Ég get ekki sagt að ég sé mikil áhugamanneskja um bíla en mér finnst mjög mikilvægt að keyra um á traustum og góðum bílum. Á Lemon keyrum við um á 100% rafmagni og höfum gert í nokkurn tíma.

Við keyrum talsvert mikið á milli veitingastaðanna okkar en við erum með fimm veitingastaði og erum að fara að opna þann sjötta í Garðabæ núna næstu daga. Einnig keyrum við frítt út til fyrirtækja alla virka daga til kl. 16 og það er brjálað að gera í því núna. Því er mikilvægt að vera á góðum og liprum bílum.

Við erum mjög ánægð með rafmagnsbílana sem eru af gerðinni Nissan Leaf og Nissan eNV200. Ég þjáist hins vegar af hleðslukvíða og þarf helst alltaf að vera með hleðsluna á bílnum yfir 50% til að vera örugg um að komast á áfangastað,“ segir Unnur Guðríður Indriðadóttir, markaðsstjóri Lemon.

Hver er eftirminnilegasta bílferðin?

,,Það eru tvær bílferðir sem standa upp úr. Önnur þeirra endaði á því bíllinn pikkfestist og hin ferðin var á sprungnu dekki. En það góða við það að ég var ekki að keyra. Þegar við sprengdum dekk þá vorum við Rósa vinkona mín á rúntinum. Ég var ekki komin með bílpróf en Rósa var komin með próf.

Við fengum bílinn lánaðan hjá foreldrum mínum og fórum á rúntinn. Þá bjó ég í Hveragerði og við rúntuðum um bæinn allt kvöldið. Þegar við komum heim þá tókum við eftir því að eitt dekkið var ekki eins og það átti að vera. Við höfðum keyrt allt kvöldið með sprungið dekk og fundum ekkert fyrir því. Foreldrar mínir voru auðvitað pollróleg yfir þessu eins og þeim einum er lagið og hlógu bara að okkur. En þau þurftu að splæsa í nýtt dekk.

Hin ferðin var þannig að við fórum í veiði tvær fjölskyldur, vorum fyrir vestan og með alla fjölskylduna. Krakkarnir voru bara litlir, þannig að þetta var veiði- og fjölskylduferð. Þennan dag ákvaðu strákarnir að fara og kíkja að ánni en við Rakel vinkona mín nenntum ekki með og ætluðum bara að vera heima með krakkana.

Eftir dágóðan tíma ákváðum við að kíkja á veiðimennina. Hentumst út í bíl, festum börnin í bílbelti og lögðum í hann. Við þurftum nú ekki að fara langt til að sjá þá en komumst ekki nógu nálægt. Þá datt okkur það snjallræði í hug að keyra aðeins nær sem endaði auðvitað með því að við vorum næstum komnar við árbakkann en pikkfestumst.“

Hver er draumabíllinn?

,,Hvítur Bens GLE Coupé er draumabíllinn. Ég hlakka til að setjast upp í hann og keyra af stað. Þessi bíll á eftir að fara mjög vel með mig.“

Nánar er rætt við Unni í Bílablaðinu, fylgiriti nýjasta tölublaðs Viðskiptablaðsins.