Nýr Steinway konsertflygill verður vígður í Hörpu í kvöld á útgáfutónleikum Víkings Heiðars Ólafssonar. Í tilefni 10 ára afmælis tónleikahússins gáfu Reykjavíkurborg og íslenska ríkið því nýjan konsertflygil að verðmæti um 25 milljóna króna.

Arfur menningarunnendanna Einars G. Eggertssonar og Knúts R. Einarssonar gerði Hörpu kleift að kaupa afbragðs Steinway konsertflygla fyrir tíu árum síðan, en þeir arfleiddu Hörpu að öllum sínum eignum.

„Það voru tveir konsertflyglar keyptir fyrir erfðafé frá Einari og Knúti. Annar þeirra hefur mjög fallegan tónblæ en hefur ekki þann kraft sem þarf til að vera fyrir framan sinfóníuhljómsveit," segir Sigurður Kristinsson píanóstillari Hörpu.

Sá eldri ekki jafn kraftmikill

Þegar heimsfrægir píanistar koma til að spila í Hörpu segist hann stilla báðum flyglunum upp í Silfurbergi en alltaf verði sami flygillinn fyrir valinu, þótt hinn sé mjög góður þá sé hann of daufur til að ná í gegnum sinfóníuhljómsveit. Hann henti hins vegar mjög vel sem meðleikshljóðfæri með fiðlu eða söngvara. Sá vinsælli sé aftur á móti ekki jafn kraftmikill nú og hann var fyrir 10 árum síðan, þegar Harpa opnaði. Það sé því mikið gleðiefni að Harpa hafi fengið nýjan konsertflygil að gjöf.

Sigurður segir að píanistar séu aldrei að spila sama tónverkið og geri því mismunandi kröfur. „Þeir eru að spila Rakhmanínov, Liszt, Schumann, Schubert, Chopin og alls konar. Þeir vilja hafa mismunandi tónblæ og sumir biðja um mismunandi áslátt. Ég þarf svo að breyta þessu öllu í einum og sama flyglinum, gera fólk mýkra í tónblæ eða harðara í tónblæ, breyta áslættinum o.s.frv."

Listamenn á heimsmælikvarða gera kröfur

Hann segir mikilvægt að við áttum okkur á því hvaða stöðu við erum komin í með Hörpu - það sé tónleikahús í sama gæðaflokki og til dæmis konserthúsið í Berlín og  Concertgebouw í Amsterdam. „Hingað fáum við listamenn á heimsmælikvarða sem gera ákveðnar kröfur. Á meðal þeirra er yfirleitt sú krafa að flygillinn sem þeir spila á sé ekki eldri en tíu ára. Það skýtur því skökku við að vera með tónleikahús í þessum gæðaflokki en geta ekki boðið hljóðfæraleikurunum upp á almennileg hljóðfæri."

„Með tímanum dofnar hljómbotninn í flyglunum en það er hann sem gefur hljóðið út í salinn - gefur hávaðann. Það eru ekki strengirnir eða það hvernig ég vinn hamrana - hvort ég geri tóninn mýkri eða harðari - sem gefur hljóðið út í salinn. Það er hljómbotninn sem gerir það." Sigurður segir hljómbotninn og timbrið í honum breytast fyrstu árin sem breyti því hvernig flyglarnir hljóma en þeir verði ekkert kraftmeiri - þeir verði kraftminni.

Sigurður vill þó árétta að flyglarnir sem keyptir voru fyrir rausnarlega gjöf Einars og Knúts verði ennþá notaðir í Hörpu. Hann tekur sérstaklega fram að flygillinn sem hefur verið notaður sem konsertflygill í Hörpu síðustu tíu ár sé enn fullgengur þó hann sé ekki jafn kraftmikill og hann var í upphafi og sé ekki að fara neitt - það sé mjög mikilvægt að geta boðið listamönnunum upp á valið.

Víkingur Heiðar Ólafsson er staðarlistamaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands en í gærkvöldi spilaði hann píanókonsert eftir tónskláldið og hljómsveitarstjórann Thomas Adès. Það voru fyrstu tónleikarnir í röð þrennra tónleika þar sem Víkingur Heiðar flytur verk undir stjórn tónskáldanna sjálfra en síðar í vetur mun hann flytja píanókonserta eftir John Adams og Daníel Bjarnason. Um helgina fagnar Víkingur síðan útgáfu fjórðu einleiksplötu sinnar hjá Deutsche Grammophon, Mozart & Contemporaries, með þremur tónleikum í Eldborg.

Viðskiptablaðið hafði samband við Víking Heiðar og spurði hann út í nýja flygilinn. Hann segir erfitt að lýsa með orðum hvað svona flygill er, þá sérstaklega svona úrvalseintök eins og sá sem verður vígður í Hörpu í kvöld. „Þessi flygill er bara eins og hugur manns. Það getur haft svo jákvæð áhrif á ímyndunaraflið þegar þú ert með svona grip til að spila á - það getur fært þér nýjar hugmyndir. Svona flyglar geta haft svipuð áhrif á mann og manneskjur. Ef þessi flygill væri manneskja þá væri hann ótrúlega skemmtilegur, lipur, flinkur, göfugur og brilljant."