Þegar blaðamenn renndu í hlað Golfklúbbs Óslóarborgar í skínandi fallegu vetrarveðri í byrjun mars stóðu þar á hlaðinu nokkrar gerðir Maxus rafbíla, þ.á m. Euniq 5, Euniq MPV fjölnotabíllinn og Euniq T90 rafpallbíllinn. En líka Euniq 6, stór rafdrifinn sportjeppi sem væntanlegur er í sölu hjá Vatt ehf., dótturfélagi Suzuki bíla á Íslandi. Tilefnið var að kynnast Euniq 6 lítillega og fundarstaðurinn var Ósló í næsta nágrenni við Drammen þar sem norski innflutningsaðilinn, RSA, hefur höfuðstöðvar.

RSA er fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað 1936. Það er dreifingaraðili fyrir Maxus á Íslandi, Svíþjóð, Danmörku, Færeyjar, Finnland, Pólland og Grænland. Það er enn fremur umboðsaðili Suzuki og Izusu pallbíla í Noregi. Maxus er eitt undirmerkja SAIC, (Shanghai Automotive Indystry Company), sem er stærsti bílaframleiðandi í Kína á markaði. Fyrirtækið framleiðir um 7,5 milljónir bíla á ári.

Á hlaðinu var meðal annarra Frank Dunvold, forstjóri RSA, með klút í hönd að fægja flotann. Hann hafði kallað saman hóp norskra blaðamanna til að kynna framtíðarplön Maxus í Noregi og fengu íslenskir blaðamenn að fljóta með og að prófa Euniq 6 í flugumynd af reynsluakstri.

Sá rúmbesti í sínum stærðarflokki

Sjö sæta Euniq 5 fjölnotabíllinn (strumpastrætóinn) hefur fengið ágætar viðtökur hérlendis en ekki síður sendibílarnir tveir, e-Deliver 3 og e-Deliver 9 sem nokkur stórfyrirtæki á Íslandi hafa verið að bæta í flota sinn. Allir eru þessir bílar alrafknúnir og með akstursdrægi sem dugar vel til notkunar innanbæjar.

Það er kannski fullmikil rausn að kalla Euniq 6 sportjeppa þar sem hann býðst enn sem komið er eingöngu framhjóladrifinn. En hann hefur byggingarlag sportjeppans og er sagður rúmbesti bíllinn í sínum stærðar- og gerðarflokki. Keyrt var sem leið lá út úr smábænum Bokstad og inn í uppsveitina þar sem fjölmargir heimamenn gengu sér til heilsubótar á gönguskíðum. Við blasti Holmenkollen, sá frægi skíðastaður, sólin skein í heiði og Euniq 6 leið hljóðlátur um friðsæla norska náttúrudýrð.

Laglegt útlit

Euniq 6 er laglegur að utan með sitt lokaða grill og mjóu LEDframljósaræmu. Staðalbúnaður er 18 tommu álfelgur og yfirbragðið talsvert sportlegt en kannski síður jeppalegt. Veghæðin er þó engu að síður 19 cm. Það er gott að umgangast bílinn. Menn setjast inn í hann, ekki niður í hann og fótapláss er með mesta móti í aftursætum og rúmt um alla. Hann gleypir líka mikinn farangur því skottið tekur heila 754 lítra. Það stærsta í stærðarflokknum. Ekki er geymslurými undir „vélarhlífinni“.

Talsvert er lagt í bílinn í innréttingum. Hann kemur t.a.m. með svörtu leðri, rafstýrðum sætum, stórri sóllúgu, rafstýrðum afturhlera, bakkmyndavél, hraðastilli með aðlögun og 360° umhverfismyndavél svo fátt eitt sé nefnt. Í staðalgerð er því um mjög ríkulega búinn bíl að ræða.

Væntanlegur í næsta mánuði

Það fannst vel í reynsluakstrinum að Euniq 6 er talsvert þungur bíll enda vel í öll ytri mál lagt. Eigin þyngd er tæp 1,9 tonn og hann kemur með 70 kW rafgeymi sem skilar 177 hestöflum og 130 Nm togi. Þetta eru engin ósköp en svo sem algjörlega viðunandi fyrir flesta bílnotendur. Það má alveg spyrja þeirrar spurningar hver hafi virkilega þörf fyrir 300- 400 hestafla rafbíla sem sumir framleiðendur bjóða. Á fullri hleðslu kemst Euniq 6 354 km samkvæmt WLTP mælingunni. Þetta er á pari við marga aðra rafbíla.

Euniq 6 verður kynntur hér á landi í hjá Vatt ehf. í maí næstkomandi. Þá verður hann sýndur við hlið annars rafbíls sem heitir Aiways U5 og er líka framhjóladrifinn rafbíll með sportbílalagi. Sá er nokkuð minni bíll en Euniq 6 sem verður boðinn á 5.950.000 krónur. Færa má mörg rök fyrir því að það sé hagstætt verð miðað við stærð bíls og búnað.

Greinina má finna í fylgiritinu Bílar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .