrnefnda liðið er í kjörstöðu til að bera sigur úr býtum. Annar Mercedes bíllinn þarf að falla úr leik til þess að Red Bull eigi möguleika á sigri.

Þá er mikil spenna um þriðja sætið í liðakeppninni á milli Ferrari og McLaren en ítalska liðið er með yfirhöndina fyrir keppnina á morgun. Í einstaklingskeppninni munar litlu á milli stiga hjá Charles Leclerc og Carlos Sainz hjá Ferrari og Lando Norris hjá McLaren en þeir sitja í 5.-7. sæti. „Það er því barátta á öllum vígstöðvum.“

Áhuginn aukist verulega með nýjum eigendum og Netflix

Kristján segir að áhuginn á Formúlunni hafi aukist verulega frá því að Libert Media keypti Formula One Group árið 2017 af Delta Topco, sem var leitt af hinum skrautlega Bernie Ecclestone. Í kjölfarið hafi markaðssetning á samfélagsmiðlum aukist til muna. Svo hafi Netflix þættirnir Drive to Survive verið ein besta markaðssetning fyrr eða síðar að mati Kristjáns.

Kristján hefur fundið fyrir miklum áhuga á Formúlunni meðal Íslendinga að undanförnu og nefnir hann sem dæmi að fimmfalt fleiri hafa hlustað á hlaðvarpið Pitturinn sem hann stýrir ásamt Braga Þórðarsyni en þeir lýsa Formúlunni saman á Viaplay. Pitturinn nálgast nú tíu þúsund hlustanir á viku og var hann vinsælasta íslenska hlaðvarpið í þrjár vikur í sumar.

Útsending Viaplay á lokakeppni Formúlu 1 tímabilsins hefst klukkan 12:30 á morgun.