Menntakerfi landsins kennir okkur ýmislegt, bæði gagnlega hluti og annað sem nýtist okkur ekki jafn vel. Fjármálalæsi er einn þeirra þátta sem fær ekki nægilegt pláss í námskránni að mínu mati, sé tekið mið af mikilvægi þess.

Tilhugsunin við að geta tekið meiri pening út en ég lagði inn er mjög góð. En tilhugsunin við að þurfa að borga einhverjum hærri upphæð en viðkomandi lánaði mér er síður skemmtileg.

Í fjármálamola dagsins ætlum við að fræðast um vexti og hvernig þeir virka. Í fjármálabókinni Fyrstu skref í fjármáum eftir Gunnar Baldvinsson eru mörg fjármálahugtök skýrð á einfaldan hátt, meðal annars vextir.

Vaxtakjör bankanna eru mismunandi.
Vaxtakjör bankanna eru mismunandi.

Innlánsvextir

Þegar við leggjum inn pening í bankann eða aðrar lánastofnanir þá erum við að lána peninginn okkar. Til þess að tryggja fjárhagslegt öryggi okkar þá leggjast innlánsvextir ofan á þá upphæð sem við lögðum inn. Það þýðir að þegar við ákveðum svo að taka út peninginn eða borga með kortinu okkar þá hefur peningurinn okkar ávaxtast.

Útlánsvextir

Útlánsvextir eru andstæða innlánsvaxta. Þegar við fáum lánaðan pening frá bankanum eða öðrum lánastofnunum (tökum lán) þá leggjast útlánsvextir ofan á þá upphæð. Þess vegna þurfum við að borga bankanum meira til baka en við fengum að láni. Með þessu eru bankarnir og lánastofnanirnar að tryggja sitt öryggi og ávaxta peninginn sinn.

Útlánsvextir eru yfirleitt hærri en innlánsvextir. Mismunurinn kallast vaxtamunur en hann myndar tekjur í bankanum.

Bankareikningar

Bankareikningar hafa mismunandi binditími en sá tími segir til um hversu lengi peningurinn þinn er lokaður í bankanum. Almennt gildir að því lengri sem binditíminn er því hærri eru innlánsvextirnir. Þá er vaxtakjör bankanna einnig mismunandi.

Það getur því verið sniðugt að kynna sér málið vel og vandlega áður en maður velur sér banka og bankareikninga.