Gylfi Sigurðsson leikmaður Everton er enn lang launahæsti íslenski atvinnumaðurinn með um 750 milljónir króna í árslaun. Gylfi hefur ekkert leikið með Everton á þessu keppnistímabili eftir að hann var handtekinn í júlí vegna gruns um kynferðisafbrot gegn barni. Honum var sleppt úr haldi samdægurs og hefur verið laus gegn tryggingu á meðan lögreglan í Manchester rannsakar málið. Að lokinni rannsókn tekur lögreglan ákvörðun hvort hann verður ákærður eða málið látið niður falla.

Gylfi hefur af þessum sökum ekki verið í leikmannahópi Everton síðan í júlí. Hann heldur sínum föstu launum hjá félaginu en fær ekki bónusgreiðslur vegna leikja og marka. Hann lækkar því í launum frá síðasta ári þegar hann var með um 850 milljónir króna í árslaun. Everton hefur ekki gengið sem skyldi á leiktíðinni og er liðið í neðri hluta deildarinnar sem kemur á óvart miðað við sterkan leikmannahóp. Fjarvera Gylfa kann að hafa talsvert áhrif á slakt gengi liðsins en engum dylst hversu öflugur leikmaður hann er.

Jóhann Berg með 500 millljónir hjá Burnley

Jóhann Berg Guðmundsson er næst launahæstur íslensku atvinnumannanna með um 500 milljónir króna í árslaun hjá enska úrvalsdeildarliðinu Burnley. Jóhann Berg hefur verið í byrjunarliðinu í flestum leikjum liðsins á leiktíðinni. Burnley hefur átt í miklu basli á leiktíðinni og er sem stendur í fallbaráttunni. Hann hefur leikið með liðinu síðan 2016 og er vinsæll meðal stuðningsmanna þess.

Aron Einar Gunnarsson þénar mjög vel með Al Arabi þar sem hann hefur leikið síðustu þrjú ár eftir hafa verið í ensku úrvalsdeildinni með Cardiff. Aron er með um 290 milljónir króna í árslaun hjá félaginu. Aron, sem hefur verið fyrirliði íslenska landsliðsins undanfarin áratug, fór á dögunum í skýrslutöku hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna meints kynferðisbrots sem á að hafa átt sér stað í Kaupmannahöfn árið 2010. Aron hefur ekki leikið með landsliðinu síðan í haust eftir að málið var tilkynnt til lögreglu.

Hér að neðan má sjá tíu launahæstu íslensku atvinnumennina:

  1. Gylfi Þór Sigurðsson Everton um 750 m.kr.
  2. Jóhann Berg Guðmundsson Burnley um 500 m.kr.
  3. Aron Einar Gunnarsson Al Arabi um 290 m.kr.
  4. Rúnar Alex Rúnarsson Arsenal (OH Leuvení láni) um 250 m.kr.
  5. Alfreð Finnbogason Augsburg um 225 m.kr.
  6. Arnór Sigurðsson CSKA Moskva (Venezia í láni) um 200 m.kr.
  7. Hörður Björgvin Magnússon CSKA Moskva um 200 m.kr.
  8. Sverrir Ingi Ingason PAOK um 180 m.kr.
  9. Rúnar Már Sigurjónsson CFR Cluj um 150 m.kr.
  10. Guðlaugur Victor Pálsson Schalke 04 um 150 m.kr.

Nánar má lesa um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .