Í London eru auðvitað fjölmargir veitingastaðir. Mjög margir þeirra eru framúrskarandi góðir enda voru 65 veitingastaðir í borginni með Michelin stjörnu í fyrra.

Matgæðingar eru fljótir að finna Michelin-veitingastaðina í London enda eru þeir vel auglýstir og þekktir. Það er aftur móti fátt skemmtilegra en að ramba inn á góðan veitingastað. Enn betra er að detta inn á frábæran veitingastað — svona nánast óvart. BiBo-veitingastaðurinn í Shoreditch-hverfinu tikkar í öll boxin.

BiBo er spænskur veitingastaður með asísku ívafi. Á myndinni má meðal annars sjá humar-paella, krókettur með Ibérico hráskinku, brioche með chorizo og akurhænueggi, sem og brioche með hægelduðum uxhala.

Matarupplifun á BiBo

BiBo er nánast í felum í kjallara Mondrian hótelsins, sem er mitt á milli lestarstöðvanna Liverpool Street og Old Street.

BiBo er spænskur veitingastaður með asísku ívafi, þar sem megináhersla er lögð á tapas og paella. Hinsvegar er líka hægt að fá hamborgara og steik. Undirritaður getur staðfest að staðurinn er algjörlega frábær.

Brioche og krókettur

Tapas-réttirnir eru hver öðrum betri en eigi taka einhverja út fyrir sviga þá verður að nefna tvo rétti í dúnmjúku og laufléttu brioche brauði. Það er raunar ekki hægt að leggja næga áherslu á hversu lauflétt þessi brauð eru. Annar réttanna er með chrorizo og akurhænueggi en hinn með hægelduðum uxahala með örþunnum sveppasneiðum — hreint út sagt stórkostlegir tapas-réttir báðir tveir.

Af öðrum tapas-réttum má nefna túnfisktartar í yuzu og soja-marineringu með sesam olíu og saltverkaðri eggjarauðu. Djúpsteiktu rækjurnar í hvítlauk og chili eru unaður og það sama má segja um króketturnar, sem framreiddar eru með þunnri sneið af Ibérico-hráskinku.

Paella fyrir svanga

Vilji fólk fá sér paella þá er hægt að fá þær í sjö mismunandi útfærslum, með humri, kolkrabba, kjúkingi, hægelduðum Ibérico-rifjum, rib-eye, villisvínsbeinmerg eða grænmeti. Hver þessara rétta er næg máltíð fyrir tvo fullorðna og rúmlega það.

Inn af barnum blasir eldhúsið við með tveimur stórum opnum gluggum, þar sem gestirnir geta séð meistarakokka að störfum.

BiBo myndi teljast miðlungsdýr veitingastaður í London. Tapasréttirnir kosta frá 7 upp í 18 pund. Brioche-réttirnir sem nefndir voru hér á undan kosta sem dæmi 7 og 8 pund. Paella-réttirnir eru ætlaðir fyrir tvær manneskju og verðið á þeim er frá 50 upp í 110 pund.

Stjörnukokkurinn Dani Garcia

BiBo er ekki með Michelin-stjörnu en eftir að undirritaður borðaði þar komst hann að því að Michelin mælir með honum.

Það er svo sem engin furða að staðurinn sé góður því eigandinn er Spánverjinn Dani Garcia, sem rak um árabil veitingastaðinn Dani García í Marbella á Spáni en þegar hann lokaði honum fyrir nokkrum árum var staðurinn með 3 Michelin stjörnur. Garcia tilkynnti reyndar um lokun staðarins mánuði eftir að hann fékk þriðju stjörnuna.

Meistarakokkurinn Dani Garcia rekur BiBo en hann rak áður þriggja Michelin-stjörnu veitingastað í Marbella.

Í dag rekur Garcia fjölda veitingastaða. BiBo er til dæmis á þremur stöðum á Spáni, í Marbella, Madrid og Tarifa. Einnig er einn BiBo-veitingastaður í Doha í Katar. Þá rekur hann einnig staðinn Smoke Room í Madríd, sem er í dag með 2 Michelin-stjörnur.

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Eftir vinnu, sem kom út í gær. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.