Bjórböð Kalda hófu starfsemi fyrir rétt tæpu ári. Agnes Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Bruggsmiðjunnar, segir viðtökurnar fyrsta árið hafa verið frábærar. „Þau eru alveg að slá í gegn. Síðasta sumar var mjög gott og veturinn þannig að helgarnar hafa verið mjög góðar en við lögðum upp með að hafa opið allar helgar en enduðum á að hafa alltaf opið,“ segir Agnes.

Hún segir þann mikla fjölda ferðamanna sem kemur til landsins á hverju ári hafa gert það að verkum að böðin geta tekið við tvöfalt fleiri gestum en upphaflega stóð til, en hugmyndin að böðunum kviknaði fyrir tíu árum. Gestir bjórbaðanna eru nokkurn veginn Íslendingar og ferðamenn til jafns. Blaðamaður gerði sér ferð norður á Árskógssand, hundrað manna sveitaþorp sem áður var þekkt fyrir fátt annað en fisk og ferjuna í Hrísey. Í dag er varla hægt að nefna Árskógssand án þess að Bruggsmiðjan sé nefnd í sömu andrá. Það fer ekki mikið fyrir húsunum þar sem bjórböðin eru, ekki fyrr en þú stendur eiginlega fyrir framan þau. Þá fyrst sér maður hversu ótrúlega mikið er lagt í þau.

„Þótt við séum úti í sveit þá vildum við gera þetta flott með góðu hljóðkerfi og gera þetta í alvöru.“ Agnes segir húsin vera innblásin af færeyskum byggingarstíl. „Hönnunin var eiginlega gerð jafnóðum með margt. Allan byggingartímann var ég hérna öll kvöld að sópa og reyna að fá hugmyndir að því hvernig hlutirnir ættu að vera,“ segir Agnes.

Óáfengur ungbjór í böðunum

Útsýnið frá húsunum er ótrúlega fallegt, en áður en farið er í böðin býðst baðgestum að setjast út í heitan pott utan við húsin þar sem hægt er að njóta útsýnisins yfir Eyjafjörðinn og fylgjast með Hríseyjarferjunni sigla sína leið milli lands og eyjar, en á útisvæðinu er einnig hægt að fara í gufubað. Bjórinn í bjórböðunum er ekki fullgerjaður bjór heldur ungur bjór sem, ef hann fengi að þroskast, yrði að Kalda.

„Svo notum við líka gerið okkar sem áður fór í svelginn,“ segir Agnes. „Það gefur bjórböðunum þessa heilsutengingu. Það er mikið Bvítamín, sink og járn í því.“ Ekkert aldurstakmark er í böðin þar sem bjórvatnið er ódrykkjarhæft og óáfengt en 16 ára og yngri þurfa að vera í fylgd fullorðinna. Baðkörin sjálf eru ýmist ætluð einum eða tveimur baðgestum og er hvert baðkar í herbergi sem lokað er með rennihurð. Körin eru búin til úr Kambalaviði frá Gana. „Þau fara einstaklega vel með mann og halda hárréttu hitastigi.“ Mælt er með að baðgestir baði sig án sundfata og sleppi því að fara í sturtu að bjórbaðinu loknu svo bjórinn fái að liggja á húðinni. Við hlið hvers kars er bjórdæla þannig að baðgestir 20 ára og eldri geta baðað sig upp úr Kalda að innan sem utan.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .