Á Menningarnótt opnaði Staður, sýning Geirþrúðar Einarsdóttur, í verslun NORR11 á Hverfisgötu. Að sögn Geirþrúðar eru verkin á sýningunni landslagsverk af óræðum stöðum, án sérstakrar skírskotunar.

„Í rauninni er ég að reyna að fanga tilfinningu í landslagi – tilfinningu fyrir víðáttu. Þessi tilfinning sem fólk upplifir þegar það stendur á fjallstoppi eða í fjöruborði og horfir yfir sjóndeildarhringinn.“

Hugmyndin að baki sýningunni kviknaði þegar Geirþrúður var á leið á vinnustofu sína og fannst borgin þrengja stöðugt að sér. Vinnustofan er staðsett í Þórunnartúni, þar sem miklar framkvæmdir hafa átt sér stað í nærumhverfinu undanfarin ár.

„Ég upplifði ákveðinn vanmátt gagnvart byggðinni sem reis upp allt í kring. Mig langaði því að fanga víðáttuna sem við erum mörg hver alltaf að leita að í borgarlandslaginu.“

Frá sýningu Geirþrúðar í NORR11.
Frá sýningu Geirþrúðar í NORR11.
© Anna Kristín Óskarsdóttir (Anna Kristín Óskarsdóttir)

Meðfram sýningunni skrifaði Geirþrúður stutta smásögu, sem fjallar um nokkuð fjarstæðukenndan heim, þar sem framkvæmdir eru stöðvaðar og úr verður frekar kynlegur staður.

„Ég hugsaði með mér að sagan gæti vakið ákveðin hughrif hjá fólkinu sem heimsækir sýninguna. Verkin á sýningunni eru þá ákveðið svar við sögunni.“

Geirþrúður sækir innblástur til loftmynda af náttúrunni og landslags. Verkin eru skorin út í karton og klædd hörstriga sem er málaður með akrýl málningu. Þau eru unnin af mikilli nákvæmni og vísa til handverksins, sem setur sterkan svip á list hennar.

„Áður en ég hóf myndlistarnámið hafði ég lokið námi sem klæðskeri. Sumir vilja meina að sá bakgrunnur minn útskýri hvernig ég vinn verkin mín.“

Frá sýningu Geirþrúðar í NORR11.
Frá sýningu Geirþrúðar í NORR11.
© Anna Kristín Óskarsdóttir (Anna Kristín Óskarsdóttir)

Staður er fyrsta einkasýning Geirþrúðar og mun hún standa fram í október. Sýningin er hluti af sýningaröð í verslun NORR11 á Hverfisgötu, sem er samstarfsverkefni verslunarinnar og Listvals. Listval er myndlistagallerí sem býður einnig upp á ráðgjöf við val á verkum og upphengi. Það var stofnað fyrir þremur árum síðan og hefur það að markmiði að auðvelda fólki að fjárfesta í myndlist og gera hana aðgengilegri.