Eliza Reid forsetafrú tekur þátt í opnunarviðburði FKA í ár með göngu í Búrfellsgjá en FKA, beinir kastljósinu meðal annars að New Icelanders, nýrri nefnd innan FKA. „Stjórnendur og leiðtogar í atvinnulífinu verða að ganga fram með góðu fordæmi og vera opnir fyrir nýjum nálgunum, gera tilraunir,“ segir segir Andrea Róbertsdóttir framkvæmdastjóri FKA, sem segir þó að enginn afsláttur verði gefinn af sóttvörnum eða tveggja metra reglunni í göngunni.

„Eliza Reid, félagskona FKA og forsetafrú, tekur þátt í göngunni en Eliza Reid lætur sig umræðuna um mikilvægi fjölbreytileikans varða. Hefur hún staðið framalega í að vekja athygli á mikilvægi þess að fjölga röddum við borðið og mun því ganga með okkur og er að reima á sig gönguskóna,“ bætir Andrea við.

„Gangan er táknræn, nokkurskonar gjörningur þar sem við myndum keðju, sameinaðar fyrir starfsárið, fáum New Icelanders inn í keðjuna, fjölgum hlekkjunum í keðjunni og búum til pláss fyrir nýjar konur,“ segir Margrét Jónsdóttir Njarðvík stjórnarkona FKA og rektor í Háskólanum Bifröst. Á opnunarviðburðinum beinir félagið meðal annars kastljósi að New Icelanders, nefnd innan félagsins sem hefur verið sett á laggirnar til að auka fjölbreytileika.

„Með New Icelanders er FKA að efla tengslin, opna markvisst á samtalið svo við getum miðlað og lært af hverri annarri auk þess sem besta leiðin fyrir nýja Íslendinga til að fóta sig hér er að stofna fyrirtæki. Fjölga röddum við borðið til að tækla stórar áskoranir, vinna með fjölbreytileika og gera FKA að staðnum fyrir tenglsamyndun kvenna ,“ segir Margét og bendir á að FKA heldur áfram að styðja kvenleiðtoga. „Við erum að vinna með nýjan veruleika í atvinnulífinu og þær áskoranir sem heimsbyggðin öll er að tækla nú um stundir eru risavaxnar en hlaðnar tækifærum."

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Gangan, sem er ætluð félagskonum FKA, hefst frá nýju bílastæði við Heiðmerkurveg í Garðabæ, annan enda Heiðmerkur, Hafnafjarðarmegin og hefst klukkan 17.

„Fundarnálgun undir berum himni hefur alltaf rokkað í mínum huga. Sem mannauðsstjóri hef ég í mörg ár tekið starfsmannasamtölin á göngu. Í tveggja metra fjarlægð hefjum við starfsárið hjá FKA, ræða saman og tengja athafnakonur úr öllum greinum atvinnulífsins,“ segir Andrea.

© Aðsend mynd (AÐSEND)